föstudagur, desember 31, 2004

Ég heiti Þura og ég er Íslendingur. Í hádegisfréttum heyrði ég að framlag íslenska ríkisins til hjálparstarfs á hamfarasvæðum í Asíu væru 5 milljónir króna. Það er minna en ódýrasti ráðherrabíllinn kostar. Getum við verið sjálfum okkur meira til skammar? Núna er talað um að framlagið verði hækkað, í hvað 10 milljónir? Ég er ekki stolt af því að vera Íslendingur.

Mér finnst algjört lágmark að íslenska ríkið gefi 300 milljónir króna til hjálparstarfs, það er þúsundkall á kjaft.

Gefið endilega elsku ríkisstjórninni okkar gott fordæmi og gefið í söfnun Rauða krossins. Hægt er að hringja í 907 2020 og þá eru 1000 krónur teknar af næsta símreikningi eða leggja inn á reikning Rauða kross Íslands, númer 12 hjá Spron á Seltjarnarnesi (1151 26 12, kt. 530269 2649). Okkur munar ekki um þúsundkallinn en Rauða krossinn munar um minna.

Gamlársdagur, ætli það sé ekki viðeigandi að segja nokkur orð nú í jarðaför ársins 2004. Það var gott ár, held að ég hafi jafnvel fullorðnast eitthvað... mér dettur ekkert meira í hug.

Árið 2005 er að fara að fæðast, ég vorkenni því eiginlega pínu því ef ég þekki sjálfa mig rétt þá verður svipan á lofti til að ná ákveðnum markmiðum. Það eru spennandi tímar framundan...

Gleðilegt nýtt ár :)

mánudagur, desember 27, 2004

Eggin hennar Þuru

Það gerðist! Ég gjörsamlega toppaði sjálfa mig í slæmri eldamennsku. Er hægt að gera verr? Þau tvö skipti sem ég hef "soðið" kartöflur án vatns eru hátíð miðað við það sem ég gerði í gær. Ég ætla að lýsa atburðarásinni eins nákvæmlega og ég get.

Annar dagur jóla, hádegi, Þura ætlar að spæla sér tvö egg í hádegismat. Ég stend við pönnuna, eggina spælast, brauðið er komið í brauðristina, ekkert mál. Fljótlega fer ég að finna skrítna lykt af eggjunum. Það finnst mér skrítið því ég hafði borðað egg úr sama eggjabakka daginn áður og þau voru fín. Ég stend áfram við pönnuna og lyktin magnast, mér hættir að lítast á blikuna Ætli olían sé útrunnin? hugsa ég. Ákveð að ná í mömmu og fá hana til að lykta af eggjunum og meta hvort ég ætti að henda þeim. Mamma kemur inn í eldhús og hún samþykkir að það sé skrítin lykt af eggjunum mínum. Henni finnst þetta líka furðulegt því hún hafði borðað egg úr umræddum eggjabakka fyrr um daginn sem höfðu verið óvenju bragðgóð. Þetta er ekki lykt af úldnum eggjum, þetta er meira eins og grútarlykt! segir mamma. Síðan rennur upp fyrir henni ljós, hún réttir úr sér og horfir fast á mig.

Þura, spældirðu eggin uppúr lýsi?

laugardagur, desember 25, 2004

"Þegar kvöldið var búið vorum ég, Atli og Steini sammála um að þetta Þorláksmessukvöld hefði verið það harðasta sem við hefðum upplifað." Við skulum sjá hvers vegna.

*Það dimmir hratt, nístandi vindur næðir um göturnar, einmana kráka plokkar auga úr hrúti. Aðalpersónurnar Þura, Atli og Steini flýta sér áfram í leit að skjóli*

Steini: Við finnum aldrei stað, það vill enginn hleypa inn húsgángslýð eins og okkur. *Stoppar, réttir úr sér, segir meira við sjálfa sig en hina* Krakkar við munum verða úti í nótt!
Atli: Hvaða vitleysa maður. Á dimmustu stund sérhvers manns birtist vonarneisti. Leitaðu bara betur.
Þura: Ég er ekki að sjá ljósið. Atli hvar er ljósið? *öskrar/vælir* Sýndu mér það! *Eitt tár rennur niður vinstri vanga, segir lágt svo varla heyrist* Steini hefur rétt fyrir sér, við deyjum í kvöld.
*Berjast áfram á móti vindi, vindurinn breytist brátt í stórhríð*
Atli: Ekki gefast upp, þið getið þetta.
*Bankað á glugga innanfrá, það er Bob Dylan*
Bob Dylan: Come in *sagði hann* I'll give you shelter from the storm.
Þura: Nei Deep purple maður.
*Ferðalangarnir eru nú staddir inná krá sem hét the Loneriders, þar inni er gleðileg samkoma, húsráðandi stór maður í lopapeysu. Hann er ekki sáttur við aðkomufólkið, en selur þeim þó veigar með semningi, þau setjast við borð úti í horni*
Þura: Vá, ég hef aldrei heyrt í trúbador áður sem syngur verr heldur en ég *syngur hástöfum með*
Atli: Já, þeir geta tekið líf okkar, en það sem þeir geta aldrei tekið er frelsi okkar. *Þrjú Bubba lög eru spiluð í röð*
Steini: *öskrar yfir allt* HVERNIG VÆR´AÐ FÁ AÐ HEYRA EITTHVAÐ MEÐ BUBBA?
*Maðurinn í lopapeysunni hendir öllum þrem út*

Skjárinn verður svartur, kreditlistinn byrjar að rúlla ENDIR

miðvikudagur, desember 22, 2004

[partý]
Prófin kláruðust loksins í gær eins og áður hefur komið fram (takk fyrir hamingjuóskir :)). Við tók próflokadjamm. Ég byrjaði soldið snemma á fyrsta bjórnum, eða um sex leitið þegar mí end mæ krú pöntuðum okkur pizzu og skelltum í okkur hinum ýmsu áfengistegundum. Fórum síðan í verkfræðiparýtið í löggusalnum. Þegar við vorum nýlega komin var hringt í mig úr leyninúmeri, það voru læti alls staðar í kringum mig svo ég heyrði ekkert voðalega vel í hringjandanum en hann var strákur og hanns spurði hvort það væri stuð, ég sagði "já brjálað, en hver er þetta?" og síðan sögðum við eitthvað meira, en ég náði aldrei hver þetta var. Kannski sagði hann það ekki, kannski heyrði ég það ekki, ég veit ekki. Þú strákur sem hringdir í mig, viltu gjöra svo vel að segja mér hver þú ert!

Síðan var bara stuð, ég tók létta danssveiflu með stráknum sem ég veit núna hvað heitir. Held ég hafi sýnt verstu dansframmistöðu lífs míns verandi mjög drukkin að dansa jive við partýtónlist. Það var endalaust mikið af fólki í þessu partýi og meira gaman.

Þegar löggusalurinn lokaði forum við í partý á Laugarveginum, hlupum alla leiðina í snjófoki og kulda og ég á hælum. Þegar áfangastaðnum var náð var ég alveg búin á því, gellulúkkið sem var ráðandi fyrripart kvölds fauk út í buskann með einhverri vindkviðunni og eftir stóð ég lítandi út eins og ódýr hóra, ódýr hölt hóra meira að segja. Fór heim og svaf til 2.

[jólakötturinn]
Þar sem ég ætla Á jólaköttinn þá get ég ekki líka farið Í jólaköttinn (I kill myself). Væri heví til í að kaupa bol eða eitthvað. Til útskýringar er jólakötturinn sem ég ætla á, mega geðveiku ljósashowatónleikarnir sem Ingi er að halda í kvöld og jólakötturinn sem ég ætla ekki í þessi venjulegi svarti sem grýla á.

[jól]
Ég er búin að redda öllum jólagjöfunum. Það tók mig bara korter með því að taka ákvörðunina og framkvæma hana. Ég reiknaði út hvað ég myndi eyða miklu í gjafir og millifærði þá upphæð inn á SOS barnaþorpin og ég held í alvöru að þetta sé besta jólagjöf sem ég hef nokkru sinni gefið :) Hér með hvet ég alla sem þetta lesa að styrkja barnahjálpina, það þarf ekkert að vera mikið t.d. 1000 krónur, peningarnir sem safnast nýtast í alvöru við að bjarga mannslífum. Söfnunarreikningurinn er 0322 – 18 –942006 og kennitalan er 500289-2529. Gleðileg jól :)

þriðjudagur, desember 21, 2004

Þá er ég búin í prófum. Dagurinn sem ég er búin að vera að bíða eftir síðustu 8 vikurnar er kominn. Það er dagurinn í dag. Dagurinn í dag er í dag. Í dag er dagurinn í dag.

Próf búin gott, já.

mánudagur, desember 20, 2004

Niels Bohr er ekki vinur minn.

laugardagur, desember 18, 2004

[Próf]
Þessi pæling á ekki mjög vel við núna eftir prófið sem ég var í í dag, en eftir síðasta próf var ég mikið að spá í þessu:

Ef ég líki önninni við fótboltaleik. Ég leik allar stöður, ég ER liðið, þjálfarinn, nuddarinn, footballer´s wives, waterboy og allt. Ég er liðið, liðið er ég. Leikurinn er úrslitaleikur á HM. Liðið mitt, sem enginn bjóst við að kæmist nema í 16 liða úrslitin, er að leika fantavel á móti sterku liði. Eftir venjulegan leiktíma og framlengingu er vítaspyrnukeppni. Ég stend í marki, ef ég ver skotið þá vinn ég, ef ég kasta mér í vitlausa átt, þá tapa ég.

Núna kemur punkturinn:
Markmaðurinn (ég) verður að ákveða í hvora áttina hann ætlar að kasta sér áður en hann sér í hvora áttina boltinn fer, annars er hann ekki nógu snöggur. Ef hann velur rétta átt þá ver hann, en ef hann velur vitlausa þá tapar liðið. Og þá verður sænski þjálfarinn að segja af sér og fara að þjálfa 3. deildar lið í Smálöndunum. Þegar markmaðurinn kastar sér í aðra hvora áttina, það móment vil ég meina að sé eins og að læra fyrir próf. Maður tekur ákveðinn pól í hæðina meðvitað eða ómeðvitað. Þegar maður mætir í prófið, flettir í gegnum það og hugsar "æi hann lagði akkurat áherslu á hitt!" er það eins og þegar markmaðurinn fattar að boltinn er að fara í hina áttina. Leikurinn er tapaður, sama hvað maður átti mikið skilið að vinna og það er ekkert sem maður getur gert í því.

Hvað gerist þá? Nú þá ræður maður nýjan þjálfara og mætir með betra lið á næsta mót ;)

þriðjudagur, desember 14, 2004

Það var gert djók í mér um daginn. Einhver fyndinn sendi mér sms af OgVodafone.is: "Hringdu ef thu vilt upplifa skemmtilegt augnablik.." og síðan kom gsm númer sem ég kannaðist ekki við. Klukkan var 11 um kvöld og ég búin að liggja yfir skólabókum í fleiri tíma. Ég var einmitt í skapi fyrir smá flipp og hringdi í númerið, það gæti allavega ekki verið leiðinlegt.

Strákur svaraði: Halló!
Ég: Hver er þetta?
Strákur: Ha?
Þarna var ég búin að ákveða að segja Er Kristján við? en beilaði á því og sagði í staðin aftur: Hver er þetta?
Strákur: Ég heiti Halldór
Ég: Afsakið vitlaust númer og skellti á.

Eftir á fattaði ég: Praktikal djókið virkaði bæði á mig og fyrir mig. Þetta VAR skemmtilegt móment :)

Ef að það varst þú (*vísifingri bent á ÞIG*) sem gerðir at í mér, þú ert fyndinn gaur/gella!

mánudagur, desember 13, 2004

Stundaði eina að höfuðsyndunum 7 af áfergju í allan gærdag... nei ekki hór.

Syndina þar sem maður borðar ógeðslega mikið. Ég át og lærði, lærði og át. Ég var ekki svöng og ég var ekki í lærustuði.

Núna er ég södd og lærð.

sunnudagur, desember 05, 2004

Ég heyrði um daginn formúluna að kvikmynd. Hún segir m.a. að á ákveðnum stað deyi aðalsöguhetjan, en rísi síðan upp frá dauðum og sigri í lokabardaganum. (rosalega er ég léleg í viðtenginarhætti)

Kvikmyndin er "haustönn 2004", aðalsöguhetjan er ég! Ég dó á miðnætti í gær og reis aftur upp frá dauðum um fjögurleitið í dag. Ég dó ekki áfengisdauða, ég dó dauða þeirrar manneskju sem hefur lært stærðfræðigreiningu í hálfan sólahring samfleytt svo að heilinn er orðinn að kvaðratrótinni af i. Ég var kviðrist af mínum versta óvini.

Lokabardaginn eru prófin sem eru framundan.

Þetta er mjög spennandi atriði í myndinni minni því núna er afar tvísýnt um hvort ég sigri í bardaganum. Eitt er áhorfendum orðið kristaltært, bardaginn verður langur og blóðugur...

(Ég held að ég kalli myndina mína Mortal Kombat... nei damn það er búið að nota það)

fimmtudagur, desember 02, 2004

Þvílík eyðsla á tveimur klukkutímum, að missa sig yfir einu dæmi. En svona er það.

Ég gerði fyndið um daginn. Ég heyrði þegar ég var yngri þá ráðleggingu að ef maður færi í krossapróf og merkti alltaf við C þá fengi maður C á prófinu. Mig hefur æ síðan langað til að prófa þetta en alltaf verið of skynsöm, þangað til um daginn... Ég mætti í próf, fékk prófblaðið í hendurnar, renndi augunum yfir spurningarnar, hugsaði svo "Æi fokk it!", merkti alls staðar við C, og gekk út.

And I live to tell about it!

Eini vankanturinn er að ég held að ráðleggingin hafi miðast við fjóra svarmöguleika, í mínu prófi voru fimm... Skekkir vissulega niðurstöður tilraunarinnar.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

[Alltof langa bloggið]
Þetta fær maður fyrir að gefa sér ekki tíma til að blogga: núna þarf ég að tjá mig um svona hundrað billjón hluti og verð örugglega ýkt lengi að skrifa. Ég bara get ekki setið á strák mínum...

[Beach Boys]
Sunnudagskvöldið 21. nóvember fór ég á Beach Boys í Höllinni með minni ágætu móður, en Strandagæjarnir eru uppáhaldshljómsveit hennar, í meira uppáhaldi en Rolling Stones og þá er mikið sagt. Ég var búin að ákveða að vera í stuði hvort sem mér þætti gaman eða ekki, fyrir mömmu. Við byrjuðum á Beck´s í gleri heima í eldhúsi fyrir tónleikana.

Ég ákvað að koma mér í gírinn og skellti Beach Boys í græjurnar, síðan stóð ég með beck´s í gleri í annarri, pott í hinni að syngja með Beach Boys inní eldhúsi á sunnudagskvöldi. Þá kom áfallið: Ég er orðin mamma mín!!!! Eftir þetta áfall ákvað ég að auka hraða drykkjunnar og skellti bjórnum í mig. Síðan fór ég inní stofu með tóma flöskuna og sagði við mömmu "minn er gallaður!", mamma svaraði um hæl "minn líka! Ég held að botninn hafi lekið!" Hér með lýsi ég yfir að mamma mín er fyrsta manneskjan sem fattar bjórinn-er-gallaður-brandarann minn í fyrsta, hún rúlar. Mamma vildi ekki annan bjór en ég drakk hálfan í viðbót í hvelli, síðan fórum við á tónleika.

Hljómar hituðu upp. Ég fíla Hljóma ekki. Þeir tóku slatta af nýjum lögum sem báru nöfn eins og Rokkhundar, Geggjuð ást og Þar sem hamarinn rís. Gunni Þórðar (heitir hann það ekki annars?) útskýrði að Hamarinn væri fjall við Hveragerði, það lagðist eitthvað of vel í fólk, þá sagði hann "Er einhver frá Hveragerði hérna?!?!?!?" eins og Hveragerði væri algjört rokk. Ég hélt ég ætlaði ekki að verða eldri og gjörsamlega dó úr hlátri. Það eina sem hefði getað verið verra er ef hann hefði spurt hvort einhver væri frá Selfossi. Hljómar voru klappaðir upp, ó mæ god hvað ég skammaðist mín.

Eftir langa setu Beach Boys sjálfir á stokk, þ.e. Mike Love sem er frændi Wilson bræðra og einn annar gamall kall og fullt af yngri hljóðfæraleikurum. Þeir voru allir í litríkum hawaii skyrtum og sviðið var skreytt með brimbrettum og stórum grænum pottaplöntum. Þeir byrjuðu á 11 laga hraðri syrpu, síðan komu rólegu lögin og Mike Love talaði heilmikið inná milli. Hann var bara helvíti skemmtilegur.Hann kom með línur eins og "Do you think Justin Timberleim or Nstink could do this?" Síðan byrjuðu þeir að syngja eitthvað lag. Þetta lagðist vel í krádið, enda var meðalaldur vel yfir mínum. Síðasta hálftímann var allur salurinn látinn standa upp og ég og mamma fíluðum okkur í tætlur, og ótrúlegt en satt, það VAR brjálað stuð. Kannski hjálpuðu nokkru bjórarnir sem ég drakk eitthvað uppá stuðið mitt. Uppklöppunarlagið var Back in the USSR, það fílaði Þura í tætlur :)

[vísó]
Ég var aldrei búin að segja að ég væri hætt að drekka fyrir próf. Ég stóð líka við þá ekki-fullyrðingu mína. Á föstudaginn var 150 manna vísindaferð í Eimskip fyrir allar verkfræðiskorarnar. Það var dælt í okkur bjór og víni og fínt hlaðborð, aðeins ein stutt kynning á fyrirtækinu og síðan bara drukkið. Á eftir var haldið á Pravda að venju, ég er komin með alveg uppí kok af þeim stað, en ég meikaði það af því að þeir voru að gefa bjór. Ótrúlegt hvað er auðvelt að verða drukkinn þegar áfengi er frítt, áður en ég vissi af var ég í góðum gír, þeim fjórða held ég bara.

Seinna um kvöldið fórum við nokkur saman á pöbbarölt, Hressó, Prikið og Ellefuna. Mér fannst ég bara vera létt, en þegar á 11 var komið fattaði ég að ég var on the rassgat. Þá bað ég Atla og Svenna að koma að sækja mig, sem þeir gerðu, þeir eru svo sætir.

Við fórum á Kofann, þar hitti ég tvær stelpur sem ég þekkti sem voru nýbúnar að uppgötva Kofann og fannst hann æðislegasti staður í heimi, þá fannst mér gaman líka :) Eins og ég man eftir því þá var ég ýkt böggandi við Inga og Bigga, alltaf að hoppa ofaná Inga þar sem hann sat í sófanum, ég vona að þeir hafi ekki verið of pirraðir :/ Síðan kom Björk og sagði að það væri alltí lagi að ég væri full, hún hefði nebblega verið full um seinustu helgi.

Á heildina litið: gott fyllerí.

[digital ísland]
Ógeðslega er digital ísland auglýsingin góð.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Er einhver frá Hveragerði hérna?!?

föstudagur, nóvember 19, 2004

Atvinna í boði:

Ert þú efni í aðstoðarökumann?? Vegna snjókomu og meðfylgjandi hálku vantar mig manneskju til að sitja aftur í bílnum mínum til að þyngja hann.

Starfslýsing: Að sitja afturí í bílnum mínum þegar ég keyri á milli staða og hugsanlega tilfallandi að-ýta-bílnum-verkefni.

Vinnutími: Alltaf þegar ég keyri þ.e. breytilegur vinnutími.

Hæfniskröfur: Viðkomandi verður að hafa yfir meðallagi eigin þyngd, vanur ýtimaður, vera snyrtilegur og vellyktandi. Bringuhár skilyrði.

Laun: Samningsatriði

Skriflegar umsóknir með mynd skulu berast ásamt meðmælum frá fyrri vinnuveitanda á netfangið thurihe@hi.is fyrir kl. 16 miðvikudaginn 24. nóvember 2004. Farið verður með umsóknir sem trúnaðarmál og öllum umsóknum svarað.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Súkkulaðibrúnt hörund hans glansaði í daufri birtu eldhúsljóssins, fullkomið sköpunarlag hans hefur ekki sést í 7 heimsálfunum síðan fyrir stríð, sæt angan hans gleymist seint... hann var fullkominn.

Hann var fullkomnasta BettyCrocker (R) devil's cake sem nokkurntíman hefur verið bökuð!
Í síðustu viku beit ég það í mig að nú væri kominn tími til að ég bakaði mína fyrstu köku, það var hætt að vera gaman að vera eina 21. árs stelpan í heimi sem aldrei hefur bakað köku. Á fimmtudagurinn rann síðan upp bjartur og fagur vitandi að hann hafði orðið fyrir valinu sem "dagurinn sem Þura bakar". Ég fór í Bónus og keypti nauðsynlegt hráefni og um kvöldið hófst ég handa. Allt gekk stór-áfallalaust fyrir sig, ég náði tvisvar að bjarga fyrir horn þegar vandamál komu upp (svona borgar sig að vera í verkfræði, maður lærir að leysa hin ýmsu vandamál). Þegar kakan var komin úr ofninum leið mér eins og þar væri fætt barnið mitt. Kakan var skírð* Köchy (borið fram Köki) vegna þess að meðan hún var að kólna gat ég fátt annað gert en segja "Ég bakti köki" og brosa út að eyrum. Síðan fór í heimsókn til Svanhvítar og hún var búin að baka tvær sortir. En það er allt í lagi, maður ber sig ekkert saman við Svanhvíti í svona málum, þá gæti ég alveg eins keppt við Tiger Woods í golfi og verið fúl yfir að tapa.

Þegar ég var búin að borða allar sortirnar hennar Svanhvítar fór ég heim að smyrja Köka minn, þ.e. setja BettyCrocker (R) premium icing krem á kökuna. Ég komst að því að mér finnst ógeðslega gaman að setja krem á kökur, mig hafði reyndar alltaf grunað það en þarna fékk ég staðfestingu og setti fullkomið lag af kremi á Köka. Þegar það var komið var frasinn sem ég tönglaðist á "mamma hefurðu séð fullkomnari köku?", mamma sagði bara "jájá Þura mín, hún er ágæt."

Enn vantaði eitthvað, Köki var sko engin plane jane kaka, hann þurfti skraut. Mamma fann svona kökuskraut inní skáp og ég teiknaði með því skjaldarmerki háskólans á kökuna mína. Nú gat Köki ekki orðið fullkomnari.

Næsta dag fór ég með Köka í dæmatímann minn í aflfræði (þar sem eru aðeins 7 manns) ásamt mjólk og rjóma og bauð öllum uppá köku (þorði samt ekki að segja þeim að ég hefði skírt kökuna). Það voru allir svo hissa og ánægðir, svo hissa og ánægðir allir voru. Ég varð sjálf hissa á viðtökunum sem Köki fékk og allir þökkuðu oft og mörgum sinnum fyrir sig og hrósuðu Köka, og allir voru svo glaðir. Það er svo gaman að gleðja fólk. Þegar tíminn var búinn var Köki líka næstum búinn. Síðan batt ég enda á þjáningar hans.

Þetta var sönn saga. ENDIR


*Ekki á formlegan hátt eins og kanínan forðum daga.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Hver er hann? Það verður opinberað von bráðar...

föstudagur, nóvember 12, 2004

Hann hét Köchy...

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Um daginn var hringt í mig frá Gallup, ég held að Gallup sé skotið í mér því þeir hringja í mig reglulega, á 3 til 4 mánaða fresti. Kannski finnst þeim mitt álit á hlutum svona mikilvægt, ég veit það ekki. Þetta síðasta símtal frá þeim var samt einum of.

Klukkan 19.01 (ég man tímasetninguna nákvæmlega því ég var rétt byrjuð að horfa á fréttir) hringdi Gallup konan. Hún byrjaði á nokkrum spurningum um hvort ég hefði séð ákveðnar auglýsingar og hvaða áhrif ef einhver þær hefðu haft á mig. Síðan spurði hún hvaða tegundir af hreinum ávaxtasafa ég þekkti og hvort ég hefði séð þæt auglýstar undanfarið, sama um gosdrykki. Hversu líklegt væri að ég mundi kaupa kók á næstu 7 dagana. Hún spurði hvort ég vissi hvað gróðurhúsaáhrif og sjálfbær þróun væru, hvaða skoðun ég hefði á orkuframleiðslu til annara nota en almennings ("ertu að meina stóriðju?" spurði ég en þá sagði hún að ég þyrfti að túlka spurninguna sjálf). Hún spurði hvaða kreditkort ég væri með og hvernig kreditkort ég mundi fá mér ef ætlaði að fá mér í dag, hvernig masterkard ferðaávísun höfðaði til mín. Hvort ég væri með eða á móti ríkisstjórninni, hvað ég hefði kosið síðast og hvað ég myndi kjósa núna.

Hvernig nærbuxum ég væri í, hvað ég hefði borðað í morgunmat og hve marga bólfélaga ég ætti! Þetta síðasta er pínu ýkt, en mér fannst verið að spurja frekar persónulegra spurninga. Ég heyrði hana líka pikka öll svörin mín inn í tölvuna. Hvað verður um þessa upplýsingar þegar búið er að nota þær? Er í kerfinu til skrá sem heitir Þuríður Helgadóttir með öllum upplýsingum um mig? Þá er ég ekki bara að meina kennitölu og heimilisfangi, heldur verslunarvenjum, stjórnmálaskoðunum, lista yfir hvernig auglýsingar virka á mig, skónúmeri, nöfnum óvina minna o.s.frv.

Ég er kannski komin heldur mikið í Brave new world, 1984, Lovestar fílinginn. Er stóri bróðir að fylgjast með? Eru þeir með fingraförin mín? Er lithimnuskanni í skjánum á tölvunni sem ég er í núna? Lesa þeir bloggið mitt? Þarf ég núna að passa mig á dimmum húsasundum og passa að vera ekki ein úti eftir myrkur? Bíður mín leyniskytta þegar ég labba út í bíl?

En er í raun svo skrítið að ég skuli pæla; í þjóðfélagi þar sem tveir nýjustu hæstaréttardómararninr eru fyrir algjöra tilviljun frændi og vinur fyrrverandi forsætisráðherra, núverandi forsætisráðherra segir skyndilega lög á kennaradeilu möguleg eftir fund með Davíð og ríkissáttasemjara eftir að hafa þvertekið fyrir lagasetningu í fleiri vikur, borgarstjóri segir af sér því hann vann hjá óþekku fyrirtæki meðan forstjórarnir fyrirtækjanna sleppa alveg?

Ég bara spyr!

mánudagur, nóvember 01, 2004

Ég sá stelpu drekka jóla-kókómjólk í dag. Það fyrsta sem ég hugsaði var, hvað er hún að pæla kókómjólkin hlýtur að vera löngu útrunnin. Þá fattaði ég að þetta var næstu-jóla-jóla-kókómjólk. Agalegt ástand.

laugardagur, október 30, 2004

Allt að gerast, ekkert að gerast. Ég er ekki alveg viss. Best ég fari bara heim og horfi á Pride and prejudice.

Þegar svo er komið að það er ekkert óeðlilegt við það að stelpur á manns eigin aldri (þ.e. mínum) eignist börn þá fæ ég örlítið á tilfinninguna að ég sé aðeins eldri en 17. Soffía sem var með mér í grunn-og framhaldsskóla eignaðist stelpu í gærkvöldi.

Var einmitt að ræða þessi mál um daginn. Útskýrði fyrir viðmælendum að Kristín Vala hefði endalaust verið að messa yfir mér (og fleiri stúlkum á lausu) að ég yrði að fara að ná mér í strák því þeir bestu færu fyrst. Það var þegar ég var 17 og 18. Ég trúði henni ekki þá. Núna ef ég spái í því, hafði hún rétt fyrir sér? Hafa öll góðu skipin löngu siglt í burtu? Og einu skipin sem eru eftir eru ryðdallar og skip sem hafa snúið til baka 6 árum seinna með barn aðra hverja helgi og enga löngun til að sigla aftur?

A plan is forming *hendur mynda leðurblökuvængi upp við ljóskastara og vælt eins og leðurblaka* ;)

mánudagur, október 25, 2004

Vá hvað ég er mikill lúði! Ég kann ekki lengur á excel. Ef einhver kann að gera fall og láta exel teikna graf fallsins þá má sá hinn sami alveg deila því með mér.

Vá hvað ég er mikill lúði (2). Alla síðustu viku langaði mig ýkt mikið á Sahara hotnights á Airwaives. Vildi samt ekki borga tvöþúsundkall og ákvað að gera dæmi í staðin. Svo þegar ég fékk tækifæri til að komast ókeypis inn þá beilaði ég á því. Hve lúðalegt er það?

Vá hvað ég er mikill lúði (3)!!!! Bara svona almennt.

sunnudagur, október 24, 2004

7 vikur í próf!

sunnudagur, október 17, 2004

Tími til að blogga.

Föstudagskvöld var kvöld fjölbreytileikans, eina stundina sat ég á Mímisbar að læra reglurnar í tennis og þá næstu að hækka meðalaldur á tónleikum Dáðadrengja, svo ekki sé minnst á bingó og bíó.

Verð samt að segja frá leiðinlegasta fyrirlestri í vísindaferð sem ég hef setið undir. Vorum í véladeild Heklu og einn af aðal-gaurunum (man alls ekki hvað hann heitir) hélt fyrirlestur áður en boðið var uppá bjór nb. Hann byrjaði á því að fara nákvæmlega yfir sögu fyrirtækisins, útlistaði hvaða ár þeir hefðu fengið umboð fyrir hin og þessi tæki. Síðan komu myndir frá opnun nýju byggingarinnar sem við vorum stödd í í Klettagörðum, hann sagði næstum því hvaða veitingar hafði verið á boðstólnum þá. Hápunkturinn kom svo þegar trjálínurit með myndum af starfsfólki deildarinnar birtist, þá sagði maðurinn frá því hvað hver og einn hét fullu nafni og hvað hann gerði nákvæmlega innan fyrirtækisins, t.d. svona "Sigurður Kristjánsson er sölumaður í varahlutum fyrir stóru vélarnar, hann er hörkuduglegur. Salan hefur aukist síðan hann Siggi byrjaði..." Svona rétt í lokin taldi hann upp hve margar vélar frá Heklu hvaða fyrirtæki ætti "KB banki á eina, Sjóvá Almennar fimm..." Það var mjög erfitt að fylgjast með.

Í gær fór ég í klippingu :) loksins! Og af því tilefni var laugardagskvöldið módelkvöld, þ.e. ég málaði mig eins og ég væri þátttakandi í America´s next top model og var í módel-fíling allt kvöldið. Svona bilast maður í hausnum við nýja klippingu. Hitti Svanhvíti á Stúdentakjallaranum og fleiri skemmtilega :)

fimmtudagur, október 14, 2004

Einhverra hluta vegna fékk ég að leika með myndavélina hans Birkis í haustferðinni (ath myndavél er ekki dulmál fyrir eitthvað dónalegt) og ég tók stóran hluta af þessum myndum á ágætis flippi. Erum ég og Erna ekki sætar?

miðvikudagur, október 13, 2004

[Stundum geta bara Bítlarnir hjálpað!]

Litli maðurinn með loftpressuna
Ég er búin að vera lasin undanfarna daga, heima með hósta og skjálfandi úr kulda. Það er fínt að því leyti að ég má horfa á Simpsons um miðjan dag :), að öllu öðru leyti ömurlegt. Í gær dröslaðist ég aðeins í skólann því ég þurfti að skila greiningunni, eftir erfiða fæðingu lélegustu heimadæma sem sögur fara af var ég komin með hellu. Þegar ég kom heim var maður að brjóta niður vegg í garðinum með loftpressu, týpískt, ég og hellunni minni fannst það ekkert skemmtilegt en lögðumst samt upp í sófa með hungangsvatn og Simpsons. Hávaðinn var þolanlegur alveg þangað til maðurinn fór að brjóta vegg sem er fastur við húsið og titringurinn sem loftpressan framkvæmdi ferðaðist um alla veggi hússins. Ég veit það því að ég labbaði um allt húsið í leit að minnst-víbrandi staðnum, fann hann ekki. Og þetta var pirr dagsins.

sunnudagur, október 10, 2004

Þessi mynd lýsir mjög vel mínu ástandi í haustferð vélarinnar. Of mikið frítt áfengi á boðstólnum gerir það að verkum að ég drekk of mikið áfengi. Ferðin var ýkt fín upp að þeim punkti þar sem ég fór frá því að vera full yfir í að vera sótmökkuð (= á rassgatinu). Fín lína sem ekki er sniðugt að fara yfir.

Lögðum af stað frá skólanum uppúr 1, þriðja árið í einni rútu og fyrsta og annað í annari. Byrjuðum í áfengislausri heimsókn í Íslenskri erfðagreiningu, það var voða fínt, hafði aldrei komið þangað áður og núna þarf ég aldrei að fara aftur. Fengum síðan einn tvo bjóra á meðan brunað var í sund í hveragerði. Það gekk ágætlega að komast fyrir í búningsklefanum þrátt fyrir að þar væru aðeins 5 sturtur og stelpurnar væru ca. 45. Strákarnir ætluðu að missa sig í einhverskonar boltaleik.

Fórum síðan á kynningu í Alpan, sem er fyrirtæki á Eyrarbakka sem framleiðir pönnur. Það var frekar gaman. Borðuðum í íþróttahúsi/félagsheimili á Eyrarbakka og þeir sem voru ekki komnir á skallann nú þegar drukku frá sér allt vit. Einhver sagði mér að koma með í Rauða húsið, sem var húsið við hliðiná og inní því var bar, þar gaf einhver mér fullnægingu. Man ekki hver. Birkir var líka ekkert nískur á sopa af kafteininum sem hann átti í kóki. Þetta hljómar ekkert voðalega vel en ég er viss um að þarna var ég ekki búin að gera neina skandala. Rútan lagði af stað í bæinn einhverntíman eftir 10 held ég, síðan kemur eyða. Ég var allavega komin heim, rúllandi, klukkan hálf 2.

Á laugardagskvöldið var fjölskyldumatarboð heima, eins og venja er í fjölskyldunni var til alltof mikill matur, hámi hám. Um kvöldið ákváðum ég og Ragna frænka að fara í bíó á Í punginn á þér og taka þá krakka sem voru búnir að fermast með. Það var svaka stuð, Ragna sagði við miðasölustelpuna þegar hún keypti miða Ég ætla að fá tvo miða á í punginn á mér, NEI ÞÉR, þú veist hvað ég á við! Síðan hló hún 10 sinnum hærra en allir hinir í salnum (lítill salur samt) til samans. Ég sat við hliðiná þessum mikla hlátri og fílaði þess vegna myndina ýkt vel, ben stiller er líka æði. Endirinn (er ekki að kjafta frá) var samt í punginn á mér!

Er búin að vera ýkt dugleg að læra í dag :)

föstudagur, október 08, 2004

Markmiðið (með stóru M-i) náðist!!!! Ég var búin með öll skiladæmi fyrir klukkan 6 í gær, þvílík hamingja. Ég þurfti ekki að beila á kaffihúsi með Elínu og var ýkt hamingjusöm. Sátum á prikinu í einhverja þrjá tíma og kjöftuðum af okkur rassgatið, ég án samviskubits. :)

Núna, heim að lúlla í klukkutíma (af því að ég kom svo seint heim af kaffihúsi) til að ég verði hress í haustferðinni á eftir. Það er svo endalaust gott plan að fara á fyllerí milli 1 um dag og 10 um kvöld. Kannski get ég þá bara verið komin heim fyrir miðnætti í kvöld og lært eins og motherfucker á morgun.

miðvikudagur, október 06, 2004

Get ekki setið á strák mínum, verð að segja litla sögu. Þetta er einu sinni ekki saga, eiginlega bara brot úr sögu. Ragna frænka er í íþróttakennaraskólanum á laugum. Þar fær fólkið sem mun sjá um leikfimikennslu minna barna og þinna (nb) menntun. Ég var að spjalla við frænku,sem sjálf drekkur ekki, á msn núna rétt áðan og hún var að lýsa félagslífinu í skólanum. Það er djammað um hverja helgi og 1 til 2 virk kvöld í viku, og apparently drukkið stíft. Hérna er lýsing Rögnu á því sem hún kallar "karlakvöld" þar sem allt liðið var gjörslamlega útúr drukkið:

og eitt skipti ... þá var karla kvöld ....og fólkið var svo WASTED ... að ég átti ekki til orð .....

fólk var vaknandi hér og þar um laugarvatn ... í einum skó ... eða engum nærjum .. brjóstahaldaralaust ... í fötum af öðrum ... sem það vissi ekkert hver átti .,,,, svo voru 2 gaurar sem fóru bara inní vitlaus hús .. hjá bláókunnugu fólki og ældu og dóu á stofugólfinu hjá því ...!!!

svo þurfti gaurinn sem var að leysa skólastjórann af að koma og skamma alla daginn eftir !!!!

Ég ætlaði að missa mig þegar ég las þetta, sérstaklega partinn um nærbuxnalausafólkið. Varð að deila þessu með ykkur (með leyfi frá frænku að sjálfsögðu) :)

þriðjudagur, október 05, 2004

Mér finnst alveg magnað hvaða áhrif kennaraverkfallið er að hafa á mig. Mamma mín er kennari og þar með ekki útivinnandi þessa stundina. Ég gerði (sjálfselskan í mér) ráð fyrir að verkfallið mundi fyrst og fremst hafa áhrif á mig með hreinni fötum, dásamlegri eldamennsku og smurðu nesti á morgnanna. Sú er ekki raunin, mamma skellti sér í líkamsrækt og er bara keepin' busy, sem er gott mál. Hún er alveg frábær og ég get alveg smurt mitt eigið nesti. Það eina sem böggar mig heima vegna verkfallsins að ég get eiginlega ekki komið heim snemma á daginn og lagt mig, þá kemur "átt þú ekki að vera að læra" ræðan.

Í verkfallinu hefur meðalaldur í byggingum háskólans pottþétt lækkað, ég er alltaf að sjá litla krakka út um allt. Ég vorkenni voða mikið litlu stelpunum sem verða að hafa hljóð á bókhlöðunni af því að pabbi er að lesa kynjafræðibókina sína. Rosalega er ég fegin að vera á lausu og barnlaus.

mánudagur, október 04, 2004

Eitthvað ennþá meira að gerast:

Hvað er ömurlegra en að sitja á þjóðarbókhlöðunni og blogga þegar maður á að vera að læra fyrir próf? Humm mér detta alveg nokkur atriði í hug en ég ætla að ímynda mér for the moment að ég sé sokkin á botn ömurlegheitanna.

Aðeins til að klára Britney/rafmagnsfræði senuna, þá er gaman frá því að segja að örtölvu og mælitæknikennarinn svaraði mjög svo kurteisa Emailinu mínu á mjög svo kurteisan hátt. En hvatti mig einnig til að segja honum skoðun mína á Britney/transistora mixinu sem má einmitt sjá á síðunni http://www.britneyspears.ac/lasers.htm sem er mjög góð fræðileg síða.

Ég svaraði og þá var kennarinn orðinn pirraður, ég hafði greinilega misskilið eitthvað hans fyrra svar. Tilgangurinn með glærunni af Britney Spears á brókinni uppi í rúmi var aðeins að benda á fyrrnefnda síðu. Síðan sagði hann að hann hefði alveg eins getað sleppt því að birta myndina og vísað bara beint á síðuna. Hann svaraði hins vegar aldrei þeirri spurningu minni hvaðan Britney/Madonnu kossamyndin kæmi, ég fann hana allavega ekki á umræddri heimasíðu.

Í næsta örtölvu og mælitækni tíma sýndi kallinn aftur glærurnar sem ég hafði spurt hann út í og var þá búin að fjarlægja allar myndir af fáklæddu kvenfólki. Vann ég þá? Ég var ekkert að biðja hann um að fjarlægja myndirnar, heldur bara að benda honum á að þetta hafi verið karlrembulegt. Anyway, mission failed.

Á föstudaginn var það októberfest á eftir vísó að sjálfsögðu. Og kvöldið var alveg æðislegt :)

Á laugardaginn var afmælispartý hjá steina, það var gaman þangað til það leystist up í fullir-strákar-að-spila-háværa-tónlist-partý. ;)

miðvikudagur, september 29, 2004

Eitthvað að gerast:

Aldrei aftur skal ég mæta of seint í tíma! Í morgun var ég korteri of sein í Örtölvu og mælitækni fyrirlestur í sal 4 í háskólabíói vegna þess að ég var aðeins að tjilla í morgunmatnum og síðan fann ég ekkert stæði. Ég labbaði inn í miðjan tíma og settist við hliðiná Dagnýju og Gunna. Dagný hvíslaði að mér að ef ég hefði labbað inn 5 mínútum fyrr hefði ég orðið ýkt hneyksluð á karlrembunni í kennaranum. Hún sagði að hann hefði sýnt glæru (hann var með powerpoint show) með mynd að Britney Spears og Madonnu að kyssast. Ég ætlaði ekki að trúa þessu og var bara nei what the fuck það getur ekki staðist ég trúi þessu ekki. En Dagný var ekkert að grínast, hún sagði að það hefði líka verið glæra af Britney Spears á nærfötunum liggjandi uppi í rúmi með svona "talblöðru" að segja stærðfræðiformúlu, undir myndinni stóð texti um að stúlkan væri nú ekki klár í svona rafmagnsdóti. Ég man ekki nákvæmlega hvað stóð og ég get ekki séð það á netinu því aðgangur að síðu námskeiðsins liggur niðri. Síðasta "myndaglæran" var gömul hópmynd af gömlum vísindamönnum og Britney hafði verið klippt inná, útskýringin var sú að ekki væri alltaf hægt að trúa nútíma ljósmyndum.

Ég gat ekki trúað Dagnýju þegar hún var að segja mér frá þessu, en þegar ég kíkti á glærurnar eftir tímann þá sá ég myndirnar með eigin augum, reyndar ekki kossamyndina, var mér brugðið. Þar sem ég var ekki í tímanum þegar þetta gerðist þá get ég ekki sagt til um hvert samhengið var við þau rafmagnsfræði sem við erum að læra, en mér skilst líka að enginn annar hafi náð punktinum sem var viðstaddur. Þetta var aðeins upptalning á staðreyndum, persónuleg skoðun mín er að maðurinn sé karlremba og því hef ég lýst yfir oft áður. Núna er ég bara hissa.

Núna áðan sendi ég viðkomandi kennara Email, mér fannst það vera skylda mín, innihald þess verður ekki rætt frekar.
ER... verð að horfa

laugardagur, september 25, 2004

Dauði og djöfull, ég verð að fara að sofa á nóttunni. Eða am.k. dreifa svefninum jafnt yfir vikuna, sumar nætur sef ég lítið og laust og hvílist varla og aðrar nætur fer ég létt með 12 tímana. Ég er bara að kvarta af því að það er ógeðslegt að reikna eitthvað sem maður skilur ekki óútsofinn, ó vell ég get sjálfri mér um kennt, helvítis tvinntölur. Karíókí partý í kvöld, note to self: ekki vera full!!!

fimmtudagur, september 23, 2004

Ég er alveg í þvílíku fokki með heimadæmi sem á að skila á morgun, heil þrjú svoleiðis, síðan þarf ég að reikna eitt dæmi uppá töflu á morgun sem ég er bara pínu byrjuð á, og ég ætti að vera að læra á fullu í geðveiku stressi.

En

Einhverra hluta vegna er ég bara í dásamlegu skapi, ætla að skella mér á tónleika í kvöld og geyma allar áhyggjurnar þangað til aðeins seinna. "Næ þessu bara upp um helgina" er viðkvæðið, og það eru ágætar líkur á að það takist því þetta verður edrú helgi hjá mér. Langt síðan ég hef átt svoleiðis.

Er í leiðinda vítahring, er komin með skólaleiða og önnin er rétt að byrja. Mig langar ekki til að læra og geri þess vegna minna af því, þá skil ég námsefnið verr og það gengur verr að læra þegar ég loksins geri það og þá langar mig ennþá minna að læra o.s.frv. Ég verð að koma mér í stuð áður en það verður of seint, ef mér tekst að koma mér í lærustuð um helgina þá verður allt gott. Vonum að það gerist, ef ekki, kojufyllerí á mánudaginn, vona ekki.

mánudagur, september 20, 2004

Hvernig gat ég gleymt?

Ég sá typpi á Pravda á föstudaginn!

Og gleymdi því alveg þangað til núna í morgun þegar Dagný spurði hvernig mér hafi litist á Gunnar. Ég sagði bara "ha hvaða Gunnar?" þá sagði Dagný "Strákurinn sem girti niðrum sig þegar við vorum að koma inn á pravda eftir partýið!"

Núna man ég.

sunnudagur, september 19, 2004

Sunnudagseftirmiðdagur, hvað er betra að gera en að lista afrek helgarinnar?

Dagný gella átti afmæli á föstudaginn, svo planið var að sletta ærlega úr klaufunum. Við fórum í vísó í Hugvit seinnipartinn, það var heví næs að sitja og sötra öl og hlusta á nokkra stutta fyrirlestra um dásemdir fyrirtækisins. Fyrsti hálftíminn fór í að útlista alla stóru og flottu viðskiptavinina og samstarfsaðilana; Scotland Yard, ibm o.s.frv. Síðan rétt undir lokin sögðu þeir okkur hvernig fína fína kerfið virkar og það er víst í alvöru rosa gott. Pizzur, meiri bjór, rúta á Pravda. Þá fórum við nokkrar stelpur heim til Dagnýjar að halda stelpupartý, síðan kom Jón. Þegar við komum í bæinn fannst mér geðveikt sniðugt að kaupa meira áfengi, ég meina ég var bara búin að vera í glasi í 7 tíma hvernig gæti það hugsanlega skaðað að drekka 2 og 1/2 fullnægingu á innan við 5 mínútum? Og stóran bjór á eftir??

Allavega, ég man ekkert eftir næstu tveim tímum en að þeim liðnum hljóp ég út af pravda til að tala í símann og fór síðan inn á hressó. Þegar ég var að gefast upp á að leita að Elínu og Svanhvíti þá blikkaði Al Pacino mig og vísaði mér til þeirra. Ég og Elín fórum síðan á Dillon og svo Kofann en ég var samt komin ýkt snemma heim. Vá hvað þetta var slakt djamm blogg hjá mér þrátt fyrir gott djamm ;) , drekka minna næst...

Ég er alveg að gleyma fullt! Kaffilíkjörnum sem fór að mörgu leyti út um allt, skrítna leigubílstjóranum sem hélt þvílíka reiði-ræðu um kjör leigubílstjóra eftir að stelpurnar voru að reyna að prútta, Helga frænda sem er að fara eignast barn, jepplingnum og og og ....

föstudagur, september 10, 2004

Jei blogger virkar, hann virkaði nebblega ekki um daginn. Núna er klukkan að verða eitt á föstudegi og ég er í eyðu! Það þýðir að ég á eftir að mæta í einn tíma í dag, á föstudagseftirmiðdegi!!! Það er ekki tekið út með sældinni að vera aftastur í stafrófinu. Örvhent í þokkabót, þetta er nánast fötlun...

Pizza og bjór í kvöld, jei gaman :) Ég á það nú skilið eftir að hafa verið sjúklega dugleg að reikna heimadæmi, sérstaklega í gær. Góða helgi!
Virkar bloggerinn minn???

miðvikudagur, september 08, 2004

Vá mig svimar ýkt mikið, það er ekki þægilegt að reikna með svima.Oj bara. Ætla pottþétt heim að leggja mig eftir dæmatímann á eftir. Var að fatta að ég er ýkt mikill lúði því mér finnst ýkt gaman (so far) í námskeiðum sem heita Örtölvu og mælitækni og Aflfræði. Aflfræðin á samt að vera þyngsta námskeið sem hægt er að taka við skorina mína, kennarinn er líka soldið brútal, hann sagði nokkrum stelpum að halda kjafti í tíma í morgun og hann lítur alveg eins út og maðurinn sem hákarlinn beit handlegginn af í Deep blue sea.
Vá mig svimar ýkt mikið, það er ekki þægilegt að reikna með svima. Oj bara. Ætla pottþétt heim að leggja mig eftir dæmatímann á eftir. Var að fatta að ég er ýkt mikill lúði því mér finnst ýkt gaman (so far) í námskeiðum sem heita Örtölvu og mælitækni og Aflfræði. Aflfræðin á samt að vera þyngsta námskeið sem hægt er að taka við skorina mína, kennarinn er líka soldið brútal, hann sagði nokkrum stelpum að halda kjafti í tíma í morgun og hann lítur alveg eins út og maðurinn sem hákarlinn beit handlegginn af í Deep blue sea.

fimmtudagur, september 02, 2004

Ég er búin að skrifa um skemmtilegu skemmtilegu dagana í lok sumarfrísins míns, en núna er tölvan heima leiðinleg og vill ekki gefa mér það til baka.

Skólinn byrjaði á þriðjudag, það var alveg miklu skemmtilegra en ég hafði búist við. Vísindaferð á morgun, jibbí :) og allt bara eins og það á að vera (a.m.k. í skólanum). Kaufti ammlisgjöf í dag, það var ýkt gaman, örugglega fyrsta sinn sem mér finnst gaman að versla gjafir.

Ókei smá yfirlit yfir skemmtilegu skemmtilegu dagana, semsagt fim fös og lau í síðustu viku. Frá fimmtudegi til laugardags vorum við Elín á road trippi um Snæfellsnes og lentum í ýmsum ævintýrum. Á laugardaginn fórum við ásamt fleirum á stórgóða James Brown tónleika, og ég var svo nálægt að það skvettist næstum sviti á mig. Ég talaði um hvað mér þætti gítarleikarinn sætur og og OG svo í bænum um nóttina þá hitti ég sæta gítarleikarann. Ég bara stóð fyrir framan hann og þorði einu sinni ekki að tala við hann, var nálægt því að stökkva á hann og kyssa hann, en kringumstæður leyfðu það ekki. Það hefði hvort sem er pottþétt komið geðveikt illa út fyrir mig og ég hefði skammast mín eftir á.

Og búið ;)

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Í gær gerðust undur og stórmerki, ég þvoði bílinn minn! Að innan og utan, ætla ekki að bóna hann fyrr en í næstu viku þegar ég og Elín erum búnar að fara í ferðalag um Snæfellsnesið.

Í gærmorgun vaknaði ég um tíuleitið. Ég var búin að plana að fara í Vöku með pabba að fá nýjar höldur til að hægt væri að skrúfa niður rúðurnar í bílnum og spurði pabba hvort við ættum ekki að drífa okkur. Þá sagði hann að hann hefði ekki nennt að bíða þangað til ég vaknaði og væri búinn að redda þessu fyrir mig, ókey það er allt í lagi, það er eðlilegt að pabbi manns geri manni greiða. Í staðin fórum við út fyrir og hann ákvað að ég ætti að þvo bílinn, hann skrúfaði frá og sýndi mér hvar ég fyndi pappír og tjöruhreinsi. Síðan skildi hann mig bara eftir með vatn og skítugan bíl og fór að erindast. Allt í lagi með það, ég þreif bílinn og var voða stollt af dugnaðinum í mér. Þegar ég var búin að spúla af bílnum og ætlaði að skrúfa fyrir vatnið þá kom babb í bátinn, ég gat það ekki. Ég reyndi og reyndi og sprautaði vatni yfir mig alla í leiðinni en allt kom fyrir ekki. Þá ákvað ég að hringja í pabba og láta hann segja mér hvað ég væri að gera vitlaust, en ég náði ekki í hann. Ég náði þó í mömmu sem sagði mér að pabbi væri á leiðinni í vinnuna til hennar uppi í Grafarvogi þ.a. það var ekki beint í leiðinni fyrir hann að koma við heima og skrufa fyrir. Nú voru góð ráð dýr, ég endaði á því að banka uppá hjá einum nágranna mínum sem ég vissi að væri heima. Ég hafði aldrei áður haft samskipti við þetta fólk þótt við hefðum búið í sama hverfi í yfir 20 ár og núna labbaði ég með tíkó í hárinu að húsinu og sagði "Hæ ég heiti Þura er Sigurður heima?" í dyrasímann, það hljómaði meira eins og "Má Siggi koma út að leika?" Sigurður, sem er um sextugt, birtist í dyragættinni og var svo indæll að glotta ekki þegar ég sagði honum hvert vandamálið væri. Hann kom og skrúfaði fyrir eins og ekkert væri og sagði "Þetta er allt í lagi vinan." Ég þakkaði pent fyrir mig og ryksugaði bílinn voða vel. Sigurður var karlmaður númer 2 sem aðstoðaði mig þennan dag og það var einu sinni ekki komið hádegi!

Um hádegið hringdi Héðinn og spurði hvort hann mætti koma og kíkja á DVD spilarann minn snöggvast því hann væri í hléi. Ég hafði semsagt beðið hann daginn áður að gera það því ég ýtti á takka um daginn og þá eyðilagðist allt. Héðinn var þriðji karlmaðurinn sem ég fékk aðstoð frá í gær. Egóið mitt þolir ekki svona mikla hjálp frá mönnum og þess vegna varð ég pínu fegin þegar Héðinn sagði að hann gæti ekki lagað og ég yrði að fara með heimska dvd spilarann í viðgerð. Ég vil nebblega geta gert hluti sjálf en ekki alltaf þurfa að fá hjálp frá strákum/karlmönnum goddamnit.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Ég vildi, ég vildi svo mikið að ég væri á Roskilde núna!!! Þá mundi þynnkan hverfa snarlega með nokkrum bjórum og ég gæti djammað meira í kvöld! Í staðin er ég að fara að vinna í kvöld og fyrramálið, ullabjakk, og enginn bjór.

Ég var ekki í miklu stuði til að fara í bæinn í gær og missti þess vegna af Glymskröttunum. Ákvað síðan korteri áður en strætó átti að koma (eftir að hafa hlustað á Scissor sisters diskinn okkar Svanhvítar) að drífa mig í bæinn og allavega sjá Ókind. Setti í mig tíkó, laumaði bjór í vasann og hljóp út. Helv**** strætó kom ekki, hálftíma síðar strætóinn keyrði framhjá af því að hann var fullur. Ég og hin stelpan sem var að bíða ákváðum að rölta niður á Miklubraut og taka strætó þar, það var eins gott að ég hitti hana því hún sagðist hafa á tilfinningunni að kvöldið myndi enda vel fyrst að byrjunin hafi gengið svona brösulega. Ég ákvað að taka hana á orðinu.

Var löngu búin að missa af Ókind þegar ég loksins kom í bæinn, hlustaði bara smá á Jagúar í staðin áður en ég fór að hitta Elínu og Guðbjörtu. Við ákváðum að vera geðveikt harðar og fara á Mínus með hörðum 14 ára krökkum og fullum gaurum á öllum aldri. Við sáum ekki neitt sem var frekar leiðinlegt því stór hluti fílingsins er að sjá þá bera að ofan. Fórum um borð í Hafsúluna til að horfa á þessa líka fínu flugeldasýningu. Þar var fullt af fullum skipperum, eða ég stóð allavega í þeirri meiningu.

Eftir flugeldasýninguna var mig alvarlega farið að langa í meiri bjór. Ég, Steini og stelpurnar ;) (Elín, Guðbjört og Svava Dóra) röltum í bæinn og vá þvílikur fjöldi lítilla krakka á fylleríi, sautjándi júní hvað! Borðuðum pizzu á Lækjartorgi og þá langaði mig enn meira í bjór. Eftir að hafa vandræðast yfir hvert skyldi fara, því raðirnar inn á skemmtistaði voru þvílikar endaði hluti okkar á Kofanum. Og ég og Steini fórum að hella í okkur öli og skotum. Raggi var að dj-ast og stemningin var rosaleg. Fólk út um allt að dansa, fólk sitjandi í sætunum sínum að dansa, allir að syngja hástöfum með. Og bara carzy stuð. Síðan kom Óli, Óli er skemmtilegur. Þegar ljósin voru kveikt og við vinsamlegast beðin um fara út skildi ég Svövu Dóru eftir með Steina og fékk far heim, held samt það hafi verið allt í lagi. Það var svo dásamlegt að fá far, sérstaklega eftir að hafa labbað nokkuð oft heim úr bænum undanfarið. Takk fyrir farið :)

Mamma var vakandi þegar ég kom heim, hvað annað, hún heldur að það séu bara rónar og dópistar sem séu svona lengi úti á nóttunni, eins og það var á sjöunda áratugnum þegar hún skemmti sér (vonandi). Hún sagð bara "Ertu dáldið full elskan?" Ég sagði já og fór inn í herbergið mitt að hlusta á Scissor sisters þangað til ég sofnaði. Stelpan í strætóskýlinu hafði rétt fyrir sér, kvöldið endaði bara mjög vel.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Í dag er menningarnæturdagur, hljómar dáldið eins og a hard day´s night og það finnst mér skemmtilegt.

Lou Reed tónleikarnir voru æðislegir! Hversu svalur getur einn maður verið? Ég er ekki alveg klár á því en Lou Reed kemst nálægt toppnum. Við mættum á svæðið hálf 7 til að ná góðum sætum því við áttum stúkumiða og góðum sætum náðum við. Alveg fremst aðeins til vinstri í stúkunni, sáum mjög vel. Rétt áður en tónleikarnir byrjuðu mættu forsetahjónin á svæðið og tveir seat warmerar stóðu upp, hitt celeb fólkið sem mætti var Julia Stiles. Tónleikarnir voru endalaust svalir og allir hljómsveitarmeðlimir voru endalaust svalir og það var endalaust mikið af svölum sólóum, selló sólóið stóð algerlega upp úr, það var crazy. Kona spilaði á sellóið, held það hafi verið kærasta Lou. Allavega þetta var mjög svalt og góð stemning var í höllinni, hljómsveitin var tvíklöppuð upp. Asnalega atvik kvöldsins var á miðjum tónleikunum þegar Dorriet labbaði á mig og Svenna. Hún hafði farið fram og misreiknaði sig greinilega eitthvað á leiðinni aftur í sætið, hún ætlaði að labba upp stigana en labbaði í staðin á okkur. Það tísti í henni og hún rataði rétta leið.

Fengum far vestur í bæ hjá pabba Áslaugar sem á fínan jeppa, það var mjög þægilegt. Mér finnst það ætti alltaf að koma pabbi einhvers sem á stóran jeppa með á tónleika. Elín fór heim að sofa en við hin sötruðum öl heima hjá Steina og kíktum svo í bæinn. Veit ekki alveg hvernig mér tókst að vera komin heim ekki fyrr en hálf 6. Mjög fínt kvöld yfir heildina þrátt fyrir örfáa hnökra. :)

P.s. Til hamingju með daginn Hekla :)

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Það er svo gaman núna! Það gerðist dáldið skemmtilegt í vinnunni í dag. Á föstudaginn er ég að fara að Lou Reed tónleika og á laugardaginn er Hekla að fara að gifta sig og ég er að fara að mæta í brúðkaup :) og þann sama laugardag er menningarnótt og það gæti verið gaman líka. Allt er gaman! Nema kannski að skólinn er að byrja eftir nokkra daga, veit ekki hvort ég meika stress og engin helgarfrí og meira stress í 15 vikur, jú jú ég meika það alveg því um jólin verð ég hálfnuð með bs prófið og það er gaman.

Eftirlitsgaur labbaði inn í búðina dag akkurat þegar ég var að taka til kringum nammibarinn og fá mér eitt nammi í leiðinni. Verslunarstjórinn kom til mín seinna um daginn og sagði að hann hefði sagt að ég ætti að hætta að borða úr nammibarnum, as if.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Í dag fór ég með pabba í búðir. Þegar það gerist tekur það fljótt af, afhverju að hugsa sig um eða skoða meira þegar maður veit hvað maður vill? Við byrjuðum á Símanum, tilgangur: kaupa nýjan síma handa mér. Það voru nokkrir á undan okkur, á meðan röltum við um og skoðuðum síma. "Númer þrjúhundruðsjötíuogtvö!" var kallað, enginn svaraði kallinu "Þrjúhundruðsjötíuogtvö!!" smá þögn, enginn gaf sig fram. Gaurinn var augljóslega þreyttur og sveittur eftir daginn, enda afmælistilboð í gangi, "Þrjúhundruðsjötíuogþrjú!" kallaði maðurinn. Ví það vorum við, við gengum að skrifborðinu og einmitt þá dröslaðist druslulegur maður að okkar símagaur og sagðist vera 372. Gaurinn gerði sig líklegan til að afgreiða manninn á undan okkur en pabbi sagði nei, hann missti af sínu tækifæri. Druslulegi maðurinn var fljótur að hypja sig og ég settist vandræðaleg niður með pabba og keypti fallegan síma fyrir lítinn pening.

Eftir þessa lærdómsríku símaferð fórum við í ELKO og keyptum langþráðan dvd spilara og núna get ég horft á alla Simpsonþættina sem ég keypti á afar hagstæðu verði í Kaupmannahöfn og fékk TaxFree til baka. Hvernig var þetta ekki frábær dagur?

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Vegna fjölda áskoranna (1) hef ég ákveðið að blogga í dag. Aðalástæða bloggleysis er I prefer beer to blog líkt og Elín. Svo margt að segja en svo lítill tími (eða mikill bjór). Blogg með titla eins og "Diðrik og stelpan sem var ekki til -a Roskilde tala", "Óvenjuleg verslunarmannahelgi" og "Er pabbi minn spiderman?" eru bara waiting to burst out.

Eitt fyrst sem ég gleymdi síðast (lok júlí) en það er að þakka Þórunni fyrir frábæra helgi í Grimstad. Takk fyrir að hafa komið Þórunn, ég hefði dáið ef þú hefðir ekki verið þarna (og þú veist það) :)

Og eitt annað, til allra þeirra sem ég drakk bjór með í gærkvöldi: Fyrirgefið að ég kastaði bjórdós í Atla, hugur og hönd stóðu ekki sameinuð að þeim verknaði.

Málið var sko að ég hafði ákveðið að fara á pent fyllerí í gærkvöldi, þ.e. vera pen og fín og komast allra minna ferða óstudd o.s.frv. Það gekk glimrandi vel og allir voru sammála um að ég væri voða pen, alveg upp að ákveðnu mómenti þegar ég missti mig og penleikann með og henti bjórdós í Atla. Ég man eftir hrópum vina minna þegar ég var að fara að kasta "Nei Þura ekki! Ekki kasta dósinni!!" En því miður voru taugaboðin of hægvirk svo að skilaboðin um að kasta ekki komust ekki fram í hendina á mér fyrr en eftir að ég hafði kastað. Ég hafði brugðist, ég var ekki pen, ég sá vonbrigðin í augum vina minna.

Kvöldið mitt endaði á því að mér tókst að fá alla á Devitos þar sem ég tróð mig út af gómsætri pizzu. Löngunin í Devitos hafði verið til staðar frá því fyrir viku þegar mér tókst bara að klára eina sneið sökum óeirðar í maga. Síðan á fimmtudaginn þegar ég var að labba heim af Isidortónleikum var lokað þ.a. þegar ég succsessfully fór á Devitos í gærkvöldi var ég mjög hamingjusöm.

Isidortónleikarnir á fimmtudaginn voru by the mjög góðir. Takk fyrir mig Orri, I will be back :)

Þá er ég hætt í dag.

fimmtudagur, júlí 22, 2004


Þetta er Anna, hún er 10 ára og býr í litlum bæ í Danmörku. Posted by Hello

Og þetta er Mikki, hann er haukur (það er ránfugl) Posted by Hello

Anna gefur Mikka dauðan kjúkkling að borða. Posted by Hello

Hérna klappar Anna honum. Posted by Hello

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Reykjavík, mánudagur 20. júlí kl. 11.50 að staðartíma
 
Ég hef snúið aftur. Eftir þriggja vikna taumlausa gleði, í kúl umhverfi og svo hallærislegu umhverfi, er ég komin heim og verð meira að segja að vinna á morgun. Ég er viss um að í vinnunni á morgun mun mér líða eins og ég hafi aldrei farið *hrollur*. En það var gaman, mjög gaman! :)
 
[ferðalagið í hnotskurn]
Vika 1
Fyrsti viðkomustaður var Roskilde festival, þar var drulla, blautt, kalt, rokk og fullt af vegan fólki => ógeðslega gaman. Þegar nokkrir dagar voru liðnir af hátíðinni fór fólk að segja við mig "Þura, ég bjóst eiginlega ekki við að þú myndir koma með, hélt þú myndir ekki meika sturtuleysið, illa lyktandi útikamrana og sofa í tjaldi í viku." Ég kom með og meikaði það mjög vel, djammaði líka ógeðslega mikið. Þetta var svo mikið rokk! Að vakna á hádegi þunnur/eiginlega þunnur á hverjum degi í viku og lækna þynnkuna með því að byrja að drekka bjór klukkan 3 um daginn, það hefur ákveðinn sjarma.
 
Vika 2
Daginn eftir Roskilde fór ég til Noregs, land hallærisleikans á dans festival í Grimstad á vegum kom og dans í Noregi. Áfallið sem ég varð fyrir við komuna til Noregs var svakalegt. Að koma beint frá Hróarskeldu, sem ég mundi segja að væri kúl atburður, og til Noregs, mekka hallærisleikans, var of mikið fyrir mig. Mig langaði að stinga af. Fyrsta ballið sem ég fór á var svona aðeins fínna ball og ó mæ god, þær konur sem ekki voru í swingpilsum eða skærlitu voru í rósóttu. Það voru margir karlar í gulum buxum. Tveim dögum seinna kom Þórunn frá Danmörku og þá varð allt gott, annars hefði ég bara dáið.
 
Vika 3
Síðustu vikuna af ferðalaginu mínu var ég í swing camp í heimavistarskóla í sveit í Noregi (er ekki eins slæmt og það hljómar).  Mig langaði reyndar ekki að fara þangað þegar á hólminn var komið, var farin að plana að stinga af og fara til Oslo. En ég var búin að borga fyrir gistinguna og dagskrána þannig að ég lét slag standa. Fyrstu tvo dagana var ég svo þreytt að ég svaf eiginlega bara, á miðvikudeginum versnaði ástandið því að ég veiktist frekar illa. Fékk slæman hósta og var illt í eyrum og hálsi og gat lítið dansað. Kannski vegna þess að ég gat lítið dansað þá langaði mig meira að dansa og allt varð voða gaman aftur.
 
Coming up: Lengri útgáfan af ferðasögunni með öllum (næstum) dirty díteilunum, you can´t miss it (eins og ég gerði þegar ég mætti á Hróa í rigningu, þá fann ég ekki tjaldið)
 
Flugferðin heim í gærkvöldi var hræðileg, ég var veik og hóstaði allan tíman. Sextuga parið við hliðiná mér nýtti tímann getting wasted og konan röflaði í kallinum alla leiðina. Held við höfum verið háværasta sætaröðin, ég heyrði það ekki því ég var með svo mikla hellu. Þegar flugvélin fór að lækka flugið magnaðist hellan þvílíkt og varð svo sársaukafull að ég bara sat og grét. Fulla parið vorkenndi mér svo mikið að þau gáfu mér litla koníaksflösku sem búið var að taka sopa úr. Ég þakkaði fyrir mig og tæmdi flöskuna.

sunnudagur, júní 27, 2004

[Ömurlegi vinnudagurinn, hugsanlega of persónulegt til að blogga um en ég bara verð]
en fyrst smá undanfari. Um daginn byrjaði nýr strákur að vinna í búðinni. Þegar hann sótti um var hann með mjög áberandi hor í nefinu, hann sagði: "Er verslunarstjórinn við? Ég er nebbla að sækja um vinnu!"
Ég sagði: "Hún er inná skrifsofu hor" og benti í áttina að skrifsofunni
Hann: "Ha hvar????"
Ég: "hor hor hor hor þarna HOR!" og bendi betur.
Og þess vegna mun ég framvegis kalla hann horstrákinn.

Í dag kom það svo í mitt hlutskipti að vinna með horstráknum (sem by the way heitir Atli Viðar alveg eins og hann) frá eitt til ellefu. Um fjögurleitið gengu mæðgur inn í búðina, annar kassinn var bilaður og ég var að vesenast í að hringja í tölvukallinn og reyna að laga kassann. Dóttirin spyr mig hvar hún finni matarlit, ég man það ekki og kíki í eina hillu en hann er ekki þar og er að fara að kíkja í aðra og segi við hana "Gæti hann ekki verið hér!" Hún gengur pirruð í burtu af því ég fann sósulitinn ekki strax og segir frekar hátt við sjálfa sig "Þess vegna spyr maður!"
Ég fer aftur að kassanum og ákveð að bíða eftir tölvukallinum, sem sagðist ætla að koma bráðlega. Ég stend viðskiptavinarmegin við kassann að borða kleinuhring og fletta DV þegar móðirin kemur, blístrar asnalega og segir höstuglega við mig "Á kassa!" Ég sagði við hana "Það er hinn kassinn sem er opinn, þessi er bilaður." Hún gengur fúl að hinum kassanum, þar sem hún þurfti ekki að bíða neitt og skjálfhentur horstrákurinn afgreiðir hana. Þegar dóttirin álíka fúl og móðirin kemur að kassanum segir hún hátt við mig "Sósuliturinn er fundinn!!!!" Ég er orðin frekar pirruð á frekjunni í leiðinda skessunum og segi "Veistu hvað ég fæ á tímann? Mér er ekki borgað fyrir að vita nákvæmlega hvar hver einasti hlutur er." Ég er meira að segja mjög kurteis, mig langaði bara að benda þeim á að búðarfólki er ekki kennt neitt, engrar reynslu er krafist og launin eru ömurleg þannig að það basically þurfum við ekki að vita djakk sjitt. Leiðinda mæðgurar helltu sér báðar yfir mig, sögðu að maður yrði að vera "starfi sínu vaxinn" og héldu því fram að ég hefði "engann metnað" og "kæmist nú ekki langt á því". Dóttirin fór út í bíl á meðan móðirin borgaði, mamman skildi innkaupakerruna eftir á asnalegum stað svo að gamli maðurinn á eftir henni komst ekki að kassanum. Ég ákveð á aðstoða hann. Ég tók kerruna og tróð henni fram hjá kellingunni, svo hún rakst í hana.

Stuttu eftir að þær fara fer ég inn á lager og byrja að hágráta. Suma daga þá er skrápurinn miklu þynnri en aðra daga. Enda vissi ég þegar ég var að leggja af stað í vinnuna að ef það kæmi einhver of dónalegur kúnni í dag þá myndi ég ekki vera í ástandi til að höndla það, ég var allt of þreytt eftir vinnuna á föstudaginn og alla vikuna. Ég var búin að fá nóg og auðvitað þurfti akkurat í dag að koma dónalegt og frekt fólk, ekki alveg minn dagur.

Þegar skrúfað hafði verið frá tárunum þá gat ég ekki hætt. Þegar ég var að berjast við tárin ákvað horstrákurinn að fara í mat "Ég er sko ekki búinn að borða síðan klukkan ellefu!" Hann hefur örugglega orðið stressaður að sjá mig í svona miklu uppnámi og ákveðið að forða sér. Þetta var ömurlegt, þá fáu sem versluðu þennan hálftíma þurfti ég að afgreiða hágrátandi, með ekka. Flestir sögðu ekki neitt og hlupu út. Ein kona sem verslar þarna á hverjum degi var voða góð og reyndi að hugga mig. Síðan kom kona að versla sem reyndist vera trúnaðarmaður í einhverri búð og sagði mér að um leið og kúnninn talaði illa um mig persónulega þá mætti ég öskra til baka, hann mætti rakka búðina niður að vild án þess að ég gæti sagt neitt, en ef hann færi að rakka mig niður þá væri þetta orðið persónulegt. Trúnaðarmannakonan spjallaði við mig alveg þangað til horstrákurinn kom aftur úr pásunni sinni og ég komst í pásu. Ég grét samfleytt í tvo tíma, kláraði grenjuskammtinn alveg, enda var tími til kominn. Þá treysti ég mér loksins að hringja í Elínu og biðja hana að borða American Style með mér. Hún kom og ég tók mér langa langa pásu og þá var allt í lagi á eftir.

Roskilde eftir tvo daga!!!!!! :)

fimmtudagur, júní 24, 2004

Nú sem aldrei fyrr er tími til að blogga.

Ég fékk mér frí í vinnunni í kvöld og gat þess vegna keypt tjald og aðrar nauðsynjar fyrir væntanlega útilegu, sem var mjög gott.

Þetta fríkvöld mun engan veginn toppa þriðjudagskvöldið, sama hvað ég geri. Það kvöld var ég líka í fríi (það var ekki svona gaman í vinnunni). Ég og Svanhvít og Svenni ákváðum að fá okkur ís í dásamlegu veðri, það var mjög dásamlegt. Þegar ísinn var horfinn þá ákváðum við að fara í ísbíltúr, klukkutíma síðar vorum við á Þingvöllum. Ég var næstum búin að gleyma hvað það er gaman að keyra úti á þjóðvegum, það er æði, núna man ég það. Þegar við ókum fram hjá tjaldstæðinu stakk ég upp á að við myndum ræna tjaldi að eldri þýskum hjónum og sofa í því um nóttina, en sú uppástunga var snarlega felld. Í staðin keyrðum við alveg upp að Þingvallabæ og lögðum ofan á dauðum biskupum. Síðan röltum við að Flosagjá og Nikulásargjá og ætluðum að kasta klinki út í Nikulásargjá og óska okkur. Þar sem við áttum ekkert klink þá lét ég Svanhvíti fá 1/5 af þúsundkalli til að kasta út í, hún fleygði honum út í og hann flaut í burtu :( Ég komst að því að stígvél með hæl eru ekki bestu skórnir til að labba í úti í náttúrunni, en við löbbuðum samt um og kíktum ofan í gjárnar. Svenni veiddi könguló, þá var gaman. Þetta var fyrsta road trip sumarsins, may there be many to come...

sunnudagur, júní 20, 2004

8 dagar!

8 vinnudagar þangað til ég fer til Roskilde, ég lifi það af. Langar samt ekki að raða fleiri skyrum, sem gæti orðið erfitt.

(Best í heimi: Keyra með rúðuna alveg skrúfaða niður og hvíla olnbogann á hurðinni, þá þarf ég ekki að keyra nærri jafn hratt til að uppfylla hraðaþörfina)

miðvikudagur, júní 16, 2004

Ég veit ekki hvaða bull ég ætti að fara að skrifa núna. Í kvöld er ég í fríi og ég náði varla að gera neitt af því sem ég ætlaði að gera *dæs* það komu bara ruglubullu ættingjar í mat. Ég ákvað að drekka einn bjór og það dugði til að vera silly allan tíman meðan við borðuðum, þá meina ég aðeins meira silly en venjulega þegar þau koma í heimsókn.

Ég náði ekki að hitta neinn af vinum mínum í kvöld sem ég hef ekki hitt í marga daga eða neitt. Og það versta af öllu: L&O Criminal Intent var ekki í sjónvarpinu!!! Á að hirða allan stöðugleika úr lífi mínu í einu?? Þetta er ömurlegt. Ástandið lagaðist þó aðeins þegar ég las í tv-gædinum að Queer as folk yrði á dagskrá annað kvöld, annars hefði ég alveg farið yfirum.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Undanfarna daga er margt búið að gerast, bæði skemmtilegt og leiðinlegt, erfitt og auðvelt. Um flest skal ekki fjallað hér.

Mamma kom heim frá útlöndum í gær (sunnudag, man ekki alveg hvaða dagur er) og hún gaf mér þrjá dvd diska. Við eigum reyndar ekki spilara, en diskarnir gefa til kynna að við ætlum að kaupa einn. Þá get ég farið að safna Simpson þáttum, jei, fyrstu seríuna á ég núna.

Góðar stundir

sunnudagur, júní 06, 2004

Í gærkvöldi átti ég night off, það var frábært. Eftir vinnu fór ég í ríkið í fyrsta sinn í langan langan tíma og gekk beint að tuborg rekkanum. Um kvöldið hlotnaðist mér sá heiður að vera boðið á fund matgæðingaklúbbsins Pereneum sem gestur. Ég tók þeim mikla heiðri fagnandi og bjó til forláta ávaxtasalat (eða bara ávaxtasalat).

Áður en ég fór út spurði pabbi hvort ég ætlaði nokkuð að æla á eldhúsgólfið þegar ég kæmi heim. Síðan sagði mamma að annaðhvort yrði ég að vera komin heim fyrir hálf sex eða eftir því þá kæmi einhver kona sem ætlaði að fá far með þeim á flugvöllinn (en mamma fór til köben í morgun) því hún vildi ekki að konan sæi mig í annarlegu ástandi. Foreldraímyndir mínar hafa ekki mikið álit á mér.

Maturinn var ljúfengur og ég náði þeim áfanga að borða ávöxt sem farið hefur inn í ofn þegar ég borðaði applepie-ið hans Steina, reyndar var það mjög ljúfengt, þegar ég pæli í því þá hljómar ekkert voðalega vel fyrir mig að vera að tala um applepie-ið hans Steina en ég er bara telling it like it was. Eftir að hafa sopið öl og hlustað á gæðatónlist skruppum við í bæinn. Þar náði ég ekki að hitta alla sem mig langaði að hitta, í staðin þurfti ég að hlusta á svívirðingar um bílinn minn. Það hjálpaði ekki. Biggi skutlaði mér heim, ég var í senn þakklát og hissa.

Þegar ég kom heim ældi ég ekki á eldhúsgólfið, en ég vaknaði heldur ekki til að kveðja mömmu klukkutíma síðar sem er frekar leiðinlegt.

Á meðan mamma er ekki á landinu hef ég verið skipuð í hlutverk húsmóður. Það felst í því að kaupa hollan mat handa pabba, þvo skyrturnar hans og láta pabba borða holla matinn. Mikil ábyrgð fylgir þessu starfi.

laugardagur, júní 05, 2004

Jú það er gaman að vinna, en ekki 14 og hálfan tíma í einu tvo daga í röð :( og ég missti af öööööööllu góða veðrinu í dag. Vonandi verður fyrri hluti sunnudagsins góður (veðurfar á ég við) því þá er ég í fríi :)

þriðjudagur, júní 01, 2004


 Posted by Hello
Ég elska að vinna mikið! Það er líklega bara vegna þess að ég hef alltaf alltaf verið í skóla. Þó maður er duglegur að læra og svoleiðis þá er það öðruvísi en vinna að því leiti að maður fær ávöxt erfiðisins í framtíðinni en ekki beinhörðum peningum. Ekki það að ég hafi fengið útborgað í dag, ég þurfti auðvitað að byrja á nýju launatímabili, asna-launatímabil.

Ég prufaði um daginn að setja inn mynd, jei það var ýkt gaman. Myndin er af mér að blása á kertin á 21 árs afmælisdaginn minn, það var 21 kerti á kökunni. Mér tókst að slökkva á 20, ég reyndi að sannfæra gestina um að síðasta kertið hafi verið hrekkjukerti til að halda andlitinu. Það er frekar ömurlegt að skilja eitt kerti eftir. Næsta mynd er af því mómenti.

mánudagur, maí 31, 2004


�ura Posted by Hello
Lagaði aðeins og bætti nokkrum við. Setti svo inn teljara, jibbí.

sunnudagur, maí 30, 2004

[væmna bloggið]
Seinasti frídagurinn áður en ég fer til útlanda er í dag, eða var í dag þar sem dagurinn er að verða búinn. Ég fór í gegnum bréfasafnið mitt í dag, fyrstu bréfin eru frá ca ´90 þegar ég og Anna Rut vorum pennavinkonur. Reyndar vorum við líka bestu vinkonur og bjuggum í sömu götu en það var samt ýkt gaman að senda bréf á milli í pósti. Ég fann líka gömul heimaföndruð jóla og afmæliskort frá góðum vinum, sem var ýkt gaman að skoða aftur. Ég var semsagt riding down memory lane í dag.

Í kvöld fór ég svo með settinu í mat til Stellu frænku þar sem fjölskyldan átti áhugaverða kvöldstund saman. Ég og Ragna plönuðum afmælisgjöfina hennar ömmu, við og ein önnur frænka ætlum að láta taka mynd af okkur saman, ramma inn og gefa ömmu, hún á afmæli 17. júní þannig að það verður ýkt gaman. Nýjasta myndin sem er til af okkur saman er frá jólunum ´85 svo það er tími til kominn að taka nýja. Það verður svo gaman að sjá svipinn á henni :)

Vá hvað ég er í væmnu skapi í kvöld, mér er skapi næst að leigja A River Runs Through It og kaupa pakka af súkkulaði. Svo vel vill til að það er frídagur og þ.a.l. lokað þannig að ég slepp.

föstudagur, maí 28, 2004

Ég hef ákveðið að sættast við fimmuna mína. Ég hef alls ekki verið nígu dugleg í stærðfræðigreiningu í vetur og þá er 5 bara fín einkunn. Ég náði þó, ég þarf ekki að eyða viku í ágúst að læra aftur fyrir þetta próf. Ef burðarþolið næst í gegn þá þarf ég ekki að eyða tíma í ágúst til að taka neitt próf og það er gleðiefni.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Stærðfræðigreiningin er komin og fokking hell ég náði með 5!!!! Núna er ég alveg brjáluð, allar einkunnirnar mínar eru öfugsnúnar, ég fæ gott þegar ég tel mig hafa klúðrað prófinu og núna 5 þegar mér fannst ég ganga bara ágætlega. Tölfræði prófsins var eftirfarandi: Náð 21,9%, fall 14,2%, mættu ekki í prófið 6,8% og hin 57% sögðu sig úr áfanganum. Þetta þýðir að 40% af þeim sem tóku prófið náðu því ekki.

Ég ætti að vera ánægð með fimmuna og mun verða það þegar ég næ að róa mig niður. En ég gerði öll dæmin á prófinu og alveg fullt sem ég hélt að væri rétt. Sjitt, núna er ég orðin hrædd við burðarþolsfræðina, ég var mjög sátt þegar ég gekk út úr því prófi, hélt kannski að ég næði hugsanlega 7, en verður það önnur 5? eða þá eitthvað verra???

Mig langar að sparka í Jón Magnússon fyrir ljóta prófið sem hann samdi. Reyndar ætti mig frekar að langa að sparka í sjálfa mig fyrir að hafa ekki lært betur á önninni, en því fylgja tæknilegir örðuleikar að sparka í sjálfan sig þannig að ég sleppi því. Það er miklu auðveldara að vera reiður út í einhvern annan, ég held mig bara við það.

þriðjudagur, maí 25, 2004

Ég var að fá vaktaplan loksins. Ég skráði mig á allar helgar í júní, semsagt fer ekki í Galtalæk, tek ekki þátt í leikhúsdanssýningunni og geri ekki fullt af öðru skemmtilegu. En í staðin þá hef ég efni á að fara til útlanda og það er alveg gaman líka :) :) . Auk þess borgar sig miklu betur að drekka bjór í Danmörku heldur en hér.

Það er gaman að vinna!!!

sunnudagur, maí 23, 2004

[húfublogg]
Ég ræð hreinlega ekki við þessa bloggáráttu mína, ég stenst engan vegin freistingar bloggsins. Umræðuefni dagsins er húfur.

Ég fór í stúdentaveislu hjá frænku minni í gær og notaði tækifærið til að vera með stúdentahúfuna mína. Ég fílaði mig í tætlur og öllum fannst ég ýkt flott. Ég hef alltaf fílað hatta, sérstaklega svona júniform hatta. Fyrst þegar ég ákvað að fara í verkfræði gaf ég alltaf þá skýringu að mig langaði svo að vera í vinnu þar sem ég gæti gengið með hjálm. Pabba fannst reyndar að ef þetta væri ástæðan þá ætti ég frekar að gerast smiður. Á leiðinni heim úr veislunni var ég eitthvað að spjalla við mömmu og pabba og missti út úr mér að ég væri næstum til í að vera í ár í lögregluskólanum bara til að fá fína húfu. Þá lagði pabbi til að ég færi frekar í lögfræði og gerðist sýslumaður einhversstaðar, þá gæti ég nú verið með aldeilis flotta húfu og síðan fór hann að tala um einhverja gellu sem er sýslumaður einhversstaðar og hvað hún væri flott í júniforminu sínu.

Fleiri störf sem ég hef íhugað vegna þess að þeim fylgir húfa er skipstjóri, strætóbílstjóri, flugmaður, herforingi, sjóliði, andspyrnuleiðtogi og auðvitað kúreki nema hann er með hatt. Eftir að vera búin að pæla of mikið í þessu húfudæmi þá er ég komin að þeirri niðurstöðu að ég hafi valið mér eina starfsvettvanginn þar sem maður fær ekki að hafa sérstakt höfuðfat eða búning, hvað var ég að spá??

Talandi um búninga, mér finnst karlmenn í búningum mjög flottir. Ekki samt öryggisverðir, strætóbílstjórar, kokkar og löggur í venjulega gallanum. Hvaða stelpa slefar ekki yfir manni í flugmannsbúningi eða sjóliða???

Meðan ég man, ég rakst á eitt merkilegt í morgun þegar ég var að lesa blöðin. Ég fann krassið mitt í Birtu. Ekki krass eftir mig samt en svona alveg eins og ég geri þegar ég tala í símann. Venjulega finnst mér lítið mark takandi á svona persónuleikaprófum, svona eins og ef þú horfir á Gísla Martein þá ertu skapandi týpa. En í þetta skiptið verð ég að viðurkenna að þeir náðu mér. Við krotið mitt stendur m.a. Þessi manneskja vill hafa hlutina í kassa, eða ákveðnum ramma, er formföst, vill stjórna innan síns ramma og hafa hlutina eftir sínu höfði...verður stundum að gæta orða sinna til að vera ekki særandi, einkum við sína nánustu.

Þetta finnst mér magnað.

laugardagur, maí 22, 2004

Ég vaknaði í morgun og fékk vægt áfall, "Ég er að verða of sein!/Ég þarf að ná sæti á bókasafninu!" en þá áttaði ég mig, ég þarf ekki að gera neitt í dag. Ég gæti legið uppí rúmi og hlustað á Sgt. Peppers á repeat í allan dag ef ég kærði mig um það, ég ætla a.m.k. að hlusta á hana einu sinni.

Ég og Elín vorum að tjilla saman í gær og horfa á súra sjónvarpsþætti saman. Hún sötraði bjór og ég borðaði ostasnakkið hennar af áfergju. Af því við erum svo skemmilegar þá kom fullt af fólki að hanga með okkur. Litum í bæinn um tvöleitið. Á Kofanum sáum við skemmtilega gellu, hún stóð í þeirri meiningu að hún væri að dansa en mér fannst hún bara vera hrista líkama sinn og það í kappi við hjartslátt randaflugu. Hún var í hálfgegnsærri peysu og undir var hún í bikinítopp, ég var að vona að hún færi úr peysunni, það hefði verið sjón að sjá. Því miður gerði hún það ekki, þegar við nenntum ekki að bíða lengur fórum við á Dillon. Þar var allt fullt af stúdentum, semsagt ÞAÐ VORU ALLIR YNGRI EN ÉG! sem ég tók sem merki um mína eigin öldrun. Við fórum í leikinn fikta í dótinu hennar Þuru sem gekk út á það að Atli tók allt upp úr veskinu mínu og gerði grín að því.

Ég var heví sátt við kvöldið :) Það var svo gaman að hitta alla sem ég hef ekki hitt ýkt lengi.

föstudagur, maí 21, 2004

[ómerkilega bloggið]
Ég er glæpamaður! Ég fór í bíó í gær og þegar myndin var búin og ég var að leggja af stað heim þá var fullt af bílum á bílastæðinu því myndin var Trója. Ég var að taka beygju á bílastæðinu þegar ég heyrði skraphljóð. Hólí fokk, ég skrapaði annan bíl. Þar sem ég reyni oftast að vera löghlíðin þá stoppaði ég bílinn og kíkti á skemmdirnar hjá hinum og ákvað að þær væru smávægilegar. Síðan tók ég eftir því að hann hafði lagt ólöglega þannig að ég ákvað bara að fara í burtu. Og ég ók í burtu án þess að gera neitt. Ó mæ god ég fékk þvílíkt samviskubit, en það er farið núna, ó vell sjitt happens.

Fyrir utan "óhappið" þá var bíóferðin fín. Myndin var frekar löng en leikararnir voru margir mjög girnilegir, þar sem einu fötin sem þeir voru í var brynja og pils. Jújú myndin var voða flott og það sást alveg að peningum hafði verið eytt og allt lookaði. En það bara vantaði eitthvað, einhvern neista. Mér finnst bardagamyndir æðislegar og skemmtilegast er ef ég öskra í bíó af því að ég mér finnst eins og það sé verið að reka mig á hol en ekki einhvern áhættuleikara í þykistunni. Það gerðist ekki í þetta skiptið, ég bara horfði sallaróleg á tjaldið og leit meira að segja nokkrum sinnum á klukkuna. Það eina sem Tróju vantar er sál. Hún er aðeins innantómt hulstur. Þó að hulstrið sé fínt og flott þá skiptir það engu ef ekkert er fyrir innan. Ég næ ekki að koma meiningu minni betur frá mér, vona bara að einhver skilji mig.

(Ég vona að ég hitti Óla ekki í kvöld. Ég ætla að vera edrú, hann yrði örugglega hræddur.)

fimmtudagur, maí 20, 2004

Ég fór á Pizza 67 áðan til að ná í kvöldmat áðan og skrapp í Nóatún fyrir mömmu í leiðinni. Ekkert merkilegt við það. Mamma lét mig fá fimmþúsundkall og þegar ég gaf henni afganginn sagði hún að ég mætti eiga klinkið. Síðan kom "Þú átt líka klink ofan á ísskápnum frá því þú komst full heim, ég þurfti að þvo það." Persónulega held ég að skýringin á þessu sé að ég æli peningum, það var allavega skýringin sem pabbi kom með.

Það er gaman í vinnunni! Eða kannski ekki gaman, en það er ekki leiðinlegt eins og í gömlu vinnunni. Nýja vinnan er í 11-11 og gamla vinnan Gatnamálastjóri. Í dag varð einn kall brjálaður af því að við vildum ekki taka ávísun, og eftir að hann var búinn að tala við verslunarstjórann í síma henti hann símanum frá sér og braut hann. Það er svo gaman að vera í vinnu þar sem maður hefur samskipti við fólk. Allir hinir sem komu í búðina í dag eyðilögðu ekki neitt til samans.

miðvikudagur, maí 19, 2004

Það á ekki að gera manni þetta! Ég skráði mig inn á heimasvæðið mitt hjá háskólanum í þeirri veiku von að það væru fleiri einkunnir komnar. Ég taldi "einn, tveir, þrír áfangar eftir. Þá hlýtur ein einkunn í viðbót að vera komin!!!!" og var ýkt spennt. En þá var nýja einkunnin auðvitað staðist fyrir eins einingar valáfangann Verkfræðingurinn og umhverfið, andsk!

Ég býð svona spennt eftir einkunnunum af því að þetta prófatímabil var það rosalegasta sem ég hef upplifað. Ég vissi einu sinni ekki að það væri hægt að læra í 16 tíma á dag. Og mig langar svo að ná!!

Það er dásamlegt að vera í sumarfríi, ég er farin að fatta það. Ég horfði á vídeó heima hjá mér um daginn í fyrsta sinn síðan í jólafríinu og nýtti tækifærið og kláraði að horfa á mynd sem ég byrjaði á þá. Það var magnað, að liggja samviskulaus fyrir framan sjónvarpið og drepa heilasellur. I love it :)

sunnudagur, maí 16, 2004

[þynnkublogg]
Bjór er dásamlegur, ég elska bjór. Bjór, þreyta og spenna í bland er ekki eins skemmtilegt. Sannleikurinn er sá að ég hef ekki orðið eins ofurölfi síðan í partýinu hjá Svenna fyrir þremur árum þegar fætur mínir voru nuddaðir upp úr hvítlauksdressingu.

Verkfræðinemar horfðu á Júróvisjón á Gauk á stöng í gærkvöldi. Ég mætti og var bara hress, staðráðin í að skemmta mér vel og drekka vel, frír bjór á barnum og læti. Ég, Dagný og Jón lentum í því að vera stuðningsmenn Írlands, sem var bara lélegasta lagið, það fékk líka bara stig einu sinni. Þegar Jónsi fékk stig fögnuðu að sjálfsögðu allir með þjóðlegum söng. Þegar keppnin var búin (og ég var mjög sátt við úrslitin) var ég komin á fyrsta stig vímunnar (ríflega létt og í góðum gír). Þá drakk ég meira og spjallaði við fólkið.

Síðan ákváðum við að fara á Jón forseta af því að það er gay-bar. Þar var ekkert stuð, dj-inn var 1/6 af bol. Á leiðinni af staðnum fórum við að spjalla við litla fjórtán ára skoppara sem endaði á því að við tókum þá með okkur í partý til vinar Dagnýjar. Þeir voru bara að reyna að snýkja áfengi af okkur, en við gáfum þeim ekkert. Þegar við komum í partýið reyndi ég að sannfæra þá um að það væri ýkt sniðugt og kúl að byrja ekki að drekka fyrr en þeir kláruðu 10. bekk. Ég var komin á annað stig vímunnar (almennilega full þannig að það þarf ekki mikið að gerast til að ég skemmti mér). Þeir voru ekki að taka mark á einhverri fullri stelpu og ekki bætti úr skák að Jón var alltaf að segja þeim hver þeirra væri sætastur. Þegar aumingja strákarnir föttuðu að þeir myndu ekki fá bjór þá fóru þeir bara.

Ég og Jón ákváðum að okkur vantaði meiri bjór og drifum okkur aftur á Gaukinn og skildum Dagnýju eftir. Helltum í okkur sitthvorum bjórnum og fórum síðan aftur á gay-barinn til að gá hvort það væri komið stuð. Og það var stuð, allavega fannst mér það. Dj-inn sem sást í geirvörturnar á tók upp á því að spila tvö lög með Geirmundi í röð og ég dansaði alein. Þegar hér er komið við sögu þá var ég komin á þriðja stig vímunnar (á þriðja stigi er ég ófær um að segja nei ef einhver hvetur mig til að drekka meira) þannig að ég fór með Jóni á barinn og keypti öl. Fljótlega fer ég að finna að ég var meira drukkin en sniðugt er að vera.

Við förum aftur á Gaukinn og ég hitti Ernu. Ekki lengi samt því ég komst mjög snögglega á fjórða stig vímunnar (leið illa af því að ég var alltof full). Á þeim tímapunkti hitti ég Óla og Bigga. [Ath. hér er eyða fyrir Óla að fylla upp í því ég man takmarkað mikið] Ég hélt þetta mundi bara lagast og það mundi bara renna af mér, en því miður gerðist það ekki og ég endaði ælandi inni á klósetti, á fimmta stigi vímunnar (ælandi, leið illa, langaði heim). There you have it, ég er ógeðsleg!

Síðan lagði ég mig í einhvern sófa og einhver strákur sem mér finnst ég eigi að kannast við gaf mér vatn. Fattaði að jakkinn minn var týndur og fór út um allt að leita að honum, ég vona bara að ég hafi ekki hitt marga sem ég þekki. Þegar ég fann jakkann hafði ég vit á að drífa mig heim. Fékk ekki leigubíl fyrr en á Miklubrautinni. Þegar ég labbaði inn úr dyrunum heima var ekki allt í lagi. Ég náði einu sinni ekki að vaskinum og ældi á eldhúsgólfið og síðan meira í vaskinn. Mamma vaknaði og þurfti að þrífa eftir mig, ég skammast mín fyrir það. Fleygði mér upp í rúm og vaknaði í morgun viðbjóðslega þunn. Annað eins hefur ekki gerst síðan í hvítlauksdressingar-partýinu.

Nú er ég alvarlega að íhuga hvort ég eigi að birta þessi skrif. Jú ég ætla að gera það, það drekka allir yfir sig einhverntíman right?

laugardagur, maí 15, 2004

Ég er búin í prófum!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Jei, ég er ýkt hamingjusöm. Ég er líka eirðarlaus. Síðustu 3 vikur hef ég aldrei þurft að láta mér detta neitt í hug að gera, það hefur bara verið um eitt að velja: læra. Núna, ég er búin að ganga um gólf í klukkutíma núna, án þess að vita hvað ég eigi af mér að gera. Það venst fljótt, ég get farið að gera allt sem mig hefur dreymt um undanfarnar vikur, án samviskubits! :) Víí

Í verkfræðideild tíðkast það að eftir síðasta próf hjá 1. árs nemum þá standi stjórnin fyrir utan og gefi hverjum og einum bjór. Á því varð engin breyting í dag. Þegar ég labbaði út úr prófinu á hádegi byrjaði ég að skjálfa, það var því afar endurnærandi að sötra einn öllara á meðan ég náði mér niður. Síðan braut ég regluna mína um að keyra ekki eftir einn bjór, en það var allt í lagi, ég klessti ekki á.

Gleðilegt sumar og Júróvisjón og bara allt!!!

fimmtudagur, maí 13, 2004

[prófablogg]
Eftir hádegismat í dag ákvað ég að fá mér nokkrar pistasíuhnetur í eftirrétt. Ég ætlaði bara að borða nokkrar og henda skeljunum (eða skurninni eða hvað sem það heitir sem er utaná pistasíuhnetum) beint í ruslið. Fyrsta hnetan datt í ruslið, önnur rataði upp í mig, þriðja datt í ruslið o.s.frv. Ég hafði ekki lyst á ruslhnetunum, þær voru búnar að fá bragð af öllum hinum matnum sem hafði stungið af í rusladallinn. Í staðin fór ég að spá, ætli hlutfall hneta sem enduðu í ruslinu hafi endurspeglað hlutfall dæma sem ég klúðraði í eðlisfræðiprófinu í morgun?? Því ef svo er þá gæti ég fallið. Hvort ætli sé betri mælikvarði á gengi mitt í prófinu, mitt persónlega mat eða klaufaskapur minn við að borða hnetur? Ég er ekki viss, en þetta var langsamlega versta prófið hingað til. Úr öskunni í eldinn mundu vitrir menn segja.

Þá er bara að "safna liði og hefna" eins og vondi maðurinn* sagði fyrir næsta próf. Eina vandamálið er að það eru ca. 900 blaðsíður til prófs og það tekur mig 3 tíma að fara yfir hverjar 50, og ég er búin með 150 blaðsíður, þannig að ég þarf að læra í 45 klukkustundir án pásu til að komast yfir allt efnið og núna eru 36 og 1/2 klukkustund í próf... dæmið gengur ekki upp. Æi fokk it ég ætla bara að fara að dansa.

*Vésteinn

mánudagur, maí 10, 2004

Tveir tímar í próf! Þegar þetta er skrifað sit ég heima hjá mér sofin 4 tíma, stútfull af fróðleik. Próf í stærðfræðigreiningu IIB nálgast óðum. Ég held ég hafi sett met í samfelldri veru í skólanum í gær og er nýsett met 17 klukkustundir. Frá 10 í gærmorgun til 4 í morgun. Reyndar skrapp ég einu sinni að ná í pizzu en ég fór ekkert heim til mín á þessum tíma. Það var mjög indælt að keyra heim þegar sólin var að rísa, enginn bíll á götunum, þannig að ég og Dagný gátum áhyggjulausar farið í kappasktur upp Bústaðaveginn (ég veit, við erum svo villtar). Þegar ég síðan kom heim tókst mér að læra í 1 og 1/2 tíma í viðbót þannig að ég fór ekki sofa fyrr en 6 í morgun, og það er seint á minn mælikvarða. Nú ætla ég að ná mér niður fyrir prófið og lesa litlu minnismiðana mína :)

laugardagur, maí 01, 2004

Póstur dagsins er í nokkrum liðum því mér lá ýmsilegt á hjarta. Hver getur svo bara lesið um það sem hann hefur áhuga á.

[1. maí]
Mamma á afmæli í dag. Nokkrir ættingjar komu í heimsókn svona eins og gengur og gerist. Þegar allir voru farnir nema systir mömmu og maðurinn hennar ákveða þær að fá sér sérrý (kallarnir fá ekki). Ég hef þangað til nýlega verið með fóbíu fyrir að drekka áfengi með fjölskyldumeðlimum, kannski hrædd um að verða óvart full fyrir framan mömmu. Í dag er ég breytt manneskja og nota hvert tækifæri sem ég þarf ekki að keyra settið heim til að fá mér í glas með familíunni og sérríið var mjög gott. (framhald í næstu málsgrein)

[æskuminningar]
Fyrsta áfengistegundin sem ég komst upp á lagið með að drekka er sjerrí. Mamma fékk sér stundum með klaka út í þegar ég var lítil og síðan fékk ég að eiga klakann með sjerríbragðinu og mér fannst það ýkt gott. Síðan tók mamma sér sérrí-pásu í örugglega 7 ár þangað til núna, ó æskuminningar.

[próf]
Ég fór í fyrsta prófið mitt á fimmtudaginn var. Það er eins og Hákon Skjenstad orðar það "örugglega leiðinlegasti áfangi sem kenndur er í háskólanum" (sennilega fyrir utan fíluna hennar Svanhvítar samt). Fyrir viku kom það í bakið á mér að ég hafði ekkert lært í þessum áfanga í vetur og ALLTAF kóperað heimadæmi. Ég settist niður, bretti upp ermar og byrjaði að læra. Það má segja að ég hafi fengið það sem ég átti skilið í prófinu, lenti í tímahraki og vasareiknirinn gerði mig stressaða með því að kvarta yfir batterýsleysi. Ég býst samt við að ná. Eða samt ekki, ég gæti fengið 7 eða ég gæti fengið 3, það kemur bara allt í ljós.

[dans]
Ég skrapp í dans á fimmtudaginn. Einmitt þegar ég kom var argentískt par sem er að kenna á landinu í nokkra daga að sýna argentínskan tangó og milonga, og VÁ! Þetta er geðveikur dans og þau voru svo góð og hún fylgdi svo vel. Ég tímdi ekki að blikka augunum á meðan þau voru að dansa. Allur salurinn hreinlega gapti. Á eftir prófaði ég að taka nokkur spor með Hinna, hann sagði að dansinn væri flottur en eini gallinn væri að honum fyndist tónlistin leiðinleg. Hvernig er það hægt??? Mér fannst þetta bara æði.

[vígsla]
Um daginn vígði ég nýja bikiníið mitt og ég fór í fyrsta sinn á ævinni í Vesturbæjarlaug. Ekki sniðugt að blanda þessu tvennu saman. Nýja bikiníið keypti ég í útsölukassa í Debenhams, það er bleikt, grænt, gult og blátt og glansandi. Það er svo sérstakt að það er æðislegt. Kannski lýsir skoðun Svanhvítar því betur. Fyrst sagði hún að það væri ógeðslegt, síðan hló hún ógeðslega mikið að mér. Eftir smá stund sagði hún að það væri æðislegt, og lokaniðurstaðan var sú að ég liti út eins og diskókúla í því. Ég ætla rétt að vona að samlíkingin hafi verið sú að bikiníið er glansandi eins og diskókúla en ekki að ég hafi verið kúlulaga eins og diskókúla. Þá rak ég rassinn framan í hana, en hún hló bara meira.

[eðlisfræði]
Ég fékk eðlisfræðiskýrsluna sem lookaði til baka um daginn. Kennarinn var ekki par hrifinn, ég heyrði alveg hvernig hann öskraði á mig í gegnum kommentin í skýrslunni. Ég held að hann sé búinn að missa allt álit á mér, þetta er maðurinn sem heimtaði góða skýrslu. Núna hefur hann fengið að sjá mína sönnu liti.

[eftir próf dagur]
Eftir prófið á fimmtudaginn átti ég frábæran dag. Byrjaði á því að spæla mér tvö egg, þau voru svo falleg að ég tímdi varla að borða þau, en borðaði þau nú samt. Fór síðan að skipta afmælisgjöfum og fékk að kaupa mér dót án þess að eyða pening, það var æðislegt. Ég var búin að gleyma hvernig það er að geta farið í búðir og keypt eitthvað í staðin fyrir að skoða bara (eða máta eftir aðstæðum), tilfinningin er mjög góð, manni líður eins og maður sé ekki á kúpunni.

[draumur]
Í nótt dreymdi mig að ég ætti lítið barn. Það var fallegt sveinbarn. Ég hélt á honum út um allt, og alltaf þegar ég lét hann frá mér gleymdi ég honum. Síðan kúkaði hann í bleyjuna og ég átti bara auka bleyju en ekkert til að þurrka rassinn með, en þá hitti ég lækni. Hann fór og keypti klúta fyrir mig og ég þurrkaði skítinn af rassinum á barninu mínu og það var skítur út um allt, ógeðslega mikill skítur. Þegar ég sagði mömmu frá draumnum sagði hún, peningar! Og svo gleymi ég að lotta í dag. Talandi um að tapa 16+ milljónum á einum degi. Nema víkingalpttóið sé málið...

[bítlar]
Einu sinni gat ég talið upp öll lögin á öllum Bítlaplötunum í réttri röð. Þá þjáðist ég af Bítlamaníu (e. beatlemania) sem ég er viss um að er viðurkenndur sjúkdómur.

mánudagur, apríl 26, 2004

Mánudagseftirmiðdagur klukkan 18.30, klukkan tifar, ég lít á símann minn og bölva því að það sendi mér enginn sms svo ég hafi afsökun til að taka mér pásu til að svara, hnakkinn á Brynju lítur miklu betur út en stærðfræðidæmið, hungurverkurinn og stressverkurinn sameinast í einn stóran verk, það er heitt og kalt til skiptis, stólinn er óþægilegur, æ ég gleymdi að gata eitt blað, það er ekki sérlega mikilvægt en það má nú ekki vera útundan, best að rölta í hinn endann á bókasafninu og gata aumingja blaðið, ég þarf allvega ekki að læra rétt á meðan.

Lýsingin hér að ofan á við flestar mínar vökustundir, mínúturnar líða, hægar og hægar, stundum verður maður bara að gefa sál sína fyrir klukkutíma af aukaeinbeitingu.

Fyrir tveimur vikum ákvað ég að drekka ekki meira fyrir próf, það gekk í 9 daga. Ég hafði afsökun á föstudaginn, ég fór í afmæli til Elínar og allir hinir voru að drekka. Það var gaman og það var meira gaman af því að ég var full, og það er gaman að drekka.

Dans í kvöld, gaman gaman. Ég reiknaði gamalt próf í lík&töl í dag (sem er á fimmtudaginn) og gat 2 og 1/2 dæmi af 6 sem þýðir að ég þarf bara að geta 1/2 í viðbót til að ná, gaman gaman. Því takmarki skal náð á morgun. Ég fékk 10 fyrir eðlisfræðiskýrsluna mína, gaman gaman, en ekki fyrir "eðlisfræðileg gæði" hennar þó, heldur ég tekkaði hana svo fínt (sem þýðir fyrir þá sem ekki vita humm humm setja í latex). Það er svo gaman að fá einkunn fyrir lookið en ekki innihaldið, það má alveg alltaf vera svoleiðis í eðlisfræði, það væri gaman gaman.

föstudagur, apríl 23, 2004

Það er allt að gerast. Verðandi japönskutalandi áhugamanneskja um lyf fæddist á þessum degi fyrir 2 tugum og 1 einu ári síðan. Til hamingju með daginn! Þjóðarskáldið fæddist einnig á þessum degi fyrir miklu fleiri tugum síðan, ég fæddist fyrir 21 ári og 3 dögum, allt að gerast, ég er að segja það.

Fór í lengsta stærðfræðitíma lífs míns í dag klukkan 3, gekk út tæpum þremur tímum síðar með hausinn fullan af vitneskju og andann fullan af löngun í bjór, samviskuna lemjandi andann fyrir að langa í bjór, hugann í sólbaði á norskri bryggju, þvagblöðruna fulla.... o.s.frv.

Afmælisdagurinn var hinn ágætasti, þeir sem þekkja mig vita að þetta er ekki uppáhaldsdagurinn minn á árinu en í þetta sinn var dagurinn góður. Ég fór með tveimur vitleysingum með kreditkort í Perluna að borða, köllum þá foreldri 1 og foreldri 2. Diffrum með tilliti til t og finnum normalvigursvið. Það var hin ágætasta skemmtun bæði fyrir mig og bragðlaukana mína, fannst við reyndar snúast frekar hratt, kannski var það bara grönne tuborg. Seinna um kvöldið kom krúið í heimsókn og ég fékk pakka. Og blés á 21 eitt kerti, því miður náði ég bara að slökkva á 20.

Takk allir sem mundu eftir afmælinu mínu :)

sunnudagur, apríl 18, 2004

Rólegasta helgi í heimi, og það var bara voða næs. Ég var ýkt dugleg að læra, tekkaði hálfa eðlisfræðiskýrslu og alls konar skemmtilegt. Í gærkvöldi fór ég með mömmu og pabba í mat til Stellu frænku, það var heví næs maður. Við byrjuðum ekki að borða fyrr en um 9 og vorum að raða í okkur til hálf 12. Það sátu allir við borðstofuborðið og voru að spjalla og gríðarleg stemning skapaðist. Það var svo mikið hlegið að það var eins og við værum með live-studio-audience í stofunni til að hlægja með/fyrir/að okkur. Ég hafði planað að kíkja á Felix þar sem Atli var eitthvað að DJ-ast til miðnættis, en ég vildi ekki brake up the party allt of snemma og náði því ekki á Felix fyrr en 5 mínútur í og heyrði eitt lag. Fékk síðan að keyra mannskap og græjur upp á Vesturgötu, var Þura hjálpsama :). Ég vil þakka Atla og Tona fyrir að hafa labbað, Ellu fyrir að hafa haldið á græjunum, Svanhvíti fyrir að hitta foreldra mína í Smáralindinni (þú græddir a.m.k. einn viðskiptavin), Áslaugu fyrir að vera gella og Steina fyrir bílferðina.

Í morgun vaknaði ég klukkan hálf 9 og fór í Hreyfingu og síðan að læra, geri einhver betur!

föstudagur, apríl 16, 2004

Heimadæmi númer tvö á þrem dögum í burðarþolsfræði, dónaskapurinn í þessum manni, helst langar mig að sparka í hann. En ég ætla ekki að gera það, ástæða: ég er of hamingjusöm til að láta svona draga mig niður, ástæða 2: það gæti varðað brottvikningu. Hvers vegna er ég hamingjusöm? Jú ég er búin að fá vinnu fyrir sumarið eða þær 6 vikur sem mér þóknast að vinna áður en ég heiðra 3 lönd með nærveru minni (face Svanhvít! og ég fór til London í janúar). Úff hvað ég hljóma eins og ég sé að reyna að láta rigna upp í nefið á mér (hvernig hljómar það?). Ó vell ég er í góðu skapi, nettur prófkvíði í mér, var í Hreyfingu þar sem ég gekk fram af sjálfri mér, borðaði síðan góðan mat, hef aðgang að nettengdri tölvu, það er til blátt ópal, öll helstu líffæri virka, ég á nasa rúm, Bob Dylan finnst gaman að læra greiningu með mér, ég á góða fjöskyldu og vini og nóg að borða og þak yfir höfðið og what's not to like??? Ég missti mig þarna aðeins í hamingjuupptalningunni. Vá hvað mörg batman quote komu upp í kollinn núna.

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Hneyksl! Geiri hélt upp á afmælið sitt í gær og hann bauð mér ekki!!!! Ég sem hélt að við værum svo miklir buddies, en nei nei, Þuru var ekki boðið.

Úff, það var gott að koma þessu frá sér. Páskafríið búið og svona, tími kominn að tjalda í VR á bókasafninu.

Í gær fór ég í fermingarveislu, alveg óvænt, ég vissi ekkert af henni. Til að leiðast ekki hafði ég það að markmiði mínu að tala við alla sem ég þekkti í veislunni, allar frænkurnar og mennina þeirra, fékk að halda á eins árs frænku minni Avril Aþenu sem er 1/4 íslensk, 1/4 mexíkósk og 1/2 kólombísk og svakalega sæt. Fljótlega var ég búin að tala við alla nema einn, Guðmundur Edgarsson ensku og stærðfræðikennari í MH var á svæðinu. Ég hugsaði að þetta gæti orðið athyglisvert. Ástæða: Ég þekki manninn ekki neitt, hef aldrei verið í tíma hjá honum og hef aðeins og eingöngu haft samskipti við hann í gegnum gerð busamyndarinnar frægu haustið 2002 þar sem ég og fleiri (og fleiri) spreyjuðum blóði á manninn meðan hann öskraði sem óður væri með vélsög í hönd, og þar af leiðandi vissi ég ekkert hvað ég gæti mögulega sagt við hann.

Anyway, þá "náði ég honum" þegar hann var að ná í kaffi handa kærustunni (heví gellu enskukennarinn sem ég veit ekki hvað heitir) og byrjaði að spjalla. Við töluðum svosem ekki um neitt merkilegt, nýju vinnuna hans, háskólann og bara svona hefðbundið. Eftir smá tíma sagði hann lúpulegur "ég verð víst að fara með kaffið til... já bless" og fór með kaffið til gellunnar. Ég glotti bara, en þegar ég fór að pæla í því þá fattaði ég að það var ég sem spurði hann út úr en ekki öfugt, ég hlýt að hafa virkað svaka ágeng... *hugs* En tilganginum var náð, mér leiddist ekki í veislunni.

Talandi um gamla kennara, ég rakst á einn í dag sem kenndur var við bókstaf á sínum tíma og við rifjuðum upp gömul kynni (ath. Héðinn ég svaf ekki hjá honum!). Þeir sem vilja vita meira geta bara hringt í mig ;)

sunnudagur, apríl 11, 2004

Ég held áfram að skrifa um mitt æsispennandi líf án þess að neinn kommenti, ef þið bara vissuð hvað það er spennandi!!!

Ég held að ég sé eitthvað að ruglast, eftir 11 tíma svefn í nótt + 2 tíma svefn í dag dustaði ég rykið af stærðfræðibókinni og reiknaði grein 12.8 sem átti að reiknast vikuna 13. til 19. febrúar, þvílíkur dugnaður. Tók síðan þátt í fjareldun í gegnum sms samskipti við móður mína, hagnaðurinn var tvíþættur, ég lærði að elda og mamma æfði sig að senda sms.

Mamma er ótrúleg. Pabbi gaf henni síma í valentínusargjöf og síðan þá hef ég unnið í sjálfboðavinnu við að kenna henni að senda sms, lesa sms, setja númer í símaskrána og fleira nauðsynlegt. Núna var hún að koma og gefa mér páskaegg, hún er nú alveg ágæt. Ég fékk málsháttinn: Hverjum þykir sinn fugl fagur sem er fyndið því fyrr í vikunni komu amma, Haukur, Jemer og Baldvin litli frændi í mat og þá fengu allir páskaegg númer 1 frá ömmu og þá fékk ég sama málshátt. Hver er þessi fugl minn sem mér þykir svona fagur???

Ég fór aðeins að djamma á föstudaginn langa, bara smá, það opnaði nebblega á Ara fyrir 12 og ég skellti mér með Stebba og vinum hans. Þeir voru heví næs og 2 af 3 keyptu bjór handa mér :) Það er ekki leiðinlegt að fá bjór. Eina leiðinlega var að ég asnaðist til að labba ein heim til mín, það stoppaði jeppi og bauð mér far en ég afþakkaði því mér leist ekkert á fertugan Oddgeir og félaga hans, vildi frekar vera blaut og köld.

Gleðilega páska, ég og eggið mitt ætlum að horfa á sjónvarp núna á meðan annað étur hitt!

föstudagur, apríl 09, 2004

Í dag er dagurinn sem er bannað að gera nokkuð á, eða það segir mamma að afi sinn hafi sagt. Þar sem ég hef ekki haft neitt að gera í allan dag (eða þessa 5 tíma sem ég er búin að vera vakandi) þá ákvað ég að búa til nýtt myndaalbúm með myndum úr partýinu hjá Jónatani fyrir einum og hálfum mánuði eða eitthvað. Ég var að fatta að ég er búin að nota myndavélina mína svakalega lítið undanfarið, sem bendir kannski til að ég drekki of mikið. Neee það getur ekki verið.

Það er skemmtileg mynd (athugið skemmtileg, ekki góð) mynd af mér og Brynju á Jógúrt síðunni, við erum að segja "kjöt" því Svava Dóra kenndi mér að maður ætti að segja kjöt ef maður ætlar að vera sexý á mynd. Nema hvað það virkaði ekki!!!! Hvað klikkaði hjá okkur?

Hinar bland í poka myndirnar eru flestar annars mjög góðar/skemmtilegar.