mánudagur, desember 27, 2004

Eggin hennar Þuru

Það gerðist! Ég gjörsamlega toppaði sjálfa mig í slæmri eldamennsku. Er hægt að gera verr? Þau tvö skipti sem ég hef "soðið" kartöflur án vatns eru hátíð miðað við það sem ég gerði í gær. Ég ætla að lýsa atburðarásinni eins nákvæmlega og ég get.

Annar dagur jóla, hádegi, Þura ætlar að spæla sér tvö egg í hádegismat. Ég stend við pönnuna, eggina spælast, brauðið er komið í brauðristina, ekkert mál. Fljótlega fer ég að finna skrítna lykt af eggjunum. Það finnst mér skrítið því ég hafði borðað egg úr sama eggjabakka daginn áður og þau voru fín. Ég stend áfram við pönnuna og lyktin magnast, mér hættir að lítast á blikuna Ætli olían sé útrunnin? hugsa ég. Ákveð að ná í mömmu og fá hana til að lykta af eggjunum og meta hvort ég ætti að henda þeim. Mamma kemur inn í eldhús og hún samþykkir að það sé skrítin lykt af eggjunum mínum. Henni finnst þetta líka furðulegt því hún hafði borðað egg úr umræddum eggjabakka fyrr um daginn sem höfðu verið óvenju bragðgóð. Þetta er ekki lykt af úldnum eggjum, þetta er meira eins og grútarlykt! segir mamma. Síðan rennur upp fyrir henni ljós, hún réttir úr sér og horfir fast á mig.

Þura, spældirðu eggin uppúr lýsi?

Engin ummæli: