laugardagur, maí 01, 2004

Póstur dagsins er í nokkrum liðum því mér lá ýmsilegt á hjarta. Hver getur svo bara lesið um það sem hann hefur áhuga á.

[1. maí]
Mamma á afmæli í dag. Nokkrir ættingjar komu í heimsókn svona eins og gengur og gerist. Þegar allir voru farnir nema systir mömmu og maðurinn hennar ákveða þær að fá sér sérrý (kallarnir fá ekki). Ég hef þangað til nýlega verið með fóbíu fyrir að drekka áfengi með fjölskyldumeðlimum, kannski hrædd um að verða óvart full fyrir framan mömmu. Í dag er ég breytt manneskja og nota hvert tækifæri sem ég þarf ekki að keyra settið heim til að fá mér í glas með familíunni og sérríið var mjög gott. (framhald í næstu málsgrein)

[æskuminningar]
Fyrsta áfengistegundin sem ég komst upp á lagið með að drekka er sjerrí. Mamma fékk sér stundum með klaka út í þegar ég var lítil og síðan fékk ég að eiga klakann með sjerríbragðinu og mér fannst það ýkt gott. Síðan tók mamma sér sérrí-pásu í örugglega 7 ár þangað til núna, ó æskuminningar.

[próf]
Ég fór í fyrsta prófið mitt á fimmtudaginn var. Það er eins og Hákon Skjenstad orðar það "örugglega leiðinlegasti áfangi sem kenndur er í háskólanum" (sennilega fyrir utan fíluna hennar Svanhvítar samt). Fyrir viku kom það í bakið á mér að ég hafði ekkert lært í þessum áfanga í vetur og ALLTAF kóperað heimadæmi. Ég settist niður, bretti upp ermar og byrjaði að læra. Það má segja að ég hafi fengið það sem ég átti skilið í prófinu, lenti í tímahraki og vasareiknirinn gerði mig stressaða með því að kvarta yfir batterýsleysi. Ég býst samt við að ná. Eða samt ekki, ég gæti fengið 7 eða ég gæti fengið 3, það kemur bara allt í ljós.

[dans]
Ég skrapp í dans á fimmtudaginn. Einmitt þegar ég kom var argentískt par sem er að kenna á landinu í nokkra daga að sýna argentínskan tangó og milonga, og VÁ! Þetta er geðveikur dans og þau voru svo góð og hún fylgdi svo vel. Ég tímdi ekki að blikka augunum á meðan þau voru að dansa. Allur salurinn hreinlega gapti. Á eftir prófaði ég að taka nokkur spor með Hinna, hann sagði að dansinn væri flottur en eini gallinn væri að honum fyndist tónlistin leiðinleg. Hvernig er það hægt??? Mér fannst þetta bara æði.

[vígsla]
Um daginn vígði ég nýja bikiníið mitt og ég fór í fyrsta sinn á ævinni í Vesturbæjarlaug. Ekki sniðugt að blanda þessu tvennu saman. Nýja bikiníið keypti ég í útsölukassa í Debenhams, það er bleikt, grænt, gult og blátt og glansandi. Það er svo sérstakt að það er æðislegt. Kannski lýsir skoðun Svanhvítar því betur. Fyrst sagði hún að það væri ógeðslegt, síðan hló hún ógeðslega mikið að mér. Eftir smá stund sagði hún að það væri æðislegt, og lokaniðurstaðan var sú að ég liti út eins og diskókúla í því. Ég ætla rétt að vona að samlíkingin hafi verið sú að bikiníið er glansandi eins og diskókúla en ekki að ég hafi verið kúlulaga eins og diskókúla. Þá rak ég rassinn framan í hana, en hún hló bara meira.

[eðlisfræði]
Ég fékk eðlisfræðiskýrsluna sem lookaði til baka um daginn. Kennarinn var ekki par hrifinn, ég heyrði alveg hvernig hann öskraði á mig í gegnum kommentin í skýrslunni. Ég held að hann sé búinn að missa allt álit á mér, þetta er maðurinn sem heimtaði góða skýrslu. Núna hefur hann fengið að sjá mína sönnu liti.

[eftir próf dagur]
Eftir prófið á fimmtudaginn átti ég frábæran dag. Byrjaði á því að spæla mér tvö egg, þau voru svo falleg að ég tímdi varla að borða þau, en borðaði þau nú samt. Fór síðan að skipta afmælisgjöfum og fékk að kaupa mér dót án þess að eyða pening, það var æðislegt. Ég var búin að gleyma hvernig það er að geta farið í búðir og keypt eitthvað í staðin fyrir að skoða bara (eða máta eftir aðstæðum), tilfinningin er mjög góð, manni líður eins og maður sé ekki á kúpunni.

[draumur]
Í nótt dreymdi mig að ég ætti lítið barn. Það var fallegt sveinbarn. Ég hélt á honum út um allt, og alltaf þegar ég lét hann frá mér gleymdi ég honum. Síðan kúkaði hann í bleyjuna og ég átti bara auka bleyju en ekkert til að þurrka rassinn með, en þá hitti ég lækni. Hann fór og keypti klúta fyrir mig og ég þurrkaði skítinn af rassinum á barninu mínu og það var skítur út um allt, ógeðslega mikill skítur. Þegar ég sagði mömmu frá draumnum sagði hún, peningar! Og svo gleymi ég að lotta í dag. Talandi um að tapa 16+ milljónum á einum degi. Nema víkingalpttóið sé málið...

[bítlar]
Einu sinni gat ég talið upp öll lögin á öllum Bítlaplötunum í réttri röð. Þá þjáðist ég af Bítlamaníu (e. beatlemania) sem ég er viss um að er viðurkenndur sjúkdómur.

Engin ummæli: