[húfublogg]
Ég ræð hreinlega ekki við þessa bloggáráttu mína, ég stenst engan vegin freistingar bloggsins. Umræðuefni dagsins er húfur.
Ég fór í stúdentaveislu hjá frænku minni í gær og notaði tækifærið til að vera með stúdentahúfuna mína. Ég fílaði mig í tætlur og öllum fannst ég ýkt flott. Ég hef alltaf fílað hatta, sérstaklega svona júniform hatta. Fyrst þegar ég ákvað að fara í verkfræði gaf ég alltaf þá skýringu að mig langaði svo að vera í vinnu þar sem ég gæti gengið með hjálm. Pabba fannst reyndar að ef þetta væri ástæðan þá ætti ég frekar að gerast smiður. Á leiðinni heim úr veislunni var ég eitthvað að spjalla við mömmu og pabba og missti út úr mér að ég væri næstum til í að vera í ár í lögregluskólanum bara til að fá fína húfu. Þá lagði pabbi til að ég færi frekar í lögfræði og gerðist sýslumaður einhversstaðar, þá gæti ég nú verið með aldeilis flotta húfu og síðan fór hann að tala um einhverja gellu sem er sýslumaður einhversstaðar og hvað hún væri flott í júniforminu sínu.
Fleiri störf sem ég hef íhugað vegna þess að þeim fylgir húfa er skipstjóri, strætóbílstjóri, flugmaður, herforingi, sjóliði, andspyrnuleiðtogi og auðvitað kúreki nema hann er með hatt. Eftir að vera búin að pæla of mikið í þessu húfudæmi þá er ég komin að þeirri niðurstöðu að ég hafi valið mér eina starfsvettvanginn þar sem maður fær ekki að hafa sérstakt höfuðfat eða búning, hvað var ég að spá??
Talandi um búninga, mér finnst karlmenn í búningum mjög flottir. Ekki samt öryggisverðir, strætóbílstjórar, kokkar og löggur í venjulega gallanum. Hvaða stelpa slefar ekki yfir manni í flugmannsbúningi eða sjóliða???
Meðan ég man, ég rakst á eitt merkilegt í morgun þegar ég var að lesa blöðin. Ég fann krassið mitt í Birtu. Ekki krass eftir mig samt en svona alveg eins og ég geri þegar ég tala í símann. Venjulega finnst mér lítið mark takandi á svona persónuleikaprófum, svona eins og ef þú horfir á Gísla Martein þá ertu skapandi týpa. En í þetta skiptið verð ég að viðurkenna að þeir náðu mér. Við krotið mitt stendur m.a. Þessi manneskja vill hafa hlutina í kassa, eða ákveðnum ramma, er formföst, vill stjórna innan síns ramma og hafa hlutina eftir sínu höfði...verður stundum að gæta orða sinna til að vera ekki særandi, einkum við sína nánustu.
Þetta finnst mér magnað.
sunnudagur, maí 23, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli