þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Grundvallar-

Ég smurði mér samloku um daginn. Hún var ágæt. Hún var með osti, skinku, tómati, feta-osti og dash af tómatsósu. Ég grillaði hana í samlokugrilli þangað til osturinn var farinn að krauma. Ég var frekar þreytt þegar ég smurði umrædda samloku, og ekkert í voðalega góðu skapi.

Nokkrum dögum áður en þetta gerðist smurði ég mér samskonar samloku. Notaði sama hráefni og grillaði jafn lengi. En þá var frekar létt yfir mér, ég raulaði lag um skrifstofukonur á meðan ég hrúgaði á samlokuna og ég nostraði við samlokuna. Ég held ég geti sagt með góðri samvisku að ég hafi búið samlokuna til með alúð. Þessi fyrri samloka var dásamlega bragðgóð.

Það sem ég lærði á þessari lífsreynslu og vissi ekki áður: Matur sem er búinn til með alúð er betri en matur án alúðar.

Til að gá hvort ég hefði rétt fyrir mér þá gúglaði ég þetta og viti menn, rifin á Ruby Tuesday eru elduð "af mikilli alúð" enda eru þau mjög góð þ.a. þetta stemmir allt saman. Sjá Ruby's Premium BBQ Ribs á matseðli.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Male bonding

Það er margt í þessum heimi sem ég skil ekki. Þessari fullyrðingu þyrfti eiginlega að fylgja listi með nokkrum atriðum, en akkurat núna dettur mér ekki neitt í hug. Nú nema auðvitað umfjöllunarefni þessarar færslu, male bonding.

Ég finn ekki neitt nógu gott íslenskt orð yfir male bonding þ.a. ég ætla að halda mig við enskuna. Ef þetta blogg verður mjög langt þá fer ég kannski að skrifa m.b.

Wikipedia útskýrir male bonding sem einskonar vináttu milli karlmanna sem byggist upp á því að þeir gera eitthvað saman, öfugt við vináttu kvenna sem grundvallast á emotional sharing. Ókei, ég geri ráð fyrir að lesendur séu kunnugir hugtakinu male bonding. Hér kemur parturinn í blogginu þar sem ég hætti að þvaðra um orðið male bonding og byrja að þvaðra um... hvað segir maður.... athöfnina / meininguna / gjörninginn male bonding.

Þetta blogg átti að vera upphitun fyrir næsta texta sem ég þarf að skrifa. Úff, það verða eitthvað skrautleg skrif . Mér líður eins og ég sé 5 - 12 undir í handboltaleik. Það er eins gott að ég taki þrusugóða sálfræðiræðu á "liðið mitt" í hálfleik.

Ókei, núna skrifa ég bara það sem ég skil ekki. Þegar ég tala við yfirmanninn minn þá ætlast ég til þess að við skiptumst á orðum. Oft er það of mikils til ætlast. Til dæmis þegar hann og Beggi eru að "hafa samskipti" um eitthvað verkefni þá heyrist ekki neitt, nema í mesta lagi skrjáf í pappír. Svo þegar 139 og Beggi eru búnir að þegja saman í gott korter, horfa á tölvuskjáinn hans Begga og fletta blöðum, þá labbar 139 út og Beggi fer að vinna á fullu, augljóslega sáttur við allar upplýsingarnar sem hann fékk í "spjallinu".

Ef þetta er ekki male bonding... þá er ég reyndar með aðra útskýringu á reiðum höndum. Kannski sendir 139 Begga hugskeyti...

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Öskudagur í partýherberginu

Á mánudaginn fékk ég hugdettu "hei Beggi, mætum í búningum á öskudaginn!" Eða var það öfugt, kannski sagði hann það við mig.

Á þriðjudag sendi eftirfarandi póst til starfsfólks fyrirtækisins sem ég vinn hjá:

Kæra samstarfsfólk,

Á morgun er sérstakur dagur, öskudagur. Af því tilefni verður boðið upp á sælgæti í partýherberginu (fyrir miðri 5. hæð) fyrir þá sem koma og syngja eða bregða á leik á annan hátt.

Að vera í búning er góð skemmtun.

Yfir og út


Ég bjóst ekki við neinum undirtektum, ég vinn jú á verkfræðistofu, en mig vantaði átyllu til að nota Bítlajakkann minn.

Á miðvikudag, öskudag (í dag) mætti ég í vinnuna í jakkanum "the jacket" og það leit einhvern vegin svona út:

Mér til mikillar gleði kom Beggi líka í búning (hann vantaði greinilega líka átyllu til að nota Indíana Jones hattinn sinn). Enginn annar var í búning, en vöktu okkar búningar mikla lukku.

Ég var með nammi í skál á skrifborðinu mínu til að gefa þeim sem kæmu að syngja eða skemmta mér á annan hátt. Það komu 5 einstaklingar / hópar og sungu fyrir vistmenn partýherbergisins (mig og Begga) misvel þó. Það skiptist þannig upp að tveir sungu klámvísur, tveir sungu leikskólalög og kvartet rauðhærðra starfsmanna fyrirtækisins söng lag fyrir kvartet. Já og svo komu nokkrir hópar barna og sungu fyrir okkur.

Fleiri myndir má sjá á http://www.flickr.com/photos/aulabarn/

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Eins og hellisbúi nema bara upprétt

Hér kemur alsönn saga af félagslegu sjálfsmorði sem ég framdi á dögunum. Mikið ritskoðuð þó.

Í lok nóvember kom að máli við mig kona. Erindi hennar kom mér nokkuð á óvart. Hún bað mig um að vera með skemmtiatriði á árshátíð verkfræðingafélagsins í febrúar. Reyndar ekki atriði eitthvað að eigin vali heldur ákveðið atriði sem ég hafði flutt í vinnunni stuttu áður. Ég fór eiginlega bara að hlæja, ég með skemmtiatriði, hefur heimurinn snúist á hvolf. Í nóvember virtist febrúar afar fjarlægur og ég hugsaði með mér að ég hefði nægan tíma til að redda þessu þannig að skynsama rökrétta stelpan ég sagði já. Þar með var ég bókuð, sjá dagskrá.

Tíminn frá lok nóvember til byrjun febrúar þaut framhjá eins vetnisstrætisvagn að reyna að halda áætlun. 1. febrúar var ég vægast sagt orðin stressuð, árshátíðin skammt undan og mér fannst ég bara ekki vera neitt skemmtileg. Ég æfði samt rulluna mína, staðráðin í að mæta og standa eða falla með eigin frammistöðu. Mörgum vikum áður var ég búin að ákveða í hverju ég ætlaði að vera (jei allavega eitt atriði á hreinu). Markmiðið var að líta út eins og leikkona frá fimmta áratugnum, sem betur fer er ég ein til frásagnar um hvernig það tókst til.

Ég og Guðrún Helga (takk fyrir að koma) mættum á árshátíðina eins seint og við þorðum. Þegar við gengum inn í súlnasalinn tókum við eftir því að við pössuðum ekkert svakalega vel inn í þennan hóp af +40 ára, uppáklæddu, stífu fólki. Ég var með hjartað í buxunum, hvernig átti þetta fólk að skilja mig þegar mitt eigið fólk skilur mig vanalega ekki. Ég var dáldið stressuð.

Við áttum sæti við svokallað háborð, settumst á endann og fylgdumst með öllum hinum segja "gleðilega hátíð" í gríð og erg, því árshátíðin var jú hátíð. Þegar ég fór að líta í kringum mig og spotta frægt fólk þá magnaðist stressið. Þetta voru svo óeðlilegar aðstæður. Það var ég sem átti að sitja og drekka og hlusta á annað fólk gera sig að fífli en ekki öfugt... eins og nú var raunin.
Forréttur var borinn fram og nokkur leiðinleg stíf atriði í dagskránni fóru fram, til dæmis heiðursveitingar (þar sem verkfræðingar eru heiðraðir fyrir vel unnin störf) og fjöldasöngur (þar sem var lífsins ómögulegt að fylgja með). Svo kom að mínum parti.

Ég hafði hitt veislustjórann fyrr um daginn og hann hafði þá fullvissað mig um að hann myndi kynna mig með því að spjalla létt um atriðið og grínast smá. Ég var því viss um að hann myndi létta brúnina á áhorfendum. Þegar að mér var komið fór veislustjórinn upp í púltið, setti á sig lesgleraugun og ræskti sig. Því næst sagði hann að næst væri komið að skemmtiatriðinu “Verkfræðingar og tíska” flutt af Þuríði Helgadóttur.

Ef ég var ekki nógu stressuð fyrir þá fékk ég við þetta algjört sjokk, var þetta létta og skemmtilega intro-ið mitt!!! Ekkert annað var í stöðunni heldur en að arka upp á svið og ljúka þessu af. Ég fór upp á svið, náði mér í hljóðnema og tók óþægilega mikið eftir dauðaþögninni sem ríkti í salnum. Sem betur fer kunni ég atriðið aftur á bak og áfram (ákvað þó að flytja það áfram) og áður en ég vissi af var fólk farið að klappa og ég gat farið niður af sviðinu.

Þegar ég settist aftur í sætið kom sjokk númer tvö, hló einhver? Mér fannst eins og heyra mætti saumnál detta meðan ég var þarna uppi. Þeir sem sátu með mér á borði gerðu sitt besta að fullvissa sig um að ég hefði komist upp með þetta og að það hefði ekki verið möguleiki á að heyra saumnál detta.

Ah, ég hallaði mér aftur á bak og þáði meira vín. Ég hafði staðist manndómsvígsluna, ég stóð upprétt.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Aðdragandi að ákvörðun

var með umhugsunar millileik í appelsínunum.

(how do you like them apples?)

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Skotveiðimenn

Hver ykkar bað mig um að láta vita að það er komið fax með Waffenbesitzkarte?

(Silla 2007)

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Margar stelpur / fáar stelpur

Ég sagði við pabba minn um daginn að ég væri að fara að hitta nokkrar stelpur. Hann spurði hvort stelpurnar væru margar eða fáar. Þegar ég sagði fáar þá kom í ljós að hugtakið "fáar stelpur" hafði alls ekki sömu merkingu í okkar hugum. Mér fannst þetta dáldið fyndið og ákvað að spurja hann nánar út í málið. Hér fyrir neðan birti ég niðurstöður þeirrar óvísindalegu rannsóknar.

fáar stelpur = 2 - 3
margar stelpur = fleiri en 200
...svona almennt séð.

Svo kemur surprising plot twist:

Ef þær eru skemmtilegar þá eru 200 stelpur frekar fáar stelpur, en ef þær eru leiðinlegar þá eru 5 - 6 alltof margar.

Athyglisvert, eh ?

Næst ætla ég að spurja "Er ég fá stelpa eða mörg stelpa?"

laugardagur, febrúar 03, 2007