mánudagur, desember 31, 2007

sunnudagur, desember 30, 2007

Tvö líf

Komin og farin.
Farin og komin aftur.
???

Farin að heiman og komin heim og svo farin aftur heim.
?????

Ég fór til Íslands föstudaginn fyrir jól (21. des).

kl. 04.50 Lagði af stað í burtu frá nístandi London kuldanum
kl. 06.15 Endalaus röð á Gatwick (því tösku-belti hafði bilað)
kl. 07.50 Út í flugvél sem seinkaði um 1,5 klst vegna þoku
kl. 12.20 Mjúk lending á skerinu, komst að því að það var mun hlýrra á Íslandi heldur en í London
kl. 13.40 Milli lífs og dauða aftur, leið eins og ég hefði aldrei farið neitt, að síðustu 3 mánuðir hefðu bara verið draumur
kl. 14.20 Mætti boðin / óboðin í jólakaffi Almennu verkfræðistofunnar
kl. 16.20 Heimsókn til ömmu
kl. 18.30 Heim, alvöru sturta (vúhú), welcome home dinner (soðinn þorskur, hvað annað)
kl. 20.00 Blundur
kl. 22.00 Partý hjá Svanhvíti (umræður um pólitík í koníaksstofunni og þvíumlíkt)
kl. 01.00 Kúltúra
kl. 02.00 Kofinn
kl. 05.10 Kom að lokaðri lúgu á bæjarins bestu, þá leigubílaröð í 1,5 klukkutíma
kl. 06.40 Heim sofa í mínu eigin rúmi vúhú!

Hafði það svo rosa gott í viku í viðbót á skerinu. Reyndi að vera sem mest í náttfötum uppí sófa (því það eru ekki sófar í sameinaða konunsríkinu). Er komin aftur til köldu London (að læra því þegar maður er í 1 árs master þá er ekkert sem kallast frí).

Bestu jóla- og áramótakveðjur til allra sem ég hitti og hitti ekki, hafið það sem best guys!

Knús og cheers, Þura

p.s. Það er dáldið skrýtið að vera komin aftur í nýja lífið í London eftir heimsókn í gamla lífið í Reykjavík.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Jólastemning í Lundúnum

Um síðustu helgi var Frost Fair við Tate Modern á suðurbakkanum. Þar voru fullt af básum að selja allskonar dót, lifandi tónlist og fullt af fólki. Skemmtilegt að ramba á svoleiðis þegar maður er bara á leiðinni í skólann. Hér er tónlistarsviðið undir köngulónni: Krúttlegir tónlistarmenn:
Við Covent Garden markaðinn var líka jólastemning. Jólaskraut úti um allt, heitt súkkulaði selt úti á götu og nokkrir götulistamenn, eins og þessi stelpa sem gerði alls konar æfingar hangandi í stórri blöðru:
Eins og það sé ekki nóg af fólki á Oxford Street dagsdaglega, fyrir jólin er miklu meira af fólki:
Svo má ekki gleyma öllum hauga-drukknu jólasveinunum sem ráfa um götur borgarinnar rétt fyrir jól. Þá er ég að tala um sóðalega pissfullir jólasveinar, og fullt af þeim, klukkan svona 4 eftir hádegi (ekki um nótt). Þeir hella í sig bjór (Tuborg sýndist mér) og öskra og hafa hátt og sumir þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar. Ég náði ekkert voða góðri mynd, en þarna sést hópur og þarna á bakvið var örugglega hundrað sveina hópur:

Þetta voru London-jóla-myndirnar, því sem ég náði ekki mynd af verður ekki sagt frá.

Over and out

p.s. Núna er búið að þrífa teppið í herberginu mínu með efni sem lyktar ógeðslega svo ég verð að hafa gluggann opinn til að lofta út og frjósa EÐA kafna úr vondri lykt.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Kalt brrrrrrr

Á hurðinni í herberginu mínu stendur að ofninn inni í herberginu fari sjálfkrafa í gang ef hitinn í herberginu fer niður fyrir 16°. Ofinn er í gangi núna. Það er líka ógeðslega kalt hérna inni. Ég sit við skrifborðið að læra (eða blogga núna því lyklaborðið er það eina sem er hlýtt) í flíspeysu og lopapeysu. Með sæng yfir mér og í ullarsokkum. Brrr er að frjósa. -2° til +5° kuldi í London í dag samkvæmt BBC síðunni.

Hlakka til að fara til Íslands þar sem húsin eru í alvörunni upphituð! Kem á föstudaginn og verð í viku (þ.e. 21. - 28. des). Vúhú!

Annað, ég segi óvart alltaf að ofninn inni hjá mér sé oven, en hann er það ekki hann er heater. Fólk heldur að ég sé að gera grín að því eða að ég sé svakaleg ljóska... *hristi hausinn*

Já og það var verið að selja jólatré á Portobello-markaðnum um síðustu helgi:

Ég hafði miklar áhyggjur af því hvernig fólk tæki svona jólatré með sér heim (þar sem fæstir virðast vera á bíl), en fólk virtist ekki vera í vandræðum með að halda á 1,5 m jólatré (og rölta um).

mánudagur, desember 17, 2007

Nýjungar?

Við Arna fórum út að borða um daginn á sunnudagskvöldi. Kærastinn hennar hafði verið í heimsókn hjá henni um helgina, en hafði farið heim með kvöldvélinni. Við þurftum auðvitað að hittast og fara yfir málefni líðandi stundar, eins og gengur. Við völdum veitingastað við suðurbakkann sem sérhæfir sig í kjúklingi, fínn matur. Þegar maturinn er rétt kominn á borðið og ég byrjuð að troða í mig segir Arna:

'Mér er svo illt í litlu tánum eftir helgina.'

Ég læt gaffalinn síga og lít á hana. Hún heldur áfram:

'Já ég er komin með risa-blöðrur á hliðarnar á litlu tánum.'

Ég kyngi kjúklingnum. Hún heldur áfram að lýsa áverkunum á tánum á sér og notar handahreyfingar til að útskýra hvernig blöðrurnar líta út.

Ég píri augun meðan ég fylgist með lýsingunni. Ennið á mér byrjar að hrukkast og ég horfi stíft á hana. Svo ræski ég mig og segi:

'Er þér illt í TÁNUM eftir helgina? Er eitthvað nýtt í kynlífinu sem ég veit ekki um?'

Arna skellir upp úr og útskýrir:

'Hugsar þú ekki um annað en kynlíf dóninn þinn! Nei mér er illt í tánum eftir allt LABBIÐ um helgina!!'

fin

miðvikudagur, desember 12, 2007

laugardagur, desember 08, 2007

Viðbót við færslu 18. nóvember síðastliðinn

Gamla konan við barinn sem myndin er af, já þessi eldgamla með græna drykkinn. Hún er víst mamma DJ-sins og mætir á öll hans 'gigg'. Þetta segja semi-fastagestir mér.

DJ-inn kynnir stundum lögin eða segir eitthvað hresst (eða ég geri ráð fyrir því, það skilst ekki orð af því sem hann segir í míkrafóninn, aldrei. Þeir sem hafa ensku að móðurmáli skilja hann ekki heldur)

föstudagur, desember 07, 2007

Jól á Trafalgartorgi

Við Íslendingagengið í LSE ætluðum að sjá þegar kveikt var á jólatrénu á Trafalgartorgi í gær. Svo misstum við óvart af því, við vorum á barnum. Hérna erum við fyrir framan jólatréð:Sem betur fer byrjar mitt nafn ekki á A, því þá værum við eins og ABBA (nema bara fyrir utan að við Arna syngjum ekki).

sunnudagur, desember 02, 2007

Með taugarnar þandar

Ég kom heim í gærkvöldi kl. 22.30 í pilsi, háhæluðum skóm og með maskara. Ég henti veskinu og jakkanum á rúmið og skrifaði sms: Ég er fokking komin heim!!!

Arna svaraði: Nú hva strax! Hvernig var stefnumótið??

Ég fór á stefnumót í gærkvöldi með kana. Hann býr í sömu byggingu og ég, og ég hef alveg vitað hver hann er í dáldinn tíma en aldrei talað við hann. Alveg þangað til í síðustu viku þegar hann bauð mér á stefnumót. Ég hef aldrei farið á stefnumót með gaur frá ‘stefnumótaþjóðinni’ sjálfri og mér finnst það frekar áhugaverð stúdía svo ég ákvað að slá til. Ég sá þetta sem tækifæri til að nota fallegu háhæluðu skóna mína og nýja glitrandi úrið.

Við hittumst í lobbíinu klukkan 7 (ég passaði að koma aðeins of seint til að hann væri örugglega kominn á undan). Hann var kominn á undan. Þegar við löbbuðum út stakk hann upp á því að fara á flatböku-hrað veitingastað við suðurbakka árinnar. Ég brosti og sagði já endilega á meðan ég hugsaði: ertu ekki að grínast!

Jæja, við fórum á keðju pizzustað. Þegar við settumst stakk hann upp á því að panta vínflösku, ég sagði: ach æi uh mig langar eignilega í bjór. Honum fannst það í lagi. Samtalið yfir matnum var allt í lagi, ég naut þeirra forréttinda að vera frá Íslandi og geta sagt frá fullt af hlutum sem fólki finnst merkilegt um Ísland.

Eftir um tvo tíma vorum við búin að borða og drekka og hann borga. Þá færðum við okkur yfir á nálægan bar. Hann gekk beint að barnum og pantaði sér bjór. Síðan spurði hann barþjóninn hver lágmarksúttekt á korti væri. Næst spurði hann mig hvort það væri í lagi að hann borgaði minn bjór líka. Barþjónninn svaraði fyrir mig og sagði að það væri aldrei slæmt að borga drykk fyrir dömu. Svo ég fékk bjór (takk barþjónn!).

Einum bjór seinna ákváðum við að halda heim á leið (áður hafði komið fram að hann þyrfti að læra mikið daginn eftir). Þannig að við löbbuðum heim.

Fyrir framan mína ‘blokk’ spurði hann hvort hann mætti bjóða mér í drykk í vikunni. Ég muldraði eitthvað um að það væri rosa mikið að gera í vikunni. Svo kyssti hann mig á munninn og bauð góða nótt. Búið, endir. Hvað í andskotanum?

Ég hef ákveðið að hlusta á ráðleggingar vina minna í Vinum og dreg þá ályktun að bandarískir strákar segjast alltaf ætla að hringja þó að stefnumótið hafi verið slæmt.

Og ég var stressuð fyrir stefnumótið, til hvers!

Yfir og út