[Ömurlegi vinnudagurinn, hugsanlega of persónulegt til að blogga um en ég bara verð]
en fyrst smá undanfari. Um daginn byrjaði nýr strákur að vinna í búðinni. Þegar hann sótti um var hann með mjög áberandi hor í nefinu, hann sagði: "Er verslunarstjórinn við? Ég er nebbla að sækja um vinnu!"
Ég sagði: "Hún er inná skrifsofu hor" og benti í áttina að skrifsofunni
Hann: "Ha hvar????"
Ég: "hor hor hor hor þarna HOR!" og bendi betur.
Og þess vegna mun ég framvegis kalla hann horstrákinn.
Í dag kom það svo í mitt hlutskipti að vinna með horstráknum (sem by the way heitir Atli Viðar alveg eins og hann) frá eitt til ellefu. Um fjögurleitið gengu mæðgur inn í búðina, annar kassinn var bilaður og ég var að vesenast í að hringja í tölvukallinn og reyna að laga kassann. Dóttirin spyr mig hvar hún finni matarlit, ég man það ekki og kíki í eina hillu en hann er ekki þar og er að fara að kíkja í aðra og segi við hana "Gæti hann ekki verið hér!" Hún gengur pirruð í burtu af því ég fann sósulitinn ekki strax og segir frekar hátt við sjálfa sig "Þess vegna spyr maður!"
Ég fer aftur að kassanum og ákveð að bíða eftir tölvukallinum, sem sagðist ætla að koma bráðlega. Ég stend viðskiptavinarmegin við kassann að borða kleinuhring og fletta DV þegar móðirin kemur, blístrar asnalega og segir höstuglega við mig "Á kassa!" Ég sagði við hana "Það er hinn kassinn sem er opinn, þessi er bilaður." Hún gengur fúl að hinum kassanum, þar sem hún þurfti ekki að bíða neitt og skjálfhentur horstrákurinn afgreiðir hana. Þegar dóttirin álíka fúl og móðirin kemur að kassanum segir hún hátt við mig "Sósuliturinn er fundinn!!!!" Ég er orðin frekar pirruð á frekjunni í leiðinda skessunum og segi "Veistu hvað ég fæ á tímann? Mér er ekki borgað fyrir að vita nákvæmlega hvar hver einasti hlutur er." Ég er meira að segja mjög kurteis, mig langaði bara að benda þeim á að búðarfólki er ekki kennt neitt, engrar reynslu er krafist og launin eru ömurleg þannig að það basically þurfum við ekki að vita djakk sjitt. Leiðinda mæðgurar helltu sér báðar yfir mig, sögðu að maður yrði að vera "starfi sínu vaxinn" og héldu því fram að ég hefði "engann metnað" og "kæmist nú ekki langt á því". Dóttirin fór út í bíl á meðan móðirin borgaði, mamman skildi innkaupakerruna eftir á asnalegum stað svo að gamli maðurinn á eftir henni komst ekki að kassanum. Ég ákveð á aðstoða hann. Ég tók kerruna og tróð henni fram hjá kellingunni, svo hún rakst í hana.
Stuttu eftir að þær fara fer ég inn á lager og byrja að hágráta. Suma daga þá er skrápurinn miklu þynnri en aðra daga. Enda vissi ég þegar ég var að leggja af stað í vinnuna að ef það kæmi einhver of dónalegur kúnni í dag þá myndi ég ekki vera í ástandi til að höndla það, ég var allt of þreytt eftir vinnuna á föstudaginn og alla vikuna. Ég var búin að fá nóg og auðvitað þurfti akkurat í dag að koma dónalegt og frekt fólk, ekki alveg minn dagur.
Þegar skrúfað hafði verið frá tárunum þá gat ég ekki hætt. Þegar ég var að berjast við tárin ákvað horstrákurinn að fara í mat "Ég er sko ekki búinn að borða síðan klukkan ellefu!" Hann hefur örugglega orðið stressaður að sjá mig í svona miklu uppnámi og ákveðið að forða sér. Þetta var ömurlegt, þá fáu sem versluðu þennan hálftíma þurfti ég að afgreiða hágrátandi, með ekka. Flestir sögðu ekki neitt og hlupu út. Ein kona sem verslar þarna á hverjum degi var voða góð og reyndi að hugga mig. Síðan kom kona að versla sem reyndist vera trúnaðarmaður í einhverri búð og sagði mér að um leið og kúnninn talaði illa um mig persónulega þá mætti ég öskra til baka, hann mætti rakka búðina niður að vild án þess að ég gæti sagt neitt, en ef hann færi að rakka mig niður þá væri þetta orðið persónulegt. Trúnaðarmannakonan spjallaði við mig alveg þangað til horstrákurinn kom aftur úr pásunni sinni og ég komst í pásu. Ég grét samfleytt í tvo tíma, kláraði grenjuskammtinn alveg, enda var tími til kominn. Þá treysti ég mér loksins að hringja í Elínu og biðja hana að borða American Style með mér. Hún kom og ég tók mér langa langa pásu og þá var allt í lagi á eftir.
Roskilde eftir tvo daga!!!!!! :)
sunnudagur, júní 27, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli