Í gær gerðust undur og stórmerki, ég þvoði bílinn minn! Að innan og utan, ætla ekki að bóna hann fyrr en í næstu viku þegar ég og Elín erum búnar að fara í ferðalag um Snæfellsnesið.
Í gærmorgun vaknaði ég um tíuleitið. Ég var búin að plana að fara í Vöku með pabba að fá nýjar höldur til að hægt væri að skrúfa niður rúðurnar í bílnum og spurði pabba hvort við ættum ekki að drífa okkur. Þá sagði hann að hann hefði ekki nennt að bíða þangað til ég vaknaði og væri búinn að redda þessu fyrir mig, ókey það er allt í lagi, það er eðlilegt að pabbi manns geri manni greiða. Í staðin fórum við út fyrir og hann ákvað að ég ætti að þvo bílinn, hann skrúfaði frá og sýndi mér hvar ég fyndi pappír og tjöruhreinsi. Síðan skildi hann mig bara eftir með vatn og skítugan bíl og fór að erindast. Allt í lagi með það, ég þreif bílinn og var voða stollt af dugnaðinum í mér. Þegar ég var búin að spúla af bílnum og ætlaði að skrúfa fyrir vatnið þá kom babb í bátinn, ég gat það ekki. Ég reyndi og reyndi og sprautaði vatni yfir mig alla í leiðinni en allt kom fyrir ekki. Þá ákvað ég að hringja í pabba og láta hann segja mér hvað ég væri að gera vitlaust, en ég náði ekki í hann. Ég náði þó í mömmu sem sagði mér að pabbi væri á leiðinni í vinnuna til hennar uppi í Grafarvogi þ.a. það var ekki beint í leiðinni fyrir hann að koma við heima og skrufa fyrir. Nú voru góð ráð dýr, ég endaði á því að banka uppá hjá einum nágranna mínum sem ég vissi að væri heima. Ég hafði aldrei áður haft samskipti við þetta fólk þótt við hefðum búið í sama hverfi í yfir 20 ár og núna labbaði ég með tíkó í hárinu að húsinu og sagði "Hæ ég heiti Þura er Sigurður heima?" í dyrasímann, það hljómaði meira eins og "Má Siggi koma út að leika?" Sigurður, sem er um sextugt, birtist í dyragættinni og var svo indæll að glotta ekki þegar ég sagði honum hvert vandamálið væri. Hann kom og skrúfaði fyrir eins og ekkert væri og sagði "Þetta er allt í lagi vinan." Ég þakkaði pent fyrir mig og ryksugaði bílinn voða vel. Sigurður var karlmaður númer 2 sem aðstoðaði mig þennan dag og það var einu sinni ekki komið hádegi!
Um hádegið hringdi Héðinn og spurði hvort hann mætti koma og kíkja á DVD spilarann minn snöggvast því hann væri í hléi. Ég hafði semsagt beðið hann daginn áður að gera það því ég ýtti á takka um daginn og þá eyðilagðist allt. Héðinn var þriðji karlmaðurinn sem ég fékk aðstoð frá í gær. Egóið mitt þolir ekki svona mikla hjálp frá mönnum og þess vegna varð ég pínu fegin þegar Héðinn sagði að hann gæti ekki lagað og ég yrði að fara með heimska dvd spilarann í viðgerð. Ég vil nebblega geta gert hluti sjálf en ekki alltaf þurfa að fá hjálp frá strákum/karlmönnum goddamnit.
miðvikudagur, ágúst 25, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli