þriðjudagur, desember 26, 2006

Hver er menningar-ofvitinn ?

Um daginn fór ég í heimsókn sem ég ætla að reyna að gera sem best skil hér fyrir neðan, best er að fá Arnar Jónsson til að lesa textann:

Þegar ég hringdi dyrabjöllunni kom húsráðandi strax til dyra, bandaði mér inn fyrir og baðst afsökunar á því að kaffið væri ekki til. Ég steig inn fyrir og spjallaði við húsráðanda í eldhúsinu á meðan hann hellti upp á kaffi, ég var ennþá í kápunni og allt. Fljótlega ákvað ég að fara úr kápunni og hengja hana upp, þá tók ég eftir því að eintak af Umskiptunum eftir Kafka lá á símaborðinu. Ég tók bókina upp, las á kápuna og fletti blaðsíðunum.

Húsráðandi bauð mér að setjast í betri stofuna. Hátíðlegur blær var yfir stofunni, grenilykt af jólatrénu og bunki af opnuðum jólakortum á einu borðinu. Mér fannst harla óviðeigandi að vera í verkfræðiflíspeysu í þessu umhverfi svo ég fór úr peysunni og fékk mér sæti. Fljótlega fór húsráðandi að bera kræsingar á borð fyrir mig, tvær tegundir af heimabökuðum kökum, kaffi og flóaða plebba-mjólk.

Síðan var kveikt á kerti og Nina Simone sett á fóninn og stillt passlega hátt, þannig að hún yfirgnæfði ekki há-vitrænar samræður um Kafka, Guðberg og ýsuna hans Guðbergs.

[þögn]

Hver er menningar-ofvitinn ?

laugardagur, desember 23, 2006

Jóla jóla...

Fyrir þá sem þótti síðasta færsla of "kriptísk" þá var hún meira bara djók.

Ég er dáldið búin að vera spá í hvað það er sem mér finnst jólalegt, og ómissandi á jólunum. Verð eiginlega að skrifa það á alnetið...

Ég hef lengi haldið því fram að uppáhaldsatriðið mitt í jólaundirbúningnum sé að kaupa Jólaheróp Hjálpræðishersins fyrir framan Hagkaup á neðri hæðinni í Kringlunni. Við þessa fullyrðingu stend ég enn. Best er ef að gamli maðurinn með hvíta hárið stendur vaktina, manni finnst hann vera að meina það þegar hann segir guð blessi þig. Í ár var ég það heppin að lenda á honum. Annars er fjárfestingin í Herópinu eini undirbúningurinn sem ég stend í fyrir jólin.

Ef maður vill upplifa friðsama og róandi stund um jólin þá er ég búin að uppgötva bestu leiðina til þess fyrir löngu. Gönguferð í Fossvogskirkjugarði milli jóla og nýjárs í vetrarmyrkrinu er alveg hreint mögnuð. Ég mundi fara í fyrsta lagi annan í jólum því á aðfangadag og jóladag er svo mikil umferð fólks um garðinn með kerti og skreytingar á leiði. En þegar fólkinu fækkar er notalegt að rölta um garðinn og skoða legsteina og sjá öll kertin og lýsandi krossana. Ég mæli samt ekki með því að fara of seint um kvöld. Ef maður mann langar til að heimsækja leiði hjá einhverjum sérstökum þá er hægt að finna staðsetningu leiða hér. En þó maður þekki engan þá er samt gaman að koma í kirkjugarðinn.

Jæja, þegar ég les yfir það sem ég var að skrifa þá finnst mér ég vera orðin gömul og væmin, mér finnst bara jólahefðirnar mínar svo ótrúlega góðar að ég get ekki setið á mér. Já og jólagjöfin í ár er víst geit...

Gleðilega hátíð

fimmtudagur, desember 21, 2006

Klöppum fyrir stelpunni sem hringir í strákana !


Familiar view of Þura
Originally uploaded by Þura.
Eða einhverju öðru meira viðeigandi.

Velji nú hver fyrir sig, hverju hann klappar fyrir.

Yfir og út

þriðjudagur, desember 19, 2006

Vandræðalegt púnktur is skiluru...

Um daginn kom í vinnuna Jón Gnarr grínisti. Hann kom í hádegishléinu til að lesa upp úr nýju bókinni sinni, Indjáninn. Ég missti mig ekkert svo mikið þegar ég frétti að hann væri að koma, ég meina hei það er ekki eins og Þorsteinn Guðmundsson (líka grínari) hafi verið á leiðinni. Ég ákvað samt sem áður að prenta út blað með mynd af Jóni með hjálm og fá hann til að árita það (ef ég þyrði).

Nú leið og beið, loksins kom hádegið. Jón Gnarr mætti, sjálfur og í eigin persónu, og las fyrir okkur. Síðan þáði hann boð um að fá sér hádegismat. Ég sniglaðist um í nokkrar mínútur áður en ég lét til skarar skríða og gekk upp að borðinu sem hann sat við (umkringdur kvenfólki). Ég baðst afsökunar á trufluninni en spurði svo hvort hann vildi vera svo góður að kvitta fyrir komu sína á blað sem hengja ætti upp á "wall-of-fame". Hann, greinilega vanur svona áreiti, kippti sér ekkert upp við truflunina.

Eftir að áritunin var fengin hafði ég ekki vit á að hundskast í burtu, heldur staldraði ég við og lýsti fyrir honum barnslegri aðdáun minni á Þorsteini Guðmundssyni og bað hann sérstaklega um að benda honum á að líta við á AV ef hann rækist á hann. Sallarólegur spurði Jón mig hvort ég hefði haft samband við hann sjálfan, ég játti því og sagðist ekki hafa fengið svar. Þá afsakaði hann Þorstein með því að hann væri mjög upptekinn maður þessa stundina.

Allt í einu áttaði ég mig á því að ég hefði strax byrjað að tala um ÞG og ekkert minnst á Jóns bók, þá flýtti ég mér að segja "... og já, fín þarna... bókin þín." Því næst hraðaði ég mér í burtu.

Seinna um daginn arkaði formaður starfsmannafélagsins inn í Partýherbergið þungur á brún og bað mig vinsamlegast um að áreita ekki í framtíðinni frægt fólk sem kæmi á verkfræðistofuna. Það væri slæmt fyrir orðsporið (?).

Núna er ég með blað upp á vegg með mynd af Jóni Gnarr með (næstum) bleikan hjálm og persónulegri eiginhandaráritun mannsins. (Við hliðina á myndum af ákveðinni mynd í fjölriti)

Þetta gerðist á mánudaginn, og er ennþá í efsta sæti yfir "tryllt vikunnar", það væri samt heldur slöpp vika sem endaði með þessa sögu sem sigurvegara...

fimmtudagur, desember 14, 2006

Bleikur bleikari bleikastur...

Tími á smá ekki-bull.

Í síðasta mánuði var haldinn þemadagur í vinnunni minni (sem ég og hin stelpan ráðskuðumst með að vild). Þemað var bleikur litur. Allir starfsmenn voru hvattir til að mæta í bleikum fötum eða vera með bleika aukahluti þennan dag (föstudaginn 3. nóv). Þátttakan fór fram úr björtustu vonum, af tæplega 70 starfsmönnum voru það bara ca. 5 sem sýndu ekki lit (þ.e. bleikan). Á myndinni eru t.d. ég og Góli í okkar "gerfum". Nokkrar fleiri myndir má sjá hér.


Þar sem skriðþunginn af bleiku bylgjunni var gríðarlegur var ákveðið að nýta tækifærið til að styðja gott málefni. Fyrir valinu varð að sjálfsögðu Bleika slaufan, árveknisátak Krabbameinsfélags Íslands um brjóstakrabbamein.

Hlekkjaðar eru fréttir Krabbameinsfélagsins og AV um allt bleikt.

Moral of the story... það er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt, sem leiðir af sér ýmislegt gott.

sunnudagur, desember 10, 2006

Vinsamlegast látið vita um staðgengil Tómasar ef einhver er!

Þannig er mál með vexti að Tómas óskar ekki lengur eftir að vera á listanum.

sunnudagur, desember 03, 2006

Börn og jarðfræði

Ég held í alvöru að ég sé gengin í barndóm, orðin að barni aftur. Ekkert sem ég geri er í röklegu samhengi við neitt annað. Jarðfræðingarnir í vinnunni eru alltaf að reyna að fá mig til að útskýra fyrir sér hvað “hipp og kúl” er. Þeir eru jarðfræðingar, er yfirhöfuð hægt að útskýra fyrir þeim hugtakið? Þarna kemur annar punktur, get ég komið í orð hvað “hipp og kúl” sé. Mér líður alveg eins og Vinonu Rider í Reality Bites þegar hún er beðin um að skilgreina kaldhæðni þegar hún er að sækja um vinnu. Hún bara svitnar og stamar og segist þekkja kaldhæðni þegar hún sjái hana. Eina sem aðgreinir mig frá henni er að ég hef ekki ógeðslega sæta strákinn sem getur þulið upp skilgreiningu á hugtakinu án þess að hika.

Ég spurði spurningar í hádeginu í vinnunni um daginn sem féll í grýttan jarðveg. Skil samt ekki ennþá hvernig spurningar geta fallið í grýttan jarðveg. Umræðuefnið var bók um tíma, en ég skildi samt ekki alveg um hvað bókin var. Það er greinilega margt sem ég skil ekki (hence gengin í barndóm). Allavega, ég spurði jarðfræðing hvort tími væri ekki afstæður fyrir jarðfræðinga. Ég var auðvitað að meina af því að hlutirnir gerast hægt jarðsögulega séð miðað við margt annað, augljóslega. Vandræðalega þögn varð við borðið. Síðan heyrðust hóst og ræskingar. Fljótlega voru hinir farnir að tala um vinnuna. (Þeir sem vinna á AV geta giskað á viðmælendahópinn)

vds

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Einn túnfisk takk !

Með öllu.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Rapid blogging

eða el bloggo rapidio eins og Ítalarnir mundu segja.

Hvað ætli ég fái mörg sms á milli 5 og 6 í dag með innihaldi ca "Ertu byrjuð að drekka?" ? Það verður spennandi að sjá.

Annars er bara Soul Glo að frétta. Soul Glo allt... Jæja best að láta sál mína ljóma.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Ég las auglýsingu í gær í Fréttablaðinu. Ég man ekki í dag hvað var verið að auglýsa (þótt gullfiskaminnið sé á túrbó) en það sem mér fannst merkilegt var að það var talað um að America´s Next Top Model væri "konuþáttur". Ég hefði kannski ekki hinkrað við þessa staðhæfingu hefði ég ekki einmitt verið að spjalla við 4 stráka / menn í hádeginu um daginn um þennan sama þátt. Það sem kom á daginn í spjallinu var að af okkur 5 (mér og 4 strákum mönnum á aldrinum ca. 25 - 45) þá var ég eina manneskjan sem sem fylgdist EKKI með ANTM. Nei ókei, núna fer ég frjálslega með staðreyndir, einn af þeim neitaði staðfastlega að hafa nokkurntíman fylgst með þættinum. Samt, miðað við þetta úrtak, ef ég væri að vinna úr tölfræði um áhorfendahóp ANTM, þá fylgjast 75% karla með þættinum en 0% kvenna.

How do you like them apples?

Talandi um, núna er ég orðin "tískudrós" fyrirtækisins (þá gröf gróf ég víst sjálf) og var að því tilefni bent á þessa geeeeeeðveiku mynd:

Mér dettur ekkert annað í hug en hreindýrapeysan hans Mr. Darcy í jólaboðinu í Bridget Jones (fyrri myndinni).

Til að viðhalda þeirri ímynd (þ.e. tískudrósar) er ég farin að leggja mig í líma við að lesa www.people.com daglega, ásamt auðvitað www.arsenal.com en það er ekki tískutengt.

Vá, alveg óvart er ég gjörsamlega að toppa sjálfa mig. Hversu "kvenleg" getur ein færsla orðið; ANTM, Beckham hjónin, Bridget Jones og people.com! Ekki alveg atriðin sem eru efst listanum yfir efni til að blogga um... ef að þetta er ekki metnaður...

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Dæmigerð stund í vinnunni

Þetta gerðist t.d. í dag:

[Partýherbergið: Beggi og Þura sitja djúpt sokkin í vinnu við tölvurnar sínar.]

Þura:
"Hei Beggi, ljóðastund?"

Beggi:
"Tékk!" [smá þögn] "Eða eins og Jens mundi orða það: JÁ!"

Þura:
"Bahahahahahahaha haha"

Beggi:
"Þura, þetta var ekki svona fyndið."

[Enter Jens]

Þura:
"Bahahaha hahaha haha..."

Jens:
"Er hún alltaf svona?"

Beggi:
"Já... ég meina tékk."

Þura:
"Sko... eh... bahahahaha..."

[Exit Jens]

Beggi:
"Þura þú ert klikkuð."

[Bæði snúa sér aftur að tölvuskjánum]

Endir

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Skipt um flettiskilti...


"Þura, strike a pose!"

mánudagur, nóvember 13, 2006

Ítarefni, fyrir áhugasama

Ég var búin að skrifa voða fína og nákvæma frásögn af helgarferðinni til London. Þar stóð hvernig hver dagur fyrir sig gekk fyrir sig, og undirstrikar allt það sem mér fannst sérstaklega eftirtektarvert. Síðan þegar ég las þessa snyrtilegu frásögn yfir fattaði ég að hún skilaði ekki til þeirri gleði stemningu og þeim góða fíling sem var ráðandi í ferðinni. Ég hætti snarlega við að birta þá frásögn. Í staðin ætla ég að birta lista yfir helstu persónur Njálu og innbyrðis tengsla þeirra helstu. Nei annars, það getur ekki verið besta leiðin til að koma London á blað.

[dwarfs and midgets]
Fyrsta daginn, inni á fyrsta pöbbnum sem við gengum inn á í London var dvergur. Hvað er ekki gott við bar með dverg? Tja, það voru engin sæti laus. Nokkrum börum síðar fórum við á Mamma Mia! söngleikinn. Sætin okkar voru tryllt, ísinn í hléinu var trylltari, showið var trylltast.

Eftir nokkra daga stórborginni náðum við að tegra jöfnuna sem fjallar um samband innbyrgðs áfengis og kílóa keyptra flíka. Ekki kemur gríðarlega á óvart að það samband er neikvætt, en að það sé línulegt kemur ef til vill einhverjum á óvart.

Á fimmtudagskvöldinu borðuðum við kvöldmat með fleirum á skemmtilegum austurlenskum veitingastað, Shish á Old Street. Við fengum okkur allar afganskan kjúkling og epla mojito. Þetta var eitt af þeim skiptum sem ég varð virkilega sár yfir hversu lítið ég get borðað áður en ég verð södd. Það kvöld endaði á skemmtistaðnum Mother þar sem ég tók myndir af fullt af fólki sem mér fannst skemmtilegt í útliti. (Sjá flickr.com)

Það er dáldið skemmtilegt að segja frá því þegar við borðuðum á ítalska veitingastaðnum á föstudagskvöldinu. Við vorum lúnar eftir langan dag og fórum frekar seint út að borða. Borðið okkar var í kósý horni á kósý veitingastað sem hét (að ég held) Ristorante Italiano Air Conditioned. Þjónninn okkar (ekki ómyndarlegur strákur, suðrænn í útliti) byrjaði strax að vera vandræðalegur við okkur af engri augljósri ástæðu. Þegar við síðan pöntuðum vín af einhverjum öðrum þjóni þá varð hann sár út í okkur. Allt kvöldið var það örlítið pínlegt þegar hann kom til okkar, og það var ekki allt mér að kenna. Þegar fór að sjást í botninn á vínflöskunni fórum við í mönunarleikinn, sem er aldrei góð hugmynd þegar ég er með (sbr. megum við líka sjá myndina á kortinu). Eitt skiptið þegar þjónninn kom spurði ég hann “Excuse, have we met before?” Allt í einu þóttist hann ekki skilja ensku lengur og stamaði eitthvað “Eh ah sorry, I don´t understand what you are saying!” Ég sagði “You look so familiar, I think maybe I have seen you somewhere before?” Í rauninni gekk mest af mönunarleiknum út á það að trufla greyið þjóninn í vinnunni, það gekk ágætlega.

Við versluðum við meðal annars á Portobello markaðnum. Ég og Erna vorum yfir okkur hrifnar (það var gefið að Sella yrði yfir sig hrifin svo það er óþarfi að taka það fram). Við röltum á milli hönnuða og handlékum falleg föt og flotta skartgripi. Við fengum samt ekki 5 fingra afslátt. Spitafield markaðurinn fannst mér líka æðislega skemmtilegur.

Á laugardagskvöldinu fórum við á tónleika með zero7 sem var gaaaaaman. Það kvöld lærðum við líka hvernig á að komast heim af djamminu í London the hard way.

Humm ha já, tímasetning er allt.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Fallega fólkið með fallega hárið

Hver segir svo að Bretar séu ekki falleg þjóð?!

Þessi þrjú hitti ég á skemmtistað í London á dögunum. Ég horfði svo mikið á hárið á stráknum að ég varð að fá að taka mynd af þeim. Eftir á kom dökkhærða stelpan aftur til mín og spurði hvers vegna ég hafði tekið myndina. Ég lýsti yfir aðdáun minni á hárinu þeirra allra og það tók hún strax gott og gilt.

Hún hlýtur að fá svona athugasemdir oft.
Ath...

sunnudagur, nóvember 05, 2006

þriðjudagur, október 31, 2006

Skrapp til London yfir helgina með stelpunum (Ernu og Sellu), sú tryllta ferðasaga verður blogguð rétt bráðum. Þangað til bendi ég lesendum á nýjustu færsluna hans Begga.

mánudagur, október 16, 2006

Þá sjaldan maður lyftir sér upp (2. hluti)
[Aðvörun: Þessi færsla er bara djamm-saga í löngu máli]

Alltaf þegar ég fæ mér í glas þá held ég að ég geti ekki toppað sjálfa mig, ég held að ég geti ekki upptjúnaðri heldur en á fyrri fylleríum. Alltof oft kemst ég að því að ég algjörlega rangt fyrir mér. Föstudagskvöldið var eitt af þessum skiptum.

Á föstudaginn mætti ég á októberfest (eins og vera ber). Skrópaði í partýi hjá Helga Tómasi til að djamma með vinnufélögunum. Við hittumst hálf 5 á pool staðnum þar sem við spilum alltaf pool á föstudögum eftir vinnu. Þar fengum við okkur bjór og spiluðum fullt af pool-i. Um kvöldmatarleytið röltum við og fengum okkur að borða, vorum síðan mætt á októberfest um átta leytið (eins og vera ber). Settumst við borð og drukkum bjór, við vorum meira að segja með Þjóðverja í hópnum. Mér fannst það geðveikt... að hanga með Þjóðverjum á októberfest... en þannig er ég, fíla einföldu hlutina í lífinu.

Ég sá fram á gott kvöld, klukkan átta sat ég með minn þriðja bjór í hönd (í könnu, eins og vera ber), með skemmtilegu fólki og Þjóðverjum, átti von á því að hitta fullt af fólki sem ég þekkti um kvöldið og ég var með skriflegt drykkjuplan. Já drykkjuplanið, núna er staður og stund til að segja frá því, það spilar stórt hlutverk í því leikriti sem kvöldið varð. Fyrr um daginn hafði ég fengið sent excel-skjal þar sem maður stimplar inn þyngd sína, hvenær maður ætlar að byrja að drekka og hvað maður ætlar að drekka mikið á hverjum klukkutíma og skjalið reiknar út kúrvu sem sýnir hversu drukkinn maður verður á hverjum tímapunkti. Ég var búin að sníða skjalið að eigin drykkjuþörfum og prenta það út, þ.a. ég var með drykkjuplan fyrir framan mig svart á hvítu, sem á stóð hvernig ég ætti að haga drykkju kvöldsins (en ekki hvað).

Eins og við var að búast þá var drykkjuplanið heldur stíft fyrir hausinn minn, og klukkan 8 þá var ég strax einum bjór á eftir. En það átti eftir að breytast. Samkvæmt planinu átti ég að drekka 2 bjóra milli kl. 20 og 21 og 3 bjóra milli 21 og 22. Þegar klukkuna vantaði 20 mín í 9 þá var ég rétt búinn með einn af þessum tveimur sem ég átti að drekka þann klukkutímann. Akkurat þá fékk ég liðsstyrk, ágætur byggingaverkfræðingur ætlaði að sjá til þess að planinu yrði fylgt og sagði við mig “Jæja Þura, nú drekkum við fjóra bjóra á næstu 80 mínútum, við höfum semsagt 20 mínútur til að drekka hvern bjór.” Ég sagði bara já og þar með byrjuðum við að hella í okkur. Drykkjufélagi minn fylgdist vel með hvað tímanum leið og minnti mig reglulega á hvað ég hefði mikinn tíma til að klára hvern bjór. Ég meina það er áskorun þegar maður situr með hálf-fullan bjór og það er sagt við mann “Núna hefurðu 7 mínútur til að klára þennan, svo förum við á barinn!”

Til að gera langa sögu aðeins styttri þá fór áfengið beint upp í haus, eða rinn in kopp eins og Þjóðverjarnir sögðu og ég varð mjög, hvað segir maður...HRESS. Ég endaði svo á dansgólfinu á skemmtistað sem ég fer venjulega ekki á með ólíklegasta fólki. Það var ekkert minna en tryllt. Á 13da djammklukkutímanum hélt ég heim á leið, uppgefin. Mæli ekki sérstaklega með þvi að fólk plani drykkju á eins formlegan hátt og ég gerði.

Hefðbundnar djamm-myndir má skoða á flickr. Og ég týndi ekki myndavélinni hans Begga eins og ég hélt afganginn af helginni að ég hefði gert. Og löggan keyrði mig ekki heim og enginn varð óléttur, semsagt gott djamm.

sunnudagur, október 08, 2006

Heilaskemmdir

Núna hef ég blóraböggul. Ég lenti í atviki í vikunni sem leið sem ég kenni núna um þegar ég geri stafsetningarvillur, verð fyrir litblindu, tapa siðferðiskennd, hendi fram óviðeigandi athugasemd, verð tileygð, hringi í vitlaust númer, set mjólkina inn í skáp og serjósið inn í ísskáp o.s.frv.

Ég lenti í íþróttaslysi. Ég var í bandýi einu sinni sem oftar með vinnunni. Þegar 15 sekúndur voru eftir og búið var að öskra að næsta mark yrði úrslitamarkið lenti ég í árekstri við annan leikmann. Áreksturinn var fullkomlega fjaðrandi og endaði á því að ég skall með hnakkann í gólfið. Það var ekki mjög þægilegt. Þegar ég fór að vinna aftur komu í ljós aukaverkanir eins og stafsetningarvillur og slæmir brandarar. Í gær sá ég sjö ketti.

Tímann eftir slysið hef ég notað til í endurhæfingu og að lesa um orsök og afleiðingu á netinu.

þriðjudagur, október 03, 2006

Humm, aðeins að fikta...

Ég bætti aðeins við tenglalistann, bætti líka staðsetningu við þá sem eru í útlöndum. Útlönd eru skemmtileg. Þeir sem eru ekki með athugasemd innan sviga fyrir aftan nafnið sitt mega ekki vera fúlir, ímyndunaraflið er í fullri vinnu í keppni sem ég er að taka þátt í þessa dagana þ.a. það er takmörkuð hugmyndaríki eftir fyrir nokkuð annað.

Sumir af bloggurunum sem ég hlekkjaði eru klikkað skemmtilegir bloggarar, lesendur mega sjálfir giska á hvaða bloggara ég fíla sérstaklega mikið.

mánudagur, október 02, 2006

77 % eigin ást. Bahaha!

Alveg eins og hagverkfræði nema bara lard.

laugardagur, september 30, 2006

Gott efni í blogg (1. uppkast)

Ég gerði tilraun til að horfa á stjörnurnar á fimmtudagskvöldið líkt og svo margir aðrir. Upphaflega planið var að vera í miðbænum, en mér var svo kalt að ég ákvað snarlega að bruna heim. Þá var korter í myrkvun. Ég renndi bílnum í stæðið mitt í þann mund sem slökkt var á ljósastaurum og fór inn.

Fljótlega ákvað ég að fara út í garð að reyna að skoða stjörnur. Þar sem ég bý á commercial stað var mikið um að vera fyrir utan; straumur bíla í Perluna, fullt af fólki að labba upp í Perlu, þyrla að taka myndir af öllum bílunum og fólkinu sem var á leiðinni í Perluna. Þetta var bara eins og menningarnótt all over again þannig að ég ákvað að skella mér upp í Perlu og vera með í látunum.

Ég skildi reyndar ekki í öllum bílunum (ok bílstjórunum) sem voru á leiðinn FRÁ Perlunni þegar bara 10 mínútur voru liðnar af hálftíma myrkvuninni. En mér datt helst í hug að fólk hefði búist við fljúgandi furðuhlut og orðið fyrir vonbrigðum eða haft virkilega litla þolinmæði. Uppi við Perluna var verið að skjóta upp flugeldum (til að fæla stjörnurnar í burtu?). Ég fór upp á útsýnispallinn í Perlunni og reyndi eitthvað að vera með í að horfa á skýjaðan himinn innan um unglinga sem voru að drekka bjór... og fullorðið fólk að drekka bjór.

Síðan hitti ég Þjóðverja. Það er aldrei leiðinlegt að hitta Þjóðverja. Frá því að við Svanhvít töpuðum klukkutíma á mexíkóska djamminu á Spáni hefur mér samt fundist þýska vera frekar súrt (absúrd) tungumál.

Þegar búið var að kveikja ljósin hitti ég herra D og "konuna hans" ... loksins, ég sem var farin að halda að hún væri ekki til.

laugardagur, september 23, 2006

Þá sjaldan maður lyftir sér upp

22.09.06 21.50
Svanhvít
Gef mér
heimilisfangid
aftur, engiteigur er
ekki rétt hjá
grensás!

Þetta sms fékk ég frá Svanhvíti í gærkvöldi eins og sést. Svo krambúleruð var ég að ég gat ekki gefið upp réttar upplýsingar um staðsetningu.

Vonandi hefur verið gott partý í Engjateignum.

föstudagur, september 22, 2006

Um daginn þá sagði strákur við mig:

Ég er 77% ást!

Hann meinti það samt ekki til mín. Gott hjá honum að hafa eigin hlutföll svona á hreinu.

miðvikudagur, september 20, 2006

Klikkaðar myndir úr jeppaferð sem ég fór í með vinnunni eru komnar ferskar og frískar á myndasíðuna. ;)

mánudagur, september 18, 2006

Þura við Langasjó


Þura við Langasjó
Originally uploaded by Þura.
Sýnishorn úr fjallaferð helgarinnar, fleiri myndir eru á leiðinni.

þriðjudagur, september 12, 2006

Þegar Þura missti kúlið
(ef það var þá eitthvað fyrir)

Gerið ykkur í hugarlund ósköp venjulegan dag. Ég sit við kvöldmatarborðið, þreytt eftir langan dag, er að byrja að stappa soðinn þorsk, kartöflur og smjör. Ég er í flíspeysu frá Cintamani, hvítu háskóla flíspeysunni minni. Allt er með kyrrum kjörum. Eðlilegt.

Mér á vinstri hönd situr faðir minn. Allt í einu bendir hann á merkið sem er á öxlinni á flíspeysunni, Cintamani merkið, og spyr hvaða merki þetta sé. Ég svara því til að þetta sé peysutegundin. Hann jánkar því en heldur samt áfram að benda á merkið. Síðan spyr hann “en hvað er þetta Cintamani?” Ég á stundum auðvelt með að láta hann fara í taugarnar á mér og þessi spurning fór í mínar fínustu. Ég hreyti því út úr mér að þetta sé peysutegundin. Það er fokið í mig, hvern fjandann er hann að spurja sömu spurningarinnar tvisvar. Ef ég væri teiknimyndafígúra þá væri farin að rjúka gufa úr eyrunum á mér á þessum tímapunkti. “Já” segir hann ákveðið “en segðu mér, hvað þýðir Cintamani?”

Ég er orðin öskuill, grýti frá mér gaflinum, sem var farin að merja soðninguna allharkalega, ríf í hálsmálið á skyrtunni hans og segi frekjulega við hann “SEG ÞÚ MÉR HVAÐ...” Lengra kemst ég ekki með þessa setningu. Ég veltist um úr hljóðum hlátri, kem ekki upp orði. Það eina sem gefur til kynna að ég sé að hlæja er stöku tíst á innsogi og tárin sem streyma úr augunum. Pabbi hlær létt og segir við mömmu “hún féll á sínu eigin bragði” Þegar mesta hláturskastið er yfirstaðið klára ég setninguna flissandi.

“Segðu mér hvað, haha ha, segðu mér hvað... COTTON RICH þýðir! Ba ha ha!!”

Undir lokin er öll fjölskyldan farin að hlæja. Þá sjaldan (oft) sem maður skýtur sig í fótinn. Þegar við hættum að hlæja kemur smá þögn, þá heyrist frá mömmu “Vitiðið hvernig maður biður um mikinn lauk í Bretlandi?!” Ég og pabbi störum á hana eins og hálfvitar, við náum ekki samhenginu. Hún er snögg að svara eigin spurningu, og segir hátt og snjallt með sterkum breskum hreim:

“Heavy on the onions please!”

Það fylgir sögunni að soðningin fór köld og ósnert í ruslið þetta kvöld. En það fylgir ekki sögunni hvað cintamani þýðir.

fimmtudagur, september 07, 2006

Næst: Hvernig það er að fara með köngulær í bæinn...

sunnudagur, september 03, 2006

Getur ein vitleysan stöðugt rekið aðra?

Já.

Setjum okkur sem snöggvast í spor eðlu. Vinkonan er ca. 15 cm löng (með hala) og búin að liggja dáin í flösku af áfengi í langan tíma.

Fyrri hluta kvölds er búið að leika mikið með eðluna og flöskufélaga hennar, hina eðluna. Þegar komið er vel fram yfir miðnætti skellir eðlan sér út á lífið, ásamt fylgdarliði. Það mætti halda að hún væri celeb. Inn á hinum ýmsu “svalari” skemmtistöðum borgarinnar skemmti eðlan sér dável. Milli þess sem hún dansaði með krúinu sínu þá dýfði hún sér ofan í hin og þessi bjórglös, hoppaði niður á gólf og lét fara vel um sig á borðum og stólum. Þegar klukkan var gengin hálfa leiðina í 5 þá datt hausinn af eðlunni á miðjum Laugarveginum. Hún lét það ekki stöðva sig, skemmti sér jafnvel betur í tveimur pörtum... hún hafði svo mikilli gleði að dreifa.

Ekkert varir að eilífu, ævikvöld eðlunnar endaði í sitthvorum öskubakkanum á sitthvorri hæð sama sóðalega bars... barþjónum til lítillar gleði. Ætli það sé verri eða betri endir heldur en að enda á því að blasta Simply the best með Tinu Turner í limma með 19 ára strákum? Því miður lifði eðlan ekki til að gera þann samanburð.

Þessi líkist eðlunni dáldið, tekin þaðan.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

[Tilfinning / tilkynning]
Ég er búin að fá mér flickr.com síðu til að setja ljósmyndirnar mínar á. Inn eru komnar myndir af þátttakendum í hinu kyngimagnaða Bay-to-Breakers hlaupi sem ég tók þátt í í San Fransisco, sem og myndir úr litla ferðalaginu mínu um verslunarmannahelgina. Tékkið á myndunum og gapið.
http://www.flickr.com/photos/aulabarn Hér er pínu smá forsmekkur.



[It´s so nice to have a man around the house (?) ]
Fyrir örfáum vikum síðan henti ég fyrir úlfahjörðina, sem foreldrar mínir eru, kenningu. Kenningin fjallar um það að eina skiptið sem karlmaður er nauðsynlegur á heimili er til að opna erfiðar krukkur. Ég varpaði þessu einmitt fram á augnabliki þegar mamma var að biðja pabba um að opna dós sem hún gat ekki opnað sjálf. Þau hlógu dátt og drógu fram lítinn gúmmíklút sem maður notar milli handarinnar og krukkuloksins og hjálpar til við að opna krukkur. Síðan hefur þessi litla lillabláa gúmmípjatla verið kölluð karlmaðurinn á heimilinu þegar hún hefur verið notuð.

Nýlega féll ég á mínu eigin bragði. Ég ætlaði að opna nýja krukku af feta osti en krukkan stóð eitthvað á sér. Pabbi benti mér á að nota karlmanninn og athuga hversu dugandi hann væri. Enn opnaðist krukkan ekki. Þá gerði pabbi tilraun til að endurheimta titil sinn af lillablárri gúmmípjötlu með því að halda krukkunni stöðugri á borðinu á meðan ég sneri lokinu. Viti menn, mér og sitjandi titilhafa tókst að opna krukkuna.

Lærdómurinn sem ég dreg af þessu litla atviki úr hversdagslífinu:
Karlmaður er aðeins hálf-nauðsynlegur á heimili... afganginn sér lillablá gúmmípjatla um.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Ég fann um daginn á netinu teiknimyndasögu sem fjallar um sjálfa mig! Reyndar er þetta bara ein mynd, ekki af mér... en reynið bara að segja mér að þetta sé ekki ég! (myndina teiknaði þessi náungi)

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Ég hitti þessar svakalegu gellur í bænum á menningarnótt. Þær samþykktu myndatöku eftir nokkrar fortölur.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Snúran sem er nauðsynleg til að færa myndir af myndavélinni og í tölvuna er tímabundið týnd, gerði misheppnaða tilraun til að færa myndirnar á milli með hugarorku. Það er ástæðan fyrir að ég get ekki birt mynd af flottustu gellum í heimi, eða allavega gellum sem slógu í gegn á menningarnótt. Í staðin birti ég þessa mynd af mér á jet-ski á Hawaii fyrr í sumar. Þetta er ég í alvöru, ég var samt að deyja úr hræðslu allan tímann, eins og sést.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Hver man eftir því þegar Menningarnótt var haldin um nótt, eða meira svona kvöld. Núna er þetta orðinn menningardagur, sem gerir atburðinn mun ómerkilegri. Hvaða þjóð gerir ekki sitt á yfirborðinu til að sporna við ungilngadrykkju. Unglingadrykkja er gott orð.

Það er eitt sem mér finnst dáldið merkilegt. Núna lendi ég stöku sinnum í þeirri aðstöðu að vera úti meðal fólks, þegar strákur / maður /gaur (einhversstaðar á aldursbilinu 18 - 44, samt oftast á mínum aldri til þrítugs) vindur sér að mér og byrjar að spjalla. Þó að það séu vonandi til áhugaverðir gaurar, þá er raunin sú að mikill meirihluti þeirra ókunnugu gaura sem ég hitti eru ekkert sérlega spennandi. Segjum að strákur sé búinn að spjalla við mig í kannski 10 mínútur; aðallega um eigið ágæti, glæsileg framtíðarplön sín og hvað hann sjálfur sé frumlegur / skapandi /með góð laun eða álíka. Þá athugar hann stöðuna, hann vill vita hvort að það sé þess virði að eyða púðri í mig. Þetta gerir hann venjulega með því að bjóða upp á drykk eða dans. Venjulega sé ég á þessum tímapunkti tækifæri til að losna frá viðkomandi og afþakka það sem hann býður. Núna kemur parturinn sem mér finnst merkilegur. Viðbrögð gæjans við "höfnun" (ef höfnun skildi kalla) eru furðlega oft þau að fara að alhæfa um hvað íslenskar konur séu stífar og kunni ekki að skemmta sér eða lifa eða hvað ég sé stíf og kunni ekki að skemmta mér eða lifa. Og þetta hef ég fengið að heyra oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Hvers á maður að gjalda þó maður vilji ekki þiggja drykk af hverjum einasta mis/ó-áhugaverðagaur sem sýnir 5 mínútna áhuga. Ég tek það ekki nærri mér að vera stimpluð köld og stíf, en ég bara næ þessu ekki, virka svona viðreynsluaðferðir á stelpur? Hvað er bara að?

Yfir og út,
Þura_stendur_í_skugganum

Ath. Ég tek það líka til greina í þessum pælingum að kannski langar áhugaverðu spennandi gæjunum bara ekki neitt að tala við mig. Vona að það sé frekar þannig heldur en að þeir séu ekki til.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

the not-forgot stor-ot of Zvan

Það byrjaði á hefðbundnum laugardagsmorgni. Þrjú ungmenni, ágætlega hvert öðru kunnug settust upp í græna toyotu og stefndu norður á bóginn. Þetta var um verslunarmannahelgina. Nöfn ferðalanga voru sem hér segir: Atli Viðar, Svanhvít og Þuríður (sem einnig var ritari ferðarinnar). Á leiðinni norður skemmtu þau hvert öðru með skemmtisögum, söngvum og leikjum af ýmsu tagi. Heitasti leikurinn var án efa BT-leikurinn, þar sem keppendur kepptust um að sjá BT á leiðinni. Þegar keppandi sá BT átti hann að hrópa "þarna!" svo allir viðstaddir heyrðu*.

Leiðin norður var ekki aðeins ein gleði-ferð heldur var einnig tekið á áleitnum siðferðismálum eins og áhyggjum maka yfir að ferðalangar væru ekki allir samkynja. Eða það var ekki tekið á vandamálinu heldur var vandamálið kæft í fæðingu með því að gera ferðina kynlausa. Ferðalangar tóku sér ný og kynlaus nöfn, Atl, Svan og Þur, og hylltu það sem sameinaði þá alla, unibrau.

Eins og lesa má út úr fyrra bloggi varð Zvan brátt samheiti fyrir hópinn, og var oft notað til að sýna samstöðu og skilning.

Zvan var vísað burtu frá öllum gististöðum á Akureyri og hélt þá sem leið lá djúpt inn í myrkviði Vaglaskógar. [] Næsta morgun vaknaði Zvan við að tjaldið var umkringt hungruðum úlfum sem voru byrjaðir að tæta í sundur ytra tjaldið. Þann dag vottaði Zvan völdum stöðum virðingu sína. Í tímaröð: Húsavík, Tjörnes, Ásbyrgi, Dettifoss, Mývatn.

Við Mývatn gisti Zvan aðra nóttina í útlegðinni... útilegunni. Kvöldmaturinn var æði, kjúklingur á priki og pulsur með salsa-sósu. Zvan söng raddað þjóðlög frá Hvíta-Rússlandi fram á rauðanótt og skeytti engu um 14 eins skátatjöld.**

Mánudagur samþykkti veru Zvans á Mývatni með rjómablíðu og nærveru Boutros Boutros-Ghali, nema bara ekki nærveru Boutros Boutros-Ghali. Remember aliveness. And the rest is history.

*Sigurvegari BT-leiksins var Atli Viðar með BT við Glerárgötu.
**Réttara væri að segja falskt í staðin fyrir raddað og barnalög í staðin fyrir Hvíta-rúsnesk þjóðlög. Svo fórum við líka inn í tjald þegar útúr-sýrði-tjald-gaurinn kom um miðnætti og bað okkur um að taka tillit til annarra gesta, en sungum ekki fram á rauða nótt.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

"Borð fyrir þrjá takk."
"Hvert er nafnið?"
"Zvan"

to be continued...

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Hvað kostar einn pottur af mjólk?

Hvað kostar tími í nuddi?

Hvað kostar sneið á Pizza King klukkan 5 á sunnudagsmorgni?

Hefur allt sitt verð?

föstudagur, júlí 21, 2006

Snjór í júlí

(1) Ég er að spá í að hætta að drekka... eftir helgi.

(2) Hvort er betra að vera hreinskilinn eða halda sér saman?

(3) Gæti verið meiri bjór?

(4) Hvort er ís eða bjór betri á góðviðrisdegi?

(5) Ég er komin með bakþanka... númer (1) var djók.

(6) Ertu með góða sjón, Jón?

(7) Lúðar ríma. Örlög eða tilviljun?

(8) Hvort er furðulegra, fara að sofa klukkan 6 um morgun eða vakna klukkan 6 um morgun?

(9) Hvað ætli Jón Markús sé gamall?

(10) Ef þú meikaðir að lesa svona langt, þá geturðu alveg gefið þér tíma til að kommenta, ég er (mis) mikið búin að vera að pæla í þessum 9 atriðum og vantar nýtt sjónarhorn! Takk fyrir mig.

sunnudagur, júlí 16, 2006

Ég er handviss um að lesendur eru hundleiðir á að lesa um það sem ég geri, svo að í dag ætla ég að brydda upp á nýjung. Ég ætla að skrifa um hvernig helgin var hjá foreldrum mínum.

Á laugardaginn fóru þau í göngutúr fyrir hádegi. Síðan komu þau heim og fengu sér hádegismat. Eftir hádegismatinn fóru þau á námskeið í Bústaðakirkju sem hét Coping with Senility, mér skildist á þeim að það hefði verið fínt. Um kvöldið fóru þau tvö saman út að borða. Ég veit ekki hvað þau eru búin að vera að gera í dag.

Helgin mín var annars fanta góð. Nema atvikið þegar það kviknaði í snakk-skálinni. En ég meina hei, það hefði getað verið Þorsteinn Pálsson.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

2 + 2 = 4

Einfalt og gott.

sunnudagur, júlí 09, 2006

Ég er alltaf að fárast yfir dagsetningum á þessari síðu."Ó mæ god tíminn líður svo hratt, bla bla bla." "Ó mæ god ég trúi ekki að þetta og þetta sé liðið!" "Ó mæ god ég er að pipra!" (?)

Set stórt spurningamerki við þetta síðasta, ég fárast ekkert mikið yfir því.

Í dag ætla ekki að hafa áhyggjur af tíma. Ég ætla að nota þessa stund til að rifja upp atvikið þegar Sella sá staðinn á brúnni þar sem gimbrin* datt fram af. Sagan er búin, það gerðist ekkert meira.

*Er ekki viss um beyinguna, en ég veit hvaða dýr þetta er.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Bókhald

1. Er bara búin að birta fyrri helming útskriftarferðasögunnar. Segjum bara að Las Vegas og Hawaii hlutarnir séu í móðu... sem er ekki svo fjarri sannleikanum.

2. Setti inn link á einn öflugasta bloggarann í dag, Helenu. Það er mynd af henni á mótorhjóli á síðunni og hún bloggar... reglulega.

3. Til að forðast misskilning þá er ég að vinna á Almennu verkfræðistofunni, ekki á q bar. Verð þar í sumar og vetur.

4. Já helgin, segjum bara að hluti hennar hafi farið í umræður um varmafræði ;)

5. Blóm og friður, steinselja og kók :)

sunnudagur, júní 25, 2006

Ertu þá orðin verkfræðingur? Þessa spurningu fæ ég oft þessa dagana, og ég verð að svara: Nei, hehe ég er B.S. í verkfræði.

Útskriftin úr HÍ var í gær, falleg athöfn, ég táraðist nokkrum sinnum.... nei, það er lygi, ég táraðist aldrei. Deildaforsetarnir voru í bláum skikkjum og minntu grátlega mikið á kennarana við Hogwarths, ekki grét ég yfir því.

Góður dagur, þ.e. þegar útskriftin sjálf var búin. Hann var einhvern vegin svona:
-Útskriftarathöfn 2,5 klst
-Kaffihús 1 klst
-Út að borða 1,5 klst
-Kokteill 0,5 klst
-Útskriftarpartýið þeirra Svanhvítar, Sigurrósar og Tótu 2 klst
-Útskriftarhittingur hjá Söru 4 klst, góður hittingur Sara, minnti dáldið á partý ;)
-Djamm í miðbænum 3 klst

Samtals eru þetta 14,5 klst, svo má bæta við þennan tíma 1,5 klst í ferðir á milli staða.

mánudagur, júní 19, 2006

Setti inn mynd af mér með útskriftarnema, sjá neðar. Þakkir fær Erna fyrir myndina.

sunnudagur, júní 18, 2006

4. hluti
meira um L.A.
(til lesandans: mæli með að þú lesir um grind-ið ef þú ætlar bara að lesa smá)

[fim 25. maí og fös 26. maí] ...þetta var líka gaman
last call for alcohol!!!
Eitt af því sem er dásamlegt við Bandaríkin er að maður er látinn vita að skemmtistaður er að fara að loka áður en hann lokar. Stuttu áður en það gerist kallar barþjóninn eða DJ-inn LAST CALL FOR ALCOHOL og það er manns seinasti sjens að kaupa áfengi áður en lokar. Áfengið sem maður kaupir verður maður að klára áður en staðurinn lokar, það er víst bannað að neyta áfengis á börum eftir klukkan 2 í Kaliforníu og einnig er bannað að drekka á götum úti. Gallinn við síðasta kallið er að maður getur orðið ansi... hress ef maður heldur á fullu glasi af vodka í redbull og þarf að skála í botn, samkvæmt lögum.

Leigubílstjórar
Ég var minna smeyk við leigubílstjóra í USA heldur ég bjóst við að vera, sumir skildu alveg það mikla ensku að það var hægt að spjalla við þá. Aðrir litu út fyrir að vera að fæða þrettán manna fjölskyldu í Armeníu með því að keyra leigubíl 22 tíma á sólahring, og sumir voru líklega að því. Á fimmtudagskvöldinu í L.A. var ég virkilega smeyk við leigubílstjóra. Við ætluðum 12 saman út að borða í Venice hverfinu og síðan á djammið, það eru 3 leigubílar. Þegar tveir þeirra voru komnir kom í ljós að hvorugur þeirra vissi hvar það var sem við vorum að fara. Þeir voru ekki frá sama landinu og annar var mjög greinilega á eiturlyfjum og saman ræddu þeir alveg í korter á bjagaðri ensku um... tja vonandi um hvert við værum að fara. Eftir ofsaakstur á hraðbraut og nokkrar U-beygjur komumst við þó heil á áfangastað. Sumir leigubílstjórar virtust líka geta látið mælana ganga hraðar, lenti einn daginn í því að borga 12 dollara fyrir far aðra leiðina en til baka kostaði það 20 dollara.

e-kennsla í grind-i
Þetta sama kvöld í Venice enduðu nokkrir djammarar á litlum skemmtistað, þar sem meirihlutinn af fólkinu var svartur. Á meðan stelpurnar skelltu sér á dansgólfið voru strákarnir eftir á barnum og spjölluðu við hver annan og bræður. Á þessum stað kynntumst við dansi sem dansaður er af strák og stelpu og kallast hann grind (borið fram grænd). Dansinn sem einnig má nota sem forleik er þannig að kvenmaðurinn sem snýr baki í karlmanninn beygir sig fram með frekar beint bak, konan dillar síðan afturenda sínum í takt við tónlistina. Karldýrið, nei karlmaðurinn, setur þá aðra höndina á mjöðm konunnar og hreyfir sig í takt við konuna og tónlistina. Einnig er algengt að hann hafi báðar hendur á mjöðmum hennar. Þau eru síðan bæði með hot svip sem gefur til kynna að þau séu að skemmta sér ótrúlega mikið. Fólkið sem dansaði þetta leit allavega út fyrir að vera að skemmta sér ótrúlega mikið.

house of blues
Á föstudagskvöldinu í L.A. fórum við alveg yfir 30 manns út að borða saman á house of blues, sem er veitingastaður við Sunset Strip. Það sem við vissum ekki var að í kjallaranum á þessum stað voru rapp-tónleikar í gangi og þess vegna löng röð af fólki fyrir utan. Við þurftum þó ekki að bíða í röð, en tókum vel eftir því hvað við vorum hvít. Ég prófaði einhvern kokteil sem þjónustu-gellan benti mér á, hann hér mad groovy penguin og samanstóð af vodka, súkkulaði og mintu. Mörgæsin stóðst væntingar, ójá. Eftir matinn gæddum við okkur frekar á kokteilum og öðru þynntu áfengi, síðan fór hópurinn að tvístrast í allar áttir. Ég fór í röðina á Viper Room með 10 öðrum, dyravörðurinn var með kolsvart og stíliserað hár og rosalegt attitude. Þegar hann var búinn að gefa grænt ljós á inngöngu okkar sagði hann í talstöðina sína að hann væri að senda inn 11 "extremely annoying people". Við sem vorum í aftari helmingi hópsins og heyrðum þetta snerum snarlega við og fórum út, hinir borguðu 20 dollara fyrir að fara inn og voru þar í korter og sögðu að það hefði ekki verið neitt gaman. Eftir að hafa sullað í sig áfengi á mismunandi skemmtistöðum endaði stór hluti hópsins á hótel fyllerí fram á morgun, þótt að rútan til Vegas ætti leggja af klukkan 8 um morguninn. Hvað segir maður aftur um svona... party down!!!

Næst: Vegas :)

fimmtudagur, júní 15, 2006

3. hluti
Los Angeles

[mið 24. maí] Rútuferð frá San Fransisco til L.A.
Rútuferðin var bærileg, allavega var loftkælingin í rútunni góð. Eftir hádegi var stoppað og nokkrir kassar af bjór keyptir, eftir það breyttist ferðin í íslenskt gítarfyllerí við misjafnar undirtektir ferðalanga. Bílstjórinn varð alveg snar þegar hann neyddist til að losa úr ferðaklósettinu á bílastæði fyrir framan McDonalds, eftir það róaðist fólkið aðeins niður. Komum á hótelið okkar snemma um kvöldið, það minnti á mótel vegna þess að þetta var U-laga hús með fullt af litlum íbúðum, sem hentaði okkur ótrúlega vel. Hótelið var ágætlega staðsett í Hollywood hverfinu. Stutta stund tók að labba á Sunset boulevard og Hollywood boulevard. Eftir um 5 mínútna rölt frá hótelinu var maður farinn að labba á stjörnum, og það var ekkert merkilegt. Flest nöfnin þekkti maður ekki og þegar maður kom að nafni sem maður þekkti þá... já, þá ekki neitt, þá labbaði maður bara áfram.

Þetta fyrsta kvöld í L.A. fóru nokkur partýglöð ungmenni á bar á Sunset blvd, okkur fannst þetta vera mjög flottur skemmtistaður. Enginn drakk bjór, við fengum okkur öll einhverja drykki, ég fékk mér sangríu sem bragðaðist heví vel. Síðan fórum við að panta skot. Við vildum prófa eitthvað nýtt svo að við leyfðum barþjóninum að ráða. Ekkert áfengisbragð var af fyrsta skotinu en það var risa-stórt, ég þurfti að kyngja þrisvar til að koma því niður. Við kvörtuðum við barþjóninn og sögðumst vilja fara á fyllerí, hann skyldi láta okkur fá eitthvað sem væri áfengi í. Hann brosti í kampinn og kom með annað round af stórum skotum og sagði að þetta væri sko áfengt. Mig klígjaði, en aftur drakk ég með því að kyngja þrisvar, og það var ekkert áfengisbragð af skotinu. Við héldum að hann væri að gera grín að okkur og kölluðum aftur í hann. Hann var yfir sig hneykslaður og sagði að þetta hefði að mestu verið 75% áfengi með örlitlu blandi. Síðan hvarf hann og kom til baka með vískiskot, eða viskímjólkurglös eins og við kjósum að kalla þau. Og það var áfengi í því.


[fim 25. maí og fös 26. maí] Los Angeles dagarnir
Jeff the tour guide and other stories
Fyrri daginn í L.A. fór ég í skoðunarferð á "topplausri" rútu um smá hluta Hollywood, þar fóru 10 dollarar í vaskinn. Tour guidinn hét Jeff og ég get með góðri samvisku sagt að hann sé leiðinlegasti maður sem gengur á yfirborði jarðar. Hann var frekar búttaður í gaur á fertugsaldri sem hafði pottþétt komið til Hollywood 10 - 15 árum fyrr til að meika það en endað sem ööööömurlegur leiðsögumaður í ferð þar sem maður sér ekki neitt. Í byrjun reyndi hann að sannfæra okkur um að hann væri að fara með okkur í skoðunarferð gegnum "sitt hverfi". Keyrðum framhjá Kodak bíóinu, horninu þar sem Brad Pitt lék kjúkling áður en hann varð frægur og fleiri álíka áhugaverðum stöðum þar sem ekkert var að sjá. (Myndin er fengin að láni hjá Hlyni)

Versti parturinn var þó þegar við keyrðum framhjá hverfinu þar sem Antonio Banderas átti að búa og hann lét allar konur/stelpur í bílnum segja "úúhúú" þegar hann sagði Antonio Banderas. Eftir það var hann alltaf að tala um hvað allar konur flippuðu rosalega þegar þær heyrðu nafnið Antonio Banderas, síðan ætlaðist hann til að allir kvenkyns farþegar segðu "úúhúú". Eftir nokkrar svoleiðis línur fór hann bara að endurtaka nafnið Antonio Banderas, Antooonioooo Baaandeeeraaas, Antooooonioooooo Baaaandeeeeraaaas, Antooooooooniooooooooo Baaaandeeeeeeeraaaaaaaaas....! Með smeðjulegri rödd sem átti líklega að hljóma sexí. Ég, Anna Regína, Helena og Sara hlupum út úr rútunni um leið og hún stoppaði.

Í næsta pósti kemur meira skemmtilegt frá L.A. dögunum, til dæmis leigubílstjórar á eiturlyfjum og kennslustund í grind-i ;)

þriðjudagur, júní 13, 2006

2. hluti
Ennþá í San Fransisco

[lau 20. maí] Berkeley
Þennan laugardagsmorgun fórum við með rútu í háskólabæinn Berkeley sem er rétt fyrir utan San Fransisco í þeim tilgangi að skoða Berkeley háskólann. Þetta var óformleg heimsókn sem þýddi að við fengum ekki að fara inn í neina byggingu heldur tók á móti okkur íslenskumælandi kona með fjólublátt hár sem hafði stundað nám við skólann í 15 ár. Hún rölti með okkur milli bygginga og sagði okkur frá skólanum, það var fínt. Staðurinn var ótrúlega sjarmerandi. Eftir hádegi var okkur sleppt lausum. Ég stakk af og rölti um götur Berkeley bæjarins, spjallaði við fólk og verslaði við gamla hippa sem virtust hafa reykt aðeins of mikið það töfra sumar 1967. Ég lét m.a. gamlan tannlausan mann; í leðurfötum og með sítt hár lesa í tarot spil fyrir mig. Held að það hafi verið ódýrasti tími hjá sálfræðingi sem ég hef upplifað.


Myndin er af mér og Chao Lin sem var þennan dag að útskrifast með meistaragráðu í civil-engineering frá Berkeley.

Um kvöldið fór ég ásamt fleirum út að borða á sjávarréttaveitingastað á bryggju 39, það er sko aðal bryggjan. Þar átum við krabba og humar, og brutum skeljarnar með einhverju sem virtist vera hnotubrjótur. Dungeoness crab er krabbinn sem maður verður að smakka þegar maður er í San Fransisco, og svoleiðis borðaði ég með risastóran smekk með krabbamynd um hálsinn (ekki veitti af). Eftir bragðgóða og skemmtilega kvöldmáltíð fórum við á blues bar sem var í göngufæri í burtu. Þar tróðu upp 6 eldgamlir og hrukkóttir kallar sem voru ógeðslega góðir á hljóðfæri og að syngja. Þeir voru gamlir, pottþétt allir yfir sjötugu, en samt kraftmiklir og skemmtilegir. Þegar þarna var komið við sögu var ég loksins farin að muna eftir þjórfé við öll tækifæri. Fyrst fannst mér þetta vera óþolandi siður en eftir því sem dagarnir liðu fór ég að sjá kostina og hversu gaman það er að gefa tips. Næst var ferðinni heitið með limma á Broadway, ekki bara plebbaskapur, það var ótrúlega ódýrt að taka limma. Við ætluðum aldeilis að finna góðan skemmtistað og djamma fram á rauða nótt. Klukkan var rétt upp úr 1 og okkur var ekki hleypt inn á neinn skemmtistað því það var verið að loka. Það er víst bannað að selja áfengi eftir klukkan 2 í Kaliforníufylki en ef við vildum djamma þá var okkur bent á hommabar á Harrison og sjötta stræti. Við röltum frekar heim um hæðóttar götur San Fransisco.

[sun 21. maí] Frí... nei bay to breakers hlaupið
Þrátt fyrir að hafa ekki farið að sofa fyrr en 4 um nóttina ákvað snillingurinn ég að vakna fyrir 8 á sunnudagsmorgninum til að taka myndir. Ég hafði frétt af árlegu hlaupi þar sem hlaupið er frá flóanum að sjónum í gegnum San Fransisco. Ástæðan fyrir því að mig langaði að sjá hlaupið var sú að þetta er ekkert venjulegt kapphlaup heldur er þetta djamm-flipp-grímubúninga-kapphlaup. Flestir sem taka þátt klæða sig upp í búninga og þetta er meira eins og hátíð heldur en hlaup. Ég hitti Helga Tómas í lobbíinu sem var hress og vaknaður. Hann samþykkti að koma með mér að kíkja aðeins á hlaupið. Það var rétt hjá hótelinu þannig að við þurftum ekki að fara langt. Það var rosa gaman að sjá mannfjöldann hlaupa og labba framhjá. Búningarnir voru allt frá því að vera fyndinn hattur á annars eðlilegum hlaupara í 50 manns allir klæddir eins og kóngurinn (elvis) syngjandi og hrópandi til mannfjöldans á meðan þeir drukku bjór úr vagni sem þeir voru með. Einnig mátti sjá ofurhetjur, strumpa, strípalinga, geimverur og fleira og fleira. Allir drukku áfengi, sungu, kölluðu og voru með almenn ólæti. Margir stórir hópar voru í búningum, eins og elvisarnir, til dæmis hrópaði hópur Hvar-er-Valla slagorð eins og "You say where is and I say Waldo! Where is! Waldo! Where is! Waldo!". Þeir voru skemmtilegir. Helsti kosturinn sem ég sá við að vera í hóp var sá að þeir voru alltaf með vagn, temmilega dulbúinn, til að geyma bjórinn sinn í. Þegar við sáum laxana sem hlaupa í öfuga átt (af því að laxar synda upp strauminn) hlupum við inn í þvöguna til að taka myndir af þeim, þeim var fagnað hressilega af öðrum hlaupururm. Á þeim punkti var ekki aftur snúið, við löbbuðum með öllu klikkaða fólkinu í klikkaða hlaupinu þeirra, því miður áttum við engan bjór. Klukkan var að verða 9 á sunnudagsmorgni. Stemningin var rífandi, fyrir framan og aftan okkur var fólk sem augljóslega var bara að skemmta sér, held að eitthvað um 50 þúsund manns hafi tekið þátt. Partýið einskorðaðist ekki við hlaupið heldur var fólk sem bjó í húsum við götur sem strollan fór um margt úti í gluggum og á veröndum með græjur að spila tónlist, drekka bjór og að hrópa á fólkið í göngunni. Á mörgum stöðum voru hljómsveitir að spila úti á götu, sums staðar of nálægt hver annarri. Ég gapti af undrun, held ég bara allar 7 mílurnar sem ég gekk upp og niður hæðóttar götur San Fransisco. Ótrúlega margir kusu að taka þátt í hlaupinu án búnings... eða annarra flíka. Er ekki búin að gera upp við mig hvort mér finnist það heilbrigt eða ekki að hafa einn dag á ári þar sem allir þeir með strípiþörf geta striplast að vild án þess að aðrir kippi sér upp við það. Tek það fram að strípalingarnir voru flestir komnir fram yfir besta aldur, hér vantar sárlega myndina af parinu um sextugt sem var ótrúlega krúttlegt á sinn hátt (hún er inni á myndavélinni minni). Upp úr hádegi var ég að farast úr þreytu og varð að komast heim. Þegar ég loksins komst heim fleygði ég mér beint upp í rúm og gerði ekki meira þann daginn. Orkan mín, líkamleg og andleg var búin, en tótallí þess virði :)

[mán 22. maí] Intel safnið og Stanford háskólinn
Eitthvað fór ég illa út úr þessu hlaupi því næstu 2 daga var mér stöðugt flökurt og gat lítið sem ekkert borðað. Ákvað samt að fara í námsferðir dagsins. Sat reyndar bara í skugganum fyrir utan Intel safnið, þeir sem fóru inn sögðu að ég hefði ekki misst af neinu. Eftir hádegi á heitum og sólríkum degi mættum við í Stanford og fengum ágætis leiðsögn um svæðið hjá ofur hressri gellu. Síðan sýndi kærasti Fríðu Siggu, sem er í mastersnámi þarna okkur aðeins meira af svæðinu.

Um kvöldið fór allur hópurinn saman út að borða í fyrsta og eina skiptið í ferðinni, og kennarinn sem stóð fyrir námsferðunum kom með. Ég var alveg ónýt vegna flökurleika, fékk Advil hjá þjóninum og gat hvorki borðað né drukkið og fór heim við fyrsta tækifæri. Það var þannig að hótelið var í það slæmum bæjarhluta að einhverjir vildu ekki að ég tæki leigubíl ein heim.

[þrið 23. maí] Eitthvað kúka-fyrirtæki og svo loks Bechtel
Við stóðum í þeirri meiningu að fyrri heimsókn dagsins væri í vatnshreinsistöð, þar sem vatn er hreinsað áður en það er notað. Svo reyndist ekki vera, í staðin fórum við í skolphreinsistöð, þar sem mengandi efni eru hreinsuð úr skolpi áður en því er veitt út í sjó. Það var ógeðslegt, ég segi það bara eins og það er, þetta var kúka-fyrirtæki. Um hádegið mættum við í höfuðstöðvar verkfræðifyrirtækisins Bechtel, þess sem er að byggja álverið á Reyðarfirði. Fyrst fengum við hádegismat og síðan tóku við nokkrir fyrirlestrar fluttir af frekar hátt settum mönnum hjá fyrirtækinu. Þetta var ótrúlega flott og vel heppnuð heimsókn. Um kvöldið ákvað ég að mér væri batnað og skellti mér út að borða, og mér var batnað.

Næst: til Hollywood beibí

sunnudagur, júní 11, 2006

Uppgjörið

"Þura mín, þú hefur fitnað og þú ert ekkert svo brún!!!" Þetta voru viðbrögð móður minnar þegar ég kom heim úr rosalegri útskriftarferð véla- og iðnaðarverkfræðinema seinnipartinn á fimmtudaginn. Ferðin var rosaleg, ég er alveg eftir mig. Ég ætla að birta ferðasöguna í nokkrum köflum... ókei mörgum köflum.

1. hluti
San Fransisco

[mið 17. maí] Ferðalagið
Mætti á flugvöllinn seinnipartinn, flugvélin átti að fara klukkan 5. Leifsstöð var full af verkfræðinemum, enda voru 45 útskriftarnemar og 7 makar á leiðinni í þessa ferð. Venjulega tekur 9 tíma að fljúga frá Keflavík til San Fransisco en vegna bilunar var minni flugvél notuð og þurfti þess vegna að millilenda í Kanada. Þessir 11 tímar í flugvélinni voru ekkert svo lengi að líða. Hótelið í San Fransisco var downtown eða niðri í bæ eins og sagt er, í hverfi sem oft er kallað tenderloin, ekki út af því að það voru hórur þar heldur vegna þess að þar á víst að fást einhver svaðaleg steik. Þegar rúta með 50 spenntum ferðalöngum lagði fyrir utan hótelið var komið myrkur. Bandaríkin tóku vel á móti okkur, það fyrsta sem við sáum var maður að kúka bakvið gám. Þegar náunginn var búinn að gera stykkin sín hélt hann glaður áfram að borða frönsku kartöflurnar sínar og rölti blístrandi í burtu. Ég varð að vera sammála stelpunum sem öskruðu og skræktu inni í rútunni. Ekki tók betra við þegar við stigum út úr rútunni, hlandstækja yfirgnæfði aðra lykt og menn sem greinilega höfðu tekið sterkari pillur en C-vítamín höfðu gaman af því að spjalla við okkur. Skelfingu lostin við þessa first impression drifum við okkur inn á hótel, reið út í Flugleiðir fyrir að hafa mælt með þessu hóteli, svartsýn um að ferðin yrði ömurleg og fórum að sofa.

[fim 18. maí] Google og NASA
Í dagsbirtu leit allt miklu betur út. Við þorðum að fara út í búðina hinu megin við götuna til að kaupa vatn allt niður í 4 saman. Þennan morgun byrjaði námsferðin á heimsókn í Google, fyrirtækið sem sér um leitarvélina þið vitið. Veðrið var dásamlegt þegar við löbbuðum upp stigana milli Google bygginganna, sól og logn og 4 starfsmenn í strandablaki berir að ofan, ávísun á góðan dag. Okkur var skipt í 2 hópa og kona sem hét Stephanie eða eitthvað álíka hresst leiddi okkur um svæðið og talaði um hvað Google væri frábært fyrirtæki. Flestar setningarnar hennar byrjuðu á "Og annað sem er kúl við Google er...". Hún var reyndar ekkert að ýkja, Google virkaði mjög kúl fyrirtæki, því er best lýst sem leikskóla fyrir fullorðna. Umhverfið á að virka hvetjandi á sköpunargáfu starfsmanna og láta fólk vilja vera í vinnunni. Veggirnir eru málaðir í björtum litum, það er dót út um allt fyrir starfsmenn að leika með, til dæmis sáum við tvo gaura í kappi á pínulitlum þríhjólum á ganginum (Stephanie minntist sérstaklega á að þeir væru á launum) og mini-eldhús úti um allt. Það var þó ekki fyrr en í hádegismatnum sem ég missti andlitið. Google bauð okkur upp á hádegismat, og vá, matsalurinn er risastór og maður gat valið um nánast hvað sem er. Það var kínverskur matur, burrito sem maður lét raða í eftir eigin höfði, ýmiskonar hlaðborð, pizzur, grænmetisbakkar, hefði þurft að borða þarna í viku til að geta smakkað á aðeins fleiru sem mér fannst girnilegt. Í eftirrétt gat maður fengið sér kaffi, kökur, ben and jerry´s og bara allt sem hugurinn girnist. Því miður þurftum við að yfirgefa þennan dásamlega stað (mötuneytið) til að fara á NASA safn.

NASA safnið bliknaði í samanburði við Google, en samt gaman. Allt öðru vísi heldur en Google. Tveir gaurar sem samanlagt vógu líklega um hálft tonn (ekki að það skipti máli í sögunni) töluðu um starfsemi NASA og þá sérstaklega ferðir til Mars. Það var gaman fyrir nördinn í manni sjálfum. Þegar vísindaferðum dagsins var lokið fór ég ásamt fleirum í mollið sem er niðri í bæ, í röltfæri frá hótelinu, þar var fyrsti bjór ferðarinnar drukkinn. Lókal San Fransisco bjórinn heitir Anchor Steam og er mjög góður, síðan misstum við stelpurnar okkur í MAC. Þetta kvöld var farið snemma að sofa því daginn eftir var mætin í lobbí kl. 7.15.

[fös 19. maí] Davies og Beringer
Fyrri námsferð dagsins var í Davies háskólann, þar sem predikað var yfir okkur um möguleika á notkun vetnis sem eldsneytisgjafa. Það var heldur langdregið, sérstaklega fyrir Íslendinga sem alltaf eru að heyra um þessi mál. Eftir fyrirlesturinn var farið að skoða vetnis-metan-vélar og fleira, þar datt ég nokkurn vegin alveg út en þeir voru margir sem fannst þetta endalaust áhugavert og skemmtilegt. Eftir hádegi lá leiðin í Napa-dalinn sem þekktur er fyrir víngerð. Því miður var rigning, en útsýnið engu að síður mjög fallegt. Við heimsóttum Beringer víngerðina og þrír afar hressir og amerískir karlar leiddu okkur í gegnum framleiðsluferlið á víni. Sérstaklega skemmtilegt var að sjá 20 þúsund tunnum staflað upp, en í þeim var vín að gerjast. Eftir heimsóknina byrjaði ég að pæla í vínverkfræði í meistaranámi. Við fengum ekki að fara í vínsmökkun en hefðum mátt taka með okkur 250 kílóa tunnu af víni ef við hefðum getað borið hana. Ekki fór málið lengra. Um kvöldið var típískt Íslendingafyllerí uppi á hótelherbergi, og ekki gekk vel að finna skemmtistað.

Coming up... næstu 4 dagar í San Fransisco
Skrifað í Reykjavík, sunnudaginn 11. júní 2006

Þá er ég komin heim frá Hawaii. Nú verð ég að hætta að borða 3 kvöldmáltíðir á dag, enginn tekur til hjá mér nema ég, ég get ekki lengur farið út á kvöldin í léttum kjól og opnum kjól. Já Hawaii er yndislegur staður.

Önnur fríðindi fylgja því að vera komin heim, til dæmis internet og rigning. Það er gott að vera komin heim.

mánudagur, júní 05, 2006

Sit nuna i lobbiinu a hotelinu i Hawaii, klukkan er ad verda 2 og housekeeping er ad fjarlaegja allar bjordosirnar ur herberginu. Thessi setning lysir nokkud vel lifinu eins og thad er buid ad vera, nema eg er meira buin ad vera i kokteilum heldur en bjor. Uti er olysanlega heitt, thad er meira ad segja bara notalegt ad fara i sjoinn a nottunni.

Jaeja, verd ad fara ad worka tanid, aloha!

sunnudagur, maí 28, 2006

Thrir dagar af drykkju i L.A. bunir, thar adur vika af fyrirtaekjaheimsoknum i San Fransisco. Vorum ad koma a hotelid i Vegas, casino a nedstu haedinni.

sunnudagur, maí 14, 2006

Í dag lærði ég að maður kemst ekki í þriðju höfn ef maður er alltaf með annan fótinn í annari höfn.

mánudagur, maí 08, 2006

fimmtudagur, maí 04, 2006

Tími óskast til kaups! Lítið sem ekkert notaður. Má þó innihalda bakarísferðir eða létt spjall. Gott verð fæst fyrir réttan tíma.

Áhugasamir hafi samband við Þuríði tímalausu.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Hvers vegna er ég í háskólanum?

Það er dáldið erfitt að muna það þegar maður situr allan daginn sveittur yfir skólabókum, hamrar inn skýrslur á ljóshraða á semi-björtum vornóttum í VR, dreymir um staðalfrávik eigin bloggtíðni og þar fram eftir götunum.

Núna man ég loks af hverju ég er í háskólanum. Það er til að fara í hina mögnuðu útskriftarferð Véla- og iðnaðarverkfræðinema. Hún verður einhvern vegin svona:

50 partýglaðir verkfræðinemar (og nokkrir makar)
3 vikur
San Fransisco, þar sem hipp og kúl fyrirtæki verða heimsótt
Los Angeles, þar sem lífsins verður notið
Las Vegas, þar sem rasað verður út
Hawaii, þar sem leikið verður á landi og sjó :)

Æi já, svo ætlaði ég að fá einhverja BS gráðu...

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Hversdagurinn, hvers er dagurinn?

Dagurinn í dag er fyrir margt merkilegur og magnaður.

Sem dæmi má nefna að flæðið minnkaði í einum mestu Skaftárhlaupum í manna minnum. Þetta hlaup er merkileg að því leiti að það byrjaði óvenju snöggt þannig að sprungur komu í jökulinn, en það fór ekki bara undir jökulinn eins og venjulega. Ég skilaði ritgerð, en það hef ég ekki gert síðan í menntaskóla. Hef skilað óteljandi* skýrslum og heimadæmum en engum ritgerðum. Jörðin var hvít í morgun, um miðjan dag var ágætis vorveður og í kvöld byrjaði aftur að snjóa. Sprengjutilræði var í ferðamannabænum Dahab í Egyptalandi í kvöld, í það minnsta 22 létust (sjá nánar á mbl.is). Líkur á því að fuglaflensa berist til Íslands eru hverfandi vegna þess að flestir farfuglarnir eru komnir eða á leiðinni (skv fréttum í sjónvarpi í kvöld). Í Nepal er það helst að frétta að konungurin ætlar að endurreisa þingið í landinu (sjá nánar á visir.is). Ég drakk 0,4 lítra af sprite á 7290 sekúndum. Þar með bætti ég fyrra met mitt um 173 sekúndur.

*Í alvöru ég gæti ekki talið hversu mörgum skýrslum og heimadæmum ég hef skilað þessi þrjú ár sem ég er búin að vera í háskólanum

mánudagur, apríl 17, 2006

Ég var að horfa á Reality Bites með Winonu Ryder. Þar segir hún á einum stað þegar hún er sem dýpst sokkin í sjálfsvorkun og volæði að hún hafi ætlað að verða eitthvað fyrir 23 ára aldur. Það þykir mér merkilegt, þótti 23 ekki ungt árið 1994 ?

Það lítur ekki út fyrir að ég nái að verða eitthvað áður en ég verð 23 ára, hef allavega bara 3 daga til stefnu. Jæja, best að fara að reyna...

mánudagur, apríl 10, 2006

Góður árangur? Það er umdeilanlegt.Ég get glatt lesendur með fréttum af drykkjuafrekum mínum. Á aðalfundi Vélarinnar síðastliðið föstudagskvöld fékk ég titlana drifskaftsdrottning (kórónan) og Topp Vísindamaður Vélarinnar 2005-2006 (bikarinn), það er ekki á hverjum degi sem maður er verðlaunaður fyrir drykkju, læti og drykkjulæti. Allt kvöldið var séð til þess að bikarinn væri alltaf fullur af gleði :)
(ef þið fóruð að hlæja yfir orðinu drifskaftsdrottning, þá segi ég já ég veit við erum nördar)

mánudagur, apríl 03, 2006

Vangaveltur ungrar og fróðleiksfúsrar stúlku
[Ath ég man ekki hvort ég hafi bloggað um nákvæmlega þetta áður eða bara ætlað að gera það, ef ég er að endurtaka hluti þá biðst ég afsökunnar.]

Áðan sat ég við skrifborðið mitt og var eitthvað að blaða í skipulagsbókinni minni, nótera það sem ég þarf að gera og muna að gera. Það er mikilvægt að muna ýmsa hluti. Síðan var mér litið á litlu svörtu bókina sem ég skrifa hluti í, t.d. skemmtilega frasa sem fólk segir. Það er gaman að muna svoleiðis. Þetta er afburða lélegur inngangur að því sem ég hef að segja. Ég ætla að birta hér lista sem ég skrifaði í lest á leiðinni frá London til Liverpool í ágústmánuði 2001. Með í för var Svanhvít , við vorum í sannkallaðri pílagrímsferð. Listann ætla ég að skrifa eins og hann kemur, athugasemdir um einstök atriði eru fyrir neðan (í næstu færslu af því að blogger er að vera leiðinlegur við mig).

Things to find out:
1) "Mind the gap" raddirnar í tubinu (maðurinn á Victoria)
2) Hvað verður umm pissið þegar maður pissar í lest? Er það látið leka á teinana?
3) Hvað þýðir TIPPING ?
4) Hvaða eldsneyti er notað á lestar?
5) Hvað þýðir "the meek"
6) How does one boil a frog?
Athugasemdir:
1) Við vorum búnar að vera nokkra daga í London og höfðum afskaplega gaman af því að ferðast um með túbinu og heyra röddina segja "mind the gap" og okkur langaði að vita hvort þetta væri alvöru manneskja á hverri lestarstöð eða spóla. Á sumum stöðvunum var gap-ið milli lestar og lestarpalls ansi mikið (næstum 1/2 metri). Ég man líka að okkur þótti kallinn á Victoria stöðinni einstaklega skemmtilegur, hann var augljóslega alvöru því hann sagði aukaorð inn á milli, t.d. Mind the gap, mind the gap please, mind the gap! og einu sinni sagði hann Mind the gap you silly boy!!!
2) Ég hef greinilega farið á klósettið í lestinni og farið að spá. Hef ekki komist að hvað er gert.
3) Man ekkert hvernig þessi pæling kom til, kannski Svanhvít muni það.
4) Hef ekk græna og veit ekki afhverju ég var að spá í því.
5) Á www.answers.com fæst um orðið meek: 1.humble in spirit or manner 2.very docile og 3.evidencing little spirit or courage. Finnst hinir auðmjúku ágæt þýðing á því sem ég var að spá í. Á síðunni stendur líka að orðið komi úr Middle English og hafi þar verið meke, sem aftur hefur skandinavískan uppruna og ku vera tengt norska orðinu mjukr (með bylgju ofan á u-inu) sem við getum öll tengt við íslenskt orð. Þá veit ég það loksins eftir 5 ára bið...!
6) Reikna með að það sé ekki ósvipað því og að sjóða hvað annað. Man samt ekki hvers vegna þessi pæling kom fram.

Þetta varð rosa löng pæling upp blaðsnepil, góðan blaðsnepil mind you (and the gap).
Lasin... og búin að vera það undanfarna viku, fattaði það reyndar ekki fyrr en á fimmtudagskvöldið þegar ég kom heim úr skólanum búin að skila mest öllu fyrir vikuna.

Týnd... hvar er ég?

Líklega bara með óráði eftir hamagang undanfarinna daga/vikna/mánaða og núverandi slappleika.

fimmtudagur, mars 30, 2006

Númer 1 ? Ég?

laugardagur, mars 25, 2006

Ég fór í vísindaferð í gær, þetta var næst síðasta vísindaferðin í... tja óráðinn tíma. Núna kominn tregablandinn fílingur í útskriftarliðið, 3 ára vísindaferðatímabil að líða undir lok. Svo er líka kominn opinber listi yfir topp vísindamenn, þ.a. það er keppni. Í gær var ferðinni heitið í Straum Burðarás fjárfestingabanka, góð ferð.

Verð að segja að það er ekki oft sem ég er búin að taka 4 skot af ópal fyrir klukkan 7 um kvöld.

Eftir vísindaferðina var 3. árs partý hjá Jóhönnu, alveg eðal kvöld. Svona á þetta að vera.

mánudagur, mars 20, 2006

Ég er búin að finna mér mastersverkefni:

Búa til tíma.

Mig langar virkilega að gera þetta verkefni. Hvaða prófessor ætli vilji leiðbeina mér.

miðvikudagur, mars 15, 2006

[Tími til kominn]
Er fimmtudagur í dag? En það var fimmtudagur seinast fyrir svona tveimur dögum. Tíminn bókstaflega flýgur áfram.

Er óhugnanlega stutt í próf? En önnin var bara að byrja. Tíminn bara æðir áfram.

Klára ég í vor B.S. gráðu verkfræði? En ég er bara nýbyrjuð í háskóla. Tíminnn þýtur áfram.

Er ég orðin fullorðin? Nei, það er ég ekki. Þessari spurningu svara ég með skýru óhikandi nei-i. Ég bara veit það, ég finn það. Dag hvern finnst mér ég vera fullorðnari heldur en daginn áður. Þegar ég lít viku eða mánuð aftur í tímann er ég aldrei lengi að rifja upp atvik eða ákvörðun og hugsa hvað ég hafi verið barnaleg og óþroskuð í því tilviki. Þegar ég rifja upp ársgamla atburði þá hreinlega hneykslast ég stundum á sjálfri mér fyrir að hafa verið barnaleg. Fjandinn hafi það, núna lít ég á fyrri hluta þessarar færslu sem skrif óharðnaðrar manneskju.
Já tíminn líður hratt.

Fólk í kringum mig er að skrá sig í mastersnám hægri vinstri og ég hefði getað verið að gera það sama ef ég hefði viljað. Ég! Ég sem hélt að mastersnám væri fyrir fullorðið fólk, ekki krakkavitleysing eins og mig. (N.B. Ég er ekki að gera lítið úr þroska þeirra sem eru á leið í mastersnám, heldur er ég hissa á eigin aldri / stöðu / þroska).

Núna er ég bara búin að minnast á mögulega námsmöguleika, fólk í kringum mig er líka á fullu að trúlofa sig, kaupa íbúðir, eignast börn. Komast í pakkann eins og manni finnst gaman að segja. Ætli öll aldursskeið séu svona krefjandi? Maður spyr sig.

Ég er á þeirri skoðun að það sé tími og staður fyrir allt. Hver minn staður er og hvaða tími er núna hef ég hins vegar ekki hugmynd um en allt í lagi.

sunnudagur, mars 12, 2006

[Fullyrðing]
Ég stend í skugganum af sjálfri mér.

Er hægt að standa í skugganum af sjálfum sér? Maður framkallar sjálfur sinn eiginn skugga með því að standa í birtu. Eina manneskjan sem ekki getur staðið í skugganum af sjálfum manni er maður sjálfur. Auðvitað getur maður fært hendina þannig að hluti af manni skyggi á hana, en er það það sama og að vera í skugganum? En það er alltaf þannig, það er sjaldnast allur líkaminn sem er í birtunni í einu, þá er maður alltaf í skugganum af sjálfum sér. Hvort virkar? Að maður geti ekki staðið í skugganum af sjálfum sér, eða að maður standi alltaf í skugganum af sjálfum sér? Eða kannski bæði.

Þessa pælingu má yfirfæra á marga nærtækari hluti. Eða hvað? Hvað er nær manni sjálfum heldur en skugginn manns? Hann er alltaf alveg upp við mann. Nú nema þegar maður stendur í myrkri. Þegar maður stendur í myrkri, er maður þá einn?

Hvert fór rökhugsunin sem ég hélt ég byggi yfir? Kannski skugginn minn sé að nota hana. Verði honum að góðu.

föstudagur, mars 10, 2006

[saga]
Inni í þriðja árs stofunni í skólanum eru uppi á einum skápnum bunki af alls konar litum blöðum. Um daginn ætlaði ég að nota lituð blöð og bað Hlyn sem stóð nálægt að rétta mér eitt ljós blátt blað. Það gerði ég með setningunni:

Hlynur, ertu til í að rétta mér ljósblátt blað?

Hann sagði já, en í staðinn fyrir að rétta mér það sem ég bað um rétti hann mér öðruvísi blað sem sama orð er notað um.

Kannski komst fyndnin ekki til skila... en þetta var fyndið.

mánudagur, mars 06, 2006

Árshátíð verkfræðinnar var haldin á Hótel Örk síðasta föstudagskvöld, vúí gaman. Engir skandalar, meira að segja ég hagaði mér vel.

þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Bara taka það fram, síðasta færsla var bara til að skrifa eitthvað, það gerðist ekkert merkilegt, ég bara var að syngja eins asni fyrir utan einhvern skemmtistað um nótt... með fyrrgreindum afleiðingum.

Til að hafa bókhaldið í lagi:

Vika 3 (síðasta vika) menningarviðburður:
Ég ætla að flokka útgáfutónleika Ókindar í Þjóðleikhúskjallaranum sem fulltíða menningaratburð. Ég skemmti mér mjög vel, platan var skemmtileg. Mr Silla hitaði upp... hitaði upp gerði Mr Silla. Gott kvöld.

[leiðinlegt]
Ég er tótallí í blogg-lægð þessa dagana, ætla bara að blogga leiðinlega þangað til ég kemst aftur í stuð, ef einhverntíman.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Sumum er hent út af skemmtistöðum, mér er hent inn á skemmtistaði. Meira um það seinna.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Í dag er dagur ólíkur öllum öðrum dögum, líkt og hver annar dagur.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Til hamingju Gunni og Eva með nýfæddan son :)

Það toppar ekkert nýtt barn þannig að ég ætla ekki að segja neitt meira í dag.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Svar við opnu bréfi stíluðu á mig, Þuríði Helgadóttur, sem birtist á síðu Elínar I. Magnúsdóttur þann 17. febrúar 2006

Ágæti bréfritari,

Ég þakka þér fyrir að koma skoðun þinni á framfæri á svo smekklegan og fínlegan hátt sem þú hefur gert. Ég hef tekið ummæli þín til umhugsunar og eftirfarandi eru mín viðbrögð:
Við búum í landa málfrelsis og tjáningarfrelsis þannig að ég sé mig á engan hátt knúna til að minnka umræður um áfengismál á síðu minni. Varðandi kynferðismál þá er aðeins vísað óbeint til þeirra stöku sinnum og þá á tvíræðan hátt þannig einnig má túlka annað úr skrifunum. Ef að þú, eða aðrir lesendur, hneykslast á skrifum mínum þá getur þú beint blogg áhuga þínum annað.

Þú spyrð líka hvernig ég ætli að ná í mannsefni og vísar í orð manneskju sem hefur mesta sorakjaft sem ég þekki til. Mér finnst þessi röksemdafærsla ekki vera máli þínu til stuðnings og ætti því ekki að hafa fyrir því að svara spurningunni. Hins vegar er þetta skemmtileg spurning og besta svarið sem ég hef er að það séu mín örlög að deyja ein því ekki hef ég fundið gott efni í mann síðasta áratuginn og sé ekki fram á að næsti áratugur verði lukkuvænni.

Ég vona að þetta hafi verið fullnægjandi svar.

mbk
Þuríður Helgadóttir (ein með ljótan munnsöfnuð)

laugardagur, febrúar 18, 2006

Skandall!

Í gær var sameiginleg vísindaferð véla- og iðnaðarverkfræðinema og hagfræðinema í Íslandsbanka. Voða gaman. Maðurinn sjálfur Bjarni Ármannsson talaði og síðan hagfræðingur sem dissaði verkfræðinga og loks verkfræðingur sem dissaði hagfræðinema. Jakkalakkar, áfengi, gefins usb-lyklar og fleira skemmtilegt.

Þegar komið var á Pravda til að drekka ókeypis bjórinn var drykkjukeppni milli verkfræði- og hagfræðinema... og að sjálfsögðu tók ég þátt fyrir hönd Vélarinnar. Það voru ég, Fjalarr og tveir fyrsta árs nemar á móti fjórum hávöxnum hagfræðinemum með breiðar axlir. Til að gera stutta sögu enn styttri þá ætla ég bara að segja að allir strákarnir gátu stútað sínum bjór í einum sopa án þess að kyngja... ég drakk minn (og þurfti að kyngja honum) þannig að hagfræðinemar unnu og mannorð mitt fór í vaskinn. Veit ekki hvort ég þori að láta sjá mig uppi í skóla framar :/

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Vika 2, menningaratburður:

Á mánudagskvöldið mætti ég í bókaklúbb. Þar voru saman komnar nokkrar eðal meyjar. Við ræddum bókina 11 mínútur eftir Paulo Coelho. Hún hefst á orðunum Einu sinni var vændiskona sem hét María. Það segir dáldið mikið um bókina, falleg en jafnframt klúr.

[daglegt líf]
Ég er búin að upplifa mikinn skólaleiða það sem af er af þessari önn. Fresta því að læra þetta og hitt, vera alltof þreytt, meika ekki að opna skólabækurnar. Í dag kom skuldadagur, 20% próf, 10% kynning og töfludæmi. Þegar ég eyddi stórum hluta gærkvöldsins í að googla Brad Pitt, geek og fleira skemmtilegt leið mér ekki eins og ég væri að besta tímann minn... en ég var að því! (Til upprifjunar þá er ég ennþá í verkfræði.)

mánudagur, febrúar 13, 2006

3. dagur í bömmer

Í dag er mánudagur þannig að ég hlýt að vera með bömmer yfir föstudagskvöldinu.... ennþá. Ég er að vona að það hafi bara verið út af því að ég talaði dáldið mikið við einn kennarann á kennarafagnaðinum.

Annars lýsi ég eftir vitnum sem sáu mig gera eitthvað af mér á föstudagskvöldið! (Sveinbjörn má ekki vera með)

Það var samt heví gaman á föstudaginn :) Leikir sem var farið í:

*Teygjuleikurinn, allir byrjuðu með eina teygju og áttu síðan að vinna teyjgjur af hinum með því að láta þá segja , sko, ógeðslega eða verkfræði.
*Borðaleikurinn, mitt borð átti til dæmis að spyrja Sigga Brynjólfs (deildarforseta verkfræðideildar) út í smáatriði vísindagarða. Við drógum hann nokkrum sinnum upp í pontu.
*ÓPP, það er reyndar maður en ekki leikur, en hann var hress.
*Spurningakeppni milli 3. árs nema og mastersnema sem 3. árið vann örugglega
*Drykkjukeppni milli nemenda og kennara (sem við Erna sáum um) og nemendur unnu.... vei.
*Sing Star, fylgdist ekkert voða mikið með því, var þá farin að drekka fyrir alvöru.
*Sella Nótt (segir sig sjálft)
*Man ekki hvort ég sé að gleyma einhverju...

Maturinn var góður, bjórinn var góður, skórnir meiddu ekki, hárið afsléttaðist.

Þegar partýið var búið var haldið í bæinn að dansa... og meira stuð. Daginn eftir vaknaði ég klukkan 9... FULL.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Kennarafagnaður Vélarinnar:

Gott hefði verið að drekka minna og tala minna.

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Hjartans mál...!

(1) Ég horfði á söngvakeppni sjónvarpsins í gær gagngert til að sjá Silvíu Nótt. Fyrir framan skjáinn sátum ég, mamma og pabbi, öll yfirlýstir Silvíu aðdáendur. Þegar atriðið hennar byrjaði vorum við orðin nokkuð spennt, og ég held að þau hafi hlegið meira en ég. Þegar dansararnir Hommi og Nammi birtust ætlaði allt að tryllast, mamma kallaði "Þura, sjáðu þarna eru þeir, Hommi og Nammi...! he he he" Og þegar atriðið var búið stóð pabbi upp og sagðist vorkenna næsta atriði á eftir.

Niðurstaða: Silvía, Hommi og Nammi fengu sitt atkvæðið hvert frá mínu heimili og ég verð fyrir vonbrigðum ef þau verða ekki send í keppnina úti.

Andans mál...!

(2) Talandi um menningu... Ég er búin að ákveða að cúltur-væðast á markvissan hátt. Þetta merkir ekki að ég ætli að skipta út skífusímanum fyrir þráðlausan (?) heldur ætla ég sækja list- og menningaratburði tíðar en áður hefur gerst. Þetta merkir að ég ætla að gera eitthvað sem ég flokka sem menningarlegt í viku hverri. Reyndar er þetta í annað sinn sem ég tek þessa ákvörðun því einhvern tíman fyrir áramót stefndi ég að sama markmiði, en þegar ég drukknaði í vinnu tapaðist sú ákvörðun í hafdýpi vonleysis ásamt svo mörgum öðrum.

Menningar-tilraun þessarar viku var ferð á Listasafn ASÍ. Þar var síðast dagur samsýningar tveggja listamanna og tveggja hönnuða, alls konar svona form og litir. Það sem sjokkeraði mig aðallega var verðlistinn.

Sálarinnar mál...!

(3) Ég veit ekki alveg hvernig maður ræktar sálina, en ég veit að það fer ekki vel með mína litlu sál að lokaþáttur House er búinn. Ég var orðin alveg háð honum.

Ekki mitt mál...!

(4) Ég er mikill aðdáanda auglýsinga, sérstaklega sjónvarpsauglýsinga. Þegar ég fer aftur að horfa á sjónvarp eftir að hafa tekið mér nokkra vikna pásu finnst mér auglýsingahléin oftast skemmtilegri heldur en einhverjir þættir sem ég horfi á. Þegar ég horfi reglulega á sjónvarp og sé sömu auglýsingarnar trekk í trekk þá fæ ég ógeð eins og hver annar.

Mér finnst gaman að fylgjast með auglýsinga tískunni þ.e. hvernig auglýsingar eru algengastar á hverjum tíma. Núna er til dæmis búið að vera í nokkrar vikur tímabil væminna auglýsinga. Það er auglýsingar sem sýna á grátbroslegan hátt mannlegu þættina í umhverfi okkar og minna mann á að það eru litlu hlutirnir sem gefa lífinu gildi. Tónlistin undir er velgjulega væmin og í lokin kemur lógó risa-fyrirtækis ásamt hnyttnum frasa sem gefur til kynna að stórfyrirtækinu sé ekki sama um litla manninn og hugsi um fleira en að græða bara ógeðslega mikla peninga.

Gott dæmi um svona auglýsingu er kona sem gefur manni sínum pakka, hann opnar pakkann og tekur upp hawaii skirtu. Maðurinn er ýkt ánægður, kyssir konuna og hengir skirtuna síðan í fataskápinn sinn sem er fullur af hawaii skirtum. Síðan kemur línan "Vísa, nýr dagur -ný tækifæri" Fleiri álíka væmnar auglýsingar eru í þessari herferð (er það rétta orðið?) frá Visa. Ást er... auglýsingin frá einhverju tryggingafélaginu er í sama stíl sem og Takk auglýsingarnar frá happdrættinu sem ég man ekki hvað heitir (Takk fyrir að gefa okkur lengri tíma saman o.fl.).

Samantekt: Ég er komin með nóg af væmnu-auglýsinga tískunni. Það er kominn tími á nýtt þema. Og ég vissi ekki að ég hefði svona mikinn áhuga á auglýsingum!

Nú er mér mál...!

(5) Vá, náði einhver að lesa alla leið niður í atriði 5. Magnað.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

[meira væl]

"Ég nenni þessu ekki, ég vil fá þetta upp í hendurnar!"

Þessi orð Ernu lýsa vel hvað okkur finnst um iðnaðartölfræði. Af hverju þarf maður alltaf að gera allt sjálfur. Það eru allavega þrjú sigma sem eru skrifuð eins og tákna öll eitthvað mismunandi. Get ekki meir. Hvernig væri að ég fengi að sofa eitthvað einu sinni?

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Ég er ótrúlega þreytt á skólanum og lærdómnum, einmitt þegar ég þarf dáldið mikla orku til að geta klárað þessa klikkun. Námskeið frá 9 til 5 báða dagana um helgina tók sinn toll. Of þreytt, verð að halda áfram... get ekki.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Aftur komin í pakkann langar að blogga af því að ég nenni ekki að læra, það er verri pakki heldur en langar að blogga af því að mig langar að blogga. Úú pakki.... langar í pakka.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Hvítur Rússi:

1 hluti vodki
1 hluti kahlua
1,5 hlutar rjómi

hristist saman í barnamáli með stút þangað til allt fer út um allt. Borið fram með klökum.

Þetta voru að minnsta kosti þær upplýsingar sem ég fékk.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

[Stutt blogg]
Ókei lélegasta afsökun í heimi, tölvan fraus þannig að langa bloggið týndist. En kaldhæðni örlaganna sáu til þess að bloggið var um löng og stutt blogg, og líka blogg sem hverfa.

Núna fylkjast lesendur síðunnar í tvær fylkingar:

(annars vegar) Þeir sem gráta tapið á langa blogginu og vita að heimurinn verður örlítið fátækari vegna þess að frábært blogg fullt af innsæi og gletni, lúmskum ísköldum húmor og beittri ádeilu, hvarf í tómarúm stafræns fábreytileika.

(hins vegar) Þeir sem velta fyrir sér hvað það hefði örugglega verið leiðinlegt að lesa einhverja langloku um óskrifaðan texta og eru ekkert minna en fegnir að textinn hvarf.

Já léttleiki tilverunnar er óbærilegur.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Besta afsökun sem ég hef heyrt strák nota til að fara snemma heim úr vísindaferð:

Ég er að fara í meðgöngujóga.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Af guðfræðingum og óhöppum

Í gærkvöldi var ég að keyra, með mér í bíl var Elín. Við vorum einmitt að spjalla um umferðaróhapp sem hún hafði lent í nokkrum dögum áður þegar aftan á mig klessir bíll, talandi um.... Sem betur fer var þetta mjög nett kless og ekkert sá á bimma mínum. Í sömu bílferð, þegar Elín hafði yfirgefið bifreiðina, fékk ég mér tyggjó. Á meðan hugsaði ég með mér hversu mikill daredevil ég væri að fá mér tyggjó undir stýri, lífið á jaðrinum í sinni skýrustu mynd. Um leið og sú hugsun var horfin fór strætó fyrir framan mig inn á stoppustöð, þetta er á Miklubrautinni þar sem má keyra á 80, en aðeins tveir þriðju hlutar strætó fóru út af götunni. Afgangs þriðjungurinn stöðvaðist fyrir framan mig á minni akrein, ég hafði snör handtök og sveigði út á næstu akrein, um annað var ekki að ræða. Bílstjórar í kring misstu sig á flautunum.

Tvær viðvaranir í röð, enginn daredevil í mínum bíl lengur.

Í dag fór ég í fyrsta tímann í námskeiði sem er kennt af guðfræðingi (nei ég er ekki búin að skipta ég er ennþá í verkfræði) það var eiginlega bara fyndið þegar hann spurði hópinn "er það einlægur ásetningur ykkar að sitja þetta námskeið?" Furðulegt hvað manni finnst setningar sem eru alveg ófyndnar vera fyndar þegar þær koma frá viðpassandi fólki.

laugardagur, janúar 07, 2006

Á mánudaginn byrjar skólinn með öllu því argi og þófi sem honum fylgir. Það verður örugglega ágætt, ég er ekki manneskja til að vera lengi í fríi. Það er nú samt alveg óþarfi að lífið sveiflist svona öfganna á milli, að fara beint úr alltof mikilli vinnu í alltof mikið frí og svo beint aftur í líklega allt of mikla vinnu. Þetta er eins og að fara í brennandi heita sturtu, síðan beint í ískalda sturtu og ætla síðan að skella sér beint aftur í heitu sturtuna. Ég væri alveg til í aðeins mildari sturtu til tilbreytingar.

Í gærkvöldi fór ég í kveðjuhóf til Stebba, fyrir þá sem ekki vita þá eru hann og Héðinn að flytja til Noregs á þriðjudaginn. [Noregsbrandara hér] Ég hélt mig við barinn, eins og gefur að skilja. Skemmtilegast var samt að hitta dansfólkið sem ég hef ekki hitt í langan tíma. Eftir að allt fólkið sem á íbúðir, börn á leiðinni og hefur fundið hinn helminginn af sjálfu sér fór heim fórum við hin að djamma. Þar sem bærinn var nánast tómur fórum við að leita að einhverju fólki, maður er bara ekki að djamma nema drukkið fólk rekist utan í mann, detti á mann eða reyni að grípa í mann sirka tvisvar á mínútu. Þannig kom það til að við fórum á Óliver. Þar var pakkað. Það var greinilegt að allir sem á annað borð höfðu vogað sér út þetta kvöld voru staddir á Óliver á sama tíma og ég. Þarna var nóg af fólki að troðast.

Ég er enginn Óliver fan og fílaði þetta ekkert voðalega vel, en það var eitt sem klikkaði ekki, að telja gellur sem voru klæddar í anda Silvíu Nætur. Þetta nýja áhugamál hélt mér gangandi lengi lengi, var komin upp í 12 sem voru almennilega dressaðar áður en ég yfirgaf skemmtistaðinn. Ég taldi aðeins þær sem voru klárlega að stæla Silvíu Nótt, það voru margar fleiri sem voru bara með smá Silvíu þema. Það er samt hugsanlegt að þær hafi allar bara verið í þema partýi, en mér finnst það ekki líklegt þar sem ég sá þær ekkert tala saman.

Aðeins um Silvia Night look alikes. Þær voru allt frá því að vera bara með túberað hár frá andlitinu og kannski glansandi belti upp í að vera býsna líkar the real thing, með tvílitt hár, í gylltum og glimmeruðum fötum, með æpandi augnmálingu. Stundum þurfti ég að líta tvisvar til að athuga hvort þetta væri Silvía sjálf mætt til að rokka lýðinn, en svo reyndist aldrei vera. Uppáhalds stælingin sem ég sá var ein sem var búin að mála stjörnu utan um vinstra augað, var með brjálað túberað hár með ljósum röndum, í einhvers konar gulltopp, með belti og gyllta tösku. Hún var æði, hún fílaði sjálfa sig líka svo vel.

Einu sinni, á mínum yngri og viðkvæmari árum, fór ég á Elvis Presley eftirhermukvöld, hvenær skyldu Silvíu Nætur aðdáendaklúbbar með tilheyrandi eftirhermukvöldum fara að skjóta upp kollinum?

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Þura gegnum árin
Núna förum við í leik. Hérna eru 5 myndir af mér frá árunum 2001 til 2005. Leikurinn er þannig að þið segið mér hvaða Þura ykkur finnst skemmtilegust/flottust/hallærislegust. Ef kommentakerfið virkar ekki ennþá þá má líka senda mér póst. En ef þið viljið ekki að ég viti þá má líka bara hlæja að þessum myndum án þess að segja múkk. Þið megið líka segja hvaða Þuru þið kynntust fyrst.
(ártal er fyrir ofan hverja mynd)
2005 -ár hinnar miklu bjórdrykkju

2004 -sumar ferðalaga í flíspeysu

2003 -árið þar sem öll partý voru artí-fartí og ég var alltaf einhver úr star trek

2003 -blómaárið, ást, friður og bítlar

2001 -árið sem enginn man eftir lengur, twisted-hvað?

Því miður á ég ekki eldri myndir á stafrænu formi.

mánudagur, janúar 02, 2006

Kommenta vandamál í gangi... svo virðist sem ég þurfi að samþykkja komment sem fara á síðuna. Eins sniðug og ég er þá samþykkti ég þetta:

philgilbert0034 said...
I read over your blog, and i found it inquisitive, you may find My Blog interesting. My blog is just about my day to day life, as a park ranger. So please Click Here To Read My Blog

Þetta eyðilagði alveg póstaðu í kommentin leikinn, en hann var líka so last year skiluru...

Annars er ég núna að reyna að snúa sólarhringum aftur við hjá mér, vökunætur og svefnmorgnar hafa verið ráðandi í fríinu svona eins og gengur.

Um áhugaverðari málefni má segja að um áramótin strokaði ég nokkur atriði út af ég-hef-aldrei-listanum mínum. Fæst voru merkileg, en síðasta önn bauð ekki upp á miklar útstrokanir þannig að ég varð aðeins að bæta upp.