laugardagur, janúar 07, 2006

Á mánudaginn byrjar skólinn með öllu því argi og þófi sem honum fylgir. Það verður örugglega ágætt, ég er ekki manneskja til að vera lengi í fríi. Það er nú samt alveg óþarfi að lífið sveiflist svona öfganna á milli, að fara beint úr alltof mikilli vinnu í alltof mikið frí og svo beint aftur í líklega allt of mikla vinnu. Þetta er eins og að fara í brennandi heita sturtu, síðan beint í ískalda sturtu og ætla síðan að skella sér beint aftur í heitu sturtuna. Ég væri alveg til í aðeins mildari sturtu til tilbreytingar.

Í gærkvöldi fór ég í kveðjuhóf til Stebba, fyrir þá sem ekki vita þá eru hann og Héðinn að flytja til Noregs á þriðjudaginn. [Noregsbrandara hér] Ég hélt mig við barinn, eins og gefur að skilja. Skemmtilegast var samt að hitta dansfólkið sem ég hef ekki hitt í langan tíma. Eftir að allt fólkið sem á íbúðir, börn á leiðinni og hefur fundið hinn helminginn af sjálfu sér fór heim fórum við hin að djamma. Þar sem bærinn var nánast tómur fórum við að leita að einhverju fólki, maður er bara ekki að djamma nema drukkið fólk rekist utan í mann, detti á mann eða reyni að grípa í mann sirka tvisvar á mínútu. Þannig kom það til að við fórum á Óliver. Þar var pakkað. Það var greinilegt að allir sem á annað borð höfðu vogað sér út þetta kvöld voru staddir á Óliver á sama tíma og ég. Þarna var nóg af fólki að troðast.

Ég er enginn Óliver fan og fílaði þetta ekkert voðalega vel, en það var eitt sem klikkaði ekki, að telja gellur sem voru klæddar í anda Silvíu Nætur. Þetta nýja áhugamál hélt mér gangandi lengi lengi, var komin upp í 12 sem voru almennilega dressaðar áður en ég yfirgaf skemmtistaðinn. Ég taldi aðeins þær sem voru klárlega að stæla Silvíu Nótt, það voru margar fleiri sem voru bara með smá Silvíu þema. Það er samt hugsanlegt að þær hafi allar bara verið í þema partýi, en mér finnst það ekki líklegt þar sem ég sá þær ekkert tala saman.

Aðeins um Silvia Night look alikes. Þær voru allt frá því að vera bara með túberað hár frá andlitinu og kannski glansandi belti upp í að vera býsna líkar the real thing, með tvílitt hár, í gylltum og glimmeruðum fötum, með æpandi augnmálingu. Stundum þurfti ég að líta tvisvar til að athuga hvort þetta væri Silvía sjálf mætt til að rokka lýðinn, en svo reyndist aldrei vera. Uppáhalds stælingin sem ég sá var ein sem var búin að mála stjörnu utan um vinstra augað, var með brjálað túberað hár með ljósum röndum, í einhvers konar gulltopp, með belti og gyllta tösku. Hún var æði, hún fílaði sjálfa sig líka svo vel.

Einu sinni, á mínum yngri og viðkvæmari árum, fór ég á Elvis Presley eftirhermukvöld, hvenær skyldu Silvíu Nætur aðdáendaklúbbar með tilheyrandi eftirhermukvöldum fara að skjóta upp kollinum?

Engin ummæli: