þriðjudagur, júní 13, 2006

2. hluti
Ennþá í San Fransisco

[lau 20. maí] Berkeley
Þennan laugardagsmorgun fórum við með rútu í háskólabæinn Berkeley sem er rétt fyrir utan San Fransisco í þeim tilgangi að skoða Berkeley háskólann. Þetta var óformleg heimsókn sem þýddi að við fengum ekki að fara inn í neina byggingu heldur tók á móti okkur íslenskumælandi kona með fjólublátt hár sem hafði stundað nám við skólann í 15 ár. Hún rölti með okkur milli bygginga og sagði okkur frá skólanum, það var fínt. Staðurinn var ótrúlega sjarmerandi. Eftir hádegi var okkur sleppt lausum. Ég stakk af og rölti um götur Berkeley bæjarins, spjallaði við fólk og verslaði við gamla hippa sem virtust hafa reykt aðeins of mikið það töfra sumar 1967. Ég lét m.a. gamlan tannlausan mann; í leðurfötum og með sítt hár lesa í tarot spil fyrir mig. Held að það hafi verið ódýrasti tími hjá sálfræðingi sem ég hef upplifað.


Myndin er af mér og Chao Lin sem var þennan dag að útskrifast með meistaragráðu í civil-engineering frá Berkeley.

Um kvöldið fór ég ásamt fleirum út að borða á sjávarréttaveitingastað á bryggju 39, það er sko aðal bryggjan. Þar átum við krabba og humar, og brutum skeljarnar með einhverju sem virtist vera hnotubrjótur. Dungeoness crab er krabbinn sem maður verður að smakka þegar maður er í San Fransisco, og svoleiðis borðaði ég með risastóran smekk með krabbamynd um hálsinn (ekki veitti af). Eftir bragðgóða og skemmtilega kvöldmáltíð fórum við á blues bar sem var í göngufæri í burtu. Þar tróðu upp 6 eldgamlir og hrukkóttir kallar sem voru ógeðslega góðir á hljóðfæri og að syngja. Þeir voru gamlir, pottþétt allir yfir sjötugu, en samt kraftmiklir og skemmtilegir. Þegar þarna var komið við sögu var ég loksins farin að muna eftir þjórfé við öll tækifæri. Fyrst fannst mér þetta vera óþolandi siður en eftir því sem dagarnir liðu fór ég að sjá kostina og hversu gaman það er að gefa tips. Næst var ferðinni heitið með limma á Broadway, ekki bara plebbaskapur, það var ótrúlega ódýrt að taka limma. Við ætluðum aldeilis að finna góðan skemmtistað og djamma fram á rauða nótt. Klukkan var rétt upp úr 1 og okkur var ekki hleypt inn á neinn skemmtistað því það var verið að loka. Það er víst bannað að selja áfengi eftir klukkan 2 í Kaliforníufylki en ef við vildum djamma þá var okkur bent á hommabar á Harrison og sjötta stræti. Við röltum frekar heim um hæðóttar götur San Fransisco.

[sun 21. maí] Frí... nei bay to breakers hlaupið
Þrátt fyrir að hafa ekki farið að sofa fyrr en 4 um nóttina ákvað snillingurinn ég að vakna fyrir 8 á sunnudagsmorgninum til að taka myndir. Ég hafði frétt af árlegu hlaupi þar sem hlaupið er frá flóanum að sjónum í gegnum San Fransisco. Ástæðan fyrir því að mig langaði að sjá hlaupið var sú að þetta er ekkert venjulegt kapphlaup heldur er þetta djamm-flipp-grímubúninga-kapphlaup. Flestir sem taka þátt klæða sig upp í búninga og þetta er meira eins og hátíð heldur en hlaup. Ég hitti Helga Tómas í lobbíinu sem var hress og vaknaður. Hann samþykkti að koma með mér að kíkja aðeins á hlaupið. Það var rétt hjá hótelinu þannig að við þurftum ekki að fara langt. Það var rosa gaman að sjá mannfjöldann hlaupa og labba framhjá. Búningarnir voru allt frá því að vera fyndinn hattur á annars eðlilegum hlaupara í 50 manns allir klæddir eins og kóngurinn (elvis) syngjandi og hrópandi til mannfjöldans á meðan þeir drukku bjór úr vagni sem þeir voru með. Einnig mátti sjá ofurhetjur, strumpa, strípalinga, geimverur og fleira og fleira. Allir drukku áfengi, sungu, kölluðu og voru með almenn ólæti. Margir stórir hópar voru í búningum, eins og elvisarnir, til dæmis hrópaði hópur Hvar-er-Valla slagorð eins og "You say where is and I say Waldo! Where is! Waldo! Where is! Waldo!". Þeir voru skemmtilegir. Helsti kosturinn sem ég sá við að vera í hóp var sá að þeir voru alltaf með vagn, temmilega dulbúinn, til að geyma bjórinn sinn í. Þegar við sáum laxana sem hlaupa í öfuga átt (af því að laxar synda upp strauminn) hlupum við inn í þvöguna til að taka myndir af þeim, þeim var fagnað hressilega af öðrum hlaupururm. Á þeim punkti var ekki aftur snúið, við löbbuðum með öllu klikkaða fólkinu í klikkaða hlaupinu þeirra, því miður áttum við engan bjór. Klukkan var að verða 9 á sunnudagsmorgni. Stemningin var rífandi, fyrir framan og aftan okkur var fólk sem augljóslega var bara að skemmta sér, held að eitthvað um 50 þúsund manns hafi tekið þátt. Partýið einskorðaðist ekki við hlaupið heldur var fólk sem bjó í húsum við götur sem strollan fór um margt úti í gluggum og á veröndum með græjur að spila tónlist, drekka bjór og að hrópa á fólkið í göngunni. Á mörgum stöðum voru hljómsveitir að spila úti á götu, sums staðar of nálægt hver annarri. Ég gapti af undrun, held ég bara allar 7 mílurnar sem ég gekk upp og niður hæðóttar götur San Fransisco. Ótrúlega margir kusu að taka þátt í hlaupinu án búnings... eða annarra flíka. Er ekki búin að gera upp við mig hvort mér finnist það heilbrigt eða ekki að hafa einn dag á ári þar sem allir þeir með strípiþörf geta striplast að vild án þess að aðrir kippi sér upp við það. Tek það fram að strípalingarnir voru flestir komnir fram yfir besta aldur, hér vantar sárlega myndina af parinu um sextugt sem var ótrúlega krúttlegt á sinn hátt (hún er inni á myndavélinni minni). Upp úr hádegi var ég að farast úr þreytu og varð að komast heim. Þegar ég loksins komst heim fleygði ég mér beint upp í rúm og gerði ekki meira þann daginn. Orkan mín, líkamleg og andleg var búin, en tótallí þess virði :)

[mán 22. maí] Intel safnið og Stanford háskólinn
Eitthvað fór ég illa út úr þessu hlaupi því næstu 2 daga var mér stöðugt flökurt og gat lítið sem ekkert borðað. Ákvað samt að fara í námsferðir dagsins. Sat reyndar bara í skugganum fyrir utan Intel safnið, þeir sem fóru inn sögðu að ég hefði ekki misst af neinu. Eftir hádegi á heitum og sólríkum degi mættum við í Stanford og fengum ágætis leiðsögn um svæðið hjá ofur hressri gellu. Síðan sýndi kærasti Fríðu Siggu, sem er í mastersnámi þarna okkur aðeins meira af svæðinu.

Um kvöldið fór allur hópurinn saman út að borða í fyrsta og eina skiptið í ferðinni, og kennarinn sem stóð fyrir námsferðunum kom með. Ég var alveg ónýt vegna flökurleika, fékk Advil hjá þjóninum og gat hvorki borðað né drukkið og fór heim við fyrsta tækifæri. Það var þannig að hótelið var í það slæmum bæjarhluta að einhverjir vildu ekki að ég tæki leigubíl ein heim.

[þrið 23. maí] Eitthvað kúka-fyrirtæki og svo loks Bechtel
Við stóðum í þeirri meiningu að fyrri heimsókn dagsins væri í vatnshreinsistöð, þar sem vatn er hreinsað áður en það er notað. Svo reyndist ekki vera, í staðin fórum við í skolphreinsistöð, þar sem mengandi efni eru hreinsuð úr skolpi áður en því er veitt út í sjó. Það var ógeðslegt, ég segi það bara eins og það er, þetta var kúka-fyrirtæki. Um hádegið mættum við í höfuðstöðvar verkfræðifyrirtækisins Bechtel, þess sem er að byggja álverið á Reyðarfirði. Fyrst fengum við hádegismat og síðan tóku við nokkrir fyrirlestrar fluttir af frekar hátt settum mönnum hjá fyrirtækinu. Þetta var ótrúlega flott og vel heppnuð heimsókn. Um kvöldið ákvað ég að mér væri batnað og skellti mér út að borða, og mér var batnað.

Næst: til Hollywood beibí

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ótrúlega gaman að lesa ferðasöguna skvís :-)

Þura sagði...

Eva: gott :)

Atli: fastar inná myndavélinni minni :/ fool !