sunnudagur, júní 11, 2006

Uppgjörið

"Þura mín, þú hefur fitnað og þú ert ekkert svo brún!!!" Þetta voru viðbrögð móður minnar þegar ég kom heim úr rosalegri útskriftarferð véla- og iðnaðarverkfræðinema seinnipartinn á fimmtudaginn. Ferðin var rosaleg, ég er alveg eftir mig. Ég ætla að birta ferðasöguna í nokkrum köflum... ókei mörgum köflum.

1. hluti
San Fransisco

[mið 17. maí] Ferðalagið
Mætti á flugvöllinn seinnipartinn, flugvélin átti að fara klukkan 5. Leifsstöð var full af verkfræðinemum, enda voru 45 útskriftarnemar og 7 makar á leiðinni í þessa ferð. Venjulega tekur 9 tíma að fljúga frá Keflavík til San Fransisco en vegna bilunar var minni flugvél notuð og þurfti þess vegna að millilenda í Kanada. Þessir 11 tímar í flugvélinni voru ekkert svo lengi að líða. Hótelið í San Fransisco var downtown eða niðri í bæ eins og sagt er, í hverfi sem oft er kallað tenderloin, ekki út af því að það voru hórur þar heldur vegna þess að þar á víst að fást einhver svaðaleg steik. Þegar rúta með 50 spenntum ferðalöngum lagði fyrir utan hótelið var komið myrkur. Bandaríkin tóku vel á móti okkur, það fyrsta sem við sáum var maður að kúka bakvið gám. Þegar náunginn var búinn að gera stykkin sín hélt hann glaður áfram að borða frönsku kartöflurnar sínar og rölti blístrandi í burtu. Ég varð að vera sammála stelpunum sem öskruðu og skræktu inni í rútunni. Ekki tók betra við þegar við stigum út úr rútunni, hlandstækja yfirgnæfði aðra lykt og menn sem greinilega höfðu tekið sterkari pillur en C-vítamín höfðu gaman af því að spjalla við okkur. Skelfingu lostin við þessa first impression drifum við okkur inn á hótel, reið út í Flugleiðir fyrir að hafa mælt með þessu hóteli, svartsýn um að ferðin yrði ömurleg og fórum að sofa.

[fim 18. maí] Google og NASA
Í dagsbirtu leit allt miklu betur út. Við þorðum að fara út í búðina hinu megin við götuna til að kaupa vatn allt niður í 4 saman. Þennan morgun byrjaði námsferðin á heimsókn í Google, fyrirtækið sem sér um leitarvélina þið vitið. Veðrið var dásamlegt þegar við löbbuðum upp stigana milli Google bygginganna, sól og logn og 4 starfsmenn í strandablaki berir að ofan, ávísun á góðan dag. Okkur var skipt í 2 hópa og kona sem hét Stephanie eða eitthvað álíka hresst leiddi okkur um svæðið og talaði um hvað Google væri frábært fyrirtæki. Flestar setningarnar hennar byrjuðu á "Og annað sem er kúl við Google er...". Hún var reyndar ekkert að ýkja, Google virkaði mjög kúl fyrirtæki, því er best lýst sem leikskóla fyrir fullorðna. Umhverfið á að virka hvetjandi á sköpunargáfu starfsmanna og láta fólk vilja vera í vinnunni. Veggirnir eru málaðir í björtum litum, það er dót út um allt fyrir starfsmenn að leika með, til dæmis sáum við tvo gaura í kappi á pínulitlum þríhjólum á ganginum (Stephanie minntist sérstaklega á að þeir væru á launum) og mini-eldhús úti um allt. Það var þó ekki fyrr en í hádegismatnum sem ég missti andlitið. Google bauð okkur upp á hádegismat, og vá, matsalurinn er risastór og maður gat valið um nánast hvað sem er. Það var kínverskur matur, burrito sem maður lét raða í eftir eigin höfði, ýmiskonar hlaðborð, pizzur, grænmetisbakkar, hefði þurft að borða þarna í viku til að geta smakkað á aðeins fleiru sem mér fannst girnilegt. Í eftirrétt gat maður fengið sér kaffi, kökur, ben and jerry´s og bara allt sem hugurinn girnist. Því miður þurftum við að yfirgefa þennan dásamlega stað (mötuneytið) til að fara á NASA safn.

NASA safnið bliknaði í samanburði við Google, en samt gaman. Allt öðru vísi heldur en Google. Tveir gaurar sem samanlagt vógu líklega um hálft tonn (ekki að það skipti máli í sögunni) töluðu um starfsemi NASA og þá sérstaklega ferðir til Mars. Það var gaman fyrir nördinn í manni sjálfum. Þegar vísindaferðum dagsins var lokið fór ég ásamt fleirum í mollið sem er niðri í bæ, í röltfæri frá hótelinu, þar var fyrsti bjór ferðarinnar drukkinn. Lókal San Fransisco bjórinn heitir Anchor Steam og er mjög góður, síðan misstum við stelpurnar okkur í MAC. Þetta kvöld var farið snemma að sofa því daginn eftir var mætin í lobbí kl. 7.15.

[fös 19. maí] Davies og Beringer
Fyrri námsferð dagsins var í Davies háskólann, þar sem predikað var yfir okkur um möguleika á notkun vetnis sem eldsneytisgjafa. Það var heldur langdregið, sérstaklega fyrir Íslendinga sem alltaf eru að heyra um þessi mál. Eftir fyrirlesturinn var farið að skoða vetnis-metan-vélar og fleira, þar datt ég nokkurn vegin alveg út en þeir voru margir sem fannst þetta endalaust áhugavert og skemmtilegt. Eftir hádegi lá leiðin í Napa-dalinn sem þekktur er fyrir víngerð. Því miður var rigning, en útsýnið engu að síður mjög fallegt. Við heimsóttum Beringer víngerðina og þrír afar hressir og amerískir karlar leiddu okkur í gegnum framleiðsluferlið á víni. Sérstaklega skemmtilegt var að sjá 20 þúsund tunnum staflað upp, en í þeim var vín að gerjast. Eftir heimsóknina byrjaði ég að pæla í vínverkfræði í meistaranámi. Við fengum ekki að fara í vínsmökkun en hefðum mátt taka með okkur 250 kílóa tunnu af víni ef við hefðum getað borið hana. Ekki fór málið lengra. Um kvöldið var típískt Íslendingafyllerí uppi á hótelherbergi, og ekki gekk vel að finna skemmtistað.

Coming up... næstu 4 dagar í San Fransisco

3 ummæli:

Svanhvít sagði...

ómægod! Allur þessi texti og bara fyrsti bjórinn kominn! Þetta verður langt... ;)

Hlakka til að heyra í þér, er komin skaðbrunnin frá Englandi

Þura sagði...

hehe, þetta er ekki skyldulesning ;) mig langar bara að muna þetta sjálf

Elín sagði...

hvað er fólk alltaf að þvælast til útlanda alltaf hreint? usss...
Vínverkfræði í Frakklandi væri nú alveg tilvalin samt, er það ekki?