mánudagur, desember 29, 2008

Gamlársblogg

Kæru vinir og ættingar og aðrir lesendur,

Jólavikan hér á Íslandi er búin að vera mjög skemmtileg og ég náði að hitta marga skemmtilega vini og ættingja (og hugsanlega aðra lesendur?), en því miður ekki alla sem ég vildi hafa hitt.

Ég vil hér með koma á framfæri mínum bestu jóla- og nýárs kveðjum til lesenda nær og fjær!

Núna held ég aftur út í óvissuna... dumm dumm dummmm

Kannski er við hæfi að skrifa annál í stíl Bridget Jones:

Tölfræði ársins 2008:
Masters gráður kláraðar: 1
Kærastar náðir í: 1
Fjöldi landa ferðast til: 6
Bjórar drukknir: XXX (sú tala þarfnast töluvert mikillar analyseringar)
Krónur tapaðar vegna gjaldþrots lands: XXXXXX (þori ekki að birta áætlaða upphæð)
Vinnur fengnar: 0

Adeus!

mánudagur, desember 22, 2008

Tommy Reilly

Ég fylgist spennt með, Unsigned act, gríðarlega spennandi breskum raunveruleikaþætti. Þátturinn snýst um láta hljómsveitir og tónlistarmenn keppa um plötusamning. Eitt act dettur út í hverjum þætti með orðunum "you remain... unsigned" (versus þeir sem eru ekki reknir heim fá "you remain... on tour"). Að mínu mati ber höfuð og herðar yfir aðra keppendur 19 ára bólugrafinn drengur frá Glasgow, Tommy Reilly. Hann hefur viku eftir viku verið fáránlega góður. Og um daginn fékk hann Alex James úr Blur sem ég er 95% viss um að ég sá í National Portrait Gallery nokkrum dögum seinna til að tárast með þessu dásamlega coveri á Killers laginu Mr Brightside.

...og urlið að vídjóinu virkar ekki hjá mér, en það er hér.

laugardagur, desember 13, 2008

Án titils

Endurlífgunartilraunir ganga ekki vel. Ég held ég þurfi svei mér þá að úrskurða sjúkling látinn!

Annars er það að frétta að ég verð á klakanum 21. til 30. des, ein.

Ah, ég hlakka til það verður gott að koma heim :)

Við fengum BT vision í síðustu viku. Þannig að núna höfum við 56 sjónvarpsstöðvar í staðin fyrir 4 áður. Við getum tekið upp sjónvarpsefni, háð þeim (góðu) takmörkunum að aðeins er hægt að taka upp tvennt í einu. Að auki erum við með "sjónvarp eftir pöntun" (tv on demand) þ.e. getum horft á þætti og kvikmyndir sem BT hefur ákveðið að heimila okkur aðgang að. Þetta er semsagt algjör töfra kassi! Daginn sem töfrakassinn kom tók ég eftir því að heil sería af Friends var undir "síðasta tækifæri til að sjá" valmöguleikanum, og svo dramatísk var tímasetningin að ég hafði til miðnættis þann dag til að horfa á seríuna. Það var ekkert annað að gera en að setjast niður og byrja að horfa... og horfa og horfa....

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Endurlífgað blogg

Ég hef ákveðið að endurlífga þetta blogg. Nú byrja lífgunartilraunir. [Ef þetta væri atriði í House þá væri sjúklingurinn búinn að vera mjög veikur og rænulaus í þrjá daga, þegar skyndilega hjartað hættir að slá og hjarta-flýti-startgræjan er tekin fram og kallað er CLEAR!]

Þegar ég flutti fyrst til London í september 2007 var pundið í um 124 krónum, núna kostar eitt pund 214 krónur. Mismunur: 90 krónur. Berum saman:

a) Ein tube ferð með oyster korti: £1.50 kostaði 186 ísl kr en kostar nú 321 ísl kr
b) Lítill bolli af cappuccino á Starbucks: £2.05 kostaði 254 ísl kr en kostar nú 439 ísl kr
c) Matur og bjór á Brick Lane: £15 kostaði 1860 ísl kr en kostar nú 3210 ísl kr
og svo framvegis...

Í stuttu máli, meðan ég er ekki komin með vinnu þá fuðra peningarnir mínir upp, og lítið er um b) og c) (maður sleppur víst ekki við að taka tubið)

yfir og út og dæs

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Út og suður

Ókei, ég sé tvo kosti í stöðunni (eða tvær stöður í kostunum?) ég er farin að ruglast alveg ótrúlega mikið í íslensku og ensku. Ég segi t.d. hluti eins og "hey, your shoetie is unlaced" án þess að blikna, svo ég tala ekkert tungumál, frábært.

Ókei, kostirnir í stöðunni eru:
a) Blogga í semi-löngu máli um allt sem hefur gerst (í mínu lífi, ekki glóbalt) síðan 1. okt

b) Segja frá því helsta í einni langri setningu sem á að lesast á innsoginu í heilu lagi með engu hléi.

Ég vel kost b)

b)

Ég og Dé fórum til NY og Chile og hittum Svanhvíti og erum komin aftur til London fyrir löngu og ég er að leita að vinnu. Púnktur.

Humm, þetta var ógeðslega léleg setning. Í skaðabætur kemur fróðleiksmoli:

Aldrei ferðast með ameríska flugfélaginu Delta, þeir eru rusl. Það var vesen með öll þrjú flugin okkar:

1) London - NY - Áttum ekki að fá að sitja saman, leystist eftir mikið tuð og vesen.
2) NY - Santiago, Chile - Vegna mikillar rigningar í Atlanta þar sem við áttum að skipta um vél var fluginu seinkað. Vegna þess að það hafði stytt upp seinna um kvöldið fór flugvélin frá Atlanta til Santiago í loftið á réttum tíma. Afleiðing: Við vorum föst í Atlanta í sólarhring.
3) Santiago - London - Áttum bókuð sæti í vél Iberia til London gegnum Madrid (sem Delta bókaði), okkur var ekki hleypt inn í vélina, við þurftum frekari staðfestingu frá Delta. Delta sendi okkur í staðin með Air France nokkrum tímum seinna.

Þessi gella ætlar ekki að fljúga aftur með Delta.

Yfir og út, úr rigningunni í London

laugardagur, október 18, 2008

Valparaíso, Chile

Er ad nota eldgamla tolvu, med endalaust haegu interneti á hosteli í Valparaíso (med fyrirvara um villu) í Chile. Ferdin er búin ad vera rosa gód, fyrir utan nokkrar sársaukafullar faerslur á kreditkortinu mínu í apple búdinni í NY, thegar gengid var adeins haerra en ég gat hugsanlega ímyndad mér.

Ad hitta Svanhvíti var aedi, og sápuna. Ég sá enga eitrada konguló, og thad kom sér vel ad Dé talar spaensku, annars hefdum vid alveg verid í ruglinu eins og í Rússlandi.

Litríkari strípna er ad vaenta (tilvitnun í SLI, 05.08.08).

Yfir og út, T

þriðjudagur, september 30, 2008

Ferðalag

Í dag: Reykjavík
Á morgun: London
Hinn daginn: New York
.
.
.
Næstu viku: Santiago... sagði ég í næstu viku ! vó !!

yfir og út í bili

sunnudagur, september 28, 2008

Blogg?

Ekki í dag, en það er á dagskrá.

Ég er að reyna að nýta fríið mitt á Íslandi eins vel og ég get. Það felur í sér að liggja uppí sófa (en ég hef ekki haft aðgang að sófa síðustu 12 mánuði), borða krækiber og lesa / horfa á eitthvað.

Ásamt krækjuberja-sófa-áhorfinu er ég líka að skipuleggja tveggja landa ferðalag. Í öðru landinu fæ ég að hitta Svanhvíti, sem ég hef ekki hitt síðan í desember 2007. Kallaðu mig Té...

Seinnipartinn í október er möguleiki á ég lífgi eitthvað upp á þetta blogg. En í dag, ekki sjens.

þriðjudagur, september 16, 2008

Heim og heiman

Núna er ég búin að pakka öllu dótinu mínu niður í 3 töskur og fer alveg að leggja af stað upp á flugvöll. Ef einhver er að fljúga með iceland express vélinni í kvöld kl 8 frá London til Íslands og er með of lítinn farangur og getur tékkað sig inn með mér þá væri það tryllt. Ég verð hálf vælandi stelpan sem getur ekki loftað farangrinum sínum.

Já, halló Ísland, ég hef ekki séð þig síðan í mars, hvernig er veðrið?

mánudagur, september 08, 2008

Bjór-skýrsla 2. ársfjórðungs 2008

[apríl - júní 2008]

Inngangur
Eins og fram kom í skýrslu fyrsta ársfjórðungs 2008, er ég í ár að telja hversu marga bjóra ég drekk. Nánar tiltekið, frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2008, er ég búin að, og mun halda áfram að, telja hversu margir bjórar (stórir og litlir) fara ofan í minn maga. Hér verða birtar helstu niðurstöður 2. ársfjórðungs.

Niðurstöður
Graf 1: Fjöldi bjóra á dag á 2. ársfjórðungi (bláir punktar) og b/d hlutfall (bleikir punktar), það er uppsafnaður fjöldi bjóra yfir uppsöfnuðum fjölda daga. Á x-skalanum eru dagsetningar.

Afar takmörkuð drykkja apríl mánaðar útskýrist eingöngu af verkefnavinnu þann mánuð. Þann 1. maí var skiladagur á 5 verkefnum, eins og grafið sýnir með hoppi upp í 5 bjóra þann dag. Þar á eftir kom prófatímabil til 23. maí, en þar var bjór greinilega notaður til að grisja hjörð hægra heilasella, eins og buffaló kenningin heldur fram. Átta skipti, þar sem 4 eða fleiri bjóra var neytt má sjá frá 23. maí fram í byrjun júní þegar meiri verkefna vinna hófst. b/d hlutfallið var lægra heldur en 1 frá því snemma í apríl og þangað til seint í maí. Á 182. degi ársins, þann 30. júní hafði ég drukkið 204 bjóra.

Umræður

Lesendum er frjálst að túlka að vild. Frekari túlkun verður geymd þar til samanburðargögn fást. Að meðaltali hafa lesendur spáð því að ég drekki um 400 kalda í ár.

Þuríður Helgadóttir, september 2008

fimmtudagur, september 04, 2008

Status

Ritgerð: búin að skila
Heilasellur eftir: 0
Framtíð: óráðin
Hádegismatur: Hyde Park

sunnudagur, ágúst 24, 2008

9 dagar

Það eru 9 dagar í skil á ritgerðinni / skýrslunni, þangað til gerist annað af tvennu eða bæði á þessu bloggi:

1) Engar nýjar færslur, en það er ekkert nýtt
2) Nýjar færslur ef ég þarf að 'hita mig upp' til að skrifa / endurskrifa / laga hina og þessa bullkafla í ritgerðinni / skýrslunni

Yfir og út, back to work

Ein mynd frá Sankti Pétursborg:

mánudagur, ágúst 18, 2008

Slæm vinnubrögð

Ég þoli stundum ekki hvernig ég vinn. Ég virðist t.d. vera algjörlega ófær um að klára heilan kafla eða undirkafla áður en allt klárast.

Ég get t.d. ekki bara skrifað helv**** aðferðafræðina og klárað þann kafla, neeeeei. Verð aðeins að skilja eftir rauðan texta og spurningar til sjálfrar minnar út um allt í textanum á meðan ég vinn aðeins í innganginum. Skýrslan er svo full af kommentum í rauðu letri að ég ákvað að skipuleggja mig betur með því að lita hálfkláraða texta bláa!!! Gott múv það...

Þá vantar mig bara gulan og grænan til að skjalið verði vel skrautlegt. Auli.

laugardagur, ágúst 16, 2008

Kiljan og hin heilaga jómfrú

Ferðin til St. Pétursborgar var æðisleg, ég verð að segja að ég fékk dáldið kúltúrsjokk, sem ég bjóst einhvernvegin ekki við fyrirfram.

Bloggið um ferðina verður að bíða aðeins þar sem ég sit sveitt að skrifa ritgerðina mína. Samkvæmt nýjustu talningu er hún 8319 orð (að undanskildum heimildum og viðaukum) á 29 blaðsíðum. Þar af þarfnast um 6500 orð mikillar umskriftarvinnu (gróft mat). Hámarks lengd er 40 blaðsíður (ekki með viðaukum, sem mega vera endalaust margir / langir), það ættu að vera um 10 þúsund orð.

Vandamálið þessa dagana er að ég á svo miklu miklu MIKLU auðveldara með að skrifa á íslensku (þó það sjáist kannski ekki á þessu bloggi ehem hóst) svo sumar setningar þarf ég að kreista út með miklum andlegum þjáningum. Annað vandamál er að ég þarf að skila nearly finished draft á fimmtudaginn til að leiðbeinandinn geti lesið það yfir.

Allt þetta stoppaði mig samt ekki frá því að fara í bíó 2 kvöld í röð og sjá Batman og Iron man. Þar sem ég er mikill Batman aðdáandi (kunni (kann ehem) báðar Batman myndirnar hans Tim Burton utanað) var ég frekar spennt fyrir Dökka riddaranum (samt ekki brjálað spennt því ég hélt alveg vatni yfir síðastu Batman mynd). Og þvílík vonbrigði! Afhverju í andskotanum er Batman komin með jafngildi Q í James Bond?!? Ekki svalt. Ókei, Heiðar var fínn jóker, samt alveg nákvæmlega eins og Jack Nicholson í fyrstu myndinni, nema bara yngri og geðveikari, en ef það var planið þá tókst það vel. Iron man aftur á móti kom á óvart. Fyrirfram var ég ekkert spennt, en tveir tímar af logsuðuæfingum og aksjóni skemmtu mér stórkostlega vel.

En jæja núna hringir London (London calling), best að svara.

Yfir og út

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Næsta helgi

Sankti Pétursborg...

Meistaraverkefni fokkd.

Yfir og

mánudagur, ágúst 04, 2008

London-verslunarmannahelgi

Gleðilegan frídag verslunarmanna!

Verslunarmannahelgin var ekki með hefðbundnu sniði í ár. Hin rússneska Katya er að fara að gifta sig á föstudaginn (takið eftir flottu dagsetningunni) þ.a. núna um helgina var smá gæsapartý. Við ætluðum að hittast nokkrar stelpur úr prógramminu og flippa dáldið, en að lokum enduðum við á því að fara 3 á hommaklúbb, Himnaríki, og dansa eins og okkur væri borgað fyrir það.

Hin verðandi brúður reif ófáan föngulegan drenginn úr að ofan. Sjálf var ég með strengi daginn eftir eftir dansmúv kvöldsins. Hér erum við með tönuðum, mössuðum gaur. Á næstu mynd fyrir neðan er þessi sami gaur að dansa (t.h.)



Flestar af hinum 70 myndunum eru aðeins sveittari, ég hlífi lesendum við þeirri sjón.

laugardagur, ágúst 02, 2008

Greinilega allt á fullu...

Ég er farin að taka eftir merkjum þess að ég sé farin að skrifa ritgerð á fullu:

1) Ég finn fyrir aukinni súkkulaðiþörf
2) Ég stari tómum augum á tölvuskjá í margar mínútur áður en ég fatta að ég er með vitlaust skjal opið
3) Ég er farin að taka pásur til að ganga um gólf
Eða
4) Ég tek pásur frá því að ganga um gólf og skrifa orð í word skjal

Að þessu sinni er gólfgangan ólík öðrum læru-gólf-göngum, ég geng í skóm. Þeir eru svo fallegir, dæs. Sorrí Camper, ég varð.

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Jafngildi?

Þegar ég bjó heima hjá mömmu og pabba var morgunmaturinn um helgar (og þegar ég þurfti ekki að mæta neitt) alltaf ótrúlega kósí. Ég ristaði mér 2 brauðsneiðar, raðaði osti jafnt á báðar og fékk mér kaffi. Þetta var borið fram í fallega desing bollastellinu hennar mömmu. Svo varði ég vanalega um 1.5 klst í að lesa vandlega Moggann og Fréttablaðið.

Hér á stúdentagarðinum mínum fæ ég mér hafragraut "eldaðan" í örbylgjuofni, neskaffi (með mjólk ef ég er heppinn) og sit svo fyrir framan tölvuna mína og les pdf útgáfur af Mogganum og Fréttablaðinu meðan ég slarfa kræsingunum í mig og reyni að sletta ekki útum allt (sérstaklega ekki á tölvuna).

Einhvern vegin næ ég ekki að skapa sömu kósíheit og heima...

mánudagur, júlí 28, 2008

No tan-o

[lesist við Stebbi stóð á ströndu]

Þura fór í garðinn
fór að wörka tan
tan var ekki wörkað þó að Þura lægi þar.

Þetta er ekki ehem alveg sami tungubrjótur og Stebbi, ég prufa aftur.

Þura þurfti þvottinn
þveginn þjósti inn
Þvottur ekki þornar nema veginn þrjóti þinn.

Humm nó gúd heldur, og meikar ekki sens og fjallar ekki um tan-skort. Dem.

þriðjudagur, júlí 22, 2008

Slough

(1)
Eins og áður hefur komið fram þá er ég núna í sumar að gera verkefni fyrir fyrirtæki, sem er (vonandi) bæði gagnlegt fyrir fyrirtækið og valid verkefni í náminu mínu. Í dag fór ég í fyrsta sinn í fyrirtækið, fram að þessu hafa kontakt aðilarnir frekar kosið að koma "til London" til að hitta mig og rússnesku vélina sem er að vinna með mér. Nema í dag var nauðsynlegt fyrir okkur að fara til þeirra til að ræða vandamál með gögn. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar það "sökk inn" að fyrirtækið er staðsett í Staines en ekki Slough.

Góð saga. Endir.

(2)
Heila sellur dagsins hafa klárast....................

þriðjudagur, júlí 15, 2008

My own prison


The other side
Originally uploaded by
Þura.

Í vetur birti ég mynd af herberginu mínu (á stúdentagarðinum þar sem ég er búin að búa síðan í september á síðasta ári). Hér er hinn helmingurinn af herberginu (þessi sem geymir minna af dóti).

Núna eru bara 2 mánuðir eftir af vistinni.

Dissertation hell

Allt í einu uppgötvaði ég hvað konseptið 'merkir' (er merkir rétt orð hér?).

Engin gögn ennþá! Fæ ég gögn? Ef já verða þau nothæf?
Er með nægar upplýsingar í 100 blaðsíðna bakgrunnsumfjöllun, hvað er relevant? Í 2 - 4 blaðsíðna bakgrunni?
Hversu heimskur gerir maður ráð fyrir að lesandinn sé?
Ef maður hefur fengið eina óljósa hugmynd frá mörgum mismunandi stöðum, hvernig vísar maður í heimildir?
etc etc etc.........

You spin me right round baby right round...! (Dansandi hvað-sem-er)

fimmtudagur, júlí 10, 2008

mbl.is - fimmtudagur 10. júlí 2008

Hrútur: Þú ert með fulla skrifblokk af markmiðum, og ert að endurskoða þau, henda út og bæta við nokkrum nýjum og spennandi. Steingeit styður þig í þessu.

mánudagur, júní 30, 2008

Aðgerðalistinn

Á to do listanum mínum er eftirfarandi:

  • Gera to do lista

Veit ekki alveg hvort ég nái að framkvæma nokkuð af þessum lista á morgun (nema ég hafi verið að klára það akkurat núna). Veðrið á að vera gott:

(tekið af veðursíðu BBC)

Og ég lít út eins og svissneski fáninn (ef að litirnir í svissneska fánanum væru 'mjólkurhvítt' og 'pulsurautt') svo ég verð eitthvað að vinna í því. Já og auðvitað verkefninu líka.

fimmtudagur, júní 26, 2008

Two hundred bottles of beer on the wall, two hundred bottles of beer...

Nei það er ekki satt, margir þeirra voru af krana, sællra minninga.

Í dag drakk ég 200. bjórinn á árinu. 'Gef út' skýrslu annars ársfjórðungs um leið og ég hef greint gögnin nægilega og fengið skýrsluna samþykkta.

...you take one down and pass it around... to Þura.

þriðjudagur, júní 24, 2008

Og hverjum er það að kenna?

  • Mamma mia! klikkar ekki, sérstaklega ekki með mömmu miu!!!
  • Það skiptast á skin (skyn)* og skúrir hér í Lundúnum. Í alvöru, einn daginn er rigning og þann næsta sól og bongóblíða.
  • Pundið er komið í 166 krónur stykkið, þá fer 2.88 punda hreint bruggaður samuel smith að vera ansi dýr...
  • Ég er með póstkort af ísbirni uppi á vegg... nei bíddu það er af kind, ég gáði ekki nógu vel**
  • Áhugasamir athugið: önnur ársfjórðungsskýrsla bjórdrykkju er væntanleg, um leið og dagar annars ársfjórðungs verða taldir (með fyrirvara á 'um leið' & það er reyndar ekkert erfitt að telja daga)
*Stafsetningarhæfileikar mínir hafa slaknað til muna, kenni að hluta til um vondum (engum?) prófarkalestri á mbl.is þar sem minn helsti lestur á íslensku máli fer fram.
**Tilvitnun í frétt sem ég las á mbl.is***
***Þessi setning gæti verið vitlaus; vísa aftur í þéttofinn vef sem er að spinnast í kringum ástæður stafsetningarhæfileikaleysis og setningauppbyggingarvankunnáttu mína, þ.e. mbl.is að kenna****
****Sama og ***

þriðjudagur, júní 17, 2008

Stjörnuspá

Ég kíki stundum á stjörnuspána á mbl.is. Tek reyndar (eins og vera ber) bara mark á henni ef ég get túlkað hana mér í hag. Spá dagsins:

Hrútur: Þú tekur leiðbeiningum vel, sérstaklega frá einhverjum með blikandi og góðleg augu. Fylgdu líka góðum ráðum sterkrar konu sem þú þekkir.

Sko, það er ekki spurning að sterka konan sem gefur mér góðu ráðin sé rússneska vélin sem ég er að vinna með, hún er rosaleg.

En hvað er málið með hinn hlutann af spánni "þú tekur leiðbeiningum vel" vott ðe fokk! Nei almennt ekki... stúpid rugl stjörnuspá!

Hey já og
hæ hó jibbí jei og jibbí jei það er kominn sautjándi júní (dansandi mjólk) Til að fagna þessum degi blandaði ég saman kaffi og mjólk í bolla.

Yfir og út

mánudagur, júní 16, 2008

Af-eitrun...

Ég kláraði prófin fyrir, ehem, rúmum þrem vikum síðan, og er síðan þá búin að vera að fagna próflokum. Eiginlega alveg samfellt, ehem, hóst. Allavega tekið hraustlega á því nokkuð oft. Sum fyllerín hafa verið aðeins svakalegri en önnur, önnur bara skondin.

Dæmi um skondið skrall:
Á mánudeginum áður en Áslaug fór heim til Íslands ákváðum við að hittast á hádegismat. Við hittumst klukkan þrjú og fengum okkur bjór og barmat. Og fleiri bjóra. Ákváðum svo að ég kæmi með henni til Sydcup þar sem hún þurfti að fara á fund. Að fundi loknum fórum við á gamla-fólks-lókalpöbbinn í Sydcup þar sem unga-fólks-lókal-pöbbinn var lokaður það kvöld (að ég held af því að strákur var drepinn þar föstudeginum áður). Á gamla-fólks-lókalpöbbnum var pub quiz í gangi þ.a. við máttum ekki tala saman og fórum þess vegna að reyna að svara spurningunum. Vandamálið var bara að við skildum ekki hreim gamla mannsins sem var spyrill. "Sem betur fer" var parið á næsta borði við hliðiná rosa duglegt við að hjálpa okkur og segja okkur svör. Þau voru reyndar ekki par. Maðurinn var um fimmtugt, með hneppt niður á bringu, sólbrúnn og Áslaug var viss um að hann væri hommi. Konan, eða stelpan var þrítug og uh frekar eðlileg. Til að gera langa sögu stutta þá ákváðum við að fara heim með þessu fólki í partý og enduðum á að dansa á stofugólfinu við Mika í stofu sem leit út eins og safari safn. Ég fattaði svo um nóttina að við Áslaug erum beintengdar með næturstrætó, gott að fatta það þrem dögum áður en hún fór.

Dæmi um over the top skrall:
Við Arna fórum núna á laugardaginn að fá okkur bjór og spjalla. [innskot ritstjóra: þessi saga komst ekki í gegnum filter og verður því ekki birt] Og fórum svo heim.

Minni lesendur enn og aftur á buffalo theory. Viðurkenni reyndar að hafa slátrað allri hjörðinni núna síðast... og er því í af-eitrun.

fimmtudagur, júní 12, 2008

Húðlitur

Sólin hefur mjög jákvæð áhrif á húðlit minn. Þróunin síðan í byrjun maí hefur verið eftirfarandi:

Úr föl-bláu yfir í fílabeins-hvítt alveg að nálgast húðlitaðan

Það gengur sem sagt vel að worka tanið. Stefni að beikon-bleiku fyrir lok ágúst.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Update

Enginn póstur síðan 23. maí...! Já það passar, ég er einmitt búin að vera í fríi síðan þá og búin að gera nákvæmlega ekki neitt! Nema tja kíkja aðeins á pöbbinn og svona. Frí í London, ah það er búið að vera alveg hreint dásamlegt. Á mánudaginn byrjaði ég svo á lokaverkefninu mínu, gúlp!

Verkefnið, sem er fyrir lögfræðiráðgjafafyrirtæki, var sett í gang með fundi með öllum leikmönnum á mánudaginn. Viðstaddir voru: ég, Katya (rússneska jarðýtan sem verður að gera verkefni fyrir sama fyrirtæki), hr. Fuglsauga (hann er umsjónarmaður verkefnisins á vegum LSE) og þrír menn frá fyrirtækinu (tveir Oxford menn og einn sem ég ímynda mér að sé úr Cambridge því hann sagði ekkert um menntun sína, en það gæti líka verið bull).

Fyrir fundinn hafði annar Oxford maðurinn sent okkur (mér og Kötyu) stutta grein að lesa sem varðar efni verkefnisins. Við skulum orða það þannig að ef verkefnið væri fyrir Starbucks þá hefði greinin verið um kaffi, svo basic var það. En ekki veitti af.

Ah já, og verkefnið snýst um (í mjög stuttu máli) að athuga hvort það séu tengls á milli tveggja breyta.

Yfir og ...

föstudagur, maí 23, 2008

Frá sér komið

Stundum þá bara verður maður að... blogga! Sérstaklega þegar maður er að missaða því maður er að fara í próf daginn eftir. Núna er ein af þessum stundum.

[innskot ritstjóra: þessi færsla er ekki um neitt]

Klukkan er hálf 1 á fimmtudagskvöldi og ég er ennþá vakandi að læra fyrir próf á morgun. Prófið er ekki fyrr en klukkan hálf 3 á morgun, sem þýðir að það er búið 5.40 pm, sem þýðir að eigi síðar en 6 pm á morgun verð ég á barnum að panta mér stóran ískaldan bjór af krana. Þetta gerist eftir 17 og hálfan klukkutíma.

Fyrst verð ég að klára að læra fyrir próf, fara að sofa, sofna, vakna, mæta í próf, taka próf og komast lifandi frá öllu saman. Stundum kemur upp í hugann í svona aðstæðum (eða stundum á svona stundum) Bubba textinn ,,jörðin hún snýst um sólina, alveg eins og ég" og ég verð rosa fegin að vita til þess að bæði jörðin og Bubbi snúast ennþá um sólina. Þá hlýtur heimurinn að vera að ganga sinn vana gang og föstu punktarnir (þ.e. sólin og flöskudagar) enn á sínum stað eins og síðustu skrilljón árin (plús mínus skrilljón ár afturábak og áfram).

Um 10 leytið í kvöld þá tók ljósið í herberginu mínu upp á því að blikka eins og diskóljós. Það er ekki gott fyrir einbeitinguna sem var ekki frábær til að byrja með. Ég ákvað að slökkva ljósið. Núna læri ég í myrkrinu með smá ljós frá skrifborðslampanum mínum. Það fylgja þessu samt ákveðnir kostir. Eða ókei einn kostur. Þegar ég tek mér pásu þá spila ég Valerie með Amy Winehouse á youtube, kveiki diskóljósið og dansa um herbergið mitt. Þetta er hin mesta skemmtun og hefur fjölgað pásum, sem er ekki sniðugt ef atriði númer 2 á to do listanum á að ske (þ.e. fara að sofa).

Í þessari prófatörn hef ég ekki gefið mér tíma til að þvo fötin mín þ.a. það er eins gott að seinna prófið (ehem 2 prófa prófatörn hefði ég aldrei kallað strembna í HÍ) er á morgun og þá hef ég enga afsökun til að þvo ekki garmana mína. Þessi brenglaða forgangsröðun (að nota lærupásur frear í að rölta út á Monmouth kaffihúsið og kaupa besta kaffi í heimi (a.m.k. London) í staðin fyrir að þvo) hefur gert það að verkum að öll fötin mín eru skítug. Þá meina ég ÖLL FÖTIN MÍN. Svona eins og ,,when I say woohoo I mean WOOHOO". Það sem er hreint er eftirfarandi:
1 svartur sparikjóll, 1 bleikur sparikjóll, svart pils, 1 sparibuxur og 1 bolur sem ég er búin að spara til að geta farið í honum í prófið á morgun. Já og vetrarkápurnar mínar. Ekki alveg bestu fötin þegar maður er inni að læra allan daginn. Arna trúði ekki að ég gæti klárað öll fötin mín svo hún kom og kíkti. Eftir það trúði hún.

Í kvöld tókum við Arna okkur lærupásu til að borða pizzu í kvöldmat (1.69 pund per pizza í Costcutter), drekka kók og horfa á Júróbandið í Júróvisjón. Við fórum niður í félagsherbergið í húsinu okkar rétt fyrir 8 með pizzurnar og kókið og spurðum ameríkanana sem voru að horfa á nýja flatskjársjónvarpið sem er er þar hvort við mættum horfa á Júróvisjón. Þau voru víst ekkert að horfa á sjónvarpið, heldur bara með kveikt á því til að hámarka utility á því held ég og fannst ekkert mál að við myndum skipta um stöð.

Núna eru puttarnir orðnir svo liðugir að ég gæti haldið endalaust áfram, eða a.m.k. að óþekktu upper limiti sem er ekki í augsýn. Önnur og minna hvetjandi verkefni bíða mín víst. Back to work people. Eða "Back" "to" "work" kannski frekar.

Yfir og útumallt

laugardagur, maí 17, 2008

Til glöggvunar

Vil benda lesendum á tvennt. Hvoru tveggja má sjá á myndinni.

þriðjudagur, maí 13, 2008

Ég sem hélt að ég væri urban fox...

Ég var að rölta heim úr strætó núna í kvöld, rétt fyrir miðnætti, þegar ég rak upp stór augu. Ég sá ekki betur en að á móti mér rölti refur. Hann var stór miðað við refi sem ég hef séð heima svo að fyrst datt mér í hug að þetta væri eigandalaus hundur. En hann vakti nægilega mikla athygli til að ég skoðaði betur. Aðsvífandi kom hjólreiðamaður, hann tók líka eftir refnum (sem var við gangstéttarbrún), stoppaði og steig af hjólinu. Svo fór hann að segja ‘hello foxy’ (við refinn sko, ekki mig) með syngjandi rödd og reyna að fanga athygli rebba. Eftir smá stund kom bíll og refurinn fældist og hvarf inn í næsta húsasund. Ég hélt ég væri klikk (og hafi verið að ímynda mér refinn) svo ég spurði hjólreiðamanninn hvort þetta hafi í alvörunni verið refur. Hann svaraði:

Yes, an urban fox!

Svo hjólaði hann út í myrkrið...

mánudagur, maí 05, 2008

Últra mega súper maaaaaaaad brownie

Ég fór á markaðinn heima á laugardaginn fyrir rúmri viku. Sá þar stóran stafla af girnilegum brownies. Staflinn var merktur 'Ultra chocolate brownies'. Ég slefaði, ég stoppaði, ég pantaði:

'One ultra mega chocolate brownie please...!'

Brownie var sett í poka og ég var spurð:
'Do you have a brownie card?'

Ég svaraði með aðra augabrún beyglaða upp í loft:

'A brownie what ???'

Kemur þá ekki í ljós að maður getur fengið kort sem maður safnar stimplum á, og þegar maður er búinn að fylla kortið fær maður fría brownie. Stundum er lífið bara of gott. Núna er ég stoltur handhafandi brownie-korts sem ég passa jafn vel og bankakortið mitt. Fyrir neðan sést kortið og stimplarnir sem ég hef safnað mér todate. Myndin er dáldið óskýr því ég er ennþá rangeyg af of miklu álagi og litlum svefni. En það stendur allt til bóta á næstu dögum því núna er prófatímabil að ganga í garð.

yfir og .... !

sunnudagur, apríl 27, 2008

Skynjun á tíma

Loksins fann ég klukku* sem 'mælir' / 'sýnir' tíma eins og ég upplifi hann (a.m.k. akkurat núna).

Mínútuvísirinn lét eins og sekúnduvísir (fór einn hring á hverri sekúndu)
Klukkustundavísirinn lét eins og mínútuvísir (fór einn hring á hverri mínútu)

Þ.e. samkvæmt þessari klukku leið ein klukkustund á einni mínútu. Þannig skynja ég einmitt tíma núna.

Eða ég er alveg búin að missa það.

*Á bókasafni skólans míns

föstudagur, apríl 25, 2008

Gamalt veður

Ég og myndavélin mín fylgjumst reglulega með veðrinu hér í London. Þá sérstaklega með því að taka myndir út um gluggann minn, þar sem ég sé voða lítið annað af borginni um þessar mundir vegna svita, blóðs og tára yfir lærdómi.

Við tókum þessar myndir af þessari svaka bresku dembu 12. apríl. Á báðum myndum má sjá vegfarendur hlaupa í átt að skjóli, eða "Hvar er Valli?"


Í gær voru þrumur og eldingar. Það var það mest spennandi sem gerðist þann dag.

Yfir og út

miðvikudagur, apríl 23, 2008

25 ára and counting...

Klukkan er yfir 11 um kvöld og ég sit við tölvuna mína inni í herberginu mínu að skrifa skýrslu (80%) og lesa teiknimyndasögur á netinu (20%). Mér er kalt þó ég sé í lopapeysu og ullarsokkum og kveiki reglulega á ofninum til að fá hita-búst. Ég er búin með 66% af upprunalega innihaldinu í 33 cl kókdós og 7 gúmmí-snuð (e. gummy dummies). 19 ára pakistanska stelpan í næsta herbergi við hliðiná er með gesti. Þau eru að spjalla og reykja hookah með einhverskonar ávaxta bragði. Það heyri ég og finn á lyktinni. Í efstu skrifborðsskúffunni á ég 7 risa-tópös (stykki ekki pakka) en þau eru til vara, þ.e. notast ef/þegar í voða stefnir.

Ég er tuttuguogfimm ára og ÞETTA var lýsingin á lífi mínu. Eða þið vitið, smá broti.

Yfir og út, Þura

p.s. Takk fyrir afmæliskveðjurnar :)
p.p.s. Helst er það af bjór-tilrauninni að frétta að ég kom sæmilega vel/illa út úr bloggrýni Atla hins vægðarlausa.
p.p.p.s. Atli er ekki svo vægðarlaus, mig vantaði bara dramatískt lýsingarorð.

laugardagur, apríl 19, 2008

Eeeeeitthundraaaaaaaaaað oooooooog .....

Það hafa borist 'gisk' í kommentakerfið við síðasta blogg um hversu marga bjóra ég muni drekka á þessu ári. Giskin eru á bilinu 300 - 477 stk [bjórar/ár]. Ég veit ekki hvort ég á að vera hneykslaðri á lágum ("Bara þrjúhundruð...!") eða háum ("Heilir fjögurhundruðsjötíuogsjö bjórar...!") giskum. Þ.a. ég hef ákveðið að vera ekki neitt hneyksluð!

Þar sem þessi tilraun er gerð til að fylgjast í alvörunni með drykkju minni þá geri ég mitt besta að láta tilraunina ekki hafa áhrif á útkomu (þið vitið, eins og þegar veggirnir á verksmiðjunni voru málaðir grænir og verkamennirnir urðu duglegri við það). Ég held mig við mína 'alda'* gömlu reglu: "að drekka nákvæmlega jafnmarga bjóra og mig langar í"**. Úff, allt þetta bjórtal gerir mig þyrsta, best að gera sig til og kíkja út í einn kaldan...

Yfir og út

*Kvartaldar kannski?
**Minnir að þetta sé regla nr.2 en ég yrði að kíkja í litlu svörtu bókina til að staðfesta það, en hún er ofan í kassa undir dóti í kjallara milli lífs og dauða*** þ.a. það verður að bíða betri tíma, á meðan verð ég að reiða mig á mitt eigið minni****.
***Ofnotað, já jég veit.
****Sjitt maður, ef það er ekki uppskrift að vandræðum.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Hundraðasti bjórinn

~Ársfjórðungsskýrsla bjórdrykkju minnar~

Eftir nákvæma gagnasöfnun og greiningu á gögnum hef ég komist að því að ég drekk ekkert svo mikinn bjór.

Inngangur
Í nokkur ár hef ég haft þá stefnu (e. policy) í mínu lífi að telja ekki fjölda bjóra sem ég drekk. Nánar tiltekið að kunna bara að telja upp í tvo þegar kemur að drykkju. Ég geri mér grein fyrir þegar fyrsti bjór klárast en á öðrum bjór hætti ég að telja. Þannig að hvort sem ég er að drekka annan eða fimmta bjór kvöldsins þá er sá bjór ávallt númer 2+ (lesist: tvö plús). Í lok síðasta árs ákvað ég að breyta úr afskaplega lélegri talningu yfir í afsaplega góða talningu (á bjór). Ég ákvað að ég skildi telja hversu marga bjóra ég drykki árið 2008.

Aðferðafræði
Til að niðurstöður tilraunar yrðu sem áreiðanlegastar ákvað ég nokkrar reglur sem ég ætlaði að fara eftir í talningu bjóra.
Til að bjór teljist drukkinn verður eftirfarandi að gilda:
1. Ég drekk bjórinn ein og sjálf (þ.e. bjórar sem eru opnaðir og hellt í glös handa mörgum eru ekki taldir með)
2. Ég klára yfir 75% af bjórnum (þ.e. bjór er talinn þó slefsopinn eða froða í botninum sé eftir)
Bjór blandaður við annan vökva telst ekki bjór og er því ekki talinn með (t.d. bjór con limon)
3. Annað áfengi en bjór er ekki talið, því augljóslega er það ekki bjór. Eftir að reglurnar höfðu verið nelgdar niður hélt lífið áfram, nema núna aðeins nördalegra. Ég vildi halda því fram að ég væri ný manneskja, en mér var bent á að ég væri sama manneskja að við bættum teljara: ,,Svo þú ert: ,,Þura, nú með counter!”!” (Bergur, 2008).

Niðurstöður
Á 96. degi ársins drakk ég hundraðasta bjórinn á árinu í góðum félagsskap og ákvað þá að skoða þau gögn sem væru komin. Athuga skal að ég skráði hjá mér hvort drukkinn bjór var stór eða lítill en hér er fjallað um samanlagðan fjölda stórra og lítilla bjóra. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

Graf 1: Fjöldi bjóra sem ég hef drukkið dag hvern árið 2008. Bestu línu má sjá á myndinni og eins og sést er hallatalan 0.0003 þ.a. dreifing bjóra er nokkuð jöfn. Lengstu bilin á núll línunni (þ.e. fjöldi daga í röð án bjórdrykkju) eiga sér skýringar. 6. - 11. dag var ég á detox kúr. Ég var kvefuð (og þá drekk ég ekki bjór) 29. - 34. dag og 65. - 71. dag.

Ég tók saman hversu marga bjóra 'per skipti' þ.e. per dag (gert er ráð fyrir að hver dagur sé eitt 'drykkju-session') ég drakk. Þær niðurstöður eru eftirfarandi:

10 skipti drakk ég 1 bjór, 12 skipti drakk ég 2, 11 skipti drakk ég 3 bjóra, 2 skipti drakk ég 4 bjóra og 5 skipti drakk ég 5 bjóra.

Graf 2: Uppsafnaður fjöldi bjóra sem ég hef drukkið dag hvern árið 2008.

Graf 3: Hlutfall drukkinna bjóra á móti dögum (uppsafnaðir bjórar og dagar). Þetta er hið fræga b/d hlutfall. Hér má sjá að ég byrjaði frekar rólega (b/d hlutfall lægra en 1), síðan kom smá yfirskot (b/d hlutfall nálgast 1.3) en svo sveiflast hlutfallið lítillega kringum 1 mestan partinn.

Umræður

Samkvæmt niðurstöðum þessarar gagnasöfnunar hef ég komist að því að ég drekk ekkert svo mikinn bjór! Hissa? Njaaa... eiginlega ekki.

Frekari tilraunir

Ég ætla að halda áfram að telja bjóra út árið, og lesendur mega ef þeir vilja giska á hver heildarfjöldi bjóra í minn maga verður árið 2008!

Þuríður Helgadóttir, apríl 2008

laugardagur, apríl 12, 2008

Næsta blogg

Næsta blogg mun fjalla um greiningu á bjórdrykkju minni á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Ég er að bíða eftir að skýrslan verði peer reviewed.

Yfir og út

sunnudagur, apríl 06, 2008

Bíddu, var vorið ekki komið? Er ég að misskilja...

Á föstudaginn var ég handviss um að vorið væri komið. 17°C, sólin skein, blóm komin á blóma-tré o.s.frv. Í gær var aftur rigning, ekkert mjög kalt samt. Í morgun þegar ég vaknaði og leit út um gluggann var byrjað að snjóa. Held það sé samt ekki mjög kalt, allavega hefur ofninn minn ekki kveikt á sér sjálfur. Þessi fjölbreytileiki veðurs minnir dáldið á annað land sem ég þekki mjög vel...
Útsýni úr glugganum mínum í morgun (eða 'útsýni'):

þriðjudagur, apríl 01, 2008

London 16:14


London 16:14
Originally uploaded by Grainyday canonS3.

Canary Wharf ekki Canada Water.

Grundvallarmunur!!!

föstudagur, mars 28, 2008

Eins og páskar, nema hraðari

Nokkrar túristamyndir af páskum í Rvk.

Ég að horfa á myndavélina, Atli að horfa á óþekkt loftfar:
Sáum þetta ljóta tóma hús:


Gaman að koma niður á tjörn í skítakulda og næstum-rigningu:
Ég tók óvart vitlausan strætó einu sinni og lenti því fyrir utan MH í staðin fyrir heima hjá mér, ákvað að taka þessa mynd for the records:

Elín elti fyrir mig rosa góðan tælenskan kjúkling:

Esjan pósaði svo fyrir mig:Ég og pabbi fórum á Gljúfrastein og skoðuðum okkur um, rosa gaman:Ég var rosa hrifin af öllum fjöllunum með snjónum:Allt hitt sem ég gerði en tók ekki mynd af var líka rosa gaman. Til hamingju Ísland!

Yfir og út

sunnudagur, mars 16, 2008

Lægð milli storma

Síðustu 2 vikur hafa verið dáldið kreisí. Endalaust að klára hópverkefni með útlendingum, sumir eru erfiðari en aðrir. Kom heim í gær (heim á klakann), þreytt.

þriðjudagur, mars 11, 2008

Grikkir

Í prógramminu með mér eru allnokkrir Grikkir. Sumir þeirra eru alveg skemmtilegir, aðrir eru frekar skondnir. Það fyndna er að grísku strákarnir líta allir eins út, í byrjun átti ég í miklum erfiðleikum með að þekkja þá í sundur. Eftir smá tíma uppgötvaði ég hvernig væri gott að þekkja þá í sundur. Það vill svo heppilega til að einn Grikkinn lítur út alveg eins og grísk stytta, og allir hinir eru eins og örlítið afskræmdar útgáfur af honum. Það er eins og styttu-Grikkinn hafi verið steyptur úr móti en síðan hafi mótið beyglast aðeins áður en kom að því að steypa næsta, og svo alltaf beyglast meira eftir því sem fleiri voru búnir til. Til dæmis er einn langur og mjór, annar með aðeins fínlegri andlitsdrætti o.s.frv.

Til að rökstyðja mál mitt er hér mynd af styttu-Grikkjanum (t.v.) við hliðiná styttu (ókei brjóstmynd).

(mynd stolið af facebook)

sunnudagur, mars 09, 2008

Þorrablót Íslendingafélagsins í London 1. mars 2008

--fráhrindandi frásögn--

Á laugardagskvöldið var árlegt þorrablót Íslendingafélagsins í London. Við, Arna og BB (Björn og Bjarni) mættum, og líka Ben amerískur vinur okkar Örnu (sem vill meina að hann sé skandinavískari en ég). Það vildi svo skemmtilega til að á laugardaginn átti íslenskur bjór afmæli, ég fagnaði með því að skella einum gylltum víking í mig meðan ég málaði mig. Sá var góður, enda segir máltækið “Það kemur maður í manns stað, en hver kemur í stað víkings?”

Blótið var frekar uppskrúfað og stíft.

Hápunktur skipulagðar dagskrár var klárlega þegar Alda tróð upp. Hún tók tvö lög, ekki sín eigin reyndar.

Ég stóðst ekki freistinguna að fá mynd af mér með Kolbanum. Held það sé óþarfi að ræða það eitthvað frekar.
Aðalfjörið byrjaði ekki fyrr en í eftirpartýinu. Við Arna vorum eitthvað ósáttar við að fara að sofa klukkan 5 um morguninn, svo við slepptum því bara. Við náðum okkur í bjór og fórum í common-herbergið í húsinu okkar. Þar var snakk, við borðuðum snakkið. Stuttu seinna vorum við búnar að ná í tvær tölvur, ipod, meiri bjór, klink í nammisjálfsalann og eyddum næstu klukkustundum að syngja eins hátt og við gátum af mikilli innlifun með stórgóðum íslenskum lögum. Afgan hans Bubba var sirka þriðja hvert lag sem við tókum. Inn á milli ræddum við ýmis mikilvæg málefni af jafnmikilli innlifun og við sungum. Klukkan 8 um morguninn, fengum við gest. Ben, sem hafði komið með á blótið en farið miklu fyrr heim, var vaknaður og kominn til að nota kaffisjálfsalann. Hann var byrjaður að læra. Við tókum hann í smá kennslustund í íslenskri tónlist, sungum til dæmis lagið ‘Bjorn, and other less matured men’ með ‘New Danish’ fyrir hann. Hann hristi bara hausinn og hló að okkur. Seinna um morguninn kom skúringafólk að þrífa common-herbergið. Skúringafólkið, spænskumælandi par á sextugs aldri, glotti við meðan það ryksugaði í kringum okkur og henti tómum bjórdósum. Ég gleymi að segja frá ópalinu, sem við ákváðum að ná í um 8 leytið, ópal er gott. Við fengum meiri félagsskap, það kom niður strákur að læra, honum sagðist vera alveg sama þó við værum að spila háværa tónlist og dansa, sem við gerðum til klukkan 10.

Conclusion: lélegt blót bætt um með góðu eftirpartýi.

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Plúsar og mínusar

Ég labbaði heim úr skólanum í dag. Veðrið var milt og gott. Þegar ég labbaði frammhjá almenningsgarðinum í hverfinu mínu fann ég lykt af nýslegnu grasi. Ah, en dásamlegt, hugsaði ég með mér. Það jafnast fátt á við lyktina af nýslegnu grasi. Í sömu andrá stoppaði maðurinn sem var að labba svona 10 metrum á undan mér og fór að skyrpa / æla upp við girðinguna að garðinum. Ég ákvað snögglega að ég þyrfti að fara yfir götuna. Allt í einu var lyktin ekki svo dásamleg lengur.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Lufsumatur

Við Arna búum á sama stúdentagarði, ekki í sömu íbúð samt. Stundum, þegar við nennum, þá eldum við saman. Fyrir nokkrum vikum í búðinni (friendly neighbourhood store) þegar við vorum að versla nauðsynjar ákváðum við að kaupa nautakjöt og elda fljótlega rosa flottan mat. Svo fóru kjötið í frystinn. Nokkrum vikum seinna (í gær) ákváðum við að vera rosa duglegar og elda fína nautakjötskvöldmatinn. Kjötið var tekið úr frystinum og sett inn í ísskáp. Þann daginn enduðum við á Pizza Express eftir nokkra bjóra. Afleiðingin varð sú að við urðum að elda kjötið í kvöld, til það myndi ekki skemmast.

Planið var að steikja nautasteikurnar og dáldinn lauk með. Sjóða nokkrar kartöflur og hafa með einfalda pakkasósu. Maður þurfti bara að setja sósuduftið í bolla og hella soðnu vatni saman við og hræra. Einfalt eh?

Við byrjuðum á því að setja upp kartöflur. Núna láta margir lesendur sér eflaust detta í hug að ég hafi klúðrað því með því að gleyma að setja vatn í pottinn. Undir ströngu eftirliti Örnu var passað upp á að vatn færi í pottinum. Næst steiktum við lauk. Hann brenndist smá en það er aukaatriði í þessari sögu. Við suðum vatn fyrir pakkasósuna í hraðsuðukatlinum.

Þá kom að því að steikja kjötið. Það steiktist aðeins of mikið og varð því pínu seigt, en það er aukaatriði í þessari sögu. Næst fengum við þá snilldarhugmynd að skera næstum soðnu kartöflurnar niður, salta og setja inn í ofn. Þá gætum við líka notað pottinn til að ‘búa til’ sósuna. Gætum sett laukinn út í sósuna, þá myndi hún pottþétt bragðast betur.

Við helltum hraðsuðusoðna vatninu í pottinn. Síðan helltum við sósuduftinu ofan í vatnið.

Stelpa 1*: Hei okkur vantar eitthvað til að hræra með !
Stelpa 2*: Ég græja það.
Fer og vaskar upp ‘sleif’. Á meðan klárar stelpa 1 að hella sósuduftinu í pottinn. Duftið sest allt á botnin.
Stelpa 1: Hvar er hrærigræjan???
Stelpa 2: Róleg, við áttum hvort sem er að láta sósuna standa í eina mínútu!
Stelpa 1: Hvað meinaru standa? En duftið er bara orðið að kekkjum á botninum!
Stelpa 2: Humm já, við ættum að hræra.
Tekur hrærigræjuna og hamast við að reyna að leysa sósuduftið upp í sjóðandi vatninu. Duftið er að mestu orðið að kekkjum. Sumir kekkirnir vilja ekki leysast upp.
Stelpa 1: Oj það eru lufsur í sósunni, lufsusósa!
Stelpa 2 fiskar upp eina lufsuna og kemst að því að það er ekki sósukekkur heldur svartberja-eitthvað, í stíl við bragðið á sósunni.
Stelpur 1&2: STÓRT FLISS!

Umræður um hvernig mætti bjarga sósunni héldu áfram drjúglanga stund. Umræðan endaði á því að við ákváðum að borða sósuna og kaupa aldrei aftur lufsusósu.

Tveimur tímum eftir að eldamennska hófst borðuðu tvær stúlkur (eða gummie dummies eftir þessa runu af slæmum ákvörðunum) seigt nautakjöt, með brenndum lauk, ofnbökuðum kartöflum, lufsusósu og salati (búið til með alúð). Hljómar eins og Hereford ikke?

Update:
Í kommentum er verið að vísa til þessa atviks.

*Ekki verður gefið upp hvor er hvað.

Skipulag

Núna eru 3 vikur eftir af vorönninni í skólanum. Þessar 10 vikna annir eru voða fljótar að líða. Um leið og önnin er búin kem ég heim í páskafrí, get reyndar ekki tekið mér frí allan tímann því 1. maí á ég að skila nokkrum lokaverkefnum. Verð heima milli lífs og dauða 15. – 26. mars (og til í hitting, jahá). Apríl og maí fara í lærdóm í London. Eitt stykki verkefni verð ég (e. I must) að gera í júní – júlí – ágúst. Þannig lítur skipulagið út, alltaf gott að hafa skipulag.

Yfir og út

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Veður

"Wednesday's predominant weather is forecast to be foggy."

Max day: 9°C
Min night: 5°C
Wind: 2 mph
Visibility: Very poor
Pressure: 1020 mB
Relative humidity: 87%
Pollution: Moderate

Tekið af http://www.bbc.co.uk/weather/5day.shtml?world=0008 [skoðað 20.02.08 kl 16.23]

Ójá, það er þoka í dag, og borgin sérstaklega grá og grámygluleg. Mikill raki í loftinu, samt ágætlega hlýtt.

Gúlp, ég er farin að hljóma eins og gamall bóndi, farin að tala um veðrið.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Efnishyggja

A fostudaginn fell nidur timi. Eg og Arna hoppudum haed okkar i loft upp af gledi (hun getur sko stokkid haed sina aftur a bak og afram i fullum herklaedum (eins og Gunnar)). Eftir hoppid skundudum vid sem leid la i Mac i Covent Garden. Mig vantadi pudur. Eftir 45 minutur inni i budinni gengum vid ut med sitthvoran trodfulla pokann. Pudur hafdi breyst i: pudur, augabrunagraeju, augnblyant og 4 glansandi augnskugga. Glansandi augnskuggarnir voru serstaklega mikilvaegir, skil ekki hvernig eg hef komist af hingad til an theirra. Afrakstur innkaupaferdarinnar ma sja ad nedan:

Eftir dvol okkar i Mac vorum vid i svo miklu studi ad vid kiktum i skobud. Reyndar var thad Arna sem ad dro mig inn i skobudina, eg var a leidinni a barinn. Hun var ad fa skokaupa-frahvarfseinkenni, enda var lidinn naestum manudur sidan hun keypti sidasta skopar. Stulkan er buin ad vera idin vid kolann og fjarfesta i skopari i hverjum manudi sidan vid fluttum til London. Eg er ad vinna i thvi ad fa hana til ad fara ad blogga um skoarattu sina a www.thelondonshoeshopper.blogspot.com/ details to follow. Eg keypti skaerrauda sko og hun silfurlitada, tha vantadi okkur bara trudabuninga til ad fullkomna glans-lookid.

Svo forum vid a barinn. Over and out

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Laugardagur í febrúar

Aðvörun: Myndir fyrir ó-viðkvæma neðar.

Á laugardaginn fór ég í rómantískan göngutúr með sjálfri mér í blíðunni. Á Borough High Street sá ég þessar hesta-löggur (eins og ég kýs að kalla þær). Ég flýtti mér að fiska myndavélina upp úr veskinu og smella af.

Það er eins og hesta-löggu-tímabil hafi byrjað núna í febrúar í London því allt í einu eru þær allsstaðar (hesta-löggurnar). Björn er með skemmtilegar pælingar um löggur og fáka þeirra á sínu bloggi.

Þegar ég kom á Borough markaðinn las ég uppáhalds tilvitnunina mína og fann lykt af góðu kaffi.

Á markaðnum var fullt af fólki eins og vanalega. Ég tók túristamyndir (eins og allir hinir) af afhausuðu dádýri, héra og skrautlegum hænum:

Þetta er dásamlegt franskt bakarí, slef:

Ég gef öllum götutónlistarmönnum sem ég tek mynd af 1 pund. Þessi voru ágæt:

Svo las ég nokkrar skóla-greinar og drakk kaffi, þannig á að læra.

Yfir og út

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Dagsins amstel

Lífið gengur sinn vanagang hjá nemanum (mér) í London. Ég vakna á morgnana, bursta tennurnar og geri mig til fyrir daginn. Vanalega tek ég strætó í skólann, og þá þarf ég að leggja af stað 40 mínútum áður en tíminn byrjar vegna óáreiðanleika strætó. Stundum tekur 20 mín að komast á áfangastað en stundum meira en 40 mín. Ég og Arna erum vanalega samferða í skólann. Ef við erum komnar tímanlega á campus þá kaupum við okkur alltaf kaffi á skólakaffihúsinu, the Garrick. Cappuccino to take away með glotti frá uppáhalds-Garrick-manninum mínum. Hann er lágvaxinn, axlabreiður, með rosalega loðna framhandleggi. Ef að maðurinn með fyndnu hökuna (annar Garrick maður) er að vinna þá fær Arna alltaf hjarta-munstur í froðuna en ekki ég, og það er alltaf jafn svekkjandi!

Skóladeginum er varið í að mæta í fyrirlestra, hitta fólk, drekka kaffi með fólki, redda hlutum og læra. Hlutfall hvers activity er mismunandi dag frá degi. Stundum fær kaffidrykkjan heldur mikið vægi.

Strætóarnir eru alltaf fullir þegar maður er á heimleið milli 4 og 7 á daginn. Það er ágætt að skemmta sér við að lesa the London Paper eða Lite yfir öxlina á öðrum farþega. Reyndar er það miklu skemmtilegra heldur en að fá sér eintak af öðru hvoru blaðinu því þau eru bæði rusl. Ef maður er heppinn þá er ekki of mikil umferð og ekkert vesen á farþegum við Elephant og maður þarf ekki að hanga of lengi í strætó. Því miður er líklegt að annað hvort eða bæði tefji heimferð á hverjum degi. Ég hlakka til að losna við helv**** hóstann sem ég er búin að vera með í tvær vikur, þá get ég farið að labba oftar í og úr skólanum. Ég er búin að hósta svo kröftuglega að í verstu köstunum að æli ég upp lifur og lungum (eins gott að ég hef tvö eintök af báðu).

Hér eru tvær myndir sem eru teknar úr strætó að fara yfir Waterloo brúna (á leiðinni í skólann, þ.e. í norður). Mér finnst ennþá jafn gaman að fara yfir brúna.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

The way we was

Sumarið 2001 kom ég í fyrsta sinn til London. Við Svanhvít fórum tvær saman, átján ára flissandi menntaskólastelpur. Við gistum á hosteli í Holland Park. Við vorum með langan lista af atriðum sem okkur langaði að gera; skoða Big Ben, labba yfir Abbey Road, fara í London eye og fleira. Þegar við komum út bættist við fullt á listann hjá okkur... eða hjá mér. Eins og taka mynd af Svanhvíti hjá breskum póstkassa, láta Svanhvíti vera Hvar er Valli í tröppunum við St. Pauls dómkirkjuna. Svanhvít fékk að heyra ófáar fyrirskipanir eins og „Svanhvít farðu og stattu við hliðiná stelpunni í skrýtna bolnum ég ætla að taka mynd....! Drífa sig !!!” Enn í dag hatar Svanhvít mig fyrir fyrirskipanirnar og notar hvert tækifæri til að hefna sín á mér, sjá t.d. þessa mynd (tekin 2007) af mér týndri á tröppum St. Pauls. Eitt af því sem við gerðum í London í ágúst 2001 til að þóknast minni sérvisku var að fara í spes ferð á uppáhalds underground stöðina mína, Elephant & castle. Ég vissi ekkert um þessa stöð áður en við fórum þangað og átti ekkert erindi þangað en mér fannst nafnið svo flott að stöðin varð fljótlega mín uppáhalds eftir að ég byrjaði að stúdera tube kortið.

Ég man eftir því að daginn sem við fórum á Fíl og kastala var sólskin og fínt veður. Ég tók mynd af mynd af bleikum fíl dansandi við kastala og fannst voða gaman. Við gerðumst svo frægar að fara upp úr tubinu og út. Það var þá sem skýjaborgin hrundi, þetta var bara eitthvað venjulegt hverfi með venjulegum húsum og götum. Ég veit ekki við hverju ég hafði búist, lúðrasveit með fíl að sveifla priki í fararbroddi? Við skoðuðum notaðar bækur í sjúskaðri búð í undergroundinu áður en við tókum lestina til baka á „alvöru stað”.

Ekki grunaði mig þá að sex árum og tveimur skólum seinna ég ætti eftir að taka strætó framhjá Elephant & castle á hverjum degi.

*Pjúk*

Afsakið meðan ég gubba yfir sjálfa mig út af væmni.

Excuse me while I kiss the sky

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Busy á msn

Þegar ég er busy á msn þá er ég að læra skiljiði.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Er þér sama? (Do you mind?)

Er þér sama?
Já.

Do you mind?
Yes... I mean no... I mean what ever means that I don't mind !!!

sunnudagur, janúar 13, 2008

Nýr dagur, ný önn, nýtt kaffi í nýja lífinu

Vorönnin byrjaði á mánudaginn fyrir viku. Mér líst bara ágætlega á þetta. Fleiri námskeið byrja samt í næstu viku þ.a. þá kemur skipulagið betur í ljós. Námskeiða-skipulagið í LSE er óþolandi flókið, meira að segja fyrir mig. Ég ætla að reyna að útskýra það örlítið:

Til að útskrifast með MSc í operational research þá verð ég að klára 4 einingar (units). Þar af er ein eining meistaraverkefni sem ég vinn í sumar. Af þeim þremur sem eru eftir tek ég 1,5 einingar af skyldunámskeiðum og 1,5 einingar af valnámskeiðum. Flest námskeiðin sem boðið er upp á eru hálf eining, ég er ekki í neinu heillrar einingar námskeiði. Fyrsta skyldunámskeiðið er Undirstöðuaðferðir OR, það er hálf eining, helmingur af því er kenndur á haustönn og helmingur á vorönn, síðan er próf í maí. Annað skyldunámskeiðið er Kjarnahugtök í OR, það er hálf eining en því er skipt í tvo hluta þ.e. tvær hálfar hálfar einingar. Meiri hlutinn af kennslunni fór fram á haustönn en á vorönn þarf að skila verkefnum úr báðum helmingum og taka þátt í kappræðum úr efni annars helmings, þ.e. aðalvinnan er eftir. Þriðja skyldunámskeiðið er hálf eining og skiptist í tvo hluta: Línuleg forritun og Hermun. Það námskeið var kennt á haustönn en lokaverkefnum á að skila í vor. Ég tók eitt valnámskeið í haust, Háalvarleg (advanced) ákvarðanafræði sem var hálf eining. Sem þýðir að ég tek tvö hálfrar einingar valnámskeið í vor, ég er ekki alveg búin að velja þau ennþá.

Í hnotskurn:

Í haust tók ég semsagt hálft hálfrar einingar námskeið, hálft hálfrar einingar námskeið sem skiptist í tvo hluta*, eitt hálfrar einingar námskeið sem skiptist í tvo hluta og eitt hálfrar einingar námskeið. Þetta jafngildir 0.25 + 0.25 + 0.5 + 0.5 = 1,5 einingum.

Í vor tek ég hálft hálfrar einingar námskeið, hálft hálfrar einingar námskeið sem skiptist í tvo hluta* og tvö hálfrar einingar námskeið. Þetta jafngildir 0.25 + 0.25 + 0.5 + 0.5 = 1,5 einingum.

Ruglandi?

Fyrir þá sem vilja glöggva sig nánar á skipulaginu bendi ég á heimasíðu deildarinnar. Nánar tiltekið hér.

UPPFÆRT 15/1:
*Helmingurinn af hálfrar einingar námskeiðinu sem skiptist í tvo hluta og dreifist yfir tvær annir er metinn í tveimur hlutum, þ.e. ég skila verkefni úr tveimur aðal viðfangsefnum þess hluta. Þessar upplýsingar fékk ég í tíma í gær.

sunnudagur, janúar 06, 2008

Tölfræði (nema bara ekki fræði)

Árið 2008 (so far) í tölum:

Bjórar drukknir: 4
Áhugaverðasta máltíð: svart spagettí með olíu og smokkfiski (3/4)
Blogg: 1 (þetta)
Máltíðir eldaðar: 2
Ókláraðar ritgerðir: 1

over and out