þriðjudagur, apríl 15, 2008

Hundraðasti bjórinn

~Ársfjórðungsskýrsla bjórdrykkju minnar~

Eftir nákvæma gagnasöfnun og greiningu á gögnum hef ég komist að því að ég drekk ekkert svo mikinn bjór.

Inngangur
Í nokkur ár hef ég haft þá stefnu (e. policy) í mínu lífi að telja ekki fjölda bjóra sem ég drekk. Nánar tiltekið að kunna bara að telja upp í tvo þegar kemur að drykkju. Ég geri mér grein fyrir þegar fyrsti bjór klárast en á öðrum bjór hætti ég að telja. Þannig að hvort sem ég er að drekka annan eða fimmta bjór kvöldsins þá er sá bjór ávallt númer 2+ (lesist: tvö plús). Í lok síðasta árs ákvað ég að breyta úr afskaplega lélegri talningu yfir í afsaplega góða talningu (á bjór). Ég ákvað að ég skildi telja hversu marga bjóra ég drykki árið 2008.

Aðferðafræði
Til að niðurstöður tilraunar yrðu sem áreiðanlegastar ákvað ég nokkrar reglur sem ég ætlaði að fara eftir í talningu bjóra.
Til að bjór teljist drukkinn verður eftirfarandi að gilda:
1. Ég drekk bjórinn ein og sjálf (þ.e. bjórar sem eru opnaðir og hellt í glös handa mörgum eru ekki taldir með)
2. Ég klára yfir 75% af bjórnum (þ.e. bjór er talinn þó slefsopinn eða froða í botninum sé eftir)
Bjór blandaður við annan vökva telst ekki bjór og er því ekki talinn með (t.d. bjór con limon)
3. Annað áfengi en bjór er ekki talið, því augljóslega er það ekki bjór. Eftir að reglurnar höfðu verið nelgdar niður hélt lífið áfram, nema núna aðeins nördalegra. Ég vildi halda því fram að ég væri ný manneskja, en mér var bent á að ég væri sama manneskja að við bættum teljara: ,,Svo þú ert: ,,Þura, nú með counter!”!” (Bergur, 2008).

Niðurstöður
Á 96. degi ársins drakk ég hundraðasta bjórinn á árinu í góðum félagsskap og ákvað þá að skoða þau gögn sem væru komin. Athuga skal að ég skráði hjá mér hvort drukkinn bjór var stór eða lítill en hér er fjallað um samanlagðan fjölda stórra og lítilla bjóra. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

Graf 1: Fjöldi bjóra sem ég hef drukkið dag hvern árið 2008. Bestu línu má sjá á myndinni og eins og sést er hallatalan 0.0003 þ.a. dreifing bjóra er nokkuð jöfn. Lengstu bilin á núll línunni (þ.e. fjöldi daga í röð án bjórdrykkju) eiga sér skýringar. 6. - 11. dag var ég á detox kúr. Ég var kvefuð (og þá drekk ég ekki bjór) 29. - 34. dag og 65. - 71. dag.

Ég tók saman hversu marga bjóra 'per skipti' þ.e. per dag (gert er ráð fyrir að hver dagur sé eitt 'drykkju-session') ég drakk. Þær niðurstöður eru eftirfarandi:

10 skipti drakk ég 1 bjór, 12 skipti drakk ég 2, 11 skipti drakk ég 3 bjóra, 2 skipti drakk ég 4 bjóra og 5 skipti drakk ég 5 bjóra.

Graf 2: Uppsafnaður fjöldi bjóra sem ég hef drukkið dag hvern árið 2008.

Graf 3: Hlutfall drukkinna bjóra á móti dögum (uppsafnaðir bjórar og dagar). Þetta er hið fræga b/d hlutfall. Hér má sjá að ég byrjaði frekar rólega (b/d hlutfall lægra en 1), síðan kom smá yfirskot (b/d hlutfall nálgast 1.3) en svo sveiflast hlutfallið lítillega kringum 1 mestan partinn.

Umræður

Samkvæmt niðurstöðum þessarar gagnasöfnunar hef ég komist að því að ég drekk ekkert svo mikinn bjór! Hissa? Njaaa... eiginlega ekki.

Frekari tilraunir

Ég ætla að halda áfram að telja bjóra út árið, og lesendur mega ef þeir vilja giska á hver heildarfjöldi bjóra í minn maga verður árið 2008!

Þuríður Helgadóttir, apríl 2008

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta eru mjög athyglisverðar niðurstöður. Ég sé strax að b/d kúrfan er áþekk þrepasvörun annarar gráðu kerfis og virðist ná jafnvægi í kringum 1. Með teknu tilliti til ristíma og yfirskots dreg ég því þá ályktun að Þura drekki 365 bjóra árið 2008.

Svanhvít sagði...

Athyglisvert að það er svipað oft sem þú færð þér tvo eða þrjá bjóra og einn bjór. Það er raunar tiltölulega sjaldan (10 sinnum). Hvað má lesa útúr því? Ég veit það ekki, en þetta er allavega brjáluð skýrsla.

Svanhvít sagði...

Já ég semsagt kann ekki að tala svona, en ég skýt á 340. Þetta rökstyð ég þannig að þegar ´hún kemur hingað til Chile getur hún varla talið neinn bjór með því þeir eru allir í lítraflöskum sem er hellt í fleiri glös, sem teljast ekki með í rannsókninni.

Helga Björk sagði...

Hahahha.... þú ert svo mikill snillingur. Ég segi að þú drekkir 380 bjóra á árinu.

Unknown sagði...

Ég er algjörlega slegin af þessum niðurstöðum! Ég allavega tapa þokkalega fyrir þér í bjórdrykkunni, ég er búin með 1 bjór á þessu ári.

Annars held ég miðað við þetta að þú ættir léttilega að geta komist yfir 400 bjóra á árinu, sérstaklega miðað við það að þú átt sumarið eftir og sumur ku þykja góð til bjórdrykkju.

Nafnlaus sagði...

Þetta eru sláandi niðurstöður.. mmm eða ekki..
Ég giska á 400 stk bjóra. Þið verðið að gera ykkur grein fyrir að núna er Þuran í skólanum og drekkur því (vonandi) minna heldur en þegar hún er að vinna. Svo ég geri ráð fyrir að þegar skólinn er búinn í haust muni stíf drykkja taka yfirhöndina á henni. Kemur til íslands og drekkur eins og henni var kennt í VR2.

400stk..

Nafnlaus sagði...

Hahah
Ég vissulega bjóst við fleirum en einum bjór (ca) á dag frá þér!! Sérstaklega þar sem þú ert líka að drekka fyrir mig þetta árið...spurning hvort ég verði að finna nýjan kandídat? Stebbi vildi endilega taka það að sér :)
En á meðan ég las skýrsluna hugsaði ég eins og Ingi, þ.e. að þú myndir drekka tvöfalt þegar hitnar í veðri og þegar skólinn er búinn og þú ferð út til svanhvítar. En svo er spurningin með lítraflöskurnar þar...Ég held þú verðir að breyta skráningunni þar (t.d þegar þú drekkur 1/2 líter telst það til 1stk bjórs) eða bara hella í þig mörgum 1 líter, bannað að hella alltaf í glös. Og þá giska ég á 450 stk! (eins gott þú standir þig ;)
Kv. Erna

Atli Viðar sagði...

Ég held sat að menn séu að gleyma tremmatímabilinu. Þetta er einungis fyrstu mánuðir ársins, ég held að það muni koma þurrkatímabil og giska því einungis á 300 bjóra.

Svanhvít sagði...

Uhh, skóli = minni bjórdrykkja?
Thetta er einhver undarleg lógík sem ég thekki ekki...

Nafnlaus sagði...

Já, mastersnámið er krefjandi, sérstaklega með svona mikið af extracurricular activities...
Vá hvað ég þarf annars að fara að herða mig í bjórdrykkjunni, ég næ þér á tímabilinu 16. maí - 9. júní (hugsa að ég verði samt að setja upp sérstakt kokteilagraf)

Unknown sagði...

Ég vissi ekki að þú drykkir...

Nafnlaus sagði...

Sést langar leiðir hvað þú ert aljörlega á kafi í mastersnámi ...

En anyways - Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað þú ert stórklikkuð elsku Þura mín .. en engu að síður... þá er það bara gott mál .. þú verður alltaf uppáhalds frænka sama hversu klikkuð þú verður .. ;) ..

knús frá Röggu frænku - og gangi þér vel með "námið" .. ;)

p.s. Ég giska á að þú munir drekka 477 bjóra ..

Þura sagði...

Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að vera ánægðari með 'há' eða 'lág' gisk...

Og Ragga, takk fyrir stuðninginn og mundu bara 'it takes one to know one' ;)

Ragnheiður Sturludóttir sagði...

Þetta er stórkostlega fyndið! Mikið ertu sniðug. Ég verð að taka undir þetta með 400 bjóra. Klárlega eykst bjórdrykkjan á sumrin.