mánudagur, desember 31, 2007

sunnudagur, desember 30, 2007

Tvö líf

Komin og farin.
Farin og komin aftur.
???

Farin að heiman og komin heim og svo farin aftur heim.
?????

Ég fór til Íslands föstudaginn fyrir jól (21. des).

kl. 04.50 Lagði af stað í burtu frá nístandi London kuldanum
kl. 06.15 Endalaus röð á Gatwick (því tösku-belti hafði bilað)
kl. 07.50 Út í flugvél sem seinkaði um 1,5 klst vegna þoku
kl. 12.20 Mjúk lending á skerinu, komst að því að það var mun hlýrra á Íslandi heldur en í London
kl. 13.40 Milli lífs og dauða aftur, leið eins og ég hefði aldrei farið neitt, að síðustu 3 mánuðir hefðu bara verið draumur
kl. 14.20 Mætti boðin / óboðin í jólakaffi Almennu verkfræðistofunnar
kl. 16.20 Heimsókn til ömmu
kl. 18.30 Heim, alvöru sturta (vúhú), welcome home dinner (soðinn þorskur, hvað annað)
kl. 20.00 Blundur
kl. 22.00 Partý hjá Svanhvíti (umræður um pólitík í koníaksstofunni og þvíumlíkt)
kl. 01.00 Kúltúra
kl. 02.00 Kofinn
kl. 05.10 Kom að lokaðri lúgu á bæjarins bestu, þá leigubílaröð í 1,5 klukkutíma
kl. 06.40 Heim sofa í mínu eigin rúmi vúhú!

Hafði það svo rosa gott í viku í viðbót á skerinu. Reyndi að vera sem mest í náttfötum uppí sófa (því það eru ekki sófar í sameinaða konunsríkinu). Er komin aftur til köldu London (að læra því þegar maður er í 1 árs master þá er ekkert sem kallast frí).

Bestu jóla- og áramótakveðjur til allra sem ég hitti og hitti ekki, hafið það sem best guys!

Knús og cheers, Þura

p.s. Það er dáldið skrýtið að vera komin aftur í nýja lífið í London eftir heimsókn í gamla lífið í Reykjavík.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Jólastemning í Lundúnum

Um síðustu helgi var Frost Fair við Tate Modern á suðurbakkanum. Þar voru fullt af básum að selja allskonar dót, lifandi tónlist og fullt af fólki. Skemmtilegt að ramba á svoleiðis þegar maður er bara á leiðinni í skólann. Hér er tónlistarsviðið undir köngulónni: Krúttlegir tónlistarmenn:
Við Covent Garden markaðinn var líka jólastemning. Jólaskraut úti um allt, heitt súkkulaði selt úti á götu og nokkrir götulistamenn, eins og þessi stelpa sem gerði alls konar æfingar hangandi í stórri blöðru:
Eins og það sé ekki nóg af fólki á Oxford Street dagsdaglega, fyrir jólin er miklu meira af fólki:
Svo má ekki gleyma öllum hauga-drukknu jólasveinunum sem ráfa um götur borgarinnar rétt fyrir jól. Þá er ég að tala um sóðalega pissfullir jólasveinar, og fullt af þeim, klukkan svona 4 eftir hádegi (ekki um nótt). Þeir hella í sig bjór (Tuborg sýndist mér) og öskra og hafa hátt og sumir þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar. Ég náði ekkert voða góðri mynd, en þarna sést hópur og þarna á bakvið var örugglega hundrað sveina hópur:

Þetta voru London-jóla-myndirnar, því sem ég náði ekki mynd af verður ekki sagt frá.

Over and out

p.s. Núna er búið að þrífa teppið í herberginu mínu með efni sem lyktar ógeðslega svo ég verð að hafa gluggann opinn til að lofta út og frjósa EÐA kafna úr vondri lykt.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Kalt brrrrrrr

Á hurðinni í herberginu mínu stendur að ofninn inni í herberginu fari sjálfkrafa í gang ef hitinn í herberginu fer niður fyrir 16°. Ofinn er í gangi núna. Það er líka ógeðslega kalt hérna inni. Ég sit við skrifborðið að læra (eða blogga núna því lyklaborðið er það eina sem er hlýtt) í flíspeysu og lopapeysu. Með sæng yfir mér og í ullarsokkum. Brrr er að frjósa. -2° til +5° kuldi í London í dag samkvæmt BBC síðunni.

Hlakka til að fara til Íslands þar sem húsin eru í alvörunni upphituð! Kem á föstudaginn og verð í viku (þ.e. 21. - 28. des). Vúhú!

Annað, ég segi óvart alltaf að ofninn inni hjá mér sé oven, en hann er það ekki hann er heater. Fólk heldur að ég sé að gera grín að því eða að ég sé svakaleg ljóska... *hristi hausinn*

Já og það var verið að selja jólatré á Portobello-markaðnum um síðustu helgi:

Ég hafði miklar áhyggjur af því hvernig fólk tæki svona jólatré með sér heim (þar sem fæstir virðast vera á bíl), en fólk virtist ekki vera í vandræðum með að halda á 1,5 m jólatré (og rölta um).

mánudagur, desember 17, 2007

Nýjungar?

Við Arna fórum út að borða um daginn á sunnudagskvöldi. Kærastinn hennar hafði verið í heimsókn hjá henni um helgina, en hafði farið heim með kvöldvélinni. Við þurftum auðvitað að hittast og fara yfir málefni líðandi stundar, eins og gengur. Við völdum veitingastað við suðurbakkann sem sérhæfir sig í kjúklingi, fínn matur. Þegar maturinn er rétt kominn á borðið og ég byrjuð að troða í mig segir Arna:

'Mér er svo illt í litlu tánum eftir helgina.'

Ég læt gaffalinn síga og lít á hana. Hún heldur áfram:

'Já ég er komin með risa-blöðrur á hliðarnar á litlu tánum.'

Ég kyngi kjúklingnum. Hún heldur áfram að lýsa áverkunum á tánum á sér og notar handahreyfingar til að útskýra hvernig blöðrurnar líta út.

Ég píri augun meðan ég fylgist með lýsingunni. Ennið á mér byrjar að hrukkast og ég horfi stíft á hana. Svo ræski ég mig og segi:

'Er þér illt í TÁNUM eftir helgina? Er eitthvað nýtt í kynlífinu sem ég veit ekki um?'

Arna skellir upp úr og útskýrir:

'Hugsar þú ekki um annað en kynlíf dóninn þinn! Nei mér er illt í tánum eftir allt LABBIÐ um helgina!!'

fin

miðvikudagur, desember 12, 2007

laugardagur, desember 08, 2007

Viðbót við færslu 18. nóvember síðastliðinn

Gamla konan við barinn sem myndin er af, já þessi eldgamla með græna drykkinn. Hún er víst mamma DJ-sins og mætir á öll hans 'gigg'. Þetta segja semi-fastagestir mér.

DJ-inn kynnir stundum lögin eða segir eitthvað hresst (eða ég geri ráð fyrir því, það skilst ekki orð af því sem hann segir í míkrafóninn, aldrei. Þeir sem hafa ensku að móðurmáli skilja hann ekki heldur)

föstudagur, desember 07, 2007

Jól á Trafalgartorgi

Við Íslendingagengið í LSE ætluðum að sjá þegar kveikt var á jólatrénu á Trafalgartorgi í gær. Svo misstum við óvart af því, við vorum á barnum. Hérna erum við fyrir framan jólatréð:Sem betur fer byrjar mitt nafn ekki á A, því þá værum við eins og ABBA (nema bara fyrir utan að við Arna syngjum ekki).

sunnudagur, desember 02, 2007

Með taugarnar þandar

Ég kom heim í gærkvöldi kl. 22.30 í pilsi, háhæluðum skóm og með maskara. Ég henti veskinu og jakkanum á rúmið og skrifaði sms: Ég er fokking komin heim!!!

Arna svaraði: Nú hva strax! Hvernig var stefnumótið??

Ég fór á stefnumót í gærkvöldi með kana. Hann býr í sömu byggingu og ég, og ég hef alveg vitað hver hann er í dáldinn tíma en aldrei talað við hann. Alveg þangað til í síðustu viku þegar hann bauð mér á stefnumót. Ég hef aldrei farið á stefnumót með gaur frá ‘stefnumótaþjóðinni’ sjálfri og mér finnst það frekar áhugaverð stúdía svo ég ákvað að slá til. Ég sá þetta sem tækifæri til að nota fallegu háhæluðu skóna mína og nýja glitrandi úrið.

Við hittumst í lobbíinu klukkan 7 (ég passaði að koma aðeins of seint til að hann væri örugglega kominn á undan). Hann var kominn á undan. Þegar við löbbuðum út stakk hann upp á því að fara á flatböku-hrað veitingastað við suðurbakka árinnar. Ég brosti og sagði já endilega á meðan ég hugsaði: ertu ekki að grínast!

Jæja, við fórum á keðju pizzustað. Þegar við settumst stakk hann upp á því að panta vínflösku, ég sagði: ach æi uh mig langar eignilega í bjór. Honum fannst það í lagi. Samtalið yfir matnum var allt í lagi, ég naut þeirra forréttinda að vera frá Íslandi og geta sagt frá fullt af hlutum sem fólki finnst merkilegt um Ísland.

Eftir um tvo tíma vorum við búin að borða og drekka og hann borga. Þá færðum við okkur yfir á nálægan bar. Hann gekk beint að barnum og pantaði sér bjór. Síðan spurði hann barþjóninn hver lágmarksúttekt á korti væri. Næst spurði hann mig hvort það væri í lagi að hann borgaði minn bjór líka. Barþjónninn svaraði fyrir mig og sagði að það væri aldrei slæmt að borga drykk fyrir dömu. Svo ég fékk bjór (takk barþjónn!).

Einum bjór seinna ákváðum við að halda heim á leið (áður hafði komið fram að hann þyrfti að læra mikið daginn eftir). Þannig að við löbbuðum heim.

Fyrir framan mína ‘blokk’ spurði hann hvort hann mætti bjóða mér í drykk í vikunni. Ég muldraði eitthvað um að það væri rosa mikið að gera í vikunni. Svo kyssti hann mig á munninn og bauð góða nótt. Búið, endir. Hvað í andskotanum?

Ég hef ákveðið að hlusta á ráðleggingar vina minna í Vinum og dreg þá ályktun að bandarískir strákar segjast alltaf ætla að hringja þó að stefnumótið hafi verið slæmt.

Og ég var stressuð fyrir stefnumótið, til hvers!

Yfir og út

mánudagur, nóvember 26, 2007

Herbergið mitt


Herbergið mitt
Originally uploaded by Þura.

Svona lítur 12 fermetra herbergið mitt út (allt herbergið sko, nema það er líka rúm)... það eru nánari útskýringar (flickr-style) þegar klikkað er á myndina.

over and out (mostly out though)

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Á leiðinni heim úr skólanum dag einn í nóvember

Það er gaman að fara heim úr skólanum í London. Somerset House er til dæmis rétt hjá skólanum mínum, og í síðustu viku var dúndrandi latinó-skemmtistaðatónlist í gangi, slatti af fólki að hanga, fínt jólatré og það var verið að skafa skautasvellið. Ég tók nokkrar myndir. Hér sést smá í jólatréð:
Hérna er stóra flotta skautasvellið:
Sem var verið að skafa (eða pússa eins og ég vil meina):
Á myndinni sjást eftirfarandi föt: Þura: húfa (H&M), trefill (H&M), Arna: húfa (H&M (eða var það ekki?)), trefill (H&M):

H&M er semsagt í góðum málum í vetur. Stundum fer ég út úr húsi á morgnana og fatta svo að ég er í ÖLLU úr H&M (þ.e. jakka, peysu, bol, buxum, sokkum, húfu, trefli og vetlingum).

Yfir og út í bili

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Helgin í máli og myndum

Helgin þjónaði þeim tilgangi að vera 'niðurtjún' eftir brjálaða vinnu viku, og 'upptjún' fyrir næstu brjáluðu vinnuviku. Á föstudagskvöldið fórum við Arna á Stereophonics á Wembley Arena, sem var geðveikt.

Á laugardaginn dró Arna mig í bæinn í verslunarleiðangur. Það hefur verið að kólna síðustu 2 vikur þ.a. það var nauðsynlegt að kaupa hlý föt og aukahluti. H&M í Covent Garden var ágætur staður til þess. Það var samt ekki of kalt fyrir ís í búðinni í götunni okkar:
Það var fullt af fólki í bænum og gaman að rölta milli búða í Covent Garden. Eftir ágætt verslunar session ákváðum við að taka strætó 'one six eight to Hampsted Heath' til að borða kvöldmat á kósí enskum pöbb. Þegar við komum á pöbbinn var hann smekk-fullur og fullt af fólki búið að panta borð svo við ákváðum að borða annars staðar í staðin. Fórum á nálægan, ódýran ítalskan veitingastað. Veitingastaðurinn var svo lítill að þjónarnir (sem voru stelpur sem betur fer) þurftu að draga til borð til að leyfa þeim sem ætlaði að setjast upp við vegginn að setjast. Við fengum okkur lasagnia eftir að þjónustustúlkan hafði mælt með því við okkur, og við urðum ekki fyrir vonbrigðum, ummmm.

Á heimleið komum við við á lókal pöb. Þar var nú aldeilis fjör því þar var verið að halda upp á fimmtugsafmæli og DJ og læti. Við hittum nokkra LSE-stúdenta sem voru líka að krassa partýið þ.a. við ákváðum að hanga aðeins þarna og fá okkur bjór. Ég gerði tilraun til að fanga stemninguna á mynd. Hér sést eldgamla konan sem sat á barnum og hreyfði sig ekkert allan tíman sem við vorum þarna, hún var að drekka grænbláan drykk. Fyrir aftan er DJ-inn við græjurnar og fyrir ofan hann stendur 'Happy 50th sis':

Fólkið sem var á staðnum í þessu afmæli var eins og karakterar úr miðlungs breskum gamanþætti sem gæti heitið 'Fjölskyldan mín'. Þarna voru 'tannlausa frænkan', 'sonurinn um tvítugt með of mikið gel í hárinu og heldur að hann líkist poppstjörnu', 'ekta breski aðeins of feiti háværi pabbinn', 'of ljósabekkjabrúna mamman sem klæðir sig eins og hún sé 15 árum yngri en hún er', 'litla, hressa, feita, frænkan í hlíralausum topp með tattú á öxlinni og litað svart hár'. Ásamt fleiri góðum karakterum, og allir voru í góðu tjútti á dansgólfinu.

Þar sem við sátum við barinn, rétt búnar að klára bjórana, okkar pikkaði afgreiðslukona á barnum í okkur og benti okkur, ekki svo vinsamlega, á að ef við værum ekki að drekka þá gætum við farið því hún væri þarna til að græða peninga. Ótrúlega sjarmerandi...

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

puh!

Vigdís Finnbogadóttir hringdi ekki í mig eftir árshátíð Verkfræðingafélagsins!

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Ég dýrka London

Í alvöru ég dýrka London. London er æðisleg borg.
Hér er Southwark Cathedral í ljósaskiptunum:

Tók mynd uppundir London eye. Fór samt ekki í London eye, hvaða snillingi dettur í hug að það sé minna en 2 tíma bið að fara hringinn á sunnudagseftirmiðdegi í dásamlegu veðri!
Fyrir framan Buckingham, líka í dásamlegu veðri:

Það er alltaf dásamlegt veður í London. Meira að segja rigningin er dásamleg (sbr. rostungsins if the sun don't come you get a tan from standing in the english rain). Jæja best að missa aðeins meir af góða veðrinu og halda áfram að LÆRA.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Cheers

Jæja, tími til að blogga meira um hluti sem ég skil ekki í útlöndum. Þeir eru svo margir að ég gæti næstum stofnað nýtt blogg kringum það http://www.hlutir-sem-eg-skil-ekki-i-utlondum.blogspot.com/. Ef ég stofna nýtt blogg þá verður það pottþétt með skærgrænum segul-froski, en það er ekki á dagskrá heldur, a.m.k. ekki alveg á næstunni.

Það sem undrar mig í dag (sem og flesta aðra daga) er notkun Breta á orðinu 'cheers'.

-Ég er að versla í matvörubúð og þegar afgreiðslumanneskjan lætur mig fá afganginn segir hún 'cheers' (þá segi ég 'eh thanks' eins og auli)
-Ég er að spjalla við Breta, og þegar hann kveður (sem er leiðinlegt) þá segir hann 'cheers' (og ég stend eftir eins og auli og segi 'eh yeah bye')
-Fólk er að skála, og það segir 'cheers' (og þá segi ég líka 'cheers' og er þá loksins ekki eins og auli, eða kannski minni auli)

Ég sem hélt að 'cheers' væri sjónvarpsþáttur, where everybody knows your name...

p.s. Arna er með ljósmyndasíðu, hér. Þar er t.d. mynd af bekknum okkar, og fleira London-skemmtilegt. 'Cheers Arna !'

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Halloween partý

Í gærkvöldi var hrekkajvökupartý í húsinu sem ég bý í. Klukkan 6 um kvöldið (kl 18 sko) sagði Arna við mig að við yrðum eiginlega að mæta í búningum, oh crap ekkert búningadót var tekið með til London. Ég ákvað að fara í standard-grímubúninginn minn: Star Trek karakter. Að þessu sinni varð fyrir valinu Lieutenant Commander Jadzia Dax úr Deep Space Nine. Þekktist ég: NEI. Þetta var þó einhverskonar búningur.
Arna hætti við að vera kisa og varð djöfull í staðin, en þar sem hún átti kisu-skott þá var hún djöfull með skott:
Við hófum kvöldið á því að fara út að borða, ég, Arna og Bjössi. Íslendingarnir þrír í OR (og svo kvörtum við yfir því að Grikkirnir tali bara við aðra Grikki á grísku). Bjössi var George Clooney, og þar sem hann býr ekki í Sidney Webb og þekkir engan í húsinu nema okkur kynnti hann sig sem George. Hér erum við, Jadzia Dax, she-devil with a tail og Clooney:
Við mættum svo í partýið, og það voru ekkert voðalega margir í búning og það voru ekkert voðalega margir í partýinu heldur. Plötusnúðurinn, hann var trylltur. Svalleikinn draup af honum allt kvöldið:
Fámenni partýsins kom reyndar ekki að sök. Eins og Arna orðaði það þegar hún var að tala við norsku stelpuna 'We are Icelanders, we like to be few and good' Setningin er fyndnari í ljósi þess að útlendingum finnst þrjúhundruðþúsund manns vera hlægilega fámenn þjóð.

Þegar við Arna vorum greinilega aðeins of uppteknar við að taka sjálfsmyndir, eins og þessa:
Þá eignaðist Bjössi nýjan vin. Þegar við komum til baka, dró hann okkur voða spenntur að kynna okkur fyrir gaurnum. Hei stelpur, þið verðið að koma að hitta nýja pakistanska vin minn!!! Gaurinn sat á barstól, en þegar við komum stóð hann upp... eða niður. Hér eru félagarnir:
Hér er mynd af mér, Örnu og gaurnum sem líkist hverjum?

Hér eru litlu pakistönsku stelpurnar sem ég bý með, þær eru voða krúttlegar:


Já semsagt til að taka saman, fínt partý og eftirpartý og all is well

sunnudagur, október 28, 2007

Daniel

Ég fór í tíma á föstudag í skólanum. Fyrirfram hafði okkur verið tilkynnt að annar kennari en sá vanalegi myndi sjá um þennan tíma, og að gestakennarinn héti Daniel Read. Ég var svolítið spennt að mæta í tíma hjá þessum gestakennara. Hvernig getur maður að nafni Daniel Read verið annað en hot, hugsaði ég með mér.

Þegar ég mætti í tímann varð ég fyrir vonbrigðum. Dr Read var ekki hot. Einum degi seinna man ég einu sinni ekki lengur hvernig hann leit út. Hann var bara svona gaur.

Eftir þessa óskhyggju fór ég að pæla í af hverju ég hafði gert ráð fyrir að Daniel Read væri hot. Ég var ekki lengi að komast að niðurstöðu:

Daniel Cleaver

Ég hafði ruglað Daniel Read saman við Daniel Cleaver.

Daniel Cleaver hvern? Hugh Grant í Bridget Jones auðvitað !*

Tíminn hjá Daniel Read reyndist vera fínn eftir allt saman, nema ég þurfti ekki að nota allt tissjúið sem ég hafði tekið með (til að þurrka slefið).

Á föstudagskvöldið fór ég út að borða á Brick Lane með nokkrum Íslendingum. London’s Brick Lane curry mile. Þar er endalaust af girnilegum, ódýrum, indverskum veitingastöðum, og fyrir utan gaurar að segja manni að velja sinn veitingastað. Við völdum stað, þann eina sem við sáum þar sem var enginn gaur fyrir utan að draga mann inn. Þegar við fórum að panta papadoms í forrétt og drykki var okkur sagt að staðurinn hefði ekki vínveitingaleyfi. En, hér væri miði upp á 10% afslátt í áfengisbúðinni á horninu, sem hét einmitt ‘Off licence’ og við mættum koma með okkar eigið áfengi. Uh ókei.

Maturinn var dásamlegur, og hvítlauks-nanbrauðið var himneskt. Ég er mjög veik fyrir indverskum mat með hvítlauks-nanbrauði og bjór.

*Ég er veik fyrir breska hreimnum, mjög.

þriðjudagur, október 23, 2007

Rule # 1

Hér má sjá allt matarkyns sem ég á, fyrir utan hálf-tóman serjós pakka frammi í eldhúsi:


Ég get fullyrt að regla 1 verður seint brotin. Hver er regla 1 ?

sunnudagur, október 21, 2007

"Hæ"

-Hey how are you
-Good, how are you
-Good

Afhverju ekki bara segja "hæ" ? Ég á dáldið erfitt með að tileinka mér svona.

miðvikudagur, október 17, 2007

Þruman

Það barst til mín bréf í gær, stílað á

Thundur Helgadottir

Ég hef ákveðið með örlitlum breytingum að taka upp þetta nýja nafn.

Núna er ég:

Thunder

þriðjudagur, október 09, 2007

London boys

Strákar, með breskan hreim. Aumingja þeir þegar einhver íslensk stelpa spyr heimskulegra spurninga bara til að fá þá til að tala meira og meira með fallega hreimnum sínum. Og situr svo bara dáleidd og hlustar (og slefar).

Ha hver ég ? Neeeeeei.

Ég talaði samt ekki við þessa sem voru á Soho torginu á góðum degi:

sunnudagur, október 07, 2007

Skóli

Á föstudaginn fór ég á kynningu hjá deildinni minni í skólanum. Þrjár klukkustundir af konsentreruðum upplýsingum um ALLT. Margir kennaranna komu og kynntu námskeiðin sem þeir eru að kenna til að auðvelda okkur valið. Eða "auðvelda" kannski.

Líka búin að drekka bjór og labba um. Eða labba bjór og drekka um?
Verðir við Downingstræti, voða gaman hjá þeim:

Big Ben, og ljósastaur með öryggismyndavél held ég:

fimmtudagur, október 04, 2007

Já London

Á mánudaginn fyrir einni og hálfri viku flutti ég til London til að fara í meistaranám í OR í LSE. Ég bý á stúdentagarði með um það bil 400 öðrum LSE stúdentum sem flestir eru í framhaldsnámi, en nokkrir eru í grunnnámi.
Síðustu dagar hafa farið í að læra á London, skoða skólann, finna góðar búðir (hef ekki keypt mér eina einustu flík ennþá ótrúlegt en satt), kynnast fólki og fleira.
Svanhvít kom í heimsókn um helgina sem var mjög skemmtilegt. Við fórum t.d. á Camden markaðinn (og ég var greinilega hissa, sjá mynd):

Hittum líka Lundúnarbúana Matthildi og Hring:

Við sáum líka bleikt ljón (mynd: Svanhvít):
Þannig að það er búið að vera nóg að gera. Svo byrjar skólinn á mánudaginn...

miðvikudagur, október 03, 2007

London !

Komin til London, mikið að gera, mynd tekin af tröppum Sankti Páls kirkjunnar.
Yfir og út

laugardagur, september 22, 2007

Að bresta á

Ekki á morgun heldur hinn.

Partý í gær gott já.

Það er e-r truflun á merkinu.

Ég virðist hafa farið úr fasa.

fimmtudagur, september 20, 2007

miðvikudagur, september 19, 2007

Meiri Strútur

Beint framhald síðustu færslu.

Eftir að búið var að kippa í númer 1 var keyrt suður fyrir Mælifell:
Danski herinn (eða a.m.k. einhver her) var líka á ferð og fór frammúr okkur á blússandi ferð:

Á leiðinni til byggða skiptust bílarnir á því að festa sig og draga hvern annan upp og útsýnið var mjög fallegt. Kristinn Jósep (t.h.) var duglegur að ýta.

Mér leist ekkert á uppleiðina úr Bláfjallakvísl:
Svo fóru allir hinir yfir:
Það var enginn maður með mönnum nema vera í svartri flíspeysu og með sólgleraugu. Ákvarðanatakan var einhvernvegin þannig að miðsonur Einars sagði mér sem sagði Snorra sem sagði Hemma að við skyldum fara að leggja af stað.Leiðin heim gekk samt ágætlega.

Þetta var ótrúlega skemmtileg helgi og fín svona rétt fyrir brottför til UK.

þriðjudagur, september 18, 2007

Strútur 2007

Ég fór í jeppaferð með (bráðum gömlu) vinnunni um helgina og tók nokkrar myndir spes fyrir aulabarnið.

Við lögðum af stað seinnipart föstudags. Um 30 manns á 9 jeppum. Ókum sem leið lá á Hvolsvöll. Þaðan að Emstrum og yfir Mælifellssand að Strúti,skála ferðafélagsins norðan Mælifells. Á leiðinni var slydda eins og vera ber í slyddujeppaferð og skyggni lítið sem ekkert.

Á leiðinni sáum við gegnum hríðina senda fyrir fasaviksgervitungl, þeir voru þríhyrningslaga.

Á laugardagsmorgun var fólk vaknað heldur snemma fyrir minn þunna smekk og við vorum lögð af stað á rúntinn hálf 11. Það var hvasst og snjóaði og skyggni var lítið.

Mér leist ekkert svakalega vel á að fara yfir Kaldaklofskvísl:

Við vorum um klukkutíma á leiðinni að Hvanngili. Veðrið var svo slæmt að þar var ákveðið að snúa við og keyra til baka í skálann og reyna að festa sig á leiðinni eins og Hemmi orðaði það. Einn bíll festist í/við Brennivínskvísl. Strákunum fannst greinilega mjög gaman að draga hann upp:

Við vorum komin í skálann upp úr 1 (eftir hádegi) og þá lögðu sig flestir. Ég svaf allavega í 3 tíma og fékk svo bjór á mat á meðan þeir orkumiklu fóru í göngutúra í snjónum. Þegar kvöldaði var snjónum mokað af grillinu og Einar grillaði fullt af kjöti. Um kvöldið var fullt af áfengi drukkið og spilað og sungið.

Á sunnudagsmorguninn var glampandi sól og enginn vindur. Þá sá ég loksins hvernig var umhorfs í kringum skálann. Hér er fjallið Strútur og kamarinn (hafði þó fundið kamarinn strax á föstudeginum, hjúkk). Um hádegisbil lögðum við af stað til byggða. Stóri bíllinn, númer 1 byrjaði á því að festa sig í krapa og leðju þegar hann var að reyna að finna leið yfir fyrstu ána við Strút. Sennilega mun Númer 1 bæta merkingunni Strútur 07 á bílinn við hliðina á Greenland 99 og Antartica 97/98 merkingunum:Hvað gerðist? Var bílnum bjargað? Það kemur í ljós í næstu færslu (því blogger vill ekki hafa þessa lengri).

föstudagur, september 14, 2007

Mig minnir að einhverjum á verkfræðistofunni hafi þótt þetta fyndið.

Var að taka til á vinnutölvunni og rakst á þetta:


Frík

Mér fannst ganga nokkuð vel þegar ég var búin með 28 atriði af þeim 32 sem voru á minnislistanum mínu. Þá ákvað ég að uppfæra listann. Núna er ég búin með 31 af 49 atriðum.

Held að skipulagsfríkið í mér hafi sloppið út...

sunnudagur, september 09, 2007

Styttist

Núna eru bara tvær vikur þangað til ég fer til London. Það er voða stutt síðan það voru 17 vikur, eða um 15 vikur.

Ég er svaka spennt fyrir að setjast aftur á skólabekk. Kannski af því að ég er ekki sest ennþá. Ég er samt sátt við námshléið, það var frábært að vinna í þetta rúma ár. Ég er ekki frá því að ég hafi lært meira á því heldur en á þremur árum í HÍ, og ekki lærði ég lítið þar.

Vinnuárið mitt á Almennu verkfræðistofunni byrjaði í júní 2006 og endar eftir 2 vikur. Fyrsta hálfa árið, frá júní til 1. desember kalla ég sumarið langa. Það er vegna þess að eftir útskrift úr HÍ sem var einmitt í lok júní 2006 ákvað ég að slappa af og fresta öllum ákvarðanatökum um framtíðina, framhaldsnám o.s.frv. fram á haust og bara hafa það gott (lesist djamma). Á 22. helgi í röð ákvað ég að þetta væri orðið gott í bili og rauf keðjuna. Ákvarðanirnar létu samt eitthvað bíða eftir sér.

Á þessu tímabili sem ég hef unnið á AV hef ég farið 5 sinnum til útlanda, ef ég tel útskriftarferðina með. Til San Francisco, L.A. Las Vegas og Hawaii í útskriftarferðinni í maí-júní 2006, helgarferð til London í október, helgarferð til New York í desember, árshátíðarferð með AV til Rómar í mars, sumarfrí til Danmerkur í júlí. Fyndið hvernig þetta raðast, í heilt ár á undan fór ég ekki neitt til útlanda.

Í vinnunni á föstudaginn spurði yfirmaður minn mig í gríni (já veit magnað, í gríni) hvort ég væri ekki fegin að losna úr vinnunni. Ég sem hafði verið að slá um mig með hnyttnum tilsvörum varð alveg kjaftstopp og sagði bara eitthvað eh öh ég veit það ekki. Hann nær mér alltaf kallinn...

Þetta er búið að vera stormasamt ár...

mánudagur, september 03, 2007

Æ æ æ

Ég fékk póst frá kerfisstjórn HÍ þar sem mér var tilkynnt að loka ætti HÍ-póstinum mínum og heimasvæðinu eftir nokkra daga.

Spurning hvort maður ætti að kafa í frumskóg mismerkilegra gagna og pikka út þau merkilegustu eða láta bara allt draslið flakka.

HÍ-netfangið nota ég alltaf við skráningu á netinu. Notaði. Held mig sé að reka í átt að landi í ólgusjó internetsins.

sunnudagur, september 02, 2007

Framfarir

Þessa dagana þarf ég bara að vera í teygjusokkum á daginn, þarf ekki að sofa í þeim líka. Það er ekkert smá mikill munur. Er búin að finna mikinn dagamun á mér alla dagana eftir aðgerðina. Núna finn ég eiginlega ekkert til lengur og hi my name is Thura, it's been seventeen hours since my last pain killer. Vúhú!

Þegar ég er orðin þetta frísk er ekki laust við að heimaveran sé farin að verða fremur leiðigjörn. Dumdum dummmm

föstudagur, ágúst 31, 2007

Klipp

Ég er búin að vera að fara í gegnum allstóran bunka af gömlum úrklippum í dag (nota tímann í veikindafríinu). Í þessari yfirferð skiptist bunkinn í þrjá bunka; geyma, henda og skoða betur. Skoða betur bunkinn er dáldið skondinn, hann samanstendur að mestu af blöðum sem ég man ekki af hverju ég geymdi til að byrja með. Til dæmis er mér ómögulegt að muna hvers vegna ég á Lesbók Morgunblaðsins síðan 3. febrúar 2001. Reyndar er búið að rífa eina blaðsíðu úr, það hlýtur að hafa verið merkilega blaðsíðan.

Vona að mest lendi í henda bunkanum, já og svo þarf ég að kíkja betur á þessar úrklippur.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Ennþá heima

Gærdagurinn fór mestmegnis í að sitja með lappir upp í loft og teikna í paint. Seinni partinn tók ég teygjubindið af löppunum, alveg eins og ég mátti gera sólarhring eftir aðgerð. Ég er samt ennþá í teygjusokkum, og ég verð að vera í þeim í nokkra daga í viðbót. Já og svo sá ég pöddu.

Í dag er ég búin að vera að reyna að skilja facebook. Það gengur ekki vel. Ég hreinlega skil ekki facebook. Hvað gerir maður á facebook ! Þetta er allavega rosa tímafrekt allt saman.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Heima í dag

Lappirnar á mér eru vafðar inn í teygjubindi frá miðjum lærum og fram á ristar og eru frekar aumar eftir æðakrukkið í gær. Það eina sem ég get gert í dag er að sitja og liggja til skiptis í hinum ýmsu þægilegu stellingum. Röðin er: rúmið, eldhússtóll, sófinn, hægindastóllinn, annar sófi í stofunni, borðstofustóll og svo byrja aftur upp á nýtt. Inn á milli fæ ég mér vatn og verkjalyf. Það er ekki þægilegt að standa upp, labba eða beygja lappirnar, reyni því að gera sem minnst af því.

Hef það semsagt bara bærilegt.

Hér er útsýni mitt úr hægindastólnum í stofunni (eða sko hluti af því, ég sé meira af loftinu og til hliðanna líka):

mánudagur, ágúst 27, 2007

Viðgerðin

Í morgun hitti ég æðislega lækninn. Ég veit samt ekki hversu æðislegur hann er því ég var sofandi mest allan tíman sem hann var hjá mér, en hlýtur æðaskurðlæknir ekki að vera æðislegur. Það bara felst í starfsheitinu.

Ég tók leigubíl í Læknahúsið. Það er eitthvað skrýtið við það að taka leigubíl að deginum til á virkum degi. Leigubílsstjórinn var að hlusta á rás 2, þar var Rehab með Amy Winehouse spilað. Fannst það pínu viðeigandi.

Þegar ég var komin í spítalaslopp í Læknahúsinu hitti ég æðislega æðaskurðlækninn. Hann krotaði fullt á biluðu æðarnar mínar, sem hann ætlaði að laga, með tússpenna. Svo hitti ég svæfingarlækninn, hann geymdi dót ofan á mér eins og ég væri bakki. Mér fannst það heldur skondið og hlustaði bara á bítlalagið sem var í útvarpinu.

Tveimur og hálfum tíma síðar vaknaði ég af sjálfsdáðum, alveg hrikalega svöng og þyrst, með innbundnar lappir. Sem betur fer var ég sótt. Hefði verið heldur völt í leigubíl.

Núna er ég semsagt, komin úr viðgerð.

Æðislegur læknir

Á morgun (í dag) hitti ég æðislegan lækni. Hann er samt ekki draumalæknirinn.

Draaaaaauuuuuuumalæknirinn......

föstudagur, ágúst 24, 2007

10 atriði sem benda til þess að bíllinn þinn sé OF gamall:

1.Þú notar báðar hendur til að setja í bakkgír
2. Þegar miðstöðin er komin í gang ertu vanalega komin(n) á áfangastað
3. Þegar fólk biður um far hjá þér segir það „sendu nú gullvagninn að sækja mig...!”
4. Þegar þú svínar á fólk er hrópað á þig „Hei afi / amma !”
5. Stýrið er svo þungt þegar bíllinn er í 1. eða 2. gír að þú forðast götur sem hafa lægri hámarkshraða heldur en 50 km / klst
6. Það eru göt í gólfinu og þú biður farþega sem sitja í afturí stundum um að hlaupa með
7. Þú nýtir þyngdaraflið til jafns við pedala í akstri
8. Þú mundir kyrkja David Bowie ef þú hittir hann því kassetta með honum er búin að vera föst í kassettutækinu í bílnum í 8 ár
9. Þú mundir kyssa David Bowie ef þú hittir hann því kassettan er búin að vera biluð síðustu 5 árin
10. Númerið er hvítir stafir á svörtum grunni og byrjar á Ø

Vinna

Í vikunni sagði vinnuveitandi minn við mig:

Ef þú mætir ekki á föstudaginn, ekki mæta á mánudaginn!!!

Þá sagði ég:

Vúhú fjögra daga helgi !

Og hélt uppi öllum fjórum fingrum annarrar handar.

Ég þorði samt ekki öðru en að mæta í dag, föstudag.

Eða gerðist þetta ekki í alvörunni, sá ég þetta kannski bara í Simpson þætti?

Rosalega er skrýtið þegar skilin milli veruleika og afþreyingarefnis verða óskýr.

Algjör Astrópía.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

„ ”

Ég ætla að „reyna” „læra” „meiri” „verkfræði”.

Vanalega er ég á þeirri skoðun að maður á ekki að útskýra brandara. Ég ræð bara ekki við mig í þessu tilfelli. Þessa setningu notaði ég í samtali um daginn án gæsalappanna. Um leið og ég heyrði sjálfa mig segja þetta þá fannst mér línan ótrúlega fyndin. Til að hún verði skemmtileg verður maður samt að segja hana með gæsalöppum. (Er hægt að segja eitthvað með gæsalöppum? Skilst að maður geti sagst elska einhvern með osti, jafnvel froskalöppum, en gæsalöppum...) Útskýri nú hvers vegna orðin innan gæsalappa eru fyndin innan gæsalappa.

reyna: sýnir vilja til að gera eitthvað
læra: nálgast upplýsingar um eitthvað sem maður kann ekki, andstæðan við t.d. hanga
meiri: gefur til kynna að ég hafi lært verkfræði áður, ekki fyndið nema læra sé líka innan gæsalappa
verkfræði: fag sem snýst um að geta leyst fullt af vandamálum á sem stystum tíma á sem ódýrastan hátt... þegjandi

Þess vegna er fyndið að ég sé að fara að „reyna” „læra” „meiri” „verkfræði”.

Capiche? Einhver? [vandræðaleg þögn] Nei hélt ekki. Mér finnst þetta samt góð lína.

puh yeah "groovy"