mánudagur, ágúst 27, 2007

Viðgerðin

Í morgun hitti ég æðislega lækninn. Ég veit samt ekki hversu æðislegur hann er því ég var sofandi mest allan tíman sem hann var hjá mér, en hlýtur æðaskurðlæknir ekki að vera æðislegur. Það bara felst í starfsheitinu.

Ég tók leigubíl í Læknahúsið. Það er eitthvað skrýtið við það að taka leigubíl að deginum til á virkum degi. Leigubílsstjórinn var að hlusta á rás 2, þar var Rehab með Amy Winehouse spilað. Fannst það pínu viðeigandi.

Þegar ég var komin í spítalaslopp í Læknahúsinu hitti ég æðislega æðaskurðlækninn. Hann krotaði fullt á biluðu æðarnar mínar, sem hann ætlaði að laga, með tússpenna. Svo hitti ég svæfingarlækninn, hann geymdi dót ofan á mér eins og ég væri bakki. Mér fannst það heldur skondið og hlustaði bara á bítlalagið sem var í útvarpinu.

Tveimur og hálfum tíma síðar vaknaði ég af sjálfsdáðum, alveg hrikalega svöng og þyrst, með innbundnar lappir. Sem betur fer var ég sótt. Hefði verið heldur völt í leigubíl.

Núna er ég semsagt, komin úr viðgerð.

Engin ummæli: