föstudagur, febrúar 27, 2004

"Þura eigum við ekki að gera eitthvað skemmtilegt saman í dag, svo þú getir lært í kvöld?" sagði minn yndislegi kærasti við mig í morgun. Ég ætlaði að segja "Héðinn það er föstudagur, ég ætla ekki að læra í kvöld!" en síðan fattaði ég að ég er að fara í tilraun í fyrramálið og get voða lítið gert í kvöld þannig að ég sagði við hann
"Jú elskan, ég skal læra í kvöld. Langar þig að spila Dungeons and dragons við nördavini þína?"
"Já!!!!" sagði hann voða happý og kinkaði mikið kolli.
Þannig fór það, við fórum í dag og fengum okkur að borða og kíktum í bæinn og svona. Héðinn talaði hálftíma af mikilli innlifun um einhvern karakter sem hann var að búa til fyrir ævintýrið, það er ótrúlegt hvað ég er orðin góð í að brosa og kinka kolli án þess að vera virkilega að hlusta. Hann skipti meira að segja um bol og fór á nördasamkomuna sína í nýja Thundercats bolnum sínum, ánægður eins og lítill strákur sem hefur fengið nýjan he-man kall (ísl. hann-maður maður). Núna er ég bara ein heima á netinu... en bara sátt.

Tók próf í burðarþolsfræði í morgun. Ég var voða ánægð í prófinu og teiknaði eitt línurit sem var eins og kameldýr og eitt sem líktist broddgelti, síðan fékk ég í hendurnar lausnarblað og línuritin þar voru gíraffi og slanga. Ég var ekki sátt, ég er hrædd um að falla, svörin mín voru ekkert lík svörum kennarans.

Engin ummæli: