þriðjudagur, desember 26, 2006

Hver er menningar-ofvitinn ?

Um daginn fór ég í heimsókn sem ég ætla að reyna að gera sem best skil hér fyrir neðan, best er að fá Arnar Jónsson til að lesa textann:

Þegar ég hringdi dyrabjöllunni kom húsráðandi strax til dyra, bandaði mér inn fyrir og baðst afsökunar á því að kaffið væri ekki til. Ég steig inn fyrir og spjallaði við húsráðanda í eldhúsinu á meðan hann hellti upp á kaffi, ég var ennþá í kápunni og allt. Fljótlega ákvað ég að fara úr kápunni og hengja hana upp, þá tók ég eftir því að eintak af Umskiptunum eftir Kafka lá á símaborðinu. Ég tók bókina upp, las á kápuna og fletti blaðsíðunum.

Húsráðandi bauð mér að setjast í betri stofuna. Hátíðlegur blær var yfir stofunni, grenilykt af jólatrénu og bunki af opnuðum jólakortum á einu borðinu. Mér fannst harla óviðeigandi að vera í verkfræðiflíspeysu í þessu umhverfi svo ég fór úr peysunni og fékk mér sæti. Fljótlega fór húsráðandi að bera kræsingar á borð fyrir mig, tvær tegundir af heimabökuðum kökum, kaffi og flóaða plebba-mjólk.

Síðan var kveikt á kerti og Nina Simone sett á fóninn og stillt passlega hátt, þannig að hún yfirgnæfði ekki há-vitrænar samræður um Kafka, Guðberg og ýsuna hans Guðbergs.

[þögn]

Hver er menningar-ofvitinn ?

laugardagur, desember 23, 2006

Jóla jóla...

Fyrir þá sem þótti síðasta færsla of "kriptísk" þá var hún meira bara djók.

Ég er dáldið búin að vera spá í hvað það er sem mér finnst jólalegt, og ómissandi á jólunum. Verð eiginlega að skrifa það á alnetið...

Ég hef lengi haldið því fram að uppáhaldsatriðið mitt í jólaundirbúningnum sé að kaupa Jólaheróp Hjálpræðishersins fyrir framan Hagkaup á neðri hæðinni í Kringlunni. Við þessa fullyrðingu stend ég enn. Best er ef að gamli maðurinn með hvíta hárið stendur vaktina, manni finnst hann vera að meina það þegar hann segir guð blessi þig. Í ár var ég það heppin að lenda á honum. Annars er fjárfestingin í Herópinu eini undirbúningurinn sem ég stend í fyrir jólin.

Ef maður vill upplifa friðsama og róandi stund um jólin þá er ég búin að uppgötva bestu leiðina til þess fyrir löngu. Gönguferð í Fossvogskirkjugarði milli jóla og nýjárs í vetrarmyrkrinu er alveg hreint mögnuð. Ég mundi fara í fyrsta lagi annan í jólum því á aðfangadag og jóladag er svo mikil umferð fólks um garðinn með kerti og skreytingar á leiði. En þegar fólkinu fækkar er notalegt að rölta um garðinn og skoða legsteina og sjá öll kertin og lýsandi krossana. Ég mæli samt ekki með því að fara of seint um kvöld. Ef maður mann langar til að heimsækja leiði hjá einhverjum sérstökum þá er hægt að finna staðsetningu leiða hér. En þó maður þekki engan þá er samt gaman að koma í kirkjugarðinn.

Jæja, þegar ég les yfir það sem ég var að skrifa þá finnst mér ég vera orðin gömul og væmin, mér finnst bara jólahefðirnar mínar svo ótrúlega góðar að ég get ekki setið á mér. Já og jólagjöfin í ár er víst geit...

Gleðilega hátíð

fimmtudagur, desember 21, 2006

Klöppum fyrir stelpunni sem hringir í strákana !


Familiar view of Þura
Originally uploaded by Þura.
Eða einhverju öðru meira viðeigandi.

Velji nú hver fyrir sig, hverju hann klappar fyrir.

Yfir og út

þriðjudagur, desember 19, 2006

Vandræðalegt púnktur is skiluru...

Um daginn kom í vinnuna Jón Gnarr grínisti. Hann kom í hádegishléinu til að lesa upp úr nýju bókinni sinni, Indjáninn. Ég missti mig ekkert svo mikið þegar ég frétti að hann væri að koma, ég meina hei það er ekki eins og Þorsteinn Guðmundsson (líka grínari) hafi verið á leiðinni. Ég ákvað samt sem áður að prenta út blað með mynd af Jóni með hjálm og fá hann til að árita það (ef ég þyrði).

Nú leið og beið, loksins kom hádegið. Jón Gnarr mætti, sjálfur og í eigin persónu, og las fyrir okkur. Síðan þáði hann boð um að fá sér hádegismat. Ég sniglaðist um í nokkrar mínútur áður en ég lét til skarar skríða og gekk upp að borðinu sem hann sat við (umkringdur kvenfólki). Ég baðst afsökunar á trufluninni en spurði svo hvort hann vildi vera svo góður að kvitta fyrir komu sína á blað sem hengja ætti upp á "wall-of-fame". Hann, greinilega vanur svona áreiti, kippti sér ekkert upp við truflunina.

Eftir að áritunin var fengin hafði ég ekki vit á að hundskast í burtu, heldur staldraði ég við og lýsti fyrir honum barnslegri aðdáun minni á Þorsteini Guðmundssyni og bað hann sérstaklega um að benda honum á að líta við á AV ef hann rækist á hann. Sallarólegur spurði Jón mig hvort ég hefði haft samband við hann sjálfan, ég játti því og sagðist ekki hafa fengið svar. Þá afsakaði hann Þorstein með því að hann væri mjög upptekinn maður þessa stundina.

Allt í einu áttaði ég mig á því að ég hefði strax byrjað að tala um ÞG og ekkert minnst á Jóns bók, þá flýtti ég mér að segja "... og já, fín þarna... bókin þín." Því næst hraðaði ég mér í burtu.

Seinna um daginn arkaði formaður starfsmannafélagsins inn í Partýherbergið þungur á brún og bað mig vinsamlegast um að áreita ekki í framtíðinni frægt fólk sem kæmi á verkfræðistofuna. Það væri slæmt fyrir orðsporið (?).

Núna er ég með blað upp á vegg með mynd af Jóni Gnarr með (næstum) bleikan hjálm og persónulegri eiginhandaráritun mannsins. (Við hliðina á myndum af ákveðinni mynd í fjölriti)

Þetta gerðist á mánudaginn, og er ennþá í efsta sæti yfir "tryllt vikunnar", það væri samt heldur slöpp vika sem endaði með þessa sögu sem sigurvegara...

fimmtudagur, desember 14, 2006

Bleikur bleikari bleikastur...

Tími á smá ekki-bull.

Í síðasta mánuði var haldinn þemadagur í vinnunni minni (sem ég og hin stelpan ráðskuðumst með að vild). Þemað var bleikur litur. Allir starfsmenn voru hvattir til að mæta í bleikum fötum eða vera með bleika aukahluti þennan dag (föstudaginn 3. nóv). Þátttakan fór fram úr björtustu vonum, af tæplega 70 starfsmönnum voru það bara ca. 5 sem sýndu ekki lit (þ.e. bleikan). Á myndinni eru t.d. ég og Góli í okkar "gerfum". Nokkrar fleiri myndir má sjá hér.


Þar sem skriðþunginn af bleiku bylgjunni var gríðarlegur var ákveðið að nýta tækifærið til að styðja gott málefni. Fyrir valinu varð að sjálfsögðu Bleika slaufan, árveknisátak Krabbameinsfélags Íslands um brjóstakrabbamein.

Hlekkjaðar eru fréttir Krabbameinsfélagsins og AV um allt bleikt.

Moral of the story... það er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt, sem leiðir af sér ýmislegt gott.

sunnudagur, desember 10, 2006

Vinsamlegast látið vita um staðgengil Tómasar ef einhver er!

Þannig er mál með vexti að Tómas óskar ekki lengur eftir að vera á listanum.

sunnudagur, desember 03, 2006

Börn og jarðfræði

Ég held í alvöru að ég sé gengin í barndóm, orðin að barni aftur. Ekkert sem ég geri er í röklegu samhengi við neitt annað. Jarðfræðingarnir í vinnunni eru alltaf að reyna að fá mig til að útskýra fyrir sér hvað “hipp og kúl” er. Þeir eru jarðfræðingar, er yfirhöfuð hægt að útskýra fyrir þeim hugtakið? Þarna kemur annar punktur, get ég komið í orð hvað “hipp og kúl” sé. Mér líður alveg eins og Vinonu Rider í Reality Bites þegar hún er beðin um að skilgreina kaldhæðni þegar hún er að sækja um vinnu. Hún bara svitnar og stamar og segist þekkja kaldhæðni þegar hún sjái hana. Eina sem aðgreinir mig frá henni er að ég hef ekki ógeðslega sæta strákinn sem getur þulið upp skilgreiningu á hugtakinu án þess að hika.

Ég spurði spurningar í hádeginu í vinnunni um daginn sem féll í grýttan jarðveg. Skil samt ekki ennþá hvernig spurningar geta fallið í grýttan jarðveg. Umræðuefnið var bók um tíma, en ég skildi samt ekki alveg um hvað bókin var. Það er greinilega margt sem ég skil ekki (hence gengin í barndóm). Allavega, ég spurði jarðfræðing hvort tími væri ekki afstæður fyrir jarðfræðinga. Ég var auðvitað að meina af því að hlutirnir gerast hægt jarðsögulega séð miðað við margt annað, augljóslega. Vandræðalega þögn varð við borðið. Síðan heyrðust hóst og ræskingar. Fljótlega voru hinir farnir að tala um vinnuna. (Þeir sem vinna á AV geta giskað á viðmælendahópinn)

vds