þriðjudagur, janúar 30, 2007

Easy come / easy go

Ég ætlaði reyndar að bíða með þessa færslu þangað til 2. hluti myndi gerast í alvörunni, en það er harla ólíklegt þ.a. ég læt bara vaða núna. Athugið að 1. hluti er eins dagsannur og 2. hluti er skáldaður.

1. hluti (sá eini sanni)
Það var kvöld eitt í bænum, reyndar var komið fram yfir óttu. Ég stóð á spjalli á einu af öldurhúsum bæjarins með bjór í hönd sem ég dreypti á reglulega. Skyndilega fann ég að einhver pikkaði í öxlina á mér. Ég stoppaði í miðri setningu, lét ölkrúsina síga og sneri mér við. Þar stóð strákur, sirka á mínum aldri, sem ég kannaðist ekki neitt við. Strákurinn, sem virtist vera frekar stressaður, kynnti sig og tók í höndina á mér. Ég náði rétt að svara með "eh, sæll" áður en hann hélt áfram að tala, aðeins of hratt fannst mér. Hann bunaði út úr sér einhverju um að honum fyndist ég áhugaverð manneskja og hann vildi kynnast mér betur. Ég náði einu sinni ekki að troða inn "en þú þekkir mig ekki neitt" athugasemdinni, svo mikið var honum í mun að koma fyrirfram æfðu ræðunni frá sér.

Eftir að hann hafði lokið máli sínu spurði hann hvað ég héti. Ég svaraði sannleikanum samkvæmt "eh, ég heiti Þura." Þá varð strákurinn skrítinn í framan, eins og ég hefði sagst heita Þorgrímur, tók eitt skref aftur á bak og ranghvolfdi augunum. Ég horfði á hann skilningsvana. Síðan dæsti hann þungan og sagði "sjitt maður, mamma mín heitir Þura, þetta er of skrítið!" Þar með var hann rokinn í burtu eins snögglega og hann hafði birst.

Ég yppti öxlum, tók sopa af bjórnum og sneri mér aftur að viðmælanda mínum. Ég vil meina að ég hafi á því augnabliki hugsað "easy come / easy go" en ætli það hafi ekki verið meira "þetta tók fljótt af."

2. hluti (skáldað framhald af 1. hluta)
Nokkrum dögum síðar var ég ræktinni. Þegar ég var búin að hita vel upp og var á leiðinni í tækjasalinn vatt sig á tal við mig strákur. Hann byrjaði að spjalla, eins og gengur, en þegar hann komst að því hvað ég héti kom vandræðaleg þögn. Þá stóðst ég ekki mátið að spyrja hann “heitir mamma þín nokkuð Þura?”

Kannski ég noti þessa spurningu bara næst þegar ég þarf að rjúfa vandræðalega þögn.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Njósnari 124

Ég var að spá, James Bond er njósnari hennar hátignar númer 007 og hann eyðileggur áætlanir hryðjuverkamanna, alþjóðlegra glæpahringa og annarra stórtækra vondra kalla. Ef það er til njósnari 124, hvað gerir hann?

Ætli njósnari 124 komi upp um skipulagða stöðumæla-svindl-starfsemi? Eða kýlir hann kannski náunga sem stela Stöð 2 og Sýn?

Hvert skildi njósnaranafn 124 vera? 007 er James Bond, og ég ímynda mér að svölu nöfnin séu öll notuð af mikilvægari njósnurum. Kannski er njósnaranafn 124 Kalvin Ustenits. Og þegar Kalvin Ustenits er að fá upplýsingar um nýtt verkefni hjá yfirmanni sínum "Y" þá er það svipað og þegar Bond talar við "M". "Y" gæti til dæmis sagt "Well, Mr. Ustenits, good luck with those tele-marketing-scams!" og þá gæti 124 svarað "why certanly "Y""

124 fengi líklega ekki eins flott dót og 007, kannski gamla Hondu.

Hvernig liti njósnari 124 út? Er hann hokinn, sköllóttur maður sem vantar eina framtönn? Eða er hann hún? Svo margir möguleikar.

... þetta er ekki alveg nógu öflug pæling, verð greinilega að endurhugsa njósnara 124 alveg upp á nýtt.

föstudagur, janúar 19, 2007

Fjögurhundruðasta bloggið

Ég mætti á mannfagnað um daginn í heimahúsi. Þar var saman komið fólk sem ég hitti ekki oft. Fyrsta manneskjan sem ég sá þegar ég kom inn var strákur sem ég kannaðist við. Ég hafði hitt hann einu sinni áður, það var síðasta sumar. Mér var starsýnt á þennan strák, það var eitthvað heillandi við hann. Hann virtist líka hafa tekið eftir mér. Nú leið kvöldið og ég stóð mig að því að fylgjast meira með þessum tiltekna strák heldur en öðrum á svæðinu. Hann sýndi mér líka meiri athygli en ég hafði búist við. Ég var alveg kolfallin fyrir honum, ég mundi líka að á síðasta fundi okkar hafði mér fundist hann mjög sjarmerandi. Ég varð hreinlega að passa mig að týnast ekki í dökkbrúnu augunum hans. Svo komu upp þær aðstæður að við vorum tvö saman í afskekktum hluta hússins. Við horfðum út um gluggann og horfðum á hvort annað. Það fóru ekki mörg orð okkar á milli. Hann snerti hálsinn á mér, fiktaði í hálsmeninu mínu og mér fannst alveg eðlilegt að hann væri svona nálægt.

Svo fór hann að kippa í eyrnalokkana mína, fast. Það var sárt. Ég hugsaði með mér að næst þegar ég ætlaði að halda á 9 mánaða frænda mínum þá skildi ég sleppa eyrnalokkunum.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Tapað / fundið

Ég virðist hafa tapað bílnum mínum, hvítum BMW, árgerð 1988. Sást síðast áður en það byrjaði að snjóa í stæði fyrir framan heimili mitt. Nýlega mynd af bílastæðinu má sjá hér:
Þeir sem geta gefið upplýsingar um staðsetningu bílsins eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband í innanhússsíma 159 á AV.

laugardagur, janúar 13, 2007

Í tilefni dagsins


Frelsisstyttan séð frá Ellis eyju
Originally uploaded by Þura.

Hvað læknar hósta?

Greinilega ekki te, vítamín, sólhattur, mikil hvíld, Jón Arason og sýklalyf.

Bjór?

Og hvernig tengist þessi texti myndinni? Bara alls ekki neitt, mér finnst myndin bara fín.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

abs

Ég mætti í vinnuna í dag eftir næstum vikulanga veikindahrinu. Reyndar mætti ég bara hálfan dag, svona til að prófa. Allir sem ég talaði við sögðu við mig að ég væri þreytuleg / glær / veikindaleg / liti illa út, nema auðvitað 139 og 159, þeir kunna sig (eða kunnu ekki við að segja neitt). Kannski ég hafi farið of snemma aftur í vinnuna, eða kannski prófa ég að tala bara ekki við neinn á morgun.

Það jákvæða er að ég held að ég sé komin með massa-magavöðva eftir allan hóstann sem ég er búin að framkvæma.

sunnudagur, janúar 07, 2007

Svona er það víst

Ég hef gaman af því að lýsa aðstæðum sem ég lendi í / verð vitni að. Hérna koma tvennar kringumstæður... ólíkar eða ekki ólíkar, ég veit það ekki, aðallega bara rosalega mikill texti.

Í eldhúsinu heima:

Ég labbaði inn í eldhús í kvöld um kvöldmatarleytið. Þar sat faðir minn við matarborðið að krota eitthvað á umslag, eins og honum einum er lagið. Hinu megin við borðið sat móðir mín að fletta skólabók ásamt því sem hún fylgdist með ofninum. Frá ofninum barst matarlykt. Í ofninum var kjöt sem ég kann ekki að segja nánar frá og franskar kartöflur sem ég kann ekki við að segja nánar frá. Á hellunum fyrir ofan ofninn var ekkert; enginn pottur, engin panna, ekki neitt. Ég gekk að vaskinum, lét vatn renna í glas og spurði hvenær maturinn yrði til. Mamma svaraði að það væru 10 mínútur í það. Pabbi leit upp og sagði “ha, sagðirðu 10 mínútur?” Mamma játti því.

Í smástund sagði enginn neitt. Ég tæmdi vatnsglasið, mamma fletti bókinni sinni og pabbi hélt áfram að krota á umslagið. Síðan leit pabbi upp, leit á eldavélina og sagði:

“Hulda, ertu með mat í ofninum?“

Í sjónlínu hans voru móðir mín og eldavélin, og augljóst að eini parturinn sem gæti haft mat að geyma var ofninn. Ég missti mig og æddi að honum “Pabbi, auðvitað er matur í ofninum! Þú veist að hún er að elda og þú SÉRÐ að það eru engin matarílát á hellunum á eldavélinni! Hvernig annars eldar hún mat!? Hugsar hún til matsins í ískápnum!?!” Þau hlógu bæði létt að mér og annað hvort þeirra sagði rólega “Þura mín, róaðu þig niður, við erum bara svona.”

Í vinnunni:

Eftirfarandi aðstæður koma mjög oft upp þ.a. ég ætla að reyna að lýsa hefðbundinni útgáfu.

Ég og Beggi sitjum við tölvurnar okkar með tónlist í eyrunum og erum að vinna þegar ég fæ skyndilega þörf fyrir að tjá mig. Ég slekk á tónlistinni, ýti stólnum frá tölvunni, sný mér að Begga og byrja að tala “hei Beggi, veistu hvað mér finnst gjörsamlega óþolandi?...bla bla bla” Síðan tala ég í smástund af miklum tilfinningahita um eitthvað ekkert svo merkilegt, til dæmis sætauppröðun í kaffistofunni, lengd auglýsingahléa hjá Skjá einum eða hugmynd að einhverju til að framkvæma seinna um daginn. Beggi sem er alltaf með stór heyrnatól á sér þegar hann er að vinna situr ennþá við tölvuskjáinn með heyrnatólin og er á fullu að vinna.

Þegar ég uppgötva að hann heyrir ekki neitt af því sem ég er að segja kalla ég til hans “hei Beggi, þú ert ekki að hlusta á mig!” Þá tekur hann heyrnartólið frá öðru eyranu, lítur aðeins upp og umlar eitthvað “hummm ha, varstu að segja eitthvað...” Stóllinn minn er kominn langt frá tölvunni minni og ég sný beint að honum. Ég hækka róminn “Já, ég var að tala um hvað ég þoli ekki eitthvað eitthvað bla bla bla” og endurtek í stuttu máli það sem ég hafði sagt áður. Samtímis stend ég upp, labba að hans bás og baða út höndunum eins og óð manneskja. Þegar ég stend yfir honum, greinilega í uppnámi þá kemst hann ekki hjá því að taka niður heyrnartólin, snúa sér frá tölvuskjánum og að mér og veita mér og mínu málefni smá athygli.

Þegar við erum búin að ræða málin í stutta stund, þar sem Bergur notar oft setningar eins og “tja svona er þetta bara” eða “og er eitthvað sem við getum gert í því!” eru samræðurnar oft truflaðar með innkomu þriðja aðila. Við þögnum bæði skyndilega og síðan segi ég “heyrðu, ég prófa þá að leita á K-drifinu... takk fyrir hjálpina” eða sambærilegt og sest í sætið mitt. Síðan held ég bara áfram að vinna.

Gallinn við svona inngrip er sá að ef að ég er ekki búin að tala nægju mína um viðkomandi málefni þá byrja ég að aftur trufla Begga fljótlega eftir að hann er kominn á fullt að vinna aftur.

laugardagur, janúar 06, 2007

Annálaður annáll

Ég settist niður um daginn með blað og penna við hönd. Ég ætlaði að punkta niður nokkur orð til að nota í smá texta um árið 2006. Eftir smá umhugsun var ég komin með hugmynd um hvernig best væri að tækla verkið. Ég skipti blaðinu í tvo dálka og skrifaði í vinstri dálkinn mánuðina

janúar
febrúar
mars
o.s.frv.

Síðan byrjaði ég að skrifa í hægri dálkinn eitt orð sem lýsti hverjum mánuði ársins 2006 í mínu lífi best. Þegar ég var komin að apríl áttaði ég mig á því að ég var í þann mund að skrifa sama orðið í fjórða sinn. Fjögurra stafa orð sem heyrist ósjaldan í sömu setningu og nafnið mitt:

BJÓR

þ.a. listinn var orðinn einhvernvegin svona

janúar - bjór
ferbrúar - bjór
mars - bjór
apríl - bj....

Ég hætti snarlega við að gera annál um árið 2006 og ákvað í staðin að muldra bara eitthvað óskiljanlegt um að árið 2006 hafi verið gott. Spurning um að 124 hugsi sinn gang (?)

Bless og takk fyrir allan fiskinn... meina dvd-éð.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

New York, New York

Í morgun kom ég heim frá New York borg þar sem ég var með settinu í nokkra daga (og aðliggjandi nætur). Það var tryllt. Mig var búið að langa mjög lengi til þess að fara og ég hafði fyrir fram miklar væntingar til borgarinnar, sem hún stóð undir.

Þetta var mín fyrsta (en svo sannarlega ekki síðasta) ferð til NY þ.a. mikill tími (mestur tíminn) fór í að skoða skyldu-túristastaðina (sem var algjörlega þess virði að bíða í röð í margar klukkustundir til að sjá).

Gaman þótti mér að:

  • Fara upp í Empire State Building og Rockefeller Center
  • Sigla að Liberty Island (þar sem styttan er) og Ellis Island og sjá skýjakljúfana á Manhattan úr fjarlægð
  • Sjá staðinn þar sem tvíburaturnarnir voru, þar er verið að byggja Freedom Tower núna
  • Rölta um Central Park, mér fannst reyndar gaman að labba um alls staðar því byggingarnar eru svo flottar
  • Fara á listasöfn, listunnandi foreldrum mínum fannst nauðsynlegt að fara á MoMA, Guggenheim og Whitney, síðan fórum við líka á Neue Galerie, safn sem sýnir eingöngu verk þýskra og austurrískra listamanna. Tryllt, öll fjögur söfnin, tryllt.

Lengra verður þetta ekki, í staðin ætla ég að mjatla í rólegheitunum nokkrum af þeim hundruðum mynda sem ég tók í NY á flickr síðuna mína.

Já og gleðilegt ár 2007 !