miðvikudagur, janúar 28, 2004

"Mind the gap", "This is a central line train to Ealing Broadway", "Pease mind the gap between the train and the platform", "This is Oxford Circus change here for the Victoria and Bakerloo lines." Þessar setningar heyrir maður ansi oft þegar maður ferðast með túbinu í London og ég er núna með á heilanum.

Það var æðislegt í London, 27 fermetra hótelherbergið var algjört æði, það var bara allt gaman. Ég og Héðinn flugum með Iceland express eftir hádegi á fimmtudaginn og ég fíla þetta flugfélag í botn, ekkert öryggisvídeó, engum ógeðslegum flugvélamat troðið ofaní mann, ekkert minna fótapláss heldur en hjá Icelandair, bara dámsamlegt. Fórum með lest á Liverpool Street Station og tókum túbið á hótelið. Túbstöðin okkar var Shepard´s Bush sem central línan stoppar á, sem þýðir að við þurftum aldrei að skipta um lest til að fara í bæinn, mæli með því. Það fyrsta sem við gerðum þegar við komum út úr lestinni var að votta kónginum virðingu, já við fórum á Burger King. Héðinn elskar hann, ég fann eiginlega bara plastbragð.

Við vöknuðum klukkan 7 á föstudagsmorgninum og það eru ekki ýkjur! Við byrjðum á að borða continental morgunverð sem samanstóð af croissöntum og ávöxtum, ágætt fyrstu 2 dagana en síðan crap. Þar á eftir nýttum við okkur líkamsræktarstöðina á hótelinu og fórum síðan út. Byrjðum á Harrod´s og versluðum vondan ís, fórum síðan að versla á Oxford Street. Héðinn missti sig alveg í H&M og labbaði út með stóran poka. Fórum frekar snemma heim til að gera okkur til fyrir Lion King showið sem við áttum miða á um kvöldið. Við fundum ítalskan veitingastað rétt hjá leikhúsinu og fengum soðið lambakjöt, soðnar kartöflur og heimalagaða sósu fyrir aðeins 10 pund á mann. Þetta var eins og það hefði verið eldað af mömmu minni. I leikhúsinu var geðveikt gaman (Héðni fannst ekkert spes), búningarnir voru samt eiginlega bestir, þeim tókst að gera dýrin mjög raunveruleg og flott. Tveir gaurar voru gíraffar, þeir voru á hand- og fótstultum og með gíraffaháls á hausnum og þeir voru alveg með gíraffamovin. Ed, fyndna hýenan, var alveg eins og í teiknimyndinni. Tímon og Púmba voru geðveikir. Það var bara allt svo flott og allir sungu svo vel.

Laugardagur: Fyrst kíktum við á Museum of Natural History bara til að geta sagst hafa farið á safn og það var ókeypis. Röltum Oxford í hina áttina miðað við gærdaginn og fengum okkur kaffi og köku á Starbucks sem olli mér miklum vonbrigðum, keyptum meiri föt. Dagurinn fór að mestu leyti í svoa dútl. Um kvöldið fengum við okkur burger á þeim góða stað Anyway sem er í verslunarmiðstöð rétt hjá hótelinu og þvílíkur burger, VÁ! Ég fékk mér venjulegan ostborgara með cheddar osti og kjötið var tæpir 2 sentimetrar á þykkt, pælið í því. Héðni, sem er mikill burgermaður og þekktur fyrir að geta klárað súper stóra burgera, honum tókst næstum ekki að klára sinn. Ég ætla pottþétt að fá mér svona aftur, þessi staður er í lítilli verslunarmiðstöð beint á móti þegar maður kemur út af Shepard´s Bush stöðinni og heitir hann Anyway eins og áður hefur komið fram. Við vorum þreytt en langaði samt að gera eitthvað þ.a. við fórum í bíó á the Last Samurai. Það kostaði reyndar aðeins meira heldur en á Íslandi en sætin voru miklu betri og salurinn miklu betri en gengur og gerist hér, maður sá vel þótt að það sæti stór maður fyrir framan mann.

Sunnudagurinn hófst á göngu um Hyde Park. Við sáum íkorna og Héðinn sagði að ég hefði tekið fleiri myndir að þeim heldur en ég tók af honum alla ferðina sem er ekki satt. Röltum enn og aftur um miðbæinn og kíktum í búðir, löbbuðum síðan yfir Tower Bridge, stemning í því. Við komumst meira að segja út af kortinu. Kvöldið var algjört letikvöld, við byrjuðum á því að sofna í 2 tíma þegar við komum heim. Þegar við vöknuðum var Spiderman í sjónvarpinu, við horfðum á hana og pöntuðum kvöldmat, fish and chips, með room service. Fiskurinn var frekar vondur og kókið dýrt en við gátum borðað uppí rúmi og horft á sjónvarpið á meðan og það var stemning í því, þannig að rauninni var fiskurinn góður.

Á mánudeginum, síðasta deginum tókum við daginn snemma pökkuðum og fórum út. Ég þvældist óvart inn í verslunina Pilot á Oxford Street og labbaði út með risa poka af fötum fyrir aðeins rúman 10 þúsund kall, ekki var það leiðinlegt. Röltum um SOHO hverfið og komumst í listamannafíling, fórum á Lecester Square og fengum okkur Ben&Jerry´s chocolat cookie fudge, namminamm. Römbuðum síðan inn í Kínahverfið, það var alveg magnað, hefðum viljað vera þar lengur en þurftum því miður að taka lest út á flugvöll. Við fórum inn i kínverska búð og það var eins og að labba inn í aðra heimsálfu, hreint út sagt magnað. Á flugvellinum keypti ég NIKE skó, það var gaman og síðan flugum við heim. Lentum rétt fyrir 11 um kvöldið. Ég var ekkert smá ósátt að þurfa fara heim, mig langaði bara að vera lengur. Ég elska London. En all good things must come to an end, núna verð ég að halda áfram að gera eðlisfræðidæmi *dæs*. London baby, the place to be...

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til Lég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ondon á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun, ég er að fara til London á morgun!!!!

Ég og Héðinn erum semsagt að fara í langþráða Londonferð á morgun, þar sem við ætlum að gista á hóteli í Notting Hill, í 27 fermetra herbergi mind you. Við ætlum á söngleikinn Lion King á föstudagskvöldið, í búðir á Oxfordstreet, vaxmyndasafnið, leita að Bítladóti, gá hvort strætóarnir, leigubílarnir, póstkassarnir og símaklefarnir hafi nokkuð breyst. Borða enskan morgunverð, fara á indverskan veitingastað en það segir mamma að sé algjört möst að gera í London. Svo langar mig líka á Downing stræti 12 (eða fluttu þau ekki örugglega þangað?), gá hvort það séu hippar á Piccadilly Sircus, athuga hvort "Mind the gap, mind the gap you silly boy!" sé maður á vakt eða teip, ég held ég bíði samt með að kanna hvernig maður síður froskalappir. Síðan kíkjum við örugglega á Stóra Benna, Beckingham höll, Tower of London, gellu í röndóttum bol, free ranged eggs (algjört möst), Pret á manger, í flautubúð ætla ég þó ekki í. Allt annað sem okkur dettur í hug ætlum við að gera.

Núna er ég að hamast við að gera 3 heimadæmi sem ég á að skila fyrir og eftir helgi, annars er ég ekki alveg byrjuð á þeim því ég sat frá 11 til 6 í dag með fleirum að gera eðlisfræðivinnubók sem er ekki búin og ég verð að klára í fyrramálið. Ég er ekki lengur kvefuð en ég notaði sem samsvarar einu tré í Amazon við að sníta mér í gær og hinn, samviskubitið minnkaði snögglega þegar Hákon benti mér á að þetta væri nú líklega bara nytjatré frá Svíþjóð. Jæja best að halda áfram.

Feitur London bloggur verður póstaður á þriðjudaginn, þangað til, ta ta!!

P.s. Elín, gangi þér vel að læra! Svanhvít, til hamingju með afmæli Toja Svanhvítusarsonar! :)

laugardagur, janúar 17, 2004

Ég skammaðist mín ekkert smá mikið í gær fyrir lélega námsframmistöðu mína, ég kóperaði heimadæmi í burðarþolsfræði hjá stelpu sem hafði fengið þau hjá annarri stelpu og þegar ég gerði það hafði ég einu sinni ekki lesið dæmin yfir hvað þá reynt að reikna þau, ekki byrjar það vel.

*Idolpartý í gær hjá Ólöfu Birnu, gaman að því.
*Festist tvisvar á leiðinni heim, ekki svo gaman að því.
*Vaknaði síðan kukkan 7 í morgun og þurfti að taka strætó í skólann til þess að gera eðlisfræðitilraun, en ég lenti hjá góða kennaranum sem gerir allt svo auðvelt og hatar ekki stelpur í eðlisfræði, gaman gaman.
*Gat loksins verið í mokkajakkanum mínum, ógisslega gaman.

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Þriðjudagur og heil skólavika liðin sem þýðir auðvitað að maður á að stinga sér umhugsunarlaust út í hina djúpu laug eðlisfræði og stærðfræðigreiningar. Ég bara nenni því ekki, það eina sem ég er búin að læra er kafli 1 í tölvuteikiningu og það var bara af því að Dagný dró mig upp á bókasafn á síðasta fimmtudag.

Helgin var þéttskipuð dagskrá. Á laugardaginn átti Svanhvít afmæli og ég mætti í veislu til hennar. Þegar komið var fram yfir miðnætti fórum við á Kaffi Vín og fengum okkur meter af bjór, en þann meter hefur Svanhvít ekki hætt að tala um í margar vikur. Eins og máltækið segir; meter af bjór er betri en meter af útlenskum ávöxtum. Ég hafði ákveðið á föstudeginum að mæta í spinning klukkan 11 á laugardagsmorgni, þó maður eigi ekki að keyra ennþá fullur eftir 5 tíma svefn mætti ég samt og sá ekki eftir því. Seinna um daginn mætti ég og dansaði herra á salsa námskeiði hjá kod sem var þreytandi því mig var farið að langa í nætursvefninn minn. Um kvöldið lofaði ég að fara á skrall með Svövu Dóru, fyrst svaf ég þó í 2 tíma og langaði minnst af öllu að fara út. Við byrjuðum á því að fara á sykurfyllerí á Kaffi París, ameríska súkkulaðikakan sem var með nógu miklum rjóma var einmitt það sem ég þurfti til að komast í stuð. Þá fórum við á Nasa með Stebba, Jónatani, Ardísi unnustu hans og Hlyni vini Tanna. Brimkló var að spila og það voru ekkert margir á svæðinu og skítkalt inni. Ég ákvað að dansa mér til hita, það virkaði feitt og næstu 3 tímana dansaði ég eins og mér væri borgað fyrir það (ekki eins og fatafella samt). Það var brjálað gaman. Það var líka fyndið að sjá fullt af fullu fólki faðma Ardísi og fá hjá henni eiginhandaráritun, en svona er að vera frægur á Íslandi. Þegar ballið var búið og við stóðum fyrir utan þá sagði Ardís í gríni "Við fáum bara far með Bjögga!" og meinti Bó Halldórs, saklaust grín eða vottur af stjörnustælum? Ég held að þetta hafi verið að mestu grín. Á mánudagskvöldið var frábært danskvöld, það vantaði í fyrsta sinn í margar vikur ekki stráka.

Ég sá Orra í skólanum um daginn og frétti að hann væri byrjaður í R&T, ég hef líka séð nokkra mh-inga í viðbót sem ég sá ekki fyrir áramót, gott mál.

Punkturinn yfir i-ið
Í dag fór ég í tölvuna uppi í skóla að gá hvort fleiri einkunnir væru komnar, fólk í kringum mig sagði að Stærðfræðigreiningin væri komin svo ég kíkti aftur á Emailið mitt en það var engin einkunn komin. Þá fór ég á skrifstofuna og talaði við einhverja konu. Hún fór og fletti upp í stórri möppu, eftir smá tíma sagði hún "Þuríður Helgadóttir? Þetta er ekkert til að skammast sín fyrir svo ég ætla að lesa einkunnina þína upphátt, þú fékkst 9." Ég fékk í magann og öskraði næstum upp yfir mig inná skrifstofu. Ég trúi þessu varla ennþá, ég fékk 9 í stærðfræðigreiningu, mér finnst líka ennþá erfiðara að trúa þessu af því að konan sagði mér þetta, ég fékk ekki að lesa þetta sjálf svart á hvítu.

miðvikudagur, janúar 07, 2004

Sætt jólafrí á enda og súr skóli tekinn við. Fyrsti dagurinn í dag og Þura átti í mestu erfiðleikum með að fatta að hún væri að gera eitthvað annað en að fara á útsölu en sá starfi hefur étið daga mína að undanförnu. Ég reiknaði með að það yrði bara létt kynning á tímunum sem ég var að fara í í morgun og var ekki búin að kaupa glósubækur á útsölu eða neitt, boy was I wrong, Ari Ólafsson verklegrareðlisfræðikennari talaði niður til okkar um ljós í 45 mínútur, mér fannst hann ekkert skemmtilegur. Síðan kom að tækniteikningu þar sem kennarinn sagði að það yrði keyrt MJÖG hratt fyrstu 8 vikurnar og byrjaði síðan að kenna. Að lokum hlustaði ég á klukkutíma ræðu um dásemdir Kárahnjúkavirkjunar í því áhugaverða námskeiði Verkfræðingurinn og umhverfið sem er sérstaklega hannað til þess að þegar fullir líffræðinemar fara að rökræða við fyllri verkfræðinema eftir miðnætti niðri í bæ þá geti verkfræðinemarnir svarað fyrir sig, og svona útskýrði prófessorinn þetta og hananú! Hélt síðan áleiðis í Bóksöluna til að kaupa eina skólabók, komst að því að ég átti ekki fyrir henni. Ég og Dagný komumst í verklega tímann sem okkur langaði í út á brosið hennar Dagnýjar.

Eftir hádegi fór ég og braut blað... í sögu lífs míns, kyngdi öllum ljótyrðum sem ég hef nokkurntíman sagt um líkamsræktarstöðvar og fór í Hreyfingu. Þeir vildu endilega gefa mér 6 daga prufupassa og Þura gat ekki neitað því. Hvað er næst, ljósakort??? I think not. Núna byrja ég að pumpa á fullu, byrja því næst á þremur tegundum af fæðubótarefnum, hætti í skóla, tek þátt í nautgripasýningu og og og ég gæti alveg eins skotið mig í hausinn strax.

föstudagur, janúar 02, 2004

~ÉG NÁÐI EÐLISFRÆÐIPRÓFINU!!! og nýtt ár er komið~

2004... árið byrjaði á ofdrykkju minni og djammi, ég fór með nokkrum dansfríkum á breikbít kvöld á þeim sveitta stað kapital, þar fríkuðum við út í dansi fram á morgun eða dönsuðum af okkur rassgatið eins og Elín hefði sagt. Kvöldið féll í skugga af endalokum þess, Atli og Svenni voru lamdir á leiðinni heim af ástæðulausu. Þeir voru að labba þegar einhverjir gaurar sem þeir þekktu ekki neitt réðust aftanað þeim, felldu þá og byrjuðu að lemja þá og sparka í andlit þeirra. Ljótu gaurar, ég bara trúi því ekki að þetta geti gerst, ástæðan var engin, maður verður bara reiður af því að hugsa um þetta.

Vaknaði þunn á nýársdag, tókst að losna við þynnkuna og gera mig til fyrir nýársdansleik kod. Það sem gerði alveg út af við þynnkuna var spænski þynnkubaninn hennar Svanhvítar...með súkkulaði og ég mætti hress á ballið. Það var villiréttahlaðborð, það eina "villi"-eitthvað sem ég sá var uppstoppaði refurinn sem var til skrauts annars fannst mér þetta vera hefðbundið. Ekki það að ég hafi borðað mikið, ég borðaði aðeins 1/4 laufabrauð og bjó síðan til hús úr rúgbrauðinu mínu, eitthvað varð ég að fá fyrir peningana mína. Idiot-atriði jógúrts gekk mjög vel sem Óli Grens rústaði með glæsilegum flutningi á Óli var lítill... og Sigga Beinteins hvað? Brynja sýndi klárlega bestu leikrænu tilburðina þótt allir hinir hafi verið fínir líka (ekki vera sárir strákar!). Hápunktur kvölsins var þegar ég og Stebbi unnum (ókey urðum í öðru sæti) í ásadansinum þótt við höfum haft það að markmiði allan tímann að detta út, eins og Gunnar yngri sagði "Það hafðist að lokum". Við vorum samt ekkert fúl því við fengum kassa af dýru og fínu konfekti, godiva. Namminamm... Í lok kvöldsins kom í ljós að bíllinn hans Stebba er EKKI betri en bíllinn minn!!!!

Já og ég náði eðlisfræðiprófinu mínu, ég held samt að ég hafi verið búin að minnast á það. Það er þungu fargi af mér létt, núna er bara eitt námskeið sem ég er hrædd um að falla í. Nema þetta sé eins og Brynja sagði, þegar maður heldur að manni hafi gengið ömurlega þá nær maður, en síðan fellur maður í einhverju sem maður hélt að maður hafi flogið í gegnum. Ó mæ god, stærðfræðigreiningin!!! Meiri áhyggjur fyrir mig. Ég hef þó a.m.k. öruggt þak yfir höfuðið annað en sumir.