miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Í gær gerðust undur og stórmerki, ég þvoði bílinn minn! Að innan og utan, ætla ekki að bóna hann fyrr en í næstu viku þegar ég og Elín erum búnar að fara í ferðalag um Snæfellsnesið.

Í gærmorgun vaknaði ég um tíuleitið. Ég var búin að plana að fara í Vöku með pabba að fá nýjar höldur til að hægt væri að skrúfa niður rúðurnar í bílnum og spurði pabba hvort við ættum ekki að drífa okkur. Þá sagði hann að hann hefði ekki nennt að bíða þangað til ég vaknaði og væri búinn að redda þessu fyrir mig, ókey það er allt í lagi, það er eðlilegt að pabbi manns geri manni greiða. Í staðin fórum við út fyrir og hann ákvað að ég ætti að þvo bílinn, hann skrúfaði frá og sýndi mér hvar ég fyndi pappír og tjöruhreinsi. Síðan skildi hann mig bara eftir með vatn og skítugan bíl og fór að erindast. Allt í lagi með það, ég þreif bílinn og var voða stollt af dugnaðinum í mér. Þegar ég var búin að spúla af bílnum og ætlaði að skrúfa fyrir vatnið þá kom babb í bátinn, ég gat það ekki. Ég reyndi og reyndi og sprautaði vatni yfir mig alla í leiðinni en allt kom fyrir ekki. Þá ákvað ég að hringja í pabba og láta hann segja mér hvað ég væri að gera vitlaust, en ég náði ekki í hann. Ég náði þó í mömmu sem sagði mér að pabbi væri á leiðinni í vinnuna til hennar uppi í Grafarvogi þ.a. það var ekki beint í leiðinni fyrir hann að koma við heima og skrufa fyrir. Nú voru góð ráð dýr, ég endaði á því að banka uppá hjá einum nágranna mínum sem ég vissi að væri heima. Ég hafði aldrei áður haft samskipti við þetta fólk þótt við hefðum búið í sama hverfi í yfir 20 ár og núna labbaði ég með tíkó í hárinu að húsinu og sagði "Hæ ég heiti Þura er Sigurður heima?" í dyrasímann, það hljómaði meira eins og "Má Siggi koma út að leika?" Sigurður, sem er um sextugt, birtist í dyragættinni og var svo indæll að glotta ekki þegar ég sagði honum hvert vandamálið væri. Hann kom og skrúfaði fyrir eins og ekkert væri og sagði "Þetta er allt í lagi vinan." Ég þakkaði pent fyrir mig og ryksugaði bílinn voða vel. Sigurður var karlmaður númer 2 sem aðstoðaði mig þennan dag og það var einu sinni ekki komið hádegi!

Um hádegið hringdi Héðinn og spurði hvort hann mætti koma og kíkja á DVD spilarann minn snöggvast því hann væri í hléi. Ég hafði semsagt beðið hann daginn áður að gera það því ég ýtti á takka um daginn og þá eyðilagðist allt. Héðinn var þriðji karlmaðurinn sem ég fékk aðstoð frá í gær. Egóið mitt þolir ekki svona mikla hjálp frá mönnum og þess vegna varð ég pínu fegin þegar Héðinn sagði að hann gæti ekki lagað og ég yrði að fara með heimska dvd spilarann í viðgerð. Ég vil nebblega geta gert hluti sjálf en ekki alltaf þurfa að fá hjálp frá strákum/karlmönnum goddamnit.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Ég vildi, ég vildi svo mikið að ég væri á Roskilde núna!!! Þá mundi þynnkan hverfa snarlega með nokkrum bjórum og ég gæti djammað meira í kvöld! Í staðin er ég að fara að vinna í kvöld og fyrramálið, ullabjakk, og enginn bjór.

Ég var ekki í miklu stuði til að fara í bæinn í gær og missti þess vegna af Glymskröttunum. Ákvað síðan korteri áður en strætó átti að koma (eftir að hafa hlustað á Scissor sisters diskinn okkar Svanhvítar) að drífa mig í bæinn og allavega sjá Ókind. Setti í mig tíkó, laumaði bjór í vasann og hljóp út. Helv**** strætó kom ekki, hálftíma síðar strætóinn keyrði framhjá af því að hann var fullur. Ég og hin stelpan sem var að bíða ákváðum að rölta niður á Miklubraut og taka strætó þar, það var eins gott að ég hitti hana því hún sagðist hafa á tilfinningunni að kvöldið myndi enda vel fyrst að byrjunin hafi gengið svona brösulega. Ég ákvað að taka hana á orðinu.

Var löngu búin að missa af Ókind þegar ég loksins kom í bæinn, hlustaði bara smá á Jagúar í staðin áður en ég fór að hitta Elínu og Guðbjörtu. Við ákváðum að vera geðveikt harðar og fara á Mínus með hörðum 14 ára krökkum og fullum gaurum á öllum aldri. Við sáum ekki neitt sem var frekar leiðinlegt því stór hluti fílingsins er að sjá þá bera að ofan. Fórum um borð í Hafsúluna til að horfa á þessa líka fínu flugeldasýningu. Þar var fullt af fullum skipperum, eða ég stóð allavega í þeirri meiningu.

Eftir flugeldasýninguna var mig alvarlega farið að langa í meiri bjór. Ég, Steini og stelpurnar ;) (Elín, Guðbjört og Svava Dóra) röltum í bæinn og vá þvílikur fjöldi lítilla krakka á fylleríi, sautjándi júní hvað! Borðuðum pizzu á Lækjartorgi og þá langaði mig enn meira í bjór. Eftir að hafa vandræðast yfir hvert skyldi fara, því raðirnar inn á skemmtistaði voru þvílikar endaði hluti okkar á Kofanum. Og ég og Steini fórum að hella í okkur öli og skotum. Raggi var að dj-ast og stemningin var rosaleg. Fólk út um allt að dansa, fólk sitjandi í sætunum sínum að dansa, allir að syngja hástöfum með. Og bara carzy stuð. Síðan kom Óli, Óli er skemmtilegur. Þegar ljósin voru kveikt og við vinsamlegast beðin um fara út skildi ég Svövu Dóru eftir með Steina og fékk far heim, held samt það hafi verið allt í lagi. Það var svo dásamlegt að fá far, sérstaklega eftir að hafa labbað nokkuð oft heim úr bænum undanfarið. Takk fyrir farið :)

Mamma var vakandi þegar ég kom heim, hvað annað, hún heldur að það séu bara rónar og dópistar sem séu svona lengi úti á nóttunni, eins og það var á sjöunda áratugnum þegar hún skemmti sér (vonandi). Hún sagð bara "Ertu dáldið full elskan?" Ég sagði já og fór inn í herbergið mitt að hlusta á Scissor sisters þangað til ég sofnaði. Stelpan í strætóskýlinu hafði rétt fyrir sér, kvöldið endaði bara mjög vel.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Í dag er menningarnæturdagur, hljómar dáldið eins og a hard day´s night og það finnst mér skemmtilegt.

Lou Reed tónleikarnir voru æðislegir! Hversu svalur getur einn maður verið? Ég er ekki alveg klár á því en Lou Reed kemst nálægt toppnum. Við mættum á svæðið hálf 7 til að ná góðum sætum því við áttum stúkumiða og góðum sætum náðum við. Alveg fremst aðeins til vinstri í stúkunni, sáum mjög vel. Rétt áður en tónleikarnir byrjuðu mættu forsetahjónin á svæðið og tveir seat warmerar stóðu upp, hitt celeb fólkið sem mætti var Julia Stiles. Tónleikarnir voru endalaust svalir og allir hljómsveitarmeðlimir voru endalaust svalir og það var endalaust mikið af svölum sólóum, selló sólóið stóð algerlega upp úr, það var crazy. Kona spilaði á sellóið, held það hafi verið kærasta Lou. Allavega þetta var mjög svalt og góð stemning var í höllinni, hljómsveitin var tvíklöppuð upp. Asnalega atvik kvöldsins var á miðjum tónleikunum þegar Dorriet labbaði á mig og Svenna. Hún hafði farið fram og misreiknaði sig greinilega eitthvað á leiðinni aftur í sætið, hún ætlaði að labba upp stigana en labbaði í staðin á okkur. Það tísti í henni og hún rataði rétta leið.

Fengum far vestur í bæ hjá pabba Áslaugar sem á fínan jeppa, það var mjög þægilegt. Mér finnst það ætti alltaf að koma pabbi einhvers sem á stóran jeppa með á tónleika. Elín fór heim að sofa en við hin sötruðum öl heima hjá Steina og kíktum svo í bæinn. Veit ekki alveg hvernig mér tókst að vera komin heim ekki fyrr en hálf 6. Mjög fínt kvöld yfir heildina þrátt fyrir örfáa hnökra. :)

P.s. Til hamingju með daginn Hekla :)

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Það er svo gaman núna! Það gerðist dáldið skemmtilegt í vinnunni í dag. Á föstudaginn er ég að fara að Lou Reed tónleika og á laugardaginn er Hekla að fara að gifta sig og ég er að fara að mæta í brúðkaup :) og þann sama laugardag er menningarnótt og það gæti verið gaman líka. Allt er gaman! Nema kannski að skólinn er að byrja eftir nokkra daga, veit ekki hvort ég meika stress og engin helgarfrí og meira stress í 15 vikur, jú jú ég meika það alveg því um jólin verð ég hálfnuð með bs prófið og það er gaman.

Eftirlitsgaur labbaði inn í búðina dag akkurat þegar ég var að taka til kringum nammibarinn og fá mér eitt nammi í leiðinni. Verslunarstjórinn kom til mín seinna um daginn og sagði að hann hefði sagt að ég ætti að hætta að borða úr nammibarnum, as if.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Í dag fór ég með pabba í búðir. Þegar það gerist tekur það fljótt af, afhverju að hugsa sig um eða skoða meira þegar maður veit hvað maður vill? Við byrjuðum á Símanum, tilgangur: kaupa nýjan síma handa mér. Það voru nokkrir á undan okkur, á meðan röltum við um og skoðuðum síma. "Númer þrjúhundruðsjötíuogtvö!" var kallað, enginn svaraði kallinu "Þrjúhundruðsjötíuogtvö!!" smá þögn, enginn gaf sig fram. Gaurinn var augljóslega þreyttur og sveittur eftir daginn, enda afmælistilboð í gangi, "Þrjúhundruðsjötíuogþrjú!" kallaði maðurinn. Ví það vorum við, við gengum að skrifborðinu og einmitt þá dröslaðist druslulegur maður að okkar símagaur og sagðist vera 372. Gaurinn gerði sig líklegan til að afgreiða manninn á undan okkur en pabbi sagði nei, hann missti af sínu tækifæri. Druslulegi maðurinn var fljótur að hypja sig og ég settist vandræðaleg niður með pabba og keypti fallegan síma fyrir lítinn pening.

Eftir þessa lærdómsríku símaferð fórum við í ELKO og keyptum langþráðan dvd spilara og núna get ég horft á alla Simpsonþættina sem ég keypti á afar hagstæðu verði í Kaupmannahöfn og fékk TaxFree til baka. Hvernig var þetta ekki frábær dagur?

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Vegna fjölda áskoranna (1) hef ég ákveðið að blogga í dag. Aðalástæða bloggleysis er I prefer beer to blog líkt og Elín. Svo margt að segja en svo lítill tími (eða mikill bjór). Blogg með titla eins og "Diðrik og stelpan sem var ekki til -a Roskilde tala", "Óvenjuleg verslunarmannahelgi" og "Er pabbi minn spiderman?" eru bara waiting to burst out.

Eitt fyrst sem ég gleymdi síðast (lok júlí) en það er að þakka Þórunni fyrir frábæra helgi í Grimstad. Takk fyrir að hafa komið Þórunn, ég hefði dáið ef þú hefðir ekki verið þarna (og þú veist það) :)

Og eitt annað, til allra þeirra sem ég drakk bjór með í gærkvöldi: Fyrirgefið að ég kastaði bjórdós í Atla, hugur og hönd stóðu ekki sameinuð að þeim verknaði.

Málið var sko að ég hafði ákveðið að fara á pent fyllerí í gærkvöldi, þ.e. vera pen og fín og komast allra minna ferða óstudd o.s.frv. Það gekk glimrandi vel og allir voru sammála um að ég væri voða pen, alveg upp að ákveðnu mómenti þegar ég missti mig og penleikann með og henti bjórdós í Atla. Ég man eftir hrópum vina minna þegar ég var að fara að kasta "Nei Þura ekki! Ekki kasta dósinni!!" En því miður voru taugaboðin of hægvirk svo að skilaboðin um að kasta ekki komust ekki fram í hendina á mér fyrr en eftir að ég hafði kastað. Ég hafði brugðist, ég var ekki pen, ég sá vonbrigðin í augum vina minna.

Kvöldið mitt endaði á því að mér tókst að fá alla á Devitos þar sem ég tróð mig út af gómsætri pizzu. Löngunin í Devitos hafði verið til staðar frá því fyrir viku þegar mér tókst bara að klára eina sneið sökum óeirðar í maga. Síðan á fimmtudaginn þegar ég var að labba heim af Isidortónleikum var lokað þ.a. þegar ég succsessfully fór á Devitos í gærkvöldi var ég mjög hamingjusöm.

Isidortónleikarnir á fimmtudaginn voru by the mjög góðir. Takk fyrir mig Orri, I will be back :)

Þá er ég hætt í dag.