sunnudagur, janúar 07, 2007

Svona er það víst

Ég hef gaman af því að lýsa aðstæðum sem ég lendi í / verð vitni að. Hérna koma tvennar kringumstæður... ólíkar eða ekki ólíkar, ég veit það ekki, aðallega bara rosalega mikill texti.

Í eldhúsinu heima:

Ég labbaði inn í eldhús í kvöld um kvöldmatarleytið. Þar sat faðir minn við matarborðið að krota eitthvað á umslag, eins og honum einum er lagið. Hinu megin við borðið sat móðir mín að fletta skólabók ásamt því sem hún fylgdist með ofninum. Frá ofninum barst matarlykt. Í ofninum var kjöt sem ég kann ekki að segja nánar frá og franskar kartöflur sem ég kann ekki við að segja nánar frá. Á hellunum fyrir ofan ofninn var ekkert; enginn pottur, engin panna, ekki neitt. Ég gekk að vaskinum, lét vatn renna í glas og spurði hvenær maturinn yrði til. Mamma svaraði að það væru 10 mínútur í það. Pabbi leit upp og sagði “ha, sagðirðu 10 mínútur?” Mamma játti því.

Í smástund sagði enginn neitt. Ég tæmdi vatnsglasið, mamma fletti bókinni sinni og pabbi hélt áfram að krota á umslagið. Síðan leit pabbi upp, leit á eldavélina og sagði:

“Hulda, ertu með mat í ofninum?“

Í sjónlínu hans voru móðir mín og eldavélin, og augljóst að eini parturinn sem gæti haft mat að geyma var ofninn. Ég missti mig og æddi að honum “Pabbi, auðvitað er matur í ofninum! Þú veist að hún er að elda og þú SÉRÐ að það eru engin matarílát á hellunum á eldavélinni! Hvernig annars eldar hún mat!? Hugsar hún til matsins í ískápnum!?!” Þau hlógu bæði létt að mér og annað hvort þeirra sagði rólega “Þura mín, róaðu þig niður, við erum bara svona.”

Í vinnunni:

Eftirfarandi aðstæður koma mjög oft upp þ.a. ég ætla að reyna að lýsa hefðbundinni útgáfu.

Ég og Beggi sitjum við tölvurnar okkar með tónlist í eyrunum og erum að vinna þegar ég fæ skyndilega þörf fyrir að tjá mig. Ég slekk á tónlistinni, ýti stólnum frá tölvunni, sný mér að Begga og byrja að tala “hei Beggi, veistu hvað mér finnst gjörsamlega óþolandi?...bla bla bla” Síðan tala ég í smástund af miklum tilfinningahita um eitthvað ekkert svo merkilegt, til dæmis sætauppröðun í kaffistofunni, lengd auglýsingahléa hjá Skjá einum eða hugmynd að einhverju til að framkvæma seinna um daginn. Beggi sem er alltaf með stór heyrnatól á sér þegar hann er að vinna situr ennþá við tölvuskjáinn með heyrnatólin og er á fullu að vinna.

Þegar ég uppgötva að hann heyrir ekki neitt af því sem ég er að segja kalla ég til hans “hei Beggi, þú ert ekki að hlusta á mig!” Þá tekur hann heyrnartólið frá öðru eyranu, lítur aðeins upp og umlar eitthvað “hummm ha, varstu að segja eitthvað...” Stóllinn minn er kominn langt frá tölvunni minni og ég sný beint að honum. Ég hækka róminn “Já, ég var að tala um hvað ég þoli ekki eitthvað eitthvað bla bla bla” og endurtek í stuttu máli það sem ég hafði sagt áður. Samtímis stend ég upp, labba að hans bás og baða út höndunum eins og óð manneskja. Þegar ég stend yfir honum, greinilega í uppnámi þá kemst hann ekki hjá því að taka niður heyrnartólin, snúa sér frá tölvuskjánum og að mér og veita mér og mínu málefni smá athygli.

Þegar við erum búin að ræða málin í stutta stund, þar sem Bergur notar oft setningar eins og “tja svona er þetta bara” eða “og er eitthvað sem við getum gert í því!” eru samræðurnar oft truflaðar með innkomu þriðja aðila. Við þögnum bæði skyndilega og síðan segi ég “heyrðu, ég prófa þá að leita á K-drifinu... takk fyrir hjálpina” eða sambærilegt og sest í sætið mitt. Síðan held ég bara áfram að vinna.

Gallinn við svona inngrip er sá að ef að ég er ekki búin að tala nægju mína um viðkomandi málefni þá byrja ég að aftur trufla Begga fljótlega eftir að hann er kominn á fullt að vinna aftur.

6 ummæli:

Erna sagði...

ohh ég lendi oft í þessu sama og beggi..nema hvað, ég er ekki með heyrnatól!
Þið Atli getið vafalaust snakkað um þess konar vandamál hehe

Kláraðir þú ekki vélaverkfræðina? ohh ég er nefninlega í iðnaðar og ætlaði að athuga hvort ég gæti fengið einhverjar bækur lánaðar, eða jafnvel keypt af þér? Bara svona pæling...spara fyrir NY

Þura sagði...

Við Atli gætum stofnað stuðningshóp... "tala minna" akkurat.

Jú ég kláraði vélaverkfræðina, ertu á hvað 2. ári ? Sendu mér póst thurihe@hi.is og ég skal tékka hvort ég eigi e-r bækur ;)

Nafnlaus sagði...

Farðu nú að ná þessu kvefi og skít úr þér. Ég er farinn að sakna þess að vera truflaður í vinnunni:p

Þura sagði...

Ókei þá, ég skal koma aftur í vinnuna, en þá verður þú að taka þátt í næsta flipp-plani BB !

Nafnlaus sagði...

Þú ert dáldið skondin.

Þura sagði...

Við ræðum það á msn á morgun vinan...