föstudagur, janúar 19, 2007

Fjögurhundruðasta bloggið

Ég mætti á mannfagnað um daginn í heimahúsi. Þar var saman komið fólk sem ég hitti ekki oft. Fyrsta manneskjan sem ég sá þegar ég kom inn var strákur sem ég kannaðist við. Ég hafði hitt hann einu sinni áður, það var síðasta sumar. Mér var starsýnt á þennan strák, það var eitthvað heillandi við hann. Hann virtist líka hafa tekið eftir mér. Nú leið kvöldið og ég stóð mig að því að fylgjast meira með þessum tiltekna strák heldur en öðrum á svæðinu. Hann sýndi mér líka meiri athygli en ég hafði búist við. Ég var alveg kolfallin fyrir honum, ég mundi líka að á síðasta fundi okkar hafði mér fundist hann mjög sjarmerandi. Ég varð hreinlega að passa mig að týnast ekki í dökkbrúnu augunum hans. Svo komu upp þær aðstæður að við vorum tvö saman í afskekktum hluta hússins. Við horfðum út um gluggann og horfðum á hvort annað. Það fóru ekki mörg orð okkar á milli. Hann snerti hálsinn á mér, fiktaði í hálsmeninu mínu og mér fannst alveg eðlilegt að hann væri svona nálægt.

Svo fór hann að kippa í eyrnalokkana mína, fast. Það var sárt. Ég hugsaði með mér að næst þegar ég ætlaði að halda á 9 mánaða frænda mínum þá skildi ég sleppa eyrnalokkunum.

2 ummæli:

Svanhvít sagði...

Bwwaaahahahaha... góð og falleg saga.

Atli Viðar sagði...

er hægt að kalla þetta betra en ekkert...?