þriðjudagur, janúar 30, 2007

Easy come / easy go

Ég ætlaði reyndar að bíða með þessa færslu þangað til 2. hluti myndi gerast í alvörunni, en það er harla ólíklegt þ.a. ég læt bara vaða núna. Athugið að 1. hluti er eins dagsannur og 2. hluti er skáldaður.

1. hluti (sá eini sanni)
Það var kvöld eitt í bænum, reyndar var komið fram yfir óttu. Ég stóð á spjalli á einu af öldurhúsum bæjarins með bjór í hönd sem ég dreypti á reglulega. Skyndilega fann ég að einhver pikkaði í öxlina á mér. Ég stoppaði í miðri setningu, lét ölkrúsina síga og sneri mér við. Þar stóð strákur, sirka á mínum aldri, sem ég kannaðist ekki neitt við. Strákurinn, sem virtist vera frekar stressaður, kynnti sig og tók í höndina á mér. Ég náði rétt að svara með "eh, sæll" áður en hann hélt áfram að tala, aðeins of hratt fannst mér. Hann bunaði út úr sér einhverju um að honum fyndist ég áhugaverð manneskja og hann vildi kynnast mér betur. Ég náði einu sinni ekki að troða inn "en þú þekkir mig ekki neitt" athugasemdinni, svo mikið var honum í mun að koma fyrirfram æfðu ræðunni frá sér.

Eftir að hann hafði lokið máli sínu spurði hann hvað ég héti. Ég svaraði sannleikanum samkvæmt "eh, ég heiti Þura." Þá varð strákurinn skrítinn í framan, eins og ég hefði sagst heita Þorgrímur, tók eitt skref aftur á bak og ranghvolfdi augunum. Ég horfði á hann skilningsvana. Síðan dæsti hann þungan og sagði "sjitt maður, mamma mín heitir Þura, þetta er of skrítið!" Þar með var hann rokinn í burtu eins snögglega og hann hafði birst.

Ég yppti öxlum, tók sopa af bjórnum og sneri mér aftur að viðmælanda mínum. Ég vil meina að ég hafi á því augnabliki hugsað "easy come / easy go" en ætli það hafi ekki verið meira "þetta tók fljótt af."

2. hluti (skáldað framhald af 1. hluta)
Nokkrum dögum síðar var ég ræktinni. Þegar ég var búin að hita vel upp og var á leiðinni í tækjasalinn vatt sig á tal við mig strákur. Hann byrjaði að spjalla, eins og gengur, en þegar hann komst að því hvað ég héti kom vandræðaleg þögn. Þá stóðst ég ekki mátið að spyrja hann “heitir mamma þín nokkuð Þura?”

Kannski ég noti þessa spurningu bara næst þegar ég þarf að rjúfa vandræðalega þögn.

5 ummæli:

Hákon sagði...

Ég get að minnsta kosti sagt þér að mamma mín heitir ekki Þura.

Orri sagði...

allir sem heita þura eiga sem sagt séns í hákon...

Þura sagði...

I like those odds...

Nafnlaus sagði...

Þú hefðir kannski átt að segjast heita Fura :Þ

Snjólaug

Þura sagði...

Kannski geri ég það alltaf, kannski misheyrist bara öllum (flestum)

;)