sunnudagur, febrúar 05, 2006

Hjartans mál...!

(1) Ég horfði á söngvakeppni sjónvarpsins í gær gagngert til að sjá Silvíu Nótt. Fyrir framan skjáinn sátum ég, mamma og pabbi, öll yfirlýstir Silvíu aðdáendur. Þegar atriðið hennar byrjaði vorum við orðin nokkuð spennt, og ég held að þau hafi hlegið meira en ég. Þegar dansararnir Hommi og Nammi birtust ætlaði allt að tryllast, mamma kallaði "Þura, sjáðu þarna eru þeir, Hommi og Nammi...! he he he" Og þegar atriðið var búið stóð pabbi upp og sagðist vorkenna næsta atriði á eftir.

Niðurstaða: Silvía, Hommi og Nammi fengu sitt atkvæðið hvert frá mínu heimili og ég verð fyrir vonbrigðum ef þau verða ekki send í keppnina úti.

Andans mál...!

(2) Talandi um menningu... Ég er búin að ákveða að cúltur-væðast á markvissan hátt. Þetta merkir ekki að ég ætli að skipta út skífusímanum fyrir þráðlausan (?) heldur ætla ég sækja list- og menningaratburði tíðar en áður hefur gerst. Þetta merkir að ég ætla að gera eitthvað sem ég flokka sem menningarlegt í viku hverri. Reyndar er þetta í annað sinn sem ég tek þessa ákvörðun því einhvern tíman fyrir áramót stefndi ég að sama markmiði, en þegar ég drukknaði í vinnu tapaðist sú ákvörðun í hafdýpi vonleysis ásamt svo mörgum öðrum.

Menningar-tilraun þessarar viku var ferð á Listasafn ASÍ. Þar var síðast dagur samsýningar tveggja listamanna og tveggja hönnuða, alls konar svona form og litir. Það sem sjokkeraði mig aðallega var verðlistinn.

Sálarinnar mál...!

(3) Ég veit ekki alveg hvernig maður ræktar sálina, en ég veit að það fer ekki vel með mína litlu sál að lokaþáttur House er búinn. Ég var orðin alveg háð honum.

Ekki mitt mál...!

(4) Ég er mikill aðdáanda auglýsinga, sérstaklega sjónvarpsauglýsinga. Þegar ég fer aftur að horfa á sjónvarp eftir að hafa tekið mér nokkra vikna pásu finnst mér auglýsingahléin oftast skemmtilegri heldur en einhverjir þættir sem ég horfi á. Þegar ég horfi reglulega á sjónvarp og sé sömu auglýsingarnar trekk í trekk þá fæ ég ógeð eins og hver annar.

Mér finnst gaman að fylgjast með auglýsinga tískunni þ.e. hvernig auglýsingar eru algengastar á hverjum tíma. Núna er til dæmis búið að vera í nokkrar vikur tímabil væminna auglýsinga. Það er auglýsingar sem sýna á grátbroslegan hátt mannlegu þættina í umhverfi okkar og minna mann á að það eru litlu hlutirnir sem gefa lífinu gildi. Tónlistin undir er velgjulega væmin og í lokin kemur lógó risa-fyrirtækis ásamt hnyttnum frasa sem gefur til kynna að stórfyrirtækinu sé ekki sama um litla manninn og hugsi um fleira en að græða bara ógeðslega mikla peninga.

Gott dæmi um svona auglýsingu er kona sem gefur manni sínum pakka, hann opnar pakkann og tekur upp hawaii skirtu. Maðurinn er ýkt ánægður, kyssir konuna og hengir skirtuna síðan í fataskápinn sinn sem er fullur af hawaii skirtum. Síðan kemur línan "Vísa, nýr dagur -ný tækifæri" Fleiri álíka væmnar auglýsingar eru í þessari herferð (er það rétta orðið?) frá Visa. Ást er... auglýsingin frá einhverju tryggingafélaginu er í sama stíl sem og Takk auglýsingarnar frá happdrættinu sem ég man ekki hvað heitir (Takk fyrir að gefa okkur lengri tíma saman o.fl.).

Samantekt: Ég er komin með nóg af væmnu-auglýsinga tískunni. Það er kominn tími á nýtt þema. Og ég vissi ekki að ég hefði svona mikinn áhuga á auglýsingum!

Nú er mér mál...!

(5) Vá, náði einhver að lesa alla leið niður í atriði 5. Magnað.

4 ummæli:

Elín sagði...

Varðandi andans mál þá ertu náttúrulega í bókaklúbbi, það gerist varla menningarlegra... já og go Silvía!

Þura sagði...

Báðir góðir og gildir punktar :)

Það verður einmitt "menningar-thing" næstu viku að fara í bókaklúbb... eða leshring eins og er menningarlegra að segja.

Og Silvía klikkar ekki ;)

Steini sagði...

Það er mjög menningarlegt að drekka jógate eða latte á Hljómalind og skeggræða um málefni.

Þura sagði...

Já steini, já.