föstudagur, febrúar 11, 2005

[Hún náði mér og felldi mig]
Fyrir meira en mánuði var mér boðið í afmæli til lítillar frænku í Danmörku. Ég einsetti mér að sjálfsögðu að mæta og keypti flugmiða dagsettan 12. feb út, það er á morgun. Af gömlum vana keypti ég forfallatryggingu og var hundskömmuð fyrir vikið af mínum föður "Þú veist þú þarft að vera veik í alvörunni til að þetta gildi!" sagði hann. Í dag veit ég ekki hvort ég á að hlægja eða að gráta yfir forfallatryggingunni minni, í dag sit ég veik heima lítils dugandi til annars en að horfa á vídjó, fara á netið og leggja mig á klukkutímafresti eða svo (það er nebblega frekar orkukrefjandi að horfa á sjónvarp). Í dag á ég engan flugmiða. Svona er þetta, flensan náði mér, felldi mig og heldur mér niðri. :(

Samúðaróskir vinsamlegast afþakkaðar, ég er ekki dauð ennþá.

[kosningar]
Vegna heilsuveilu, kaus ég ekki í stúdentakosningunum. Það finnst mér ömurlegt, ég ætlaði að kjósa. Það var 15 sentimetra lagið af snjó á bílnum mínum sem stoppaði mig. Það er of mikið af snjó að ryðja í burtu fyrir veika stelpu.

[...skyn]
Það er eitthvað stórt að fara að gerast. Ég finn það á mér. Eins og dýr flýja frá ströndinni áður en flóðbylgja kemur. Cheerios bragðast öðruvísi, kaffi bragðast öðruvísi, það er skrítið að skrifa á lyklaborðið á tölvunni heima...lyklaborðið er öðruvísi. Kannski er mín skynjun á heiminum bara að breytast. Kannski eftir nokkrar vikur verð ég á kaffihúsi að drekka kaffi latte og þá finnst mér það bragðast eins og ég man eftir að rækjusalat hafi bragðast, og þá segi ég "Hei, síðan hvenær bragðast kaffi latte eins og rækjusalat?" Þetta er ef til vill ekki raunhæf pæling.

[My So Called Life] "spoiler"
Í veikindum mínum hef ég horft í milljónasta of fyrsta skipti á þá þrjá þætti af My So Called Life sem ég man eftir að eiga á spólu. Þeir virka alltaf jafn vel á mig. Það er svo margt sem er gaman að rifja upp eins og að allir kveðjast alltaf (líka fullorðna fólkið) með því að segja later og að hljómsvietin sem Jordan Catalano var í hét Frosen Embryos (Frosnu fóstrin) og hann var alltaf kallaður Jordan Catalano þegar talað var um hann, aldrei Jordan. Líka hvernig orðið like með smá þögn á eftir er ótæpilega notað í hverri einustu setningu, dæmi: It´s like *þögn* afterwards it stopped mattering whether I wanted to. (Setning valin af handahófi)

Ég skil ekki rúv að vilja ekki endursýna þessa snilldarþætti, það er heil kynslóð 12 ára stúlkna að vaxa úr grasi sem aldrei hefur kynnst Angelu sem obsessar yfir öllu sem hún gerir... og gerir ekki, alkóhólistanum Rayanne sem sefur hjá hverjum sem er, "kynvillta" greyinu Ricky sem veit ekki hver sinn staður í lífinu er, sykurpúðanum Jordan Catalano sem bætir upp fávisku sína með guðdómlegu útliti, nördinu Brian sem elskar Angelu en gengur samt sem áður í flauelsbuxum og köflóttri flónel skyrtu (halló árið 1994!) og súper dúber amerísku foreldrunum. Heimska rúv...

Ef einhver á seríuna á dvd eða spólum og vill stytta veikri stúlku stundir, endilega hafið samband.

Þá er búin að blogga um allt sem mér hugsanlega hefur dottið í hug síðustu 5 dagana, þannig að ef ég blogga á næstunni þá verður það líklega um naggrísi eða krossgátuna í mogganum eða lemú.

Engin ummæli: