mánudagur, febrúar 28, 2005

Ath. Þeim sem ekki hafa áhuga á bílaviðgerðum er ráðlagt frá því að lesa eftirfarandi texta

Eins og áður hefur komið fram, væntanlega mjög oft, er miðstöðin í bílnum mínum ekki búin að vera í lagi í mjög langan tíma. Það veldur ákveðnum erfiðleikum að þurfa að mæta í skólann klukkan 8.15 að morgni þegar það er frost úti, skafa af rúðunum innan sem utan og sjá samt EKKI NEITT út um framrúðuna. Þá erum við að tala um að eina leiðin til að keyra svo blindandi er að halda sig sem næst bílnum á undan (elta tvo rauða depla), enda hef ég oft lent í því að keyra upp á kant á Hringbrautinni og yfir hálfu hringtorgin sökum miðstöðvarleysis.

Ég var búin fyrir löngu að harðbanna föður mínum að láta laga miðstöðina, ég ætlaði mér að gera það sjálf. Á sunnudaginn rann upp stóri dagurinn. Ég tók fram BMW 3- & 5 series Service and Repair Manual og fletti upp á mínu vandamáli sem var Heater and air conditioning blower motor -removal, testing and refitting. Viðgerðarverkefnin eru merkt með mismunandi fjölda skiptilykla eftir því hve erfið þau eru, sem betur fer var mitt verkefni eins skiptilykils verk sem er semsagt Easy, suitable for novice with little experience.

Eftir að hafa lesið verklýsinguna og spurt pabba út í allt sem ég skildi ekki, sem var eiginlega allt þá sagði ég við hann Eigum við að koma út í bílskúr og rífa miðstöðvarmótorinn úr? Hans svar var Við??? Þú sagðist ætla að gera þetta! En ég náði að sannfæra hann um að hann yrði að minnsta kosti að vera hjá mér á meðan og við drifum okkur út í bílskúr.

Við opnuðum húddið og pabbi rétti mér skiptilykil og sagði Jæja aftengdu rafmagnið. Ég stóð í smástund með skiptilykilinn í hendinni og reyndi að láta líta út fyrir að ég hafði skilið hvað ég átti að gera. Síðan þurfti hann að segja mér betur til, Þura:0, pabbi:1.

Síðan rifum við miðstöðvarmótorinn úr bílnum samkvæmt leiðbeiningum, og það var bara ágætis samvinna því pabbi hafði aldrei rifið miðstöðvarmótor úr áður og stundum var gott að vera sterkur og stundum var gott að vera með litlar hendur.

Ekki svo löngum tíma eftir að við byrjuðum náðum við mótornum upp og komumst að því að hann væri ónýtur þ.e. látinn úr elli. Það fannst mér sorlegt, mig langaði að gera við hann. Ákveðið var að láta þetta gott heita þann daginn og kaupa nýjan mótor daginn eftir gefið að hann yrði ekki dýrari en bílinn sjálfur. Ég labbaði inn svört upp fyrir olnboga og alsæl með dagsverkið.

Í dag reddaði pabbi notuðum mótor og við skelltum honum í á no time og núna virkar miðstöðin í bílnum mínum og ég er reynslunni ríkari og endalaust hamingjusöm með það!!!! :) :) :)

Engin ummæli: