mánudagur, mars 26, 2007

Rómuð Rómarferð - dagur 2

Annar dagurinn í Róm þ.e. föstudagurinn hófst snemma um morguninn. Rútan í Vatíkanið lagði af stað klukkan 8. Veðrið var dásamlegt, sól logn og þægilegt að vera úti á stuttermabol með bleik sólgleraugu, eins og alla hina dagana reyndar.

Þegar við komum í Vatíkanið settum við upp heyrnartæki til að við gætum ráfað smá en samt hlustað á leiðsögumanninn. Leiðsögumaðurinn leiðsagði okkur í gegnum fullt af ofskreyttum herbergjum með fáránlega vel gerðum málverkum, styttum og skreytingum. Til dæmis var þetta loft svakalegt:
Toppurinn fyrir mig var að koma inn í Sixtínsku kapelluna og skoða loftið. Í mörg ár grandskoðaði ég myndir af þessu lofti og mér fannst mjög gaman að sjá það með eigin augum.

Það var líka svakalegt að koma inn í Péturskirkjuna, ekki einn fersentimeter var óskreyttur. Úti um allt voru risastórar mósaík myndir sem voru það vel gerðar að maður sá ekki að þetta var mósaík nema maður rýndi vel úr stuttri fjarlægð.
Helsti kosturinn við Vatíkanið var samt klárlega allir single gæjarnir: Um hádegisbil rölti allstór hópur af okkur krökkunum að borða á útveitingastað í þrönguhúsasundi. Maturinn var ekkert spes, en lítersbjórarnir sem við drukkum með bættu upp fyrir það. Síðan röltum við þvert í gegnum miðbæinn með viðkomu á helstu torgum þar sem götusölumenn hlupu í burtu um leið og þeir sáu lögguna. Kíktum inn í Pantheon, og stoppuðum reglulega til að drekka bjór. Hér eru nokkrir af krökkunum fyrir framan Pantheon: Hér eru götusalar fyrir framan Pantheon:
Þetta kvöld var árshátíðin sjálf haldin í sal á hótelinu, við Íris lentum á borði hjá 139 og 120 ( þ.e. Óla og Gylfa) sem reyndist vera dáldið fyndið þegar leið á kvöldið. Hér er Óli að lesa bakþankana sem ég skrifaði um hann í Árshátíðar-Fréttablaðið:
Var ég búin að minnast á að ég var með bleik sólgleraugu? Þessi fyrir ofan er ekki ég, heldur einn af þeim sem fengu / þurftu að máta.
Beggi og Íris voru hress þótt þau væru sólgleraugnalaus:
Skemmtiatriðið mitt gekk út á að gera grín að framkvæmdastjóranum, þeim indæla manni. Það gekk svo vel að mér var sagt upp fjórum sinnum þá um kvöldið. Fyndnasta skiptið var þegar Helgi framkvæmdastjóri labbaði til mín við barinn, tók í höndina á mér og sagði "Þuríður það var gaman að vinna með þér, þú skilar bara tímaskýrslunni þinni á mánudaginn."

Hemma og Ásu herbergi var Partýherbergi ferðarinnar, á meðan gerði ég mitt besta að fara á trúnó, því eins og allir vita þá er gott trúnó er betra en nokkurt partý, sérstaklega þegar maður er uppá klæddur.

Um þrjúleytið langaði djammþyrstum Íslendingunum að djamma meira, en ekki hvað. Við tókum leigubíl út um allan bæ og ég veit ekki hvað, en alls staðar var allt lokað. Það var reyndar hægt að kaupa viskí í sjoppu en við vorum ekki það örvæntingarfull. Borðuðum grillaðar samlokur í staðin (Melkorka og Gummi og ég): Ég og Ása og Melkorka þurftum að sýna dáldið mikið að við gætum work-að það:Enda vorum við í svaðalega góðum gír, og einstaklega hressar og dagfarsprúðar:Myndaserían fyrir þennan dag endar auðvitað á mér og Begga að pósa. Mér skilst að við höfum gert örlítið af því í ferðinni:

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Greinilega mikið flott að skoða....en hvað med hánkana??

Nafnlaus sagði...

Hánkana?!? Skoðaðu síðustu myndina Anonymous :p

Nafnlaus sagði...

Æ sorry Bergur Beib, þú ert nátturulega flottastur. En manni langar nú bara að heyra um nýmetið,útlenskt eda íslenskt :D

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ótrúlega fyndið að ég hafi verið að skoða nákvæmlega sömu hluti og þú úti á Ítalíu (Pompei, Sixtínsku, Péturskirkjuna, Pantheon) bara nokkrum dögum fyrr... ég var samt ekki nógu dugleg að taka pósmyndir.

Hittast! Sem fyrst!

Þura sagði...

Elín:
Já hittast ví já hittast já :)

já og fyndið, ég og þú og Róm. Reyni að vera ekki slök í pósumyndatökunni sko...

Nafnlaus:
Hver ertu ?