sunnudagur, apríl 27, 2008

Skynjun á tíma

Loksins fann ég klukku* sem 'mælir' / 'sýnir' tíma eins og ég upplifi hann (a.m.k. akkurat núna).

Mínútuvísirinn lét eins og sekúnduvísir (fór einn hring á hverri sekúndu)
Klukkustundavísirinn lét eins og mínútuvísir (fór einn hring á hverri mínútu)

Þ.e. samkvæmt þessari klukku leið ein klukkustund á einni mínútu. Þannig skynja ég einmitt tíma núna.

Eða ég er alveg búin að missa það.

*Á bókasafni skólans míns

föstudagur, apríl 25, 2008

Gamalt veður

Ég og myndavélin mín fylgjumst reglulega með veðrinu hér í London. Þá sérstaklega með því að taka myndir út um gluggann minn, þar sem ég sé voða lítið annað af borginni um þessar mundir vegna svita, blóðs og tára yfir lærdómi.

Við tókum þessar myndir af þessari svaka bresku dembu 12. apríl. Á báðum myndum má sjá vegfarendur hlaupa í átt að skjóli, eða "Hvar er Valli?"


Í gær voru þrumur og eldingar. Það var það mest spennandi sem gerðist þann dag.

Yfir og út

miðvikudagur, apríl 23, 2008

25 ára and counting...

Klukkan er yfir 11 um kvöld og ég sit við tölvuna mína inni í herberginu mínu að skrifa skýrslu (80%) og lesa teiknimyndasögur á netinu (20%). Mér er kalt þó ég sé í lopapeysu og ullarsokkum og kveiki reglulega á ofninum til að fá hita-búst. Ég er búin með 66% af upprunalega innihaldinu í 33 cl kókdós og 7 gúmmí-snuð (e. gummy dummies). 19 ára pakistanska stelpan í næsta herbergi við hliðiná er með gesti. Þau eru að spjalla og reykja hookah með einhverskonar ávaxta bragði. Það heyri ég og finn á lyktinni. Í efstu skrifborðsskúffunni á ég 7 risa-tópös (stykki ekki pakka) en þau eru til vara, þ.e. notast ef/þegar í voða stefnir.

Ég er tuttuguogfimm ára og ÞETTA var lýsingin á lífi mínu. Eða þið vitið, smá broti.

Yfir og út, Þura

p.s. Takk fyrir afmæliskveðjurnar :)
p.p.s. Helst er það af bjór-tilrauninni að frétta að ég kom sæmilega vel/illa út úr bloggrýni Atla hins vægðarlausa.
p.p.p.s. Atli er ekki svo vægðarlaus, mig vantaði bara dramatískt lýsingarorð.

laugardagur, apríl 19, 2008

Eeeeeitthundraaaaaaaaaað oooooooog .....

Það hafa borist 'gisk' í kommentakerfið við síðasta blogg um hversu marga bjóra ég muni drekka á þessu ári. Giskin eru á bilinu 300 - 477 stk [bjórar/ár]. Ég veit ekki hvort ég á að vera hneykslaðri á lágum ("Bara þrjúhundruð...!") eða háum ("Heilir fjögurhundruðsjötíuogsjö bjórar...!") giskum. Þ.a. ég hef ákveðið að vera ekki neitt hneyksluð!

Þar sem þessi tilraun er gerð til að fylgjast í alvörunni með drykkju minni þá geri ég mitt besta að láta tilraunina ekki hafa áhrif á útkomu (þið vitið, eins og þegar veggirnir á verksmiðjunni voru málaðir grænir og verkamennirnir urðu duglegri við það). Ég held mig við mína 'alda'* gömlu reglu: "að drekka nákvæmlega jafnmarga bjóra og mig langar í"**. Úff, allt þetta bjórtal gerir mig þyrsta, best að gera sig til og kíkja út í einn kaldan...

Yfir og út

*Kvartaldar kannski?
**Minnir að þetta sé regla nr.2 en ég yrði að kíkja í litlu svörtu bókina til að staðfesta það, en hún er ofan í kassa undir dóti í kjallara milli lífs og dauða*** þ.a. það verður að bíða betri tíma, á meðan verð ég að reiða mig á mitt eigið minni****.
***Ofnotað, já jég veit.
****Sjitt maður, ef það er ekki uppskrift að vandræðum.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Hundraðasti bjórinn

~Ársfjórðungsskýrsla bjórdrykkju minnar~

Eftir nákvæma gagnasöfnun og greiningu á gögnum hef ég komist að því að ég drekk ekkert svo mikinn bjór.

Inngangur
Í nokkur ár hef ég haft þá stefnu (e. policy) í mínu lífi að telja ekki fjölda bjóra sem ég drekk. Nánar tiltekið að kunna bara að telja upp í tvo þegar kemur að drykkju. Ég geri mér grein fyrir þegar fyrsti bjór klárast en á öðrum bjór hætti ég að telja. Þannig að hvort sem ég er að drekka annan eða fimmta bjór kvöldsins þá er sá bjór ávallt númer 2+ (lesist: tvö plús). Í lok síðasta árs ákvað ég að breyta úr afskaplega lélegri talningu yfir í afsaplega góða talningu (á bjór). Ég ákvað að ég skildi telja hversu marga bjóra ég drykki árið 2008.

Aðferðafræði
Til að niðurstöður tilraunar yrðu sem áreiðanlegastar ákvað ég nokkrar reglur sem ég ætlaði að fara eftir í talningu bjóra.
Til að bjór teljist drukkinn verður eftirfarandi að gilda:
1. Ég drekk bjórinn ein og sjálf (þ.e. bjórar sem eru opnaðir og hellt í glös handa mörgum eru ekki taldir með)
2. Ég klára yfir 75% af bjórnum (þ.e. bjór er talinn þó slefsopinn eða froða í botninum sé eftir)
Bjór blandaður við annan vökva telst ekki bjór og er því ekki talinn með (t.d. bjór con limon)
3. Annað áfengi en bjór er ekki talið, því augljóslega er það ekki bjór. Eftir að reglurnar höfðu verið nelgdar niður hélt lífið áfram, nema núna aðeins nördalegra. Ég vildi halda því fram að ég væri ný manneskja, en mér var bent á að ég væri sama manneskja að við bættum teljara: ,,Svo þú ert: ,,Þura, nú með counter!”!” (Bergur, 2008).

Niðurstöður
Á 96. degi ársins drakk ég hundraðasta bjórinn á árinu í góðum félagsskap og ákvað þá að skoða þau gögn sem væru komin. Athuga skal að ég skráði hjá mér hvort drukkinn bjór var stór eða lítill en hér er fjallað um samanlagðan fjölda stórra og lítilla bjóra. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

Graf 1: Fjöldi bjóra sem ég hef drukkið dag hvern árið 2008. Bestu línu má sjá á myndinni og eins og sést er hallatalan 0.0003 þ.a. dreifing bjóra er nokkuð jöfn. Lengstu bilin á núll línunni (þ.e. fjöldi daga í röð án bjórdrykkju) eiga sér skýringar. 6. - 11. dag var ég á detox kúr. Ég var kvefuð (og þá drekk ég ekki bjór) 29. - 34. dag og 65. - 71. dag.

Ég tók saman hversu marga bjóra 'per skipti' þ.e. per dag (gert er ráð fyrir að hver dagur sé eitt 'drykkju-session') ég drakk. Þær niðurstöður eru eftirfarandi:

10 skipti drakk ég 1 bjór, 12 skipti drakk ég 2, 11 skipti drakk ég 3 bjóra, 2 skipti drakk ég 4 bjóra og 5 skipti drakk ég 5 bjóra.

Graf 2: Uppsafnaður fjöldi bjóra sem ég hef drukkið dag hvern árið 2008.

Graf 3: Hlutfall drukkinna bjóra á móti dögum (uppsafnaðir bjórar og dagar). Þetta er hið fræga b/d hlutfall. Hér má sjá að ég byrjaði frekar rólega (b/d hlutfall lægra en 1), síðan kom smá yfirskot (b/d hlutfall nálgast 1.3) en svo sveiflast hlutfallið lítillega kringum 1 mestan partinn.

Umræður

Samkvæmt niðurstöðum þessarar gagnasöfnunar hef ég komist að því að ég drekk ekkert svo mikinn bjór! Hissa? Njaaa... eiginlega ekki.

Frekari tilraunir

Ég ætla að halda áfram að telja bjóra út árið, og lesendur mega ef þeir vilja giska á hver heildarfjöldi bjóra í minn maga verður árið 2008!

Þuríður Helgadóttir, apríl 2008

laugardagur, apríl 12, 2008

Næsta blogg

Næsta blogg mun fjalla um greiningu á bjórdrykkju minni á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Ég er að bíða eftir að skýrslan verði peer reviewed.

Yfir og út

sunnudagur, apríl 06, 2008

Bíddu, var vorið ekki komið? Er ég að misskilja...

Á föstudaginn var ég handviss um að vorið væri komið. 17°C, sólin skein, blóm komin á blóma-tré o.s.frv. Í gær var aftur rigning, ekkert mjög kalt samt. Í morgun þegar ég vaknaði og leit út um gluggann var byrjað að snjóa. Held það sé samt ekki mjög kalt, allavega hefur ofninn minn ekki kveikt á sér sjálfur. Þessi fjölbreytileiki veðurs minnir dáldið á annað land sem ég þekki mjög vel...
Útsýni úr glugganum mínum í morgun (eða 'útsýni'):

þriðjudagur, apríl 01, 2008

London 16:14


London 16:14
Originally uploaded by Grainyday canonS3.

Canary Wharf ekki Canada Water.

Grundvallarmunur!!!