sunnudagur, desember 02, 2007

Með taugarnar þandar

Ég kom heim í gærkvöldi kl. 22.30 í pilsi, háhæluðum skóm og með maskara. Ég henti veskinu og jakkanum á rúmið og skrifaði sms: Ég er fokking komin heim!!!

Arna svaraði: Nú hva strax! Hvernig var stefnumótið??

Ég fór á stefnumót í gærkvöldi með kana. Hann býr í sömu byggingu og ég, og ég hef alveg vitað hver hann er í dáldinn tíma en aldrei talað við hann. Alveg þangað til í síðustu viku þegar hann bauð mér á stefnumót. Ég hef aldrei farið á stefnumót með gaur frá ‘stefnumótaþjóðinni’ sjálfri og mér finnst það frekar áhugaverð stúdía svo ég ákvað að slá til. Ég sá þetta sem tækifæri til að nota fallegu háhæluðu skóna mína og nýja glitrandi úrið.

Við hittumst í lobbíinu klukkan 7 (ég passaði að koma aðeins of seint til að hann væri örugglega kominn á undan). Hann var kominn á undan. Þegar við löbbuðum út stakk hann upp á því að fara á flatböku-hrað veitingastað við suðurbakka árinnar. Ég brosti og sagði já endilega á meðan ég hugsaði: ertu ekki að grínast!

Jæja, við fórum á keðju pizzustað. Þegar við settumst stakk hann upp á því að panta vínflösku, ég sagði: ach æi uh mig langar eignilega í bjór. Honum fannst það í lagi. Samtalið yfir matnum var allt í lagi, ég naut þeirra forréttinda að vera frá Íslandi og geta sagt frá fullt af hlutum sem fólki finnst merkilegt um Ísland.

Eftir um tvo tíma vorum við búin að borða og drekka og hann borga. Þá færðum við okkur yfir á nálægan bar. Hann gekk beint að barnum og pantaði sér bjór. Síðan spurði hann barþjóninn hver lágmarksúttekt á korti væri. Næst spurði hann mig hvort það væri í lagi að hann borgaði minn bjór líka. Barþjónninn svaraði fyrir mig og sagði að það væri aldrei slæmt að borga drykk fyrir dömu. Svo ég fékk bjór (takk barþjónn!).

Einum bjór seinna ákváðum við að halda heim á leið (áður hafði komið fram að hann þyrfti að læra mikið daginn eftir). Þannig að við löbbuðum heim.

Fyrir framan mína ‘blokk’ spurði hann hvort hann mætti bjóða mér í drykk í vikunni. Ég muldraði eitthvað um að það væri rosa mikið að gera í vikunni. Svo kyssti hann mig á munninn og bauð góða nótt. Búið, endir. Hvað í andskotanum?

Ég hef ákveðið að hlusta á ráðleggingar vina minna í Vinum og dreg þá ályktun að bandarískir strákar segjast alltaf ætla að hringja þó að stefnumótið hafi verið slæmt.

Og ég var stressuð fyrir stefnumótið, til hvers!

Yfir og út

3 ummæli:

Unknown sagði...

Falleg saga. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef einbeitt mér að kvenfólki á gegnum tíðina, karlmenn eru fífl. Hér svolítið til að gleðja þig, ef þú hefur ekki þegar séð þetta. Þú getur látið sem þetta sé hann kani:

http://www.wulffmorgenthaler.com/albinowithcrayons/index.html

Svanhvít sagði...

Og hringdi hann?

Þura sagði...

Gunnlaugur: Thu ert nattla bara bestur!

(albinoinn er daldid of sick samt)

Svanhvit: ehm ja, frekar vandraedalegt allt saman