mánudagur, nóvember 15, 2004

Súkkulaðibrúnt hörund hans glansaði í daufri birtu eldhúsljóssins, fullkomið sköpunarlag hans hefur ekki sést í 7 heimsálfunum síðan fyrir stríð, sæt angan hans gleymist seint... hann var fullkominn.

Hann var fullkomnasta BettyCrocker (R) devil's cake sem nokkurntíman hefur verið bökuð!
Í síðustu viku beit ég það í mig að nú væri kominn tími til að ég bakaði mína fyrstu köku, það var hætt að vera gaman að vera eina 21. árs stelpan í heimi sem aldrei hefur bakað köku. Á fimmtudagurinn rann síðan upp bjartur og fagur vitandi að hann hafði orðið fyrir valinu sem "dagurinn sem Þura bakar". Ég fór í Bónus og keypti nauðsynlegt hráefni og um kvöldið hófst ég handa. Allt gekk stór-áfallalaust fyrir sig, ég náði tvisvar að bjarga fyrir horn þegar vandamál komu upp (svona borgar sig að vera í verkfræði, maður lærir að leysa hin ýmsu vandamál). Þegar kakan var komin úr ofninum leið mér eins og þar væri fætt barnið mitt. Kakan var skírð* Köchy (borið fram Köki) vegna þess að meðan hún var að kólna gat ég fátt annað gert en segja "Ég bakti köki" og brosa út að eyrum. Síðan fór í heimsókn til Svanhvítar og hún var búin að baka tvær sortir. En það er allt í lagi, maður ber sig ekkert saman við Svanhvíti í svona málum, þá gæti ég alveg eins keppt við Tiger Woods í golfi og verið fúl yfir að tapa.

Þegar ég var búin að borða allar sortirnar hennar Svanhvítar fór ég heim að smyrja Köka minn, þ.e. setja BettyCrocker (R) premium icing krem á kökuna. Ég komst að því að mér finnst ógeðslega gaman að setja krem á kökur, mig hafði reyndar alltaf grunað það en þarna fékk ég staðfestingu og setti fullkomið lag af kremi á Köka. Þegar það var komið var frasinn sem ég tönglaðist á "mamma hefurðu séð fullkomnari köku?", mamma sagði bara "jájá Þura mín, hún er ágæt."

Enn vantaði eitthvað, Köki var sko engin plane jane kaka, hann þurfti skraut. Mamma fann svona kökuskraut inní skáp og ég teiknaði með því skjaldarmerki háskólans á kökuna mína. Nú gat Köki ekki orðið fullkomnari.

Næsta dag fór ég með Köka í dæmatímann minn í aflfræði (þar sem eru aðeins 7 manns) ásamt mjólk og rjóma og bauð öllum uppá köku (þorði samt ekki að segja þeim að ég hefði skírt kökuna). Það voru allir svo hissa og ánægðir, svo hissa og ánægðir allir voru. Ég varð sjálf hissa á viðtökunum sem Köki fékk og allir þökkuðu oft og mörgum sinnum fyrir sig og hrósuðu Köka, og allir voru svo glaðir. Það er svo gaman að gleðja fólk. Þegar tíminn var búinn var Köki líka næstum búinn. Síðan batt ég enda á þjáningar hans.

Þetta var sönn saga. ENDIR


*Ekki á formlegan hátt eins og kanínan forðum daga.

Engin ummæli: