fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Lífið er ferðalag

Í dag var ég túristi í Reykjavík. Ég byrjaði daginn á ristaðri beyglu og kaffibolla eins og vera ber þegar maður er á ferðalagi. Síðan skellti ég mér í hvalaskoðun. Ég og hundarð og fimm útlendingar flutum saman um sundin og reyndum eins og við gátum að sjá sem flestar hrefnur og sem mest af hverri hrefnu. Sjórinn var standandi (í meiningunni syndandi) hrefnupartý og báturinn þurfti að nauðhemla nokkrum sinnum og taka ófáar krappar beygjur til að varast árekstur við þessi fallegu, spöku en jafnframt illa lyktandi dýr. Glöð get ég sagt frá því að þessi hvalaskoðunarferð lækkaði ekki hlutfallið mitt. Þá er ég að tala um hlutfallið hvalir per hvalaskoðunarferð. Hlutfallið tegundir per hvalskoðunarferð hrapaði hinsvegar niður úr öllu valdi, úr 4 í 1.

Myndina að neðan tók ég í síðustu hvalaskoðunarferð sem ég fór í, á Húsavík í fyrra. Ef vel er að gáð sést steypireið blása.


Eftir sjóferðina fór ég á kaffihús og hækkaði súrar umræður per kaffibolla hlutfallið mitt um sirka 0.7.

Sannlega var þetta góður dagur... hlutfallslega séð.

Þegar ég var að borga kaffið og sukk-meðlætið, því maður sukkar jú þegar maður er að leika túrista í Reykjavík, var mér á orði að mér liði eins og ferðlangi, því ég var ekki viljandi í túristaleik. Þá sagði kaffiafgreiðslukonan um leið "Lífið er ferðalag" og brosti vingjarnlega, en mér fannst hún líka glotta nett, kannski heyrði hún aðeins of mikið af umræðum dagsins. Það eina sem ég gat sagt var "já" áður en ég labbaði út og hló dátt.

Engin ummæli: