miðvikudagur, ágúst 17, 2005

[Óþarflega langur texti um sjónvarpsþætti sem sýnir glögglega að ég hef of mikinn tíma aflögu]
Eitt af því sem mér finnst frábært við sumarið er að á sumrin get ég fylgst með ýmsu sjónvarpsefni að vild. Á veturna gengur það eiginlega ekki vegna anna. Sem dæmi má nefna að á síðustu vorönn ætlaði ég þvílíkt að fylgjast með America´s Next Top Model en það gekk ekki betur en svo að ég sá fyrstu tvo þættina, einn þátt í miðjunni og seinustu tvo, plús "hvað eru þær að gera núna" þáttinn. Ætli það sé um 50% persónulegt áhorf, lélegt.

Í sumar er ég búin að vera gjörsamlega forfallinn LOST fíkill, nokkuð háð Desperate Housewives og meira að segja náði One Tree Hill að draga mig niður í hyldýpi sitt. Nota bene, ég er að horfa á Lost á hraða snigilsins (betur þekktur sem rúv) og er mjög ánægð með það fyrirkomulag.

[Desperate Housewives]
Fyrstu nokkrir þættirnir af uppgefnu eiginkonunum (eins og pabbi kýs að kalla þá þrátt fyrir mótmæli meira femínista-þenkjandi hluthafa) voru heví góðir, líka búnir að fá svona fína gagnrýni, en síðan hefur leiðin bara legið niður á við. Ég stóð í þeirri meiningu að þetta ættu að vera þættir í sama klassa og Friends, ER og Fraiser; GÓÐIR og ekki alltof fáránlegir, klisjukenndir eða fyrirsjáanlegir. Í staðin duttu þeir fljótlega niður um klassa, og núna flokka ég þá með One Tree Hill, the O.C. og Law and Order (Criminal Intent)* sem eru yndislega skemmtilegir afþreyingarþættir en ekki GÓÐIR. Hvernig getur þáttur verið góður þegar hann passar við svona lýsingu:

Heimili Bree er fullkomið en hún hittir samt reglulega góðvin sinn lyfjasalann sem virðist vera eitthvað sjúkur á geði vegna ástar sinnar á henni og gefur hjartveikum manni hennar, sem fékk hjartaáfall meðan hann stundaði S&M kynlíf með hverfishórunni, ekki réttar hjartveikitöflur. Sonurinn sem reykir of mikið hass keyrði á konu, mömmu Carlosar sem var að enda við að ná ljósmynd af Gabrielle og elskhuga hennar sem er 18 ára garðyrkjumaður þeirra hjóna en núna er Gabrielle ólétt eftir annan hvorn þeirra því Carlos sem er á leið í fangelsi fiktaði við pilluna hennar.... og svo framvegis.

[Lost]
Ég fíla Lost, það er bara ekkert flóknara, læt alltaf taka þá upp ef ég er ekki heima. Þættirnir eru öðruvísi en flestir þættir sem maður á að venjast (eða sem ég hef vanist). Það eina sem mér finnst leiðinlegt er að það skuli eiga að koma ný sería. Það væri svo kúl ef að þessi sería mundi enda almennilega (þ.e. fólkið komast af eyjunni eða deyja) og síðan bara búið. Alveg eins og það var bara gerð ein sería af My So Called Life, ein góð sería. Synd að það þurfi að blóðmjólka allar beljurnar. Með fleiri seríum er óhjákvæmilegt að söguþráðurinn þynnist og verði klisjukenndur og hugsanlegt að þættirnir hrapi um gæðaflokk.

[One Tree Hill]
Vá, bara vá! Ég náði bara að horfa á fjóra eða fimm þætti áður en serían kláraðist, en vá. Ástæðan fyrir því að ég datt inn í tree hill til að byrja með var einfaldlega sú að stelpurnar í vinnunni dýrkuðu þessa þætti og töluðu alltaf daginn eftir um hápunkta (já það eru margir hápunktar) hvers þáttar. Munið að ég var í unglingavinnunni í sumar, þessar stelpur eru 14 og 15 ára gamlar, semsagt mörgum árum yngri en ég. Ef ég mundi reyna að lýsa One Tree Hill eins og ég lýsti Aðþrengdu eiginkonunum yrði textinn líklega í sama stíl, nema bara þessir þættir eru ekkert að reyna að vera klassa ofar en þeir eru. Og hve vel þeim tekst að vera klisjukenndir, fáránlegir og fyrirsjáanlegir, I love it!

Þá er aðeins eitt eftir: I rest my case, ég meina case closed.

*Enn og aftur ítreka ég ást mína á Law and order: criminal intent

Engin ummæli: