mánudagur, ágúst 29, 2005

Þá er bjór-sumarsins-umræðunni lokið. Næst er það matur sumarsins.

Ég verð að hrósa sjálfri mér aðeins því matargerðarhæfleikar mínir jukust smávegis í sumar, þ.e. fóru úr mínus í soldið minni mínus. Ég er sjálfkjörin Master Of Grilled Bananas, því að ég grillaði nokkrum sinnum (fyrir mismunandi fólk) ljúffenga banana. Þeir sem halda því fram að það að grilla banana sé ekki nógu mikil matargerð til að teljast með eru asnar.

Nokkrum sinnum grillaði ég / steikti hamborgara sem ég var frekar ánægð með (svo ég telji örugglega upp alveg öll matar-afrek mín).

Grillað lambalæri er kreizí gott, sérstaklega þegar það er grillað á útigrilli í útilegu og borðað með stæl! Ómissandi í útileguna eru Gunnar´s kleinuhringir, maður fer ekki í útilegu án þess að kippa poka af Gunnar´s með. Kleinuhringirnir bragðast ekki verr þegar þeir eru komnir í mask eða hafa lent í aðeins of miklu sólbaði. Grænt pringles er alltaf viðeigandi; í útilegum, með bjór, með sjónvarpsglápi.

Já, þetta var það helsta.

Annars er það að frétta að skólinn byrjaði í dag. Mætti í tvö námskeið í morgun og leist bara fantavel á bæði. Ekki fannt iðnaðarverkfræðistelpunum Sjálfvirk stýrikerfi virka spennandi en mér fannst það vera frekar intressant, spyrjum að leikslokum.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Hugleiðingar

Mikill skortur hefur verið á bjór-umræðu á þessu bloggi í sumar. Aðallega vegna mikillar gagnrýni lesenda á bjór-umræðunni. Lesendum fannst bjór-umræðan ýmist leiðinleg eða skemmtileg, asnaleg eða hallærisleg, of mikil eða alltof mikil; svo ég ákvað að taka mark á lesendum og hætta / draga töluvert úr blaðri um bjór.

Núna, þremur mánuðum seinna, er kominn tími á smá bjór-come-back þar eð tími vísindaferða og annars ókeypis bjór er handan við hornið.

Þetta sumar hefur verið THULE sumar hjá mér að tvennu leyti; thule er búinn að vera uppáhaldsbjórinn minn í sumar og ég er ekkert búin að fara til útlanda í sumar þ.e. sitja sem fastast heima í sæmd minni. Ég er viss um að Gunnar á Hlíðarenda drakk síns-tíma-thule þegar hann sat heima í sæmd sinni. Tvær ástæður eru fyrir því að ég er búin að drekka mikinn thule; hann er góður og þegar maður hefur afrekað eitthvað og á skilið bjór þá getur maður sagt "þessi á skilið thule" og bent á sjálfan sig. Á þessu sést hve afskaplega vel auglýsingar virka á mig, enda finnst mér góðar auglýsingar vera mjög skemmtilegar.

Premium hefur verið annar vinsælasti bjórinn hjá mér í sumar. 7% sterkari en thule og bruggaður úr íslensku byggi, mjög góður bjór. Í auglýsingunni er þeim tilmælum beint til neytanda að drekka bjórinn hægar því það tæki lengri tíma að brugga hann heldur en annan bjór, ég er oft voða mikið í því að drekka bjór hratt og þetta er bara mjög góður bjór til að drekka hratt.

Aðrar bjórtegundir sumarsins 2005 eru Víking gylltur og Stella Artois, mjög góðir bjórar.

mánudagur, ágúst 22, 2005

In the town where I was born...

Ég var búin að plana að fara á standandi fyllerí á menningarnótt. Það lýsir sér þannig að ég mæti niður í bæ með tösku fulla af áfengi og drekk... á meðan ég stend og e.t.v. rölti um. Seinni hluti plansins gekk mjög vel þ.e.a.s. fylleríið, en ég svindlaði soldið á fyrri hlutanum með því að drekka töluvert sitjandi. En þá var ég líka á menningarviðburðum sem kröfðust þess að maður sæti. Svanhvít var með í þessu plani og tók hún því mjög vel, ölvun og ólæti voru niðri í bæ fram undir morgun.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Þegar það kom í fréttunum un daginn að bjórneysla Íslendinga hefði aukist síðustu ár þá voru foreldrar mínir snöggir að finna útskýringuna:

"Þura mín" sögðu þau "þetta gerðist eftir að ÞÚ fórst að láta til þín taka í bjórdrykkju."

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

[Óþarflega langur texti um sjónvarpsþætti sem sýnir glögglega að ég hef of mikinn tíma aflögu]
Eitt af því sem mér finnst frábært við sumarið er að á sumrin get ég fylgst með ýmsu sjónvarpsefni að vild. Á veturna gengur það eiginlega ekki vegna anna. Sem dæmi má nefna að á síðustu vorönn ætlaði ég þvílíkt að fylgjast með America´s Next Top Model en það gekk ekki betur en svo að ég sá fyrstu tvo þættina, einn þátt í miðjunni og seinustu tvo, plús "hvað eru þær að gera núna" þáttinn. Ætli það sé um 50% persónulegt áhorf, lélegt.

Í sumar er ég búin að vera gjörsamlega forfallinn LOST fíkill, nokkuð háð Desperate Housewives og meira að segja náði One Tree Hill að draga mig niður í hyldýpi sitt. Nota bene, ég er að horfa á Lost á hraða snigilsins (betur þekktur sem rúv) og er mjög ánægð með það fyrirkomulag.

[Desperate Housewives]
Fyrstu nokkrir þættirnir af uppgefnu eiginkonunum (eins og pabbi kýs að kalla þá þrátt fyrir mótmæli meira femínista-þenkjandi hluthafa) voru heví góðir, líka búnir að fá svona fína gagnrýni, en síðan hefur leiðin bara legið niður á við. Ég stóð í þeirri meiningu að þetta ættu að vera þættir í sama klassa og Friends, ER og Fraiser; GÓÐIR og ekki alltof fáránlegir, klisjukenndir eða fyrirsjáanlegir. Í staðin duttu þeir fljótlega niður um klassa, og núna flokka ég þá með One Tree Hill, the O.C. og Law and Order (Criminal Intent)* sem eru yndislega skemmtilegir afþreyingarþættir en ekki GÓÐIR. Hvernig getur þáttur verið góður þegar hann passar við svona lýsingu:

Heimili Bree er fullkomið en hún hittir samt reglulega góðvin sinn lyfjasalann sem virðist vera eitthvað sjúkur á geði vegna ástar sinnar á henni og gefur hjartveikum manni hennar, sem fékk hjartaáfall meðan hann stundaði S&M kynlíf með hverfishórunni, ekki réttar hjartveikitöflur. Sonurinn sem reykir of mikið hass keyrði á konu, mömmu Carlosar sem var að enda við að ná ljósmynd af Gabrielle og elskhuga hennar sem er 18 ára garðyrkjumaður þeirra hjóna en núna er Gabrielle ólétt eftir annan hvorn þeirra því Carlos sem er á leið í fangelsi fiktaði við pilluna hennar.... og svo framvegis.

[Lost]
Ég fíla Lost, það er bara ekkert flóknara, læt alltaf taka þá upp ef ég er ekki heima. Þættirnir eru öðruvísi en flestir þættir sem maður á að venjast (eða sem ég hef vanist). Það eina sem mér finnst leiðinlegt er að það skuli eiga að koma ný sería. Það væri svo kúl ef að þessi sería mundi enda almennilega (þ.e. fólkið komast af eyjunni eða deyja) og síðan bara búið. Alveg eins og það var bara gerð ein sería af My So Called Life, ein góð sería. Synd að það þurfi að blóðmjólka allar beljurnar. Með fleiri seríum er óhjákvæmilegt að söguþráðurinn þynnist og verði klisjukenndur og hugsanlegt að þættirnir hrapi um gæðaflokk.

[One Tree Hill]
Vá, bara vá! Ég náði bara að horfa á fjóra eða fimm þætti áður en serían kláraðist, en vá. Ástæðan fyrir því að ég datt inn í tree hill til að byrja með var einfaldlega sú að stelpurnar í vinnunni dýrkuðu þessa þætti og töluðu alltaf daginn eftir um hápunkta (já það eru margir hápunktar) hvers þáttar. Munið að ég var í unglingavinnunni í sumar, þessar stelpur eru 14 og 15 ára gamlar, semsagt mörgum árum yngri en ég. Ef ég mundi reyna að lýsa One Tree Hill eins og ég lýsti Aðþrengdu eiginkonunum yrði textinn líklega í sama stíl, nema bara þessir þættir eru ekkert að reyna að vera klassa ofar en þeir eru. Og hve vel þeim tekst að vera klisjukenndir, fáránlegir og fyrirsjáanlegir, I love it!

Þá er aðeins eitt eftir: I rest my case, ég meina case closed.

*Enn og aftur ítreka ég ást mína á Law and order: criminal intent

sunnudagur, ágúst 14, 2005

...og þegar ég ætlaði að keyra heim var rigning og bífluga/býfluga föst í rúðuþurrkunni.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Lífið er ferðalag

Í dag var ég túristi í Reykjavík. Ég byrjaði daginn á ristaðri beyglu og kaffibolla eins og vera ber þegar maður er á ferðalagi. Síðan skellti ég mér í hvalaskoðun. Ég og hundarð og fimm útlendingar flutum saman um sundin og reyndum eins og við gátum að sjá sem flestar hrefnur og sem mest af hverri hrefnu. Sjórinn var standandi (í meiningunni syndandi) hrefnupartý og báturinn þurfti að nauðhemla nokkrum sinnum og taka ófáar krappar beygjur til að varast árekstur við þessi fallegu, spöku en jafnframt illa lyktandi dýr. Glöð get ég sagt frá því að þessi hvalaskoðunarferð lækkaði ekki hlutfallið mitt. Þá er ég að tala um hlutfallið hvalir per hvalaskoðunarferð. Hlutfallið tegundir per hvalskoðunarferð hrapaði hinsvegar niður úr öllu valdi, úr 4 í 1.

Myndina að neðan tók ég í síðustu hvalaskoðunarferð sem ég fór í, á Húsavík í fyrra. Ef vel er að gáð sést steypireið blása.


Eftir sjóferðina fór ég á kaffihús og hækkaði súrar umræður per kaffibolla hlutfallið mitt um sirka 0.7.

Sannlega var þetta góður dagur... hlutfallslega séð.

Þegar ég var að borga kaffið og sukk-meðlætið, því maður sukkar jú þegar maður er að leika túrista í Reykjavík, var mér á orði að mér liði eins og ferðlangi, því ég var ekki viljandi í túristaleik. Þá sagði kaffiafgreiðslukonan um leið "Lífið er ferðalag" og brosti vingjarnlega, en mér fannst hún líka glotta nett, kannski heyrði hún aðeins of mikið af umræðum dagsins. Það eina sem ég gat sagt var "já" áður en ég labbaði út og hló dátt.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Fimmti ágúst, fimmti ágúst, fimmti ágúst beibí, fimmti ágúst jú bet! Fimmti ágúst er dagurinn, fimmti ágúst!!!!

Þetta er ég búin að heyra og segja við aðra alveg síðan í júní. 5. ágúst var í gær og ég varð hreint ekki fyrir vonbrigðum.

[Athugið, þetta blogg fjallaði aðallega um bjór]

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Mikilvægustu vökvar lífsins (í þessari röð):

Bjór
Bensín
Sterkt áfengi

Helgin var heví góð eins og sést á listanum að ofan :)

Góðir hlutir á föstu formi:

Kýr
Fjós
Sól
Gott fólk

Ekki má gleyma því sem er á gasformi, alveg eðal lofttegundir:

Drykkja
Sólbað
Hangs

Tveir seinni listarnir eru til að rökstyðja enn frekar gæði helgarinnar.