laugardagur, febrúar 28, 2009

Helgar

Ég fíla laugardaga og sunnudaga. Ekki af því að þeir dagar séu svo ólíkir hinum dögum vikunnar í núverandi atvinnuleysi. Ástæðan er sú að um helgar þarf ég ekki að kvelja sjálfa mig með því að kíkja stöðugt á póstinn til að gá hvort ég hafi fengið viðtalsboðun eða neitun. Reyndar hef ég fengið Email með neitunum á helgardegi. Þegar svoleiðis póstur kemur t.d. kl. 06.13 á sunnudagsmorgni þá er nokkuð ljóst að þar er sjálfkrafa svar á ferðinni, og það fær mig til að efast um að nokkur hafi einu sinni haft fyrir því að lesa umsókn mína til viðkomandi fyrirtækis yfir. Frekar niðurdrepandi.

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Öskudagur

Úff ég var búin að skrifa dáldið langt blogg tileinkað pælinum um hvernig Gossip girl úr samnefndum sjónvarpsþætti frétti hluti sem gerast inni á heimilum fólks þegar engir gestir eru. Þegar ég leit yfir textann gerði ég mér grein fyrir að þessar pælingar væru hreinlega of fáránlegar til að birta, og ég hefði greinilega of mikinn tíma til að pæla, svo ég strokaði textann út.

Heilasellur óskast, gefins eða keyptar ódýrt. Þurfa ekki að vera í mjög góðu ásigkomulagi.

Yfir og

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Bolla bolla

Ég ákvað í fyrsta sinn á ævinni í gær að baka bolludagsbollur. Þegar ég var yngri bökuðum við mamma venjulega gerdeigsbollur, en höfum ekki gert það í 10+ ár held ég. Í ár ákvað ég að prufa að baka vatnsdeigsbollur svo ég fann einhverja mjög svo dúbíus uppskrift á netinu skellti mér í Sainsburys að kaupa efni og hafðist handa. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig degið ætti að líta út, en ég bjó til kúlur úr einhverju sem líktist degi og setti inn í ofn. Þó ég segi sjálf frá komu út þessar fínu bollur, sem ég bætti svo á rjóma og súkkulaði:
Í dag, sprengidagur! Veit ekki alveg hvernig ég á að mixa það...

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Stutt stopp

Ég og Diogo stoppuðum stutt á klakanum um helgina. Dagskráin var pökkuð frá morgni til kvölds allan tímann. Helst má nefna heimsóknir, bjórhittinga, út að borða, guitarhero, vöfflur og kakó á Mokka og bankastúss. Allt saman mjög skemmtilegt (nema bankastússið).

Ég átti erindi á skrifstofu Menntaskólans við Hamrahlíð og ég nýtti tækifærið til að útskýra fyrir Diogo sæta-menningu MH og sýna honum hvar ég sat. Ég verð að segja að ég hafði ferlega gaman af því að koma aftur í MH, það sem ég tók helst eftir var að MH-ingar litu alveg eins út og á mínum tíma, nema bara 6 - 10 árum yngri (sjitt það eru 10 ár síðan ég byrjaði í MH).

Núna er ég aftur komin til London að rembast eins og rjúpa við staur að sækja um vinnur. Þetta er ekki alslæmt. Það er t.d. jákvætt að í dag er miðvikudagur, þá eldum við mat sem má borða fyrir framan sjónvarpið (eða ég elda reyndar ekki). Í dag er ég búin að panta quesadillas með kjúklingi. Og jibbíkóla.

EeeeeeeeeeeeeeeemmmmHÁ

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Um partý

Ég og Diogo fórum í partý hjá Frökkum í gær. Ég þekkti nánast engann, og nánast allir voru franskir. Þessi tvö mengi voru ekki jafngild, þ.e. það voru Frakkar sem ég þekkti, eða einn.

Ég lærði t.d. á þessu partý að innkomulínan "Jei það eru ekki ALLIR franskir hérna!" er ekki æskileg/vinsæl þegar maður mætir í franskt partý.* Ég er að reyna að vinna í innkomulínunum mínum, markmiðið er að finna línu sem er eins svöl og "Here we are now, entertain us" sem ég hef fyrir satt að Kurt Cobain hafi notað grimmt áður en lagið varð frægt. Ég geri mér grein fyrir því að ég verð aldrei eins svöl og Kurt, ég á líklega meiri líkur á því að vera svöl eins og appelsínusafi, en planið er að miða hátt og njóta áhrifa yfirskots.

Eftir því sem leið á partýið mættu fleiri gestir. Ég tók eftir því að allir nýmættir heilsuðu öllum sem fyrir voru með kossi á sitthvora kinnina. Það fékk mig til að hugsa um samsvarandi partý á Íslandi. Það sem ég er vön úr íslenskum partýum er að nýkomið fólk lætur vanalega duga að segja "" yfir heilan hóp af fólki í stað þess að heilsa hverjum og einum. Þegar ég minntist á þetta við Diogo benti hann mér á að við værum í continental-Evrópu partýi, og að hér væri fólk kurteiskt. Ég velti því fyrir mér hvað annað öðruvísi gerðist í continental-Evrópu partýi, en sú pæling komst ekki langt. Í íbúðinni hjá Svanhvíti í Chile var sama vinalega venja viðhöfð að nýkomnir heilsuðu öllum með kossi, nema í þeirri aðstöðu þá töluðu allir spænsku nema ég og það eina sem ég gat sagt var niðurbælt "Hola". Svanhvít talaði um heilsast-með-kossi fyrirbærið neðst í þessari færslu, ég held ég þurfi aðeins að melta þetta betur. Held ég hafi lokaorðin svo hljóðandi: Á meðan ég bý á eyju þá er "hæ" fínt.

* Því þá töluðu fleiri tala ensku í partýinu, ekki því Frakkar eru leiðinlegir meinti ég sko.

laugardagur, febrúar 07, 2009

Ég passa mig...

Hér í Bretlandi eru stöðugt auglýsingaherferðir í gangi til að vara mann við hinu og þessu, eins og að spenna bílbeltin og taka ekki kókaín. Eftirfarandi eru mínar "uppáhalds" (Athugið, ekki fyrir viðkvæma):

Pablo the drug mule dog, er krúttlegur hundur sem er notaður til að flytja inn kókaín. Eftir að maginn á honum er skorinn upp af smyglaranum fræðir Pablo áhorfendur um hversu hættulegt efnið er. Þetta er sería af auglýsingum hver annari... grafískari, linkar á youtube.

Ég get get ekki horft á auglýsinguna um ólögleg lyf aftur, mér finnst hún viðbjóðsleg. En tilgangurinn með auglýsingunni er að minna fólk rækilega á þær hættur sem fylgja því að kaupa ólögleg lyf á netinu.

Í þessari auglýsingu lýsir róleg kvennmansrödd nákvæmlega því sem drepur Richard, sem var svo óheppinn að lenda í áreksti án þess að vera með bílbelti, jafnframt því að maður fær að sjá allt.

Ef að ég hef lært eitthvað á því að horfa á auglýsingar, þá er það að nánast allt er hættulegt og stóri bróðir er að fylgjast með.

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Síðan síðast

Ég hef ekki fundið fyrir mikilli hvatningu frá sjálfri mér undanfarið til að blogga. Tíðindaleysi hversdagsleikans er yfirgnæfandi, allt að því óbærilegt.

Dagarnir hjá mér fara í það að drekka kaffi, sækja um vinnur, undirbúa atvinnuviðtöl, endurhlaða gmail hundrað þúsund sinnum á hverjum degi, fara í Sainsburys, fara í bæinn og svo framvegis. Ekki mikið bloggefni þar á ferð, upplýsingar eins og "úh, í dag drakk ég TVO bolla af kaffi" eru að mínu mati ekki mjög áhugaverðar.

Ég byrjaði árið í Portúgal. Við Diogo keyrðum frá Portó til Lisbon*, sem er 300km spotti, og vorum yfir helgi í Lisbon í túristaleik. Við fórum til Sintra (sem er bær rétt hjá Lisbon sem var leikvöllur ríka fólksins í gamla daga) og skoðuðum konungshöll sem var uppá hæð, og hús sem var umkringt leynigarði. Allsstaðar þar sem við komum borðuðum við nýtt delicatessen, sem er einkennandi fyrir hvern bæ/hverfi/bensínstöð, og það var allt fáránlega gott.

Yfir og út, út og suður, frá snjóskrímslinu London 2009

*Ég veit ekki hvernig maður segir Lisbon á íslensku og google vill ekki hjálpa mér