Hér kemur alsönn saga af félagslegu sjálfsmorði sem ég framdi á dögunum. Mikið ritskoðuð þó.
Í lok nóvember kom að máli við mig kona. Erindi hennar kom mér nokkuð á óvart. Hún bað mig um að vera með skemmtiatriði á árshátíð verkfræðingafélagsins í febrúar. Reyndar ekki atriði eitthvað að eigin vali heldur ákveðið atriði sem ég hafði flutt í vinnunni stuttu áður. Ég fór eiginlega bara að hlæja, ég með skemmtiatriði, hefur heimurinn snúist á hvolf. Í nóvember virtist febrúar afar fjarlægur og ég hugsaði með mér að ég hefði nægan tíma til að redda þessu þannig að skynsama rökrétta stelpan ég sagði já. Þar með var ég bókuð, sjá dagskrá.
Tíminn frá lok nóvember til byrjun febrúar þaut framhjá eins vetnisstrætisvagn að reyna að halda áætlun. 1. febrúar var ég vægast sagt orðin stressuð, árshátíðin skammt undan og mér fannst ég bara ekki vera neitt skemmtileg. Ég æfði samt rulluna mína, staðráðin í að mæta og standa eða falla með eigin frammistöðu. Mörgum vikum áður var ég búin að ákveða í hverju ég ætlaði að vera (jei allavega eitt atriði á hreinu). Markmiðið var að líta út eins og leikkona frá fimmta áratugnum, sem betur fer er ég ein til frásagnar um hvernig það tókst til.
Ég og Guðrún Helga (takk fyrir að koma) mættum á árshátíðina eins seint og við þorðum. Þegar við gengum inn í súlnasalinn tókum við eftir því að við pössuðum ekkert svakalega vel inn í þennan hóp af +40 ára, uppáklæddu, stífu fólki. Ég var með hjartað í buxunum, hvernig átti þetta fólk að skilja mig þegar mitt eigið fólk skilur mig vanalega ekki. Ég var dáldið stressuð.
Við áttum sæti við svokallað háborð, settumst á endann og fylgdumst með öllum hinum segja "gleðilega hátíð" í gríð og erg, því árshátíðin var jú hátíð. Þegar ég fór að líta í kringum mig og spotta frægt fólk þá magnaðist stressið. Þetta voru svo óeðlilegar aðstæður. Það var ég sem átti að sitja og drekka og hlusta á annað fólk gera sig að fífli en ekki öfugt... eins og nú var raunin.
Forréttur var borinn fram og nokkur leiðinleg stíf atriði í dagskránni fóru fram, til dæmis heiðursveitingar (þar sem verkfræðingar eru heiðraðir fyrir vel unnin störf) og fjöldasöngur (þar sem var lífsins ómögulegt að fylgja með). Svo kom að mínum parti.
Ég hafði hitt veislustjórann fyrr um daginn og hann hafði þá fullvissað mig um að hann myndi kynna mig með því að spjalla létt um atriðið og grínast smá. Ég var því viss um að hann myndi létta brúnina á áhorfendum. Þegar að mér var komið fór veislustjórinn upp í púltið, setti á sig lesgleraugun og ræskti sig. Því næst sagði hann að næst væri komið að skemmtiatriðinu “Verkfræðingar og tíska” flutt af Þuríði Helgadóttur.
Ef ég var ekki nógu stressuð fyrir þá fékk ég við þetta algjört sjokk, var þetta létta og skemmtilega intro-ið mitt!!! Ekkert annað var í stöðunni heldur en að arka upp á svið og ljúka þessu af. Ég fór upp á svið, náði mér í hljóðnema og tók óþægilega mikið eftir dauðaþögninni sem ríkti í salnum. Sem betur fer kunni ég atriðið aftur á bak og áfram (ákvað þó að flytja það áfram) og áður en ég vissi af var fólk farið að klappa og ég gat farið niður af sviðinu.
Þegar ég settist aftur í sætið kom sjokk númer tvö, hló einhver? Mér fannst eins og heyra mætti saumnál detta meðan ég var þarna uppi. Þeir sem sátu með mér á borði gerðu sitt besta að fullvissa sig um að ég hefði komist upp með þetta og að það hefði ekki verið möguleiki á að heyra saumnál detta.
Ah, ég hallaði mér aftur á bak og þáði meira vín. Ég hafði staðist manndómsvígsluna, ég stóð upprétt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli