Um daginn kom í vinnuna Jón Gnarr grínisti. Hann kom í hádegishléinu til að lesa upp úr nýju bókinni sinni, Indjáninn. Ég missti mig ekkert svo mikið þegar ég frétti að hann væri að koma, ég meina hei það er ekki eins og Þorsteinn Guðmundsson (líka grínari) hafi verið á leiðinni. Ég ákvað samt sem áður að prenta út blað með mynd af Jóni með hjálm og fá hann til að árita það (ef ég þyrði).
Nú leið og beið, loksins kom hádegið. Jón Gnarr mætti, sjálfur og í eigin persónu, og las fyrir okkur. Síðan þáði hann boð um að fá sér hádegismat. Ég sniglaðist um í nokkrar mínútur áður en ég lét til skarar skríða og gekk upp að borðinu sem hann sat við (umkringdur kvenfólki). Ég baðst afsökunar á trufluninni en spurði svo hvort hann vildi vera svo góður að kvitta fyrir komu sína á blað sem hengja ætti upp á "wall-of-fame". Hann, greinilega vanur svona áreiti, kippti sér ekkert upp við truflunina.
Eftir að áritunin var fengin hafði ég ekki vit á að hundskast í burtu, heldur staldraði ég við og lýsti fyrir honum barnslegri aðdáun minni á Þorsteini Guðmundssyni og bað hann sérstaklega um að benda honum á að líta við á AV ef hann rækist á hann. Sallarólegur spurði Jón mig hvort ég hefði haft samband við hann sjálfan, ég játti því og sagðist ekki hafa fengið svar. Þá afsakaði hann Þorstein með því að hann væri mjög upptekinn maður þessa stundina.
Allt í einu áttaði ég mig á því að ég hefði strax byrjað að tala um ÞG og ekkert minnst á Jóns bók, þá flýtti ég mér að segja "... og já, fín þarna... bókin þín." Því næst hraðaði ég mér í burtu.
Seinna um daginn arkaði formaður starfsmannafélagsins inn í Partýherbergið þungur á brún og bað mig vinsamlegast um að áreita ekki í framtíðinni frægt fólk sem kæmi á verkfræðistofuna. Það væri slæmt fyrir orðsporið (?).
Núna er ég með blað upp á vegg með mynd af Jóni Gnarr með (næstum) bleikan hjálm og persónulegri eiginhandaráritun mannsins. (Við hliðina á myndum af ákveðinni mynd í fjölriti)
Þetta gerðist á mánudaginn, og er ennþá í efsta sæti yfir "tryllt vikunnar", það væri samt heldur slöpp vika sem endaði með þessa sögu sem sigurvegara...
þriðjudagur, desember 19, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég var nú soldið svekktur yfir að þú skildir guggna á að biðja Gnarrinn um lesa upp úr ljóðabók Þorsteins Guðmundssonar :)
Hummm já, þá hefði titillinn verið vandraedalegt.com ... ;)
Skrifa ummæli