þriðjudagur, janúar 13, 2004

Þriðjudagur og heil skólavika liðin sem þýðir auðvitað að maður á að stinga sér umhugsunarlaust út í hina djúpu laug eðlisfræði og stærðfræðigreiningar. Ég bara nenni því ekki, það eina sem ég er búin að læra er kafli 1 í tölvuteikiningu og það var bara af því að Dagný dró mig upp á bókasafn á síðasta fimmtudag.

Helgin var þéttskipuð dagskrá. Á laugardaginn átti Svanhvít afmæli og ég mætti í veislu til hennar. Þegar komið var fram yfir miðnætti fórum við á Kaffi Vín og fengum okkur meter af bjór, en þann meter hefur Svanhvít ekki hætt að tala um í margar vikur. Eins og máltækið segir; meter af bjór er betri en meter af útlenskum ávöxtum. Ég hafði ákveðið á föstudeginum að mæta í spinning klukkan 11 á laugardagsmorgni, þó maður eigi ekki að keyra ennþá fullur eftir 5 tíma svefn mætti ég samt og sá ekki eftir því. Seinna um daginn mætti ég og dansaði herra á salsa námskeiði hjá kod sem var þreytandi því mig var farið að langa í nætursvefninn minn. Um kvöldið lofaði ég að fara á skrall með Svövu Dóru, fyrst svaf ég þó í 2 tíma og langaði minnst af öllu að fara út. Við byrjuðum á því að fara á sykurfyllerí á Kaffi París, ameríska súkkulaðikakan sem var með nógu miklum rjóma var einmitt það sem ég þurfti til að komast í stuð. Þá fórum við á Nasa með Stebba, Jónatani, Ardísi unnustu hans og Hlyni vini Tanna. Brimkló var að spila og það voru ekkert margir á svæðinu og skítkalt inni. Ég ákvað að dansa mér til hita, það virkaði feitt og næstu 3 tímana dansaði ég eins og mér væri borgað fyrir það (ekki eins og fatafella samt). Það var brjálað gaman. Það var líka fyndið að sjá fullt af fullu fólki faðma Ardísi og fá hjá henni eiginhandaráritun, en svona er að vera frægur á Íslandi. Þegar ballið var búið og við stóðum fyrir utan þá sagði Ardís í gríni "Við fáum bara far með Bjögga!" og meinti Bó Halldórs, saklaust grín eða vottur af stjörnustælum? Ég held að þetta hafi verið að mestu grín. Á mánudagskvöldið var frábært danskvöld, það vantaði í fyrsta sinn í margar vikur ekki stráka.

Ég sá Orra í skólanum um daginn og frétti að hann væri byrjaður í R&T, ég hef líka séð nokkra mh-inga í viðbót sem ég sá ekki fyrir áramót, gott mál.

Punkturinn yfir i-ið
Í dag fór ég í tölvuna uppi í skóla að gá hvort fleiri einkunnir væru komnar, fólk í kringum mig sagði að Stærðfræðigreiningin væri komin svo ég kíkti aftur á Emailið mitt en það var engin einkunn komin. Þá fór ég á skrifstofuna og talaði við einhverja konu. Hún fór og fletti upp í stórri möppu, eftir smá tíma sagði hún "Þuríður Helgadóttir? Þetta er ekkert til að skammast sín fyrir svo ég ætla að lesa einkunnina þína upphátt, þú fékkst 9." Ég fékk í magann og öskraði næstum upp yfir mig inná skrifstofu. Ég trúi þessu varla ennþá, ég fékk 9 í stærðfræðigreiningu, mér finnst líka ennþá erfiðara að trúa þessu af því að konan sagði mér þetta, ég fékk ekki að lesa þetta sjálf svart á hvítu.

Engin ummæli: