sunnudagur, mars 22, 2009

Vampírur

Þessa dagana flæða út um alla borg veggspjöld sem auglýsa myndina LesbianVampireKillers (ég held hún hafi verið frumsýnd um helgina, en ég er ekki viss því það er ekki textinn sem grípur augað á þessum veggspjöldum). Að sjá þessa mynd auglýsta minnir mig á kvikmyndaumræður menntaskólaáranna, ég man ekki betur en að sú almenna skoðun hafi verið ríkandi að þrír eiginleikar gerðu kvikmynd góða, og gæði myndar fóru eftir hversu margir af þremur eiginleikum voru til staðar. Eiginleikarnir voru: einnar-línu-kúl-setningar (1), stelpa-á-stelpu aksjón (2) og vampírur (3).

Með tilkomu áðurnefndrar myndar sýnist mér vera komin kvikmynd sem sameinar alla þrjá eiginleika góðrar myndar. Ég hef ákveðið að ég vil trúa því í blindni að myndin sé frábær vegna áðurnefndra atriða, og ætla því ekki að fara að sjá hana.

(1) one liners
(2) girl on girl action
(3) vampires

föstudagur, mars 20, 2009

Vorið hálf komið stundum

Suma daga virðist vorið vera komið í London, aðra daga ekki. Á miðvikudaginn borðaði ég hádegismat í garðinum í stuttermabol. Í gær var ég í ullarpeysu og ullarkápu og var samt kalt. Rakinn innan á gluggunum í íbúðinni er samt að minnka, sem er gott. Í vetur þurfti ég á hverjum morgni að þurrka gluggana að innan með tusku.

Um daginn fór ég í dýrustu og verstu klippingu sem ég hef farið í á ævinni! Ég varð að fara, hausinn á mér leit út eins og rass á íkorna, og það gefur ekki af sér góðan þokka í atvinnuviðtölum. Í klippingunni reyndi ég að útskýra nákvæmlega hvað ég vildi, og konan virtist skilja í byrjun. En svo þegar hún var hálfnuð að klippa mig þurrkaði hún á mér hárið og klippti rest með einhverri furðulegri tækni. Ég stoppaði hana og útskýrði aftur hvað ég vildi, og á meðan hárið var skringilega púff-blásið virtist það vera í lagi. En dagsdaglega púff-blæs ég ekki á mér hárið heldur blæs það venjulega og þá koma seventies bylgjurnar auðveldlega fram.

laugardagur, mars 07, 2009

Ostakaka

Ljóskan í Big Bang Theory vinnur á Cheesecake factory, og alltaf þegar atriði eiga sér stað í vinnunni hjá henni þá segir Diogo "Oh cheesecake...!". Fyrir nokkrum vikum tók ég hintinu og hófst handa við operation cheesecake, sem fór fram sem hér segir:

1. Finna auðvelda uppskrift að ostaköku - mér fannst auðveldara að finna uppskrift á íslensku og spurja svo mér vitrari vini ráða.
2. Finna út hvað efnin í uppskriftinni heita á ensku til að vera viss um að ég keypti enga vitleysu - aftur komu mér vitrari vinir til hjálpar
3. Kaupa innihald og form. Þegar ég kom í búðina fattaði ég að ég vissi ekkert hvernig ostakökuform ætti að líta út (já ég er það græn þegar kemur að eldhússtörfum) að ég setti Diogo í það verkefni.
4. Búa til ostaköku - þetta var auðveldasta skrefið þegar öll vandamál í 1. - 3. verkþætti höfðu verið leyst.

Hér má sjá afraksturinn, ta ta !

sunnudagur, mars 01, 2009

Barcelona

Ef allt hefði farið eftir plani þá ætti ég að vera í þessum töluðu orðum að fljúga frá Barcelona til London. Það fór ekki eftir plani. Barcelona ferð var frestað. Í staðin fórum ég og Diogo á Vicky Christina Barcelona. Eftirá komumst við að því að kannski var þetta betri atburðarás.