Eins og þeir birtust í árshátíðarblaði AV í Róm og Óli sést vera að lesa í árshátíðarbloggi.Til glöggvunar: Óli er yfirmaður minn og Steinar verkfræðingur á vélasviði.Þögul stundÉg er nú einu sinni þannig gerð að mér finnst gaman að spjalla og ræða málin. Þegar ég fæ mér kaffi og ég rekst á einhvern í kaffistofunni þá kemur það oftar en ekki fyrir að ég spjalla. Segi kannski eitthvað um veðrið eða spyr hvernig best sé að raða handklæðum í ferðatösku. Fer eftir því hvern ég rekst á.
Fljótlega eftir að ég byrjaði á lagnasviði varð mér ljóst að þar tíðkast ekki að tala mikið. Samskiptin fara fram á einhvern annan hátt. Samskiptum innan sviðsins er kannski best lýst með eftirfarandi dæmi.
Ég fer til Steinars Ríkharðs að sýna honum teikningu sem ég er að vinna í. Ég rölti úr partýherberginu yfir í vélaskemmuna, slengi teikningunni á borðið hjá honum. Hendi þar með nokkrum að þeim 17 kaffibollum sem eru vanalega á borðinu hjá honum á gólfið. Síðan rétti ég honum rauðan penna og byrja að tala „Hæ, hvað segirðu?” Ég stend á gati yfir fjöldamörgum atriðum og er mikið niðri fyrir „Heyrðu, ég skildi ekki alveg ....!” „Hvernig var með....? Steinar horfir sallarólegur á teikninguna, strýkur skeggið, ræskir sig, en segir ekki orð.
Ég bíð, dreg andann inn og út til skiptis, horfi á teikninguna og hann til skiptis. Hann bendir á nokkur atriði á teikningunni með pennanum, án þess þó að krota nokkuð inn á. Hann ræskir sig aftur, fiktar í skegginu, skiptir um stellingu í sætinu. Að nokkrum tíma liðnum lítur hann út fyrir að hann sé að gera sig líklegan til að tala, ég bíð með andann á lofti. Hann lætur mig bíða aðeins lengur, síðan segir hann „Tjaaaaa.” Síðan röltum við inn á skrifstofu Ólafs til að fá ráðleggingar.
Óli tekur við teikningunni. Hann situr við skrifborðið sitt með skrúfblýant í annarri hendinni, með hinni hendinni strýkur hann skeggið. Steinar stendur við hliðina á honum og strýkur sitt skegg. Inni á skrifstofunni er hljótt. Það eina sem heyrist er örlítið skrjáf í pappír og hljóðið sem myndast þegar tveir menn strjúka á sér skeggið hvor í kapp við annan. Mér líður hálfkjánalega að hafa ekki skegg að strjúka. Inn á milli ræskja þeir sig til skiptis eða í takt.
Ég, sem vanalega get ekki þagað í 3 mínútur samfellt, veit ekki hvernig ég á að vera. Ég er bókstaflega að springa. Mig langar að ræða um vandamálið, spyrja hvernig hægt sé að leysa það, fá einhver viðbrögð við því sem ég var að gera. Hvað sem er nema óbærilega þögnina.
Ég sit þó á strák mínum. Klukkan á veggnum tifar, mínúturnar sem virðast þó vera klukkustundir, líða ein af annarri. Ætli tíminn fyrir utan þjóti framhjá? Er skrifstofan hans Óla kannski inni í tímahylki þar sem tíminn stendur kyrr?
Ég anda rólega, tel upp á 10, virði fyrir mér Esjuna. Kannski eru þeir að leysa ráðgátuna um tilgang lífsins. Ég lít á Steinar, hann strýkur á sér skeggið. Ég lít á Óla, hann muldrar eitthvað og strýkur á sér skeggið. Ég lít á teikninguna. Ég spring á limminu og út úr mér gusast:
Óli, svakalega er kennitalan þín falleg !!!