fimmtudagur, apríl 26, 2007

Veiðilokkar

Ég fékk enn eina afmælisgjöf í gær. Hún var svo fín að hún verðskuldar sér bloggfærslu.

Seinnipartinn í gær var ég kölluð niður á 3. hæð þar sem umhverfissvið Almennu verkfræðistofunnar er staðsett. Þar voru 2 jarðfræðingar og 1 landfræðingur staddir með bros á vör (hinir voru fjarverandi). Þeir gáfu mér stoltir eyrnalokka sem þeir höfðu búið til sjálfir. Efniviðurinn var eftirfarandi:

-Glingur sem þeir fundu úti á götu (umhverfisvæn endurvinnsla að hætti umhverfissviðs)
-Rauðir önglar
-Glærar öng-hlífar (því önglarnir voru svo beittir)
-Eyrnalokkahengjur
-
Þeir útskýrðu fyrir mér að þar sem ég væri "kona einsömul" þá kæmu þessir "veiðilokkar" mér vel. En dagsdaglega skildi ég hafa hlífar á önglunum til að vera sjálfri mér eða öðrum ekki skæð.
Síðan fóru þeir að tala um kvóta, möskvastærð, sóknardaga o.s.frv.
Hér er ég með eyrnalokkana, áhugasöm að hlusta á sköpunarsögu þeirra:Hér sést betur hönnun á lokkunum. Það glansar á öng-hlífarnar og takið eftir því hvað öngullinn er tilvalinn til veiða:
Ég er í skýjunum yfir þessari flottu gjöf. Vil ég koma á framfæri mínum bestu þökkum til umhverfissviðs AV. Takk !

mánudagur, apríl 23, 2007

Til þeirra sem málið varðar og annarra

Ég átti afmæli á föstudaginn, og fékk ég eftirfarandi afmælisgjafir (í engri sérstakri röð):

-sérsamda vísu
-dansandi banana (sjá hjá Elínu)
-6 bjóra; 4 stóra og 2 litla, innpakkaða af alúð
-eiginhandaráritað plakat
-2 kexkökur
-tónleika ("ég mundi bjóða þér ef það væri ekki ókeypis inn")
-rúnt um þrjú nágrannasveitarfélög Reykjavíkur
-ljósbláa bók um stærðfræði
-afmælissönginn sunginn á þýsku og sporð með
-loforð um út að borða á þrítugsafmælinu mínu

Þetta síðasta var reyndar ferðataska.

Og ég sem bað um "helst ekki neitt." Tryllt!

Takk fyrir mig :)

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Bakþankar Þuríðar Helgadóttur

Eins og þeir birtust í árshátíðarblaði AV í Róm og Óli sést vera að lesa í árshátíðarbloggi.
Til glöggvunar: Óli er yfirmaður minn og Steinar verkfræðingur á vélasviði.

Þögul stund

Ég er nú einu sinni þannig gerð að mér finnst gaman að spjalla og ræða málin. Þegar ég fæ mér kaffi og ég rekst á einhvern í kaffistofunni þá kemur það oftar en ekki fyrir að ég spjalla. Segi kannski eitthvað um veðrið eða spyr hvernig best sé að raða handklæðum í ferðatösku. Fer eftir því hvern ég rekst á.

Fljótlega eftir að ég byrjaði á lagnasviði varð mér ljóst að þar tíðkast ekki að tala mikið. Samskiptin fara fram á einhvern annan hátt. Samskiptum innan sviðsins er kannski best lýst með eftirfarandi dæmi.

Ég fer til Steinars Ríkharðs að sýna honum teikningu sem ég er að vinna í. Ég rölti úr partýherberginu yfir í vélaskemmuna, slengi teikningunni á borðið hjá honum. Hendi þar með nokkrum að þeim 17 kaffibollum sem eru vanalega á borðinu hjá honum á gólfið. Síðan rétti ég honum rauðan penna og byrja að tala „Hæ, hvað segirðu?” Ég stend á gati yfir fjöldamörgum atriðum og er mikið niðri fyrir „Heyrðu, ég skildi ekki alveg ....!” „Hvernig var með....? Steinar horfir sallarólegur á teikninguna, strýkur skeggið, ræskir sig, en segir ekki orð.

Ég bíð, dreg andann inn og út til skiptis, horfi á teikninguna og hann til skiptis. Hann bendir á nokkur atriði á teikningunni með pennanum, án þess þó að krota nokkuð inn á. Hann ræskir sig aftur, fiktar í skegginu, skiptir um stellingu í sætinu. Að nokkrum tíma liðnum lítur hann út fyrir að hann sé að gera sig líklegan til að tala, ég bíð með andann á lofti. Hann lætur mig bíða aðeins lengur, síðan segir hann „Tjaaaaa.” Síðan röltum við inn á skrifstofu Ólafs til að fá ráðleggingar.

Óli tekur við teikningunni. Hann situr við skrifborðið sitt með skrúfblýant í annarri hendinni, með hinni hendinni strýkur hann skeggið. Steinar stendur við hliðina á honum og strýkur sitt skegg. Inni á skrifstofunni er hljótt. Það eina sem heyrist er örlítið skrjáf í pappír og hljóðið sem myndast þegar tveir menn strjúka á sér skeggið hvor í kapp við annan. Mér líður hálfkjánalega að hafa ekki skegg að strjúka. Inn á milli ræskja þeir sig til skiptis eða í takt.

Ég, sem vanalega get ekki þagað í 3 mínútur samfellt, veit ekki hvernig ég á að vera. Ég er bókstaflega að springa. Mig langar að ræða um vandamálið, spyrja hvernig hægt sé að leysa það, fá einhver viðbrögð við því sem ég var að gera. Hvað sem er nema óbærilega þögnina.

Ég sit þó á strák mínum. Klukkan á veggnum tifar, mínúturnar sem virðast þó vera klukkustundir, líða ein af annarri. Ætli tíminn fyrir utan þjóti framhjá? Er skrifstofan hans Óla kannski inni í tímahylki þar sem tíminn stendur kyrr?

Ég anda rólega, tel upp á 10, virði fyrir mér Esjuna. Kannski eru þeir að leysa ráðgátuna um tilgang lífsins. Ég lít á Steinar, hann strýkur á sér skeggið. Ég lít á Óla, hann muldrar eitthvað og strýkur á sér skeggið. Ég lít á teikninguna. Ég spring á limminu og út úr mér gusast:

Óli, svakalega er kennitalan þín falleg !!!

sunnudagur, apríl 08, 2007

Krummi krúnkar úti

Í morgun krunkaði krummi fyrir mig á meðan ég stundaði skipulagða íhugun og afslöppun. Það tel ég sem fimmtu tónleikana sem ég fór á þessa páskana.

sunnudagur, apríl 01, 2007

Rómuð Rómarferð - dagur 3

(leið tími, ó hélt ég hefði birt dag 2 í gær)

Planið "no sleep in Rome" gekk ágætlega, iðkaði líka svokallað turbo-sleeping þar sem maður sefur "öflugt" í 3,5 tíma í staðin fyrir að sofa eðlilega í 8 tíma. Allavega vaknaði ég snemma morguninn eftir árshátíðina til að fara í skoðunarferð í Colosseum. Ég, Beggi, Guðrún og Tryggvi fórum á mis við restina af hópnum og áttum fínan fyrri part dags í Kólóseum og þar í kring. Hér er Beggi með húfuna fyrir framan Colosseum:

Innan í Colosseum, það er búið að gera við hluta af gólfinu en lengra frá sjást gryfjurnar sem dýrin og skylmingaþrælarnir voru geymd í áður en þau voru látin berjast: Svo hitti ég Russel Crowe, við kysstumst (næstum því):
Dúfurnar kysstust líka:
Það var rosa flott að labba um Roman Forum og skoða rústir:Guðrún og Tryggvi skorðu á okkur Begga í módelkeppni, hér er þeirra framlag:
Eins og sjá má þá áttu þau ekki sjens í okkur:Löggan átti samt eiginlega bestu pósuna:

Minnisvarðarnir voru sumir svo svakalegir að þegar leið á daginn var maður hættur að meðtaka umfangið.Um hádegisleytið stungum við skoðunarferðina af og tilltum okkur undir sólhlíf á veitingastað við Blómatorgið, Piazza Campo dei Fiori. Eftir mat og bjór og ís var kominn miður dagur. Afgangurinn af deginum fór í að rölta um Rómarborg og tjilla.

Um kvöldið fórum við, krakkarnir sko, saman út að borða. Tókum leigubíl í Trastevere hverfið þar sem margir góðir veitingastaðir eru. Við vorum dáldið mörg og skiptum okkur niður á nokkra veitingastaði. Seinna um kvöldið hittumst við á bar. Bar góður já.
Síðan upphófst mikil leit að skemmtistað sem var opinn lengur en til 1 því klukkan var að verða. Eftir að hafa spurt fjölda fólks og fengið mikið af misskiljanlegum leiðbeiningum komumst við að því að einu opnu diskótekin í Róm voru í hverfi sem heitir Testacio og var ekki í göngufæri við hverfið sem við vorum í.

Þá var að næla í leigubíla fyrir um 20 manns. Það var einu sinni ekki auðvelt að ná í einn leigubíl. Eftir mikið labb, mikla bjórdrykkju úti á götu og margar símhringingar komum við öll saman á diskótekinu "Caffe Latino". Það kostaði 10 evrur inn fyrir stelpur en 15 fyrir stráka, en með fylgdi drykkur á barnum. Mitt val var tekíla. Enda var ég fersk:
Snilldartaktar voru sýndir á dansgólfinu og allir mjög reiðubúnir að fríka út, enda loksins tími og staður. Siggi og Íris fengu sér vel blandaða mojito: Sá sem stóð sig best á dansgólfinu var reyndar ekki í okkar hóp, en við kölluðum hann Jesú:
Jens og Ása pósuðu:Sara og Beggi stældu myndina af sköpun Adams sem er í loftinu á Sixtínsku kapellunni, ég veit ekki alveg hvort þeirra er Adam og hvort er guð:Klukkan 3 hækkaði verð á drykkjum, og fólki fækkaði mikið á staðnum. Við fórum ekki fet. Upp úr 4 yfirgáfum við þó staðinn nauðug / viljug og leit að leigubíl hófst aftur. Kvöldið endaði hjá mörgum á stuttu stoppi í hekl-eftirpartýi:
t-r-l