þriðjudagur, september 12, 2006

Þegar Þura missti kúlið
(ef það var þá eitthvað fyrir)

Gerið ykkur í hugarlund ósköp venjulegan dag. Ég sit við kvöldmatarborðið, þreytt eftir langan dag, er að byrja að stappa soðinn þorsk, kartöflur og smjör. Ég er í flíspeysu frá Cintamani, hvítu háskóla flíspeysunni minni. Allt er með kyrrum kjörum. Eðlilegt.

Mér á vinstri hönd situr faðir minn. Allt í einu bendir hann á merkið sem er á öxlinni á flíspeysunni, Cintamani merkið, og spyr hvaða merki þetta sé. Ég svara því til að þetta sé peysutegundin. Hann jánkar því en heldur samt áfram að benda á merkið. Síðan spyr hann “en hvað er þetta Cintamani?” Ég á stundum auðvelt með að láta hann fara í taugarnar á mér og þessi spurning fór í mínar fínustu. Ég hreyti því út úr mér að þetta sé peysutegundin. Það er fokið í mig, hvern fjandann er hann að spurja sömu spurningarinnar tvisvar. Ef ég væri teiknimyndafígúra þá væri farin að rjúka gufa úr eyrunum á mér á þessum tímapunkti. “Já” segir hann ákveðið “en segðu mér, hvað þýðir Cintamani?”

Ég er orðin öskuill, grýti frá mér gaflinum, sem var farin að merja soðninguna allharkalega, ríf í hálsmálið á skyrtunni hans og segi frekjulega við hann “SEG ÞÚ MÉR HVAÐ...” Lengra kemst ég ekki með þessa setningu. Ég veltist um úr hljóðum hlátri, kem ekki upp orði. Það eina sem gefur til kynna að ég sé að hlæja er stöku tíst á innsogi og tárin sem streyma úr augunum. Pabbi hlær létt og segir við mömmu “hún féll á sínu eigin bragði” Þegar mesta hláturskastið er yfirstaðið klára ég setninguna flissandi.

“Segðu mér hvað, haha ha, segðu mér hvað... COTTON RICH þýðir! Ba ha ha!!”

Undir lokin er öll fjölskyldan farin að hlæja. Þá sjaldan (oft) sem maður skýtur sig í fótinn. Þegar við hættum að hlæja kemur smá þögn, þá heyrist frá mömmu “Vitiðið hvernig maður biður um mikinn lauk í Bretlandi?!” Ég og pabbi störum á hana eins og hálfvitar, við náum ekki samhenginu. Hún er snögg að svara eigin spurningu, og segir hátt og snjallt með sterkum breskum hreim:

“Heavy on the onions please!”

Það fylgir sögunni að soðningin fór köld og ósnert í ruslið þetta kvöld. En það fylgir ekki sögunni hvað cintamani þýðir.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

nei í alvöru ég skil eiginlega ekkert af því sem stendur á þessari síðu

Þura sagði...

En ég skrifaði bara lýsingu á því sem gerðist!

Nafnlaus sagði...

klárlega sammála hlyn í þessu máli
Sveinbjörn

Nafnlaus sagði...

hvernig var slyddujeppaferðin?

bíddu.... átt þú jeppa?

Þura sagði...

Strákar, lesa textann betur!

Slyddujeppaferðin var tryllt, eftirminnilega skemmtileg.

Ég á ekki jeppa... en nei ég fór ekki á bmw-inum.