sunnudagur, júní 25, 2006

Ertu þá orðin verkfræðingur? Þessa spurningu fæ ég oft þessa dagana, og ég verð að svara: Nei, hehe ég er B.S. í verkfræði.

Útskriftin úr HÍ var í gær, falleg athöfn, ég táraðist nokkrum sinnum.... nei, það er lygi, ég táraðist aldrei. Deildaforsetarnir voru í bláum skikkjum og minntu grátlega mikið á kennarana við Hogwarths, ekki grét ég yfir því.

Góður dagur, þ.e. þegar útskriftin sjálf var búin. Hann var einhvern vegin svona:
-Útskriftarathöfn 2,5 klst
-Kaffihús 1 klst
-Út að borða 1,5 klst
-Kokteill 0,5 klst
-Útskriftarpartýið þeirra Svanhvítar, Sigurrósar og Tótu 2 klst
-Útskriftarhittingur hjá Söru 4 klst, góður hittingur Sara, minnti dáldið á partý ;)
-Djamm í miðbænum 3 klst

Samtals eru þetta 14,5 klst, svo má bæta við þennan tíma 1,5 klst í ferðir á milli staða.

mánudagur, júní 19, 2006

Setti inn mynd af mér með útskriftarnema, sjá neðar. Þakkir fær Erna fyrir myndina.

sunnudagur, júní 18, 2006

4. hluti
meira um L.A.
(til lesandans: mæli með að þú lesir um grind-ið ef þú ætlar bara að lesa smá)

[fim 25. maí og fös 26. maí] ...þetta var líka gaman
last call for alcohol!!!
Eitt af því sem er dásamlegt við Bandaríkin er að maður er látinn vita að skemmtistaður er að fara að loka áður en hann lokar. Stuttu áður en það gerist kallar barþjóninn eða DJ-inn LAST CALL FOR ALCOHOL og það er manns seinasti sjens að kaupa áfengi áður en lokar. Áfengið sem maður kaupir verður maður að klára áður en staðurinn lokar, það er víst bannað að neyta áfengis á börum eftir klukkan 2 í Kaliforníu og einnig er bannað að drekka á götum úti. Gallinn við síðasta kallið er að maður getur orðið ansi... hress ef maður heldur á fullu glasi af vodka í redbull og þarf að skála í botn, samkvæmt lögum.

Leigubílstjórar
Ég var minna smeyk við leigubílstjóra í USA heldur ég bjóst við að vera, sumir skildu alveg það mikla ensku að það var hægt að spjalla við þá. Aðrir litu út fyrir að vera að fæða þrettán manna fjölskyldu í Armeníu með því að keyra leigubíl 22 tíma á sólahring, og sumir voru líklega að því. Á fimmtudagskvöldinu í L.A. var ég virkilega smeyk við leigubílstjóra. Við ætluðum 12 saman út að borða í Venice hverfinu og síðan á djammið, það eru 3 leigubílar. Þegar tveir þeirra voru komnir kom í ljós að hvorugur þeirra vissi hvar það var sem við vorum að fara. Þeir voru ekki frá sama landinu og annar var mjög greinilega á eiturlyfjum og saman ræddu þeir alveg í korter á bjagaðri ensku um... tja vonandi um hvert við værum að fara. Eftir ofsaakstur á hraðbraut og nokkrar U-beygjur komumst við þó heil á áfangastað. Sumir leigubílstjórar virtust líka geta látið mælana ganga hraðar, lenti einn daginn í því að borga 12 dollara fyrir far aðra leiðina en til baka kostaði það 20 dollara.

e-kennsla í grind-i
Þetta sama kvöld í Venice enduðu nokkrir djammarar á litlum skemmtistað, þar sem meirihlutinn af fólkinu var svartur. Á meðan stelpurnar skelltu sér á dansgólfið voru strákarnir eftir á barnum og spjölluðu við hver annan og bræður. Á þessum stað kynntumst við dansi sem dansaður er af strák og stelpu og kallast hann grind (borið fram grænd). Dansinn sem einnig má nota sem forleik er þannig að kvenmaðurinn sem snýr baki í karlmanninn beygir sig fram með frekar beint bak, konan dillar síðan afturenda sínum í takt við tónlistina. Karldýrið, nei karlmaðurinn, setur þá aðra höndina á mjöðm konunnar og hreyfir sig í takt við konuna og tónlistina. Einnig er algengt að hann hafi báðar hendur á mjöðmum hennar. Þau eru síðan bæði með hot svip sem gefur til kynna að þau séu að skemmta sér ótrúlega mikið. Fólkið sem dansaði þetta leit allavega út fyrir að vera að skemmta sér ótrúlega mikið.

house of blues
Á föstudagskvöldinu í L.A. fórum við alveg yfir 30 manns út að borða saman á house of blues, sem er veitingastaður við Sunset Strip. Það sem við vissum ekki var að í kjallaranum á þessum stað voru rapp-tónleikar í gangi og þess vegna löng röð af fólki fyrir utan. Við þurftum þó ekki að bíða í röð, en tókum vel eftir því hvað við vorum hvít. Ég prófaði einhvern kokteil sem þjónustu-gellan benti mér á, hann hér mad groovy penguin og samanstóð af vodka, súkkulaði og mintu. Mörgæsin stóðst væntingar, ójá. Eftir matinn gæddum við okkur frekar á kokteilum og öðru þynntu áfengi, síðan fór hópurinn að tvístrast í allar áttir. Ég fór í röðina á Viper Room með 10 öðrum, dyravörðurinn var með kolsvart og stíliserað hár og rosalegt attitude. Þegar hann var búinn að gefa grænt ljós á inngöngu okkar sagði hann í talstöðina sína að hann væri að senda inn 11 "extremely annoying people". Við sem vorum í aftari helmingi hópsins og heyrðum þetta snerum snarlega við og fórum út, hinir borguðu 20 dollara fyrir að fara inn og voru þar í korter og sögðu að það hefði ekki verið neitt gaman. Eftir að hafa sullað í sig áfengi á mismunandi skemmtistöðum endaði stór hluti hópsins á hótel fyllerí fram á morgun, þótt að rútan til Vegas ætti leggja af klukkan 8 um morguninn. Hvað segir maður aftur um svona... party down!!!

Næst: Vegas :)

fimmtudagur, júní 15, 2006

3. hluti
Los Angeles

[mið 24. maí] Rútuferð frá San Fransisco til L.A.
Rútuferðin var bærileg, allavega var loftkælingin í rútunni góð. Eftir hádegi var stoppað og nokkrir kassar af bjór keyptir, eftir það breyttist ferðin í íslenskt gítarfyllerí við misjafnar undirtektir ferðalanga. Bílstjórinn varð alveg snar þegar hann neyddist til að losa úr ferðaklósettinu á bílastæði fyrir framan McDonalds, eftir það róaðist fólkið aðeins niður. Komum á hótelið okkar snemma um kvöldið, það minnti á mótel vegna þess að þetta var U-laga hús með fullt af litlum íbúðum, sem hentaði okkur ótrúlega vel. Hótelið var ágætlega staðsett í Hollywood hverfinu. Stutta stund tók að labba á Sunset boulevard og Hollywood boulevard. Eftir um 5 mínútna rölt frá hótelinu var maður farinn að labba á stjörnum, og það var ekkert merkilegt. Flest nöfnin þekkti maður ekki og þegar maður kom að nafni sem maður þekkti þá... já, þá ekki neitt, þá labbaði maður bara áfram.

Þetta fyrsta kvöld í L.A. fóru nokkur partýglöð ungmenni á bar á Sunset blvd, okkur fannst þetta vera mjög flottur skemmtistaður. Enginn drakk bjór, við fengum okkur öll einhverja drykki, ég fékk mér sangríu sem bragðaðist heví vel. Síðan fórum við að panta skot. Við vildum prófa eitthvað nýtt svo að við leyfðum barþjóninum að ráða. Ekkert áfengisbragð var af fyrsta skotinu en það var risa-stórt, ég þurfti að kyngja þrisvar til að koma því niður. Við kvörtuðum við barþjóninn og sögðumst vilja fara á fyllerí, hann skyldi láta okkur fá eitthvað sem væri áfengi í. Hann brosti í kampinn og kom með annað round af stórum skotum og sagði að þetta væri sko áfengt. Mig klígjaði, en aftur drakk ég með því að kyngja þrisvar, og það var ekkert áfengisbragð af skotinu. Við héldum að hann væri að gera grín að okkur og kölluðum aftur í hann. Hann var yfir sig hneykslaður og sagði að þetta hefði að mestu verið 75% áfengi með örlitlu blandi. Síðan hvarf hann og kom til baka með vískiskot, eða viskímjólkurglös eins og við kjósum að kalla þau. Og það var áfengi í því.


[fim 25. maí og fös 26. maí] Los Angeles dagarnir
Jeff the tour guide and other stories
Fyrri daginn í L.A. fór ég í skoðunarferð á "topplausri" rútu um smá hluta Hollywood, þar fóru 10 dollarar í vaskinn. Tour guidinn hét Jeff og ég get með góðri samvisku sagt að hann sé leiðinlegasti maður sem gengur á yfirborði jarðar. Hann var frekar búttaður í gaur á fertugsaldri sem hafði pottþétt komið til Hollywood 10 - 15 árum fyrr til að meika það en endað sem ööööömurlegur leiðsögumaður í ferð þar sem maður sér ekki neitt. Í byrjun reyndi hann að sannfæra okkur um að hann væri að fara með okkur í skoðunarferð gegnum "sitt hverfi". Keyrðum framhjá Kodak bíóinu, horninu þar sem Brad Pitt lék kjúkling áður en hann varð frægur og fleiri álíka áhugaverðum stöðum þar sem ekkert var að sjá. (Myndin er fengin að láni hjá Hlyni)

Versti parturinn var þó þegar við keyrðum framhjá hverfinu þar sem Antonio Banderas átti að búa og hann lét allar konur/stelpur í bílnum segja "úúhúú" þegar hann sagði Antonio Banderas. Eftir það var hann alltaf að tala um hvað allar konur flippuðu rosalega þegar þær heyrðu nafnið Antonio Banderas, síðan ætlaðist hann til að allir kvenkyns farþegar segðu "úúhúú". Eftir nokkrar svoleiðis línur fór hann bara að endurtaka nafnið Antonio Banderas, Antooonioooo Baaandeeeraaas, Antooooonioooooo Baaaandeeeeraaaas, Antooooooooniooooooooo Baaaandeeeeeeeraaaaaaaaas....! Með smeðjulegri rödd sem átti líklega að hljóma sexí. Ég, Anna Regína, Helena og Sara hlupum út úr rútunni um leið og hún stoppaði.

Í næsta pósti kemur meira skemmtilegt frá L.A. dögunum, til dæmis leigubílstjórar á eiturlyfjum og kennslustund í grind-i ;)

þriðjudagur, júní 13, 2006

2. hluti
Ennþá í San Fransisco

[lau 20. maí] Berkeley
Þennan laugardagsmorgun fórum við með rútu í háskólabæinn Berkeley sem er rétt fyrir utan San Fransisco í þeim tilgangi að skoða Berkeley háskólann. Þetta var óformleg heimsókn sem þýddi að við fengum ekki að fara inn í neina byggingu heldur tók á móti okkur íslenskumælandi kona með fjólublátt hár sem hafði stundað nám við skólann í 15 ár. Hún rölti með okkur milli bygginga og sagði okkur frá skólanum, það var fínt. Staðurinn var ótrúlega sjarmerandi. Eftir hádegi var okkur sleppt lausum. Ég stakk af og rölti um götur Berkeley bæjarins, spjallaði við fólk og verslaði við gamla hippa sem virtust hafa reykt aðeins of mikið það töfra sumar 1967. Ég lét m.a. gamlan tannlausan mann; í leðurfötum og með sítt hár lesa í tarot spil fyrir mig. Held að það hafi verið ódýrasti tími hjá sálfræðingi sem ég hef upplifað.


Myndin er af mér og Chao Lin sem var þennan dag að útskrifast með meistaragráðu í civil-engineering frá Berkeley.

Um kvöldið fór ég ásamt fleirum út að borða á sjávarréttaveitingastað á bryggju 39, það er sko aðal bryggjan. Þar átum við krabba og humar, og brutum skeljarnar með einhverju sem virtist vera hnotubrjótur. Dungeoness crab er krabbinn sem maður verður að smakka þegar maður er í San Fransisco, og svoleiðis borðaði ég með risastóran smekk með krabbamynd um hálsinn (ekki veitti af). Eftir bragðgóða og skemmtilega kvöldmáltíð fórum við á blues bar sem var í göngufæri í burtu. Þar tróðu upp 6 eldgamlir og hrukkóttir kallar sem voru ógeðslega góðir á hljóðfæri og að syngja. Þeir voru gamlir, pottþétt allir yfir sjötugu, en samt kraftmiklir og skemmtilegir. Þegar þarna var komið við sögu var ég loksins farin að muna eftir þjórfé við öll tækifæri. Fyrst fannst mér þetta vera óþolandi siður en eftir því sem dagarnir liðu fór ég að sjá kostina og hversu gaman það er að gefa tips. Næst var ferðinni heitið með limma á Broadway, ekki bara plebbaskapur, það var ótrúlega ódýrt að taka limma. Við ætluðum aldeilis að finna góðan skemmtistað og djamma fram á rauða nótt. Klukkan var rétt upp úr 1 og okkur var ekki hleypt inn á neinn skemmtistað því það var verið að loka. Það er víst bannað að selja áfengi eftir klukkan 2 í Kaliforníufylki en ef við vildum djamma þá var okkur bent á hommabar á Harrison og sjötta stræti. Við röltum frekar heim um hæðóttar götur San Fransisco.

[sun 21. maí] Frí... nei bay to breakers hlaupið
Þrátt fyrir að hafa ekki farið að sofa fyrr en 4 um nóttina ákvað snillingurinn ég að vakna fyrir 8 á sunnudagsmorgninum til að taka myndir. Ég hafði frétt af árlegu hlaupi þar sem hlaupið er frá flóanum að sjónum í gegnum San Fransisco. Ástæðan fyrir því að mig langaði að sjá hlaupið var sú að þetta er ekkert venjulegt kapphlaup heldur er þetta djamm-flipp-grímubúninga-kapphlaup. Flestir sem taka þátt klæða sig upp í búninga og þetta er meira eins og hátíð heldur en hlaup. Ég hitti Helga Tómas í lobbíinu sem var hress og vaknaður. Hann samþykkti að koma með mér að kíkja aðeins á hlaupið. Það var rétt hjá hótelinu þannig að við þurftum ekki að fara langt. Það var rosa gaman að sjá mannfjöldann hlaupa og labba framhjá. Búningarnir voru allt frá því að vera fyndinn hattur á annars eðlilegum hlaupara í 50 manns allir klæddir eins og kóngurinn (elvis) syngjandi og hrópandi til mannfjöldans á meðan þeir drukku bjór úr vagni sem þeir voru með. Einnig mátti sjá ofurhetjur, strumpa, strípalinga, geimverur og fleira og fleira. Allir drukku áfengi, sungu, kölluðu og voru með almenn ólæti. Margir stórir hópar voru í búningum, eins og elvisarnir, til dæmis hrópaði hópur Hvar-er-Valla slagorð eins og "You say where is and I say Waldo! Where is! Waldo! Where is! Waldo!". Þeir voru skemmtilegir. Helsti kosturinn sem ég sá við að vera í hóp var sá að þeir voru alltaf með vagn, temmilega dulbúinn, til að geyma bjórinn sinn í. Þegar við sáum laxana sem hlaupa í öfuga átt (af því að laxar synda upp strauminn) hlupum við inn í þvöguna til að taka myndir af þeim, þeim var fagnað hressilega af öðrum hlaupururm. Á þeim punkti var ekki aftur snúið, við löbbuðum með öllu klikkaða fólkinu í klikkaða hlaupinu þeirra, því miður áttum við engan bjór. Klukkan var að verða 9 á sunnudagsmorgni. Stemningin var rífandi, fyrir framan og aftan okkur var fólk sem augljóslega var bara að skemmta sér, held að eitthvað um 50 þúsund manns hafi tekið þátt. Partýið einskorðaðist ekki við hlaupið heldur var fólk sem bjó í húsum við götur sem strollan fór um margt úti í gluggum og á veröndum með græjur að spila tónlist, drekka bjór og að hrópa á fólkið í göngunni. Á mörgum stöðum voru hljómsveitir að spila úti á götu, sums staðar of nálægt hver annarri. Ég gapti af undrun, held ég bara allar 7 mílurnar sem ég gekk upp og niður hæðóttar götur San Fransisco. Ótrúlega margir kusu að taka þátt í hlaupinu án búnings... eða annarra flíka. Er ekki búin að gera upp við mig hvort mér finnist það heilbrigt eða ekki að hafa einn dag á ári þar sem allir þeir með strípiþörf geta striplast að vild án þess að aðrir kippi sér upp við það. Tek það fram að strípalingarnir voru flestir komnir fram yfir besta aldur, hér vantar sárlega myndina af parinu um sextugt sem var ótrúlega krúttlegt á sinn hátt (hún er inni á myndavélinni minni). Upp úr hádegi var ég að farast úr þreytu og varð að komast heim. Þegar ég loksins komst heim fleygði ég mér beint upp í rúm og gerði ekki meira þann daginn. Orkan mín, líkamleg og andleg var búin, en tótallí þess virði :)

[mán 22. maí] Intel safnið og Stanford háskólinn
Eitthvað fór ég illa út úr þessu hlaupi því næstu 2 daga var mér stöðugt flökurt og gat lítið sem ekkert borðað. Ákvað samt að fara í námsferðir dagsins. Sat reyndar bara í skugganum fyrir utan Intel safnið, þeir sem fóru inn sögðu að ég hefði ekki misst af neinu. Eftir hádegi á heitum og sólríkum degi mættum við í Stanford og fengum ágætis leiðsögn um svæðið hjá ofur hressri gellu. Síðan sýndi kærasti Fríðu Siggu, sem er í mastersnámi þarna okkur aðeins meira af svæðinu.

Um kvöldið fór allur hópurinn saman út að borða í fyrsta og eina skiptið í ferðinni, og kennarinn sem stóð fyrir námsferðunum kom með. Ég var alveg ónýt vegna flökurleika, fékk Advil hjá þjóninum og gat hvorki borðað né drukkið og fór heim við fyrsta tækifæri. Það var þannig að hótelið var í það slæmum bæjarhluta að einhverjir vildu ekki að ég tæki leigubíl ein heim.

[þrið 23. maí] Eitthvað kúka-fyrirtæki og svo loks Bechtel
Við stóðum í þeirri meiningu að fyrri heimsókn dagsins væri í vatnshreinsistöð, þar sem vatn er hreinsað áður en það er notað. Svo reyndist ekki vera, í staðin fórum við í skolphreinsistöð, þar sem mengandi efni eru hreinsuð úr skolpi áður en því er veitt út í sjó. Það var ógeðslegt, ég segi það bara eins og það er, þetta var kúka-fyrirtæki. Um hádegið mættum við í höfuðstöðvar verkfræðifyrirtækisins Bechtel, þess sem er að byggja álverið á Reyðarfirði. Fyrst fengum við hádegismat og síðan tóku við nokkrir fyrirlestrar fluttir af frekar hátt settum mönnum hjá fyrirtækinu. Þetta var ótrúlega flott og vel heppnuð heimsókn. Um kvöldið ákvað ég að mér væri batnað og skellti mér út að borða, og mér var batnað.

Næst: til Hollywood beibí

sunnudagur, júní 11, 2006

Uppgjörið

"Þura mín, þú hefur fitnað og þú ert ekkert svo brún!!!" Þetta voru viðbrögð móður minnar þegar ég kom heim úr rosalegri útskriftarferð véla- og iðnaðarverkfræðinema seinnipartinn á fimmtudaginn. Ferðin var rosaleg, ég er alveg eftir mig. Ég ætla að birta ferðasöguna í nokkrum köflum... ókei mörgum köflum.

1. hluti
San Fransisco

[mið 17. maí] Ferðalagið
Mætti á flugvöllinn seinnipartinn, flugvélin átti að fara klukkan 5. Leifsstöð var full af verkfræðinemum, enda voru 45 útskriftarnemar og 7 makar á leiðinni í þessa ferð. Venjulega tekur 9 tíma að fljúga frá Keflavík til San Fransisco en vegna bilunar var minni flugvél notuð og þurfti þess vegna að millilenda í Kanada. Þessir 11 tímar í flugvélinni voru ekkert svo lengi að líða. Hótelið í San Fransisco var downtown eða niðri í bæ eins og sagt er, í hverfi sem oft er kallað tenderloin, ekki út af því að það voru hórur þar heldur vegna þess að þar á víst að fást einhver svaðaleg steik. Þegar rúta með 50 spenntum ferðalöngum lagði fyrir utan hótelið var komið myrkur. Bandaríkin tóku vel á móti okkur, það fyrsta sem við sáum var maður að kúka bakvið gám. Þegar náunginn var búinn að gera stykkin sín hélt hann glaður áfram að borða frönsku kartöflurnar sínar og rölti blístrandi í burtu. Ég varð að vera sammála stelpunum sem öskruðu og skræktu inni í rútunni. Ekki tók betra við þegar við stigum út úr rútunni, hlandstækja yfirgnæfði aðra lykt og menn sem greinilega höfðu tekið sterkari pillur en C-vítamín höfðu gaman af því að spjalla við okkur. Skelfingu lostin við þessa first impression drifum við okkur inn á hótel, reið út í Flugleiðir fyrir að hafa mælt með þessu hóteli, svartsýn um að ferðin yrði ömurleg og fórum að sofa.

[fim 18. maí] Google og NASA
Í dagsbirtu leit allt miklu betur út. Við þorðum að fara út í búðina hinu megin við götuna til að kaupa vatn allt niður í 4 saman. Þennan morgun byrjaði námsferðin á heimsókn í Google, fyrirtækið sem sér um leitarvélina þið vitið. Veðrið var dásamlegt þegar við löbbuðum upp stigana milli Google bygginganna, sól og logn og 4 starfsmenn í strandablaki berir að ofan, ávísun á góðan dag. Okkur var skipt í 2 hópa og kona sem hét Stephanie eða eitthvað álíka hresst leiddi okkur um svæðið og talaði um hvað Google væri frábært fyrirtæki. Flestar setningarnar hennar byrjuðu á "Og annað sem er kúl við Google er...". Hún var reyndar ekkert að ýkja, Google virkaði mjög kúl fyrirtæki, því er best lýst sem leikskóla fyrir fullorðna. Umhverfið á að virka hvetjandi á sköpunargáfu starfsmanna og láta fólk vilja vera í vinnunni. Veggirnir eru málaðir í björtum litum, það er dót út um allt fyrir starfsmenn að leika með, til dæmis sáum við tvo gaura í kappi á pínulitlum þríhjólum á ganginum (Stephanie minntist sérstaklega á að þeir væru á launum) og mini-eldhús úti um allt. Það var þó ekki fyrr en í hádegismatnum sem ég missti andlitið. Google bauð okkur upp á hádegismat, og vá, matsalurinn er risastór og maður gat valið um nánast hvað sem er. Það var kínverskur matur, burrito sem maður lét raða í eftir eigin höfði, ýmiskonar hlaðborð, pizzur, grænmetisbakkar, hefði þurft að borða þarna í viku til að geta smakkað á aðeins fleiru sem mér fannst girnilegt. Í eftirrétt gat maður fengið sér kaffi, kökur, ben and jerry´s og bara allt sem hugurinn girnist. Því miður þurftum við að yfirgefa þennan dásamlega stað (mötuneytið) til að fara á NASA safn.

NASA safnið bliknaði í samanburði við Google, en samt gaman. Allt öðru vísi heldur en Google. Tveir gaurar sem samanlagt vógu líklega um hálft tonn (ekki að það skipti máli í sögunni) töluðu um starfsemi NASA og þá sérstaklega ferðir til Mars. Það var gaman fyrir nördinn í manni sjálfum. Þegar vísindaferðum dagsins var lokið fór ég ásamt fleirum í mollið sem er niðri í bæ, í röltfæri frá hótelinu, þar var fyrsti bjór ferðarinnar drukkinn. Lókal San Fransisco bjórinn heitir Anchor Steam og er mjög góður, síðan misstum við stelpurnar okkur í MAC. Þetta kvöld var farið snemma að sofa því daginn eftir var mætin í lobbí kl. 7.15.

[fös 19. maí] Davies og Beringer
Fyrri námsferð dagsins var í Davies háskólann, þar sem predikað var yfir okkur um möguleika á notkun vetnis sem eldsneytisgjafa. Það var heldur langdregið, sérstaklega fyrir Íslendinga sem alltaf eru að heyra um þessi mál. Eftir fyrirlesturinn var farið að skoða vetnis-metan-vélar og fleira, þar datt ég nokkurn vegin alveg út en þeir voru margir sem fannst þetta endalaust áhugavert og skemmtilegt. Eftir hádegi lá leiðin í Napa-dalinn sem þekktur er fyrir víngerð. Því miður var rigning, en útsýnið engu að síður mjög fallegt. Við heimsóttum Beringer víngerðina og þrír afar hressir og amerískir karlar leiddu okkur í gegnum framleiðsluferlið á víni. Sérstaklega skemmtilegt var að sjá 20 þúsund tunnum staflað upp, en í þeim var vín að gerjast. Eftir heimsóknina byrjaði ég að pæla í vínverkfræði í meistaranámi. Við fengum ekki að fara í vínsmökkun en hefðum mátt taka með okkur 250 kílóa tunnu af víni ef við hefðum getað borið hana. Ekki fór málið lengra. Um kvöldið var típískt Íslendingafyllerí uppi á hótelherbergi, og ekki gekk vel að finna skemmtistað.

Coming up... næstu 4 dagar í San Fransisco
Skrifað í Reykjavík, sunnudaginn 11. júní 2006

Þá er ég komin heim frá Hawaii. Nú verð ég að hætta að borða 3 kvöldmáltíðir á dag, enginn tekur til hjá mér nema ég, ég get ekki lengur farið út á kvöldin í léttum kjól og opnum kjól. Já Hawaii er yndislegur staður.

Önnur fríðindi fylgja því að vera komin heim, til dæmis internet og rigning. Það er gott að vera komin heim.

mánudagur, júní 05, 2006

Sit nuna i lobbiinu a hotelinu i Hawaii, klukkan er ad verda 2 og housekeeping er ad fjarlaegja allar bjordosirnar ur herberginu. Thessi setning lysir nokkud vel lifinu eins og thad er buid ad vera, nema eg er meira buin ad vera i kokteilum heldur en bjor. Uti er olysanlega heitt, thad er meira ad segja bara notalegt ad fara i sjoinn a nottunni.

Jaeja, verd ad fara ad worka tanid, aloha!