sunnudagur, júní 19, 2005
Some people stand in the darkness afraid to step in to the light...
[þessi póstur fjallar um fjallgöngu en ekki strandverði]
Fjallganga er hugarástand. Ég labbaði laugarveginn um helgina, ég get svo svarið það. Ekki laugarveginn niðri í bæ með öllum búðunum og kaffihúsunum heldur gönguleiðina frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Ég hætti við að fara svona þrisvar í seinustu viku, ég átti eftir að gera of mikið, ég hélt ég hefði ekki nógu gott þol og mundi dragast aftur úr, ég vissi ekki almennilega hvað ég ætti að taka með mér o.s.frv. Ég var semsagt mjög smeyk við að ganga og hafði ekki mikið álit á sjálfri mér, t.d. þegar ég, Erna og Gunni löbbuðum á Trölladyngju á laugardaginn fyrir viku þá grét ég næstum því og ætlaði aldrei að koma mér upp á topp, þá sá ég ekki fram á að meika laugarveginn. Uppi á fjallinu tókst Ernu og Gunna að sannfæra mig um að ég gæti labbað, ég þyrfti bara að breyta hugarfarinu. Það gerði ég, fjallganga er hugarástand.
Guðbjörg sá um skipulagningu og með í för voru 18 manns, þar á meðal Erna og Stebbi, Sella, Gunni, Helgi o.fl. Hér kemur ferðasagan, hún verður líklega soldið löng því þetta er eitthvað sem mig langar að muna. Við lögðum af stað með rútu í Landmannalaugar á fimmtudagskvöldið, sumir fóru í laugina á meðan aðrir límdu á sig fyrirbyggjandi hælsærisplástra. Vöknuðum klukkan 6.54 við mjög spes vakningarhringingu, fólk hoppaði á lappir, borðaði fyrir fram planaðan morgunmat og bar á sig sólavörn því veðrið var geðveikt. Hálf 9 vorum við lögð af stað, gekk pínu erfiðlega að finna fyrstu stikurnar en síðan varð lífið dásamlegt. Planið var að labba kílómetrana 55 á tveimur dögum svo stefnan var sett á hádegismat í Hrafntinnuskeri (sem telst heil dagleið hjá ferðafélaginu). Leiðin lá upp nokkrar brekkur og yfir nokkra snjóskafla, eftir sirka tveggja tíma labb tilkynnti Gunni mér að erfiðasta brekkan væri búin, ég fagnaði gríðarlega því ég var búin að ákveða að ef ég meikaði erfiðustu brekkuna þá myndi ég meika afganginn. Komum í Hrafntinnusker korter fyrir 12 og borðuðum hádegismat í sól og blíðu. Stebbi hafði orð á því að hann sæi hrafntinnuna en ekki bólaði á skeri...
Anna Regína ákvað að leggja af stað aðeins á undan hinum og labba frekar aðeins hægar, ég ákvað að fara með. Það fyrsta sem ég gerði var að detta glæsilega niður með snúningi, en fall ku vera fararheill. Áfram var glampandi sólskin og það eina sem ég saknaði voru sólgleraugu. Við röltum og nutum veðurs og útsýnis, og vá útsýnið var geðveikt, þessi leið er ekkert smá flott. Eftir sirka 2 tíma náðu hinn okkur og áfram var haldið, eftir að hafa labbað niður svakalega brekku tókum við okkur pásu og fórum í sólbað, flestir voru á því að það væri of gott veður til að labba og við ættum bara að eyða deginum í að sleikja sólina og tjilla á þessum frábæra stað. Áfram var haldið að Álftavatni og þaðan í Hvanngil þar sem við ætluðum að gista. Seinasta klukkutímann var ég orðin þreytt í fótunum og mjög sátt við að vera að nálgast skálann, þá er bannað fyrir þá sem eru á undan að kalla til baka til allra "SKÁLINN!!!!" þegar skálinn er ekki kominn í augsýn. Klukkan var hálf 7 þegar við komum í Hvanngil (og vorum ekki fyrr komin inn í skála þegar byrjaði að rigna) sem þýðir að við löbbuðum í 10 tíma þann daginn, reyndar með góðum pásum, ætli við höfum ekki labbað í svona 8 tíma. Borðuðum kvöldmat, sumir fengu viskí í kakó (vá hvað það hlýjar miklu meira en bara kakó) og fórum sátt í háttinn eftir góðan dag.
Á laugardaginn vöknuðum við við öllu blíðari vakningarhringingu klukkan 7, ég, Anna Regína og Bryndís lögðum aðeins fyrr af stað heldur en hinir, það var ekki sól en það var heldur ekki rigning, fínt gönguveður. Hópurinn náði okkur við ána, þau byrjuðu að vaða þegar við vorum að þurrka tærnar. Við fengum samt aftur forskot því sumir sem byrja á G og enda á unni töpuðu öðrum vaðskónum sínum ofan í ánni. Gengum yfir sand sem var álíka langur og tveir fótboltavellir... ef það tæki klukkutíma að labba yfir einn fótboltavöll. Á þriðja gönguklukkutíma tóku þrír vaskir drengir fram úr okkur, komum í Emstrur 20 mínútur í 12 og tókum okkur langan og góðan hádegismat, að sjálfsögðu í sól og blíðu. Skálavörðurinn sem var færeysk kona bað okkur vinsamlegast að borga 200 kall ef við ætluðum að nota klósettið. Ég var ekki með klink á mér, vissi ekki að maður þyrftir svoleiðis á fjöllum, svo ég ákvað bara að pissa bakvið hól. Það var heldur ekki nógu gott fyrir hana, hún bannaði mér það. Hvað átti ég þá að gera, halda í mér? Endaði á því að pissa í klósettið og skrapa saman pínu klink.
Seinasti fjórðungurinn var mjög skemmtilegur, eða allavega var gaman að fara yfir háa brú, sjá þar sem Markarfljót og Emstruá mætast og borða snickers í grænni laut. Ég fann að fæturnir mínir voru farnir að hafna skónum, góðir skór samt, og ég þurfti að komast úr skónum á tveggja tíma fresti. Það var bara þægilegt að vaða síðustu ána. Við Anna Regína vorum endalaust ánægðar með okkur þegar við sáum skálann í Langadal, ég óvanur göngugarpur og hún sem fann fyrir öðru hnénu. Klukkan var rétt að verða 6 þegar við tókum af okkur bakpokana og fleygðum okkur í grasið, 9 og hálfur tími takk fyrir takk og mér leið eins og hetju. Áður en við fórum í sturturöðina keyptum við okkur kók, hetju-kók þið vitið. Hneykslunarlætin í þeim sem mig þekkja ætluðu ekki að hætta þegar þau sáu mig með kók en ekki bjór, held það hafi ekki verið sama stelpan sem lagið af stað frá Landmannalaugum og kom niður í Þórsmörk.
Sturtan var dásamleg, bjórinn var dásamlegur eftir smá dvöl í læknum, súkkulaðirúsínurnar voru dásamlegar, fólkið var dásamlegt, grillmaturinn var DÁSAMLEGUR með stórum stöfum, lambalæri, kjúklingur, kartöflur, sósa og bjór með, bara æði. Um kvöldið var spilað og sungið og trallað og raulað með, strandvarðalagið sló óvænt í gegn, ópal-áfengi drukkið, tótallí látið ganga á milli. Göngugarparnir voru í gríðarlegu stuði og fólkið sem kom í Þórsmörk til að djamma með var líka í stuði (pínu óþreyttara samt). Svo er það bjórinn... Sem betur fer var ég með Thule svo ég gat alltaf verið að segja við sjálfa mig "Þessi á skilið Thule!" og brosa. Allt kvöldið var ég hetja, daginn eftir var ég hetja, en er ég hetja.
Þessi ferð var æði, framar allra björtustu vonum. Þakkir fá Guðbjörg, trússarar, grillarar, tjaldarar, ríkissendlar, samgöngugarpar og ég. :)
Meira skemmtilegt:
Forseti, röv, sólbruni, stráka-eldamennska, hvítir hundar, Lost spoiler, sól, sviti, gott nesti, súkkulaði, kaldar ár, dansinn hans Hemma, Snorraríki, sofa í kremju, gleði gleði, ég-sé-skála fagnaðarópið, sandur, Tuddi og Tvíbaka, fólkið með risa bakpokana sem við rákumst á svona 8 sinnum seinni göngudaginn, moldarvindhviðan, göngustafir eru æði, hver var fullur en ekki eins fullur og einhver annar var einhverntíman áður, aumir fætur, hælsæri, ekki hælsæri, risa-egó, viskí í kakó, batman, catwoman. snake og spider og ú-ha, lopapeysur, kfc á selfossi, litla hafmeyjan, flott fjöll, ískalt hveravatn, bleikar legghlífar, sólbrunamynstur, gæti haldið áfram...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli