[Hvað er list?]
Í gær ætlaði mamma að fara að hitta systur sína, þá tilkynnti pabbi henni það að hann færi þá bara einn á málverksýningar á meðan. "Helgi" sagði mamma "ætlarðu að halda framhjá mér!?" en venjulega fara þau tvö saman á sýningar. Síðan ákvað ég að fara með pabba á listasýningar, svo að í raun má segja að pabbi minn hafi í gær haldið framhjá mömmu minni með MÉR. Sjúka lið, hugsið þið.
Við feðginin hófum leikinn í Hafnarborg í Hafnarfirði, þar var verið að sýna verk eftir ýmsa. Ég er ekki enn búin að taka list og listamenn í sátt eftir að hafa orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með Andy Warhol sýningu í fyrra eða hitteðfyrra svo ég átti erfitt með að vera jákvæð. Komment mín um listaverkin voru þrenns konar:
a) ehe *gretta*
b) SKÚLPTÚR! Ég hélt þetta væri niðurfall!!!!!!!
c) Járnsteypu er ekki sniðugt að nota í hástyrkt tannhjól.
Ég notaði komment b) reyndar bara einu sinni en þá átti það vel við. Komment c) eru einhver nördafræði svo viðbrögð mín við flestum myndunum var pen gretta. Ég bara hef það ekki í mér að segja að eitthvað sé áhugavert eða flott eða hvað sem er nema ég meini það og það var ekkert áhugavert þarna. Ég er bara ekki búin að læra að meta svarta ferninga á hvítu blaði.
Næst fórum við á Safn, það er nútímalistasafn við Laugarveginn. Ég hafði aldrei farið þar inn áður og hélt það væri bara þetta eina herbergi sem maður sér frá Laugarveginum, en svo kom í ljós að þetta er safn á þremur hæðum og það er margt þarna inni þess virði að skoða. Langflottasta verkið var uppblásin garðsundlaug, í henni flutu fullt af mismunandi skálum á vatni. Þegar skálarnar rákust saman komu skemmtileg hljóð, þetta listaverk þótti mér áhugavert.
Ég skora á alla sem eiga leið um Laugarveginn að kíkja þarna inn og líta á verkið "Upp upp mín sál" það er úti í horni á neðstu hæðinni.
Seinasti viðkomustaðurinn var hjarta íslenskrar menningar, Bæjarins bestu. Á meðan við biðum í röðinni horfðum við á Íslending og Grænlending rífast hinu megin við götuna. Ég spurði pabba hvort þetta væri contemporary art, þetta var nú einu sinni áhugavert og tímabundið. Þarf einhver að ákveða að eitthvað sé list til að það sé list?
Fljótlega kom löggan og stakk Grænlendingnum inn í bíl okkar megin götunnar og við hlustuðum á Íslendinginn saka hann um alls kyns ósóma á meðan við snæddum pulsurnar okkar.
Já Reykjavík er sannlega menningarborg.
Nú kemur loðna setningin:
Á einum stað þessum texta er vísað í ákveðna kvikmynd. PUNKTUR
(bannað að giska hvaða kvikmynd)
mánudagur, janúar 10, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli