sunnudagur, janúar 30, 2005

Fyrir þá sem eru búnir að gleyma röðinni (eins og ég var) þá er hún: sleikja-drekka-bíta

þ.e. þegar maður drekkur tekíla ;)

fimmtudagur, janúar 27, 2005

[Bíllinn minn nammi nammi namm]
Ég elska bílinn minn. Alveg eins og fólkið í ógeðslega væmnu auglýsingunum með laginu sem byrjar I bless the day I found you... Ég skil mjög vel konuna sem labbar inn í Leifstöð og horfir með söknuði á bílinn sinn, sem hún skilur eftir, því það er erfitt að kveðja þann sem maður elskar.

Í dag fór ég með skólanum í heimsókn í Össur, sem einmitt er við hliðiná uppáhalds búðinni minni B&L. Við löbbuðum nokkur saman inn og töluðum um bíla. Ein stelpan benti á BMW sem var inni í B&L til sýnis og sagði: Það er einn svona í götunni minni, hann er ógeðslega flottur. Þá þurfti ég auðvitað að segja: Það er líka ógeðslega flottur BMW í götunni minni... ég á hann.

Síðan kom smá þögn áður en Jón Marz spurði mig: Bíddu, ertu ekki ennþá á þessum gamla?

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Hver er tilgangur lífsins?

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Auðvitað keyri ég ekki eftir einn bjór!

(Þess vegna er ég líka strandaglópur núna, leiðinda prinsíp)

mánudagur, janúar 17, 2005

[Það eru jú litlu hlutirnir sem gera lífið svo skemmtilegt]
Svo ég láti atburði helgarinnar alveg ósagða, þá er best að hafa þetta kvart-mánudag! (í meiningunni kvörtunar ekki 1/4)

Útvarpsstöðin Skonrokk er hætt, hvað á ég að hlusta á núna?
Miðstöðin í bílnum mínum gefur frá sér skrítin hljóð, hvernig á mér að vera hlýtt núna?

Og þá er það eiginlega komið, þegar ég pæli í því þá eru góðu hlutirnir fleiri:

Getiði hvaða bíll komst í gegnum skoðun? :) :) :) :) :)
Ég er búin með heimadæmi fyrir morgundaginn.
Afhverju ekki að "koma" út um gluggann?
Bíllinn minn drífur upp brekkur!

fimmtudagur, janúar 13, 2005

[fyrstu viðbrögð]
Á þriðjudaginn mætti ég í minn fyrsta tíma í fagi sem heitir Sveiflufræði. Það fyrsta sem kennarinn sagði eftir að hafa kynnt sig var "Þetta er í rauninni bara beint framhald af Aflfræðinni." Þá heyrðust óp þaðan sem ég sat.

Aflfræði er semsagt námskeið sem ég var í fyrir áramót. Námskeiðislýsingin er einhvernvegin svona "Grundvallaratriði aflfræðinnar, Lagrange og Hamilton..." en ætti í rauninni að vera "Helvíti á jörðu, forðaðu þér meðan þú getur..." Það tók heilan dag í hverri viku að gera heimadæmi, og þegar ég segi heilan dag meina ég 8 til 10 tíma. Ég gaf allt sem ég átti í þetta... endalausar klukkustundir af dæmareikningi... allt blóðið, svitinn og tárin...

Og núna þarf ég að endurtaka leikinn!!!

[Nú nokkrum dögum seinna er ég komin yfir áfallið og þetta lítur ekkert svo illa út]

mánudagur, janúar 10, 2005

[Hvað er list?]
Í gær ætlaði mamma að fara að hitta systur sína, þá tilkynnti pabbi henni það að hann færi þá bara einn á málverksýningar á meðan. "Helgi" sagði mamma "ætlarðu að halda framhjá mér!?" en venjulega fara þau tvö saman á sýningar. Síðan ákvað ég að fara með pabba á listasýningar, svo að í raun má segja að pabbi minn hafi í gær haldið framhjá mömmu minni með MÉR. Sjúka lið, hugsið þið.

Við feðginin hófum leikinn í Hafnarborg í Hafnarfirði, þar var verið að sýna verk eftir ýmsa. Ég er ekki enn búin að taka list og listamenn í sátt eftir að hafa orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með Andy Warhol sýningu í fyrra eða hitteðfyrra svo ég átti erfitt með að vera jákvæð. Komment mín um listaverkin voru þrenns konar:
a) ehe *gretta*
b) SKÚLPTÚR! Ég hélt þetta væri niðurfall!!!!!!!
c) Járnsteypu er ekki sniðugt að nota í hástyrkt tannhjól.

Ég notaði komment b) reyndar bara einu sinni en þá átti það vel við. Komment c) eru einhver nördafræði svo viðbrögð mín við flestum myndunum var pen gretta. Ég bara hef það ekki í mér að segja að eitthvað sé áhugavert eða flott eða hvað sem er nema ég meini það og það var ekkert áhugavert þarna. Ég er bara ekki búin að læra að meta svarta ferninga á hvítu blaði.

Næst fórum við á Safn, það er nútímalistasafn við Laugarveginn. Ég hafði aldrei farið þar inn áður og hélt það væri bara þetta eina herbergi sem maður sér frá Laugarveginum, en svo kom í ljós að þetta er safn á þremur hæðum og það er margt þarna inni þess virði að skoða. Langflottasta verkið var uppblásin garðsundlaug, í henni flutu fullt af mismunandi skálum á vatni. Þegar skálarnar rákust saman komu skemmtileg hljóð, þetta listaverk þótti mér áhugavert.

Ég skora á alla sem eiga leið um Laugarveginn að kíkja þarna inn og líta á verkið "Upp upp mín sál" það er úti í horni á neðstu hæðinni.

Seinasti viðkomustaðurinn var hjarta íslenskrar menningar, Bæjarins bestu. Á meðan við biðum í röðinni horfðum við á Íslending og Grænlending rífast hinu megin við götuna. Ég spurði pabba hvort þetta væri contemporary art, þetta var nú einu sinni áhugavert og tímabundið. Þarf einhver að ákveða að eitthvað sé list til að það sé list?

Fljótlega kom löggan og stakk Grænlendingnum inn í bíl okkar megin götunnar og við hlustuðum á Íslendinginn saka hann um alls kyns ósóma á meðan við snæddum pulsurnar okkar.

Já Reykjavík er sannlega menningarborg.


Nú kemur loðna setningin:
Á einum stað þessum texta er vísað í ákveðna kvikmynd. PUNKTUR
(bannað að giska hvaða kvikmynd)

föstudagur, janúar 07, 2005

[Ætli ég sé þá orðin frísk?]
Það er mjög furðulegt ástand á mér. Ég er búin að vera ógeðslega veik síðustu tvo daga, ekki búin að standa í lappirnar og ekki borða, það hefur ekki komið fyrir mig síðan haustið góða 2000. Það byrjaði á því að ég vaknaði á miðvikudaginn og var hræðilega flökurt og langaði ekki í mat (venjulega vakna ég við eigið garnagaul), síðan lagaðist það en um kvöldið fékk ég svakalega beinverki og svaf frá 7 um kvöldið til 11 morguninn eftir. En þá voru beinverkirnir alveg horfnir en í staðin kominn hræðilegur magaverkur, sem hvarf ekki fyrr en eftir miðnætti.

Ég lá og sötraði kók og ímyndaði mér hvað væri að mér, hélt á tímabili að botnlanginn væri að springa mjög MJÖG hægt. Ég reyndi líka að muna í hvað Íslendingasögu gaurinn sagði Ekki geng ég haltur fyrr en fóturinn er farinn af! (eða álíka) á meðan vessi/gröftur spýttist út úr fætinum á honum, veit það einhver?? Þetta reyndi ég að muna því að ég stóð ekki upprétt vegna magaverks og fannst ég vera algjör aumingi.

Í dag virðist ekkert vera að mér, en ég er ekki alveg að treysta því, hrædd um að næst fái ég útbrot eða eitthvað.

Var þetta ekki skemmtileg veikindasaga?

mánudagur, janúar 03, 2005

Það er alltaf lokað í bönkum fyrsta virka daginn á árinu. Það vissi ég ekki, en það kemur sér ekki vel fyrir mig. Kortið mitt rann út 12/04 og ég komst ekki að því fyrr en daginn eftir þ.e. nýjársdag. Ég var á leiðinni til Svövu Dóru í förðun en þurfti að koma við í leiðinni og taka bensín. Hitamælirinn sýndi -12, það var ógeðslega kalt úti, og ég var ekki vel klædd. Ég setti kortið í kortasjálfsalann sem ældi því útúr sér aftur og sagði KORT ÚTRUNNIÐ. Ekki uppáhaldsbyrjunin mín á nýju ári. Sem betur fer var maður á næstu dælu, ég fór til hans og sagði "Afsakið, kortið mitt rann víst út í gær, gætirðu nokkuð notað kortið þitt til að ég geti tekið bensín og ég borga þér til baka í peningum?" Hann hló en gerði það síðan. Hitamælirinn sýndi -13.

Afhverju var ég að segja þessa sögu? Ég veit það ekki, rugl. Núna er ég samt öskuvond út í bankann minn að hafa ekki sent mér bréf um að ná í nýtt kort fyrir áramót eins og hann gerir venjulega.

Svava Dóra málaði mig ógeðslega flott, hún kallaði það smókí förðun, gerfiaugnhár og læti, ég var heví gella, líktist sjálfri mér ekki neitt ;)

Annars voru gamlárskvöld og nýjárskvöld bæði mjög góð!