sunnudagur, febrúar 29, 2004

Ég og Héðinn mættum í 25 ára afmæli hjá Jónatani. Við gáfum honum fyndna gjöf, bókina Herra Æðislegur og hann var ýkt ánægður með hana, ætlar að ramma hana inn. Atburðarás kvöldsins má lesa hjá Rakel, takið bara tillit til að ég var full en ekki hún og að ég mætti ekki fyrr en liðið var byrjað að syngja.

Ég og Héðinn fórum í sund í dag og síðan í pool. Ég var ekkert smá léleg en það var í góðu lagi, Héðni fannst ekkert leiðinlegt að vinna alltaf.

Var að setja nokkrar myndir frá London í nýja fína fotki albúmið mitt, tjekk it át! Fyrir þá misstu af ferðasögunni þá er hún hér.

föstudagur, febrúar 27, 2004

"Þura eigum við ekki að gera eitthvað skemmtilegt saman í dag, svo þú getir lært í kvöld?" sagði minn yndislegi kærasti við mig í morgun. Ég ætlaði að segja "Héðinn það er föstudagur, ég ætla ekki að læra í kvöld!" en síðan fattaði ég að ég er að fara í tilraun í fyrramálið og get voða lítið gert í kvöld þannig að ég sagði við hann
"Jú elskan, ég skal læra í kvöld. Langar þig að spila Dungeons and dragons við nördavini þína?"
"Já!!!!" sagði hann voða happý og kinkaði mikið kolli.
Þannig fór það, við fórum í dag og fengum okkur að borða og kíktum í bæinn og svona. Héðinn talaði hálftíma af mikilli innlifun um einhvern karakter sem hann var að búa til fyrir ævintýrið, það er ótrúlegt hvað ég er orðin góð í að brosa og kinka kolli án þess að vera virkilega að hlusta. Hann skipti meira að segja um bol og fór á nördasamkomuna sína í nýja Thundercats bolnum sínum, ánægður eins og lítill strákur sem hefur fengið nýjan he-man kall (ísl. hann-maður maður). Núna er ég bara ein heima á netinu... en bara sátt.

Tók próf í burðarþolsfræði í morgun. Ég var voða ánægð í prófinu og teiknaði eitt línurit sem var eins og kameldýr og eitt sem líktist broddgelti, síðan fékk ég í hendurnar lausnarblað og línuritin þar voru gíraffi og slanga. Ég var ekki sátt, ég er hrædd um að falla, svörin mín voru ekkert lík svörum kennarans.

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Áðan gerði ég merkar verkfræðilegar uppgötvanir sem reyndar aðrir höfðu fattað á undan mér, en samt ákveðinn árangur það. Er á bókhlöðunni á fimmtudagskvöldi, ég vorkenni sjálfri mér næstum því.

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Var að rekast á nýtt ókeypis-myndaalbúm á netinu, á fotki.com, fann ekki snúruna í myndavélina þannig að ég gat ekki sett London myndirnar inn í tölvuna og gerði í staðin albúm með gömlum bull myndum. Tékkið á því HÉR og segið mér endilega hvað ykkur finnst (um albúmið, ég veit að myndirnar eru furðulegar). Er þetta ekki mikið flottara en Yahoo albúm sem er svona? Þennan fund minn get ég þakkað Ellu gellu sem er einmitt vinkona Ellu gellu (passið að ruglast ekki því þær eru tvær). Ok nóg um myndir, verð að finna helv snúruna að myndavélinni þetta gengur ekki.

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Hve furðulegt er þetta? Í dag, klukkan 3 á sunnudegi var ég búin að læra í 2 tíma uppi í skóla og hlaupa nokkra kílómetra í Hreyfingu, þetta er ekkert venjulegt. Á sunnudegi á maður í mesta lagi að vera búin að fá sér cheerios klukkan þrjú. Dagný hringdi og vakti mig klukkan hálf ellefu. "Var ég að vekja þig? Drífðu þig á fætur við þurfum að gera skýrslu!" Ég gerði reyndar voða lítið í gærkvöldi og var farin snemma að sofa því ég var svo þreytt, ekkert úthald.

Skrítið! Á fimmtudaginn í dansi var ég með í boing-inu og það var bara skelfilegt, það er eiginlega enginn "kall" (kall er karlkyns einstaklingur í kod sem er of gamall til að vera í jógúrt) sem getur dansað. Jú jú Bjarni er fínn, Kolbeinn og auðvitað Gunnar, fínt að dansa við Óla Grens af því hann er svo indæll en allir hinir eru slæmir dansarar. Stelpur ef þið viljið láta snúa upp á handlegginn á ykkur, anda að ykkur sígarettulykt eða vera stanslaust nokkrum töktum á eftir bjóðið þá einhverjum manni upp! Annars ó mæ god, það þarf að senda þessa gaura á dansnámskeið. Ég veit eiginlega ekki afhverju ég er að láta þetta fara svona mikið í taugarnar á mér því ég dansa ekkert við þessa kalla nema mesta lagi í boingi, þetta kom mér samt bara frekar á óvart.

Dröslaðist með settinu í heimsókn til ömmu. Lék allan tíman við Baldvin litla frænda minn sem verður eins árs á morgun. Hvernig er hægt að vera svona sætur? Mamma hans er frá Malasíu og dökku augun og millidökka hörundið er alveg ómótstæðilegt. Hann er að læra að labba og ég var að halda í hendurnar á honum og elta hann. Svo vildi hann líka kúra í hálsakotinu mínu, ég held að það hafi verið út af því að ég var í mjúkri peysu. Ég var alveg að missa mig.

laugardagur, febrúar 21, 2004

Árshátíð 2004

Árshátíðin var æðisleg! Ég bara verð að deila með ykkur nokkrum smáatriðunum (eftir ritskoðun að sjálfsögðu). Ég og Dagný fengum far til Hveragerðis (Hótel Örk) hjá Jóni og strák sem heitir Palli og ég hafði aldrei séð áður en er samt í verkfræði, við lögðum frekar seint af stað þannig að við misstum eiginlega af fordrykknum sem var í boði Opinna kerfa. Við drukkum bara bjór á leiðinni og höfðum það gott. Í forrétt var borin fram humarsúpa með brauði, mér fannst hún frekar sölt. Á meðan beðið var eftir aðalréttinum sem var nautafillet var píanóleikari að spila (ekki Steini samt), þegar hann spilaði lagið Nína þá fóru allir að syngja með af mikilli innlifun og mjög sérstök stemning skapaðist í salnum. Meðan beðið var eftir eftirréttinum sagði einn gaur brandara, það var þannig að áður en það byrjuðu svona margar stelpur í verkfræði hélt verkfræðin alltaf árshátíð með hjúkkunum. Þeir fáu gaurar sem voru í hjúkkunni voru þá taldir hommar. Þá kom punkturinn í sögunni, þá hljóta stelpur í verkfræði allar að vera lessur! Þar sem stelpur voru í meirihluta þá fékk þessi ályktun ekki góðan hljómgrunn. Í eftirrétt var ís með ferskum ávöxtum og horft var á skemmtiatriði. Eftir ágætis skemmtun fórum við upp á herbergi með nokkrum stelpum, þar var farið í hinn ómissandi "koddaslag í hvítum bolum" og drykkjuleiki, förum ekki nánar út í það. Svitabandið lék fyrir dansi og dansgólfið var alveg pakkað allt kvöldið, það var brjálað stuð. og búið...

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Er þín fjölskylda plebbafjölskylda? Taktu prófið! (merktu við það sem best við á)

1. Á sunnudögum...
a) borum við upp í nefið.
b) tölum dönsku.
c) förum við á kammertónleika í hörfötum.

2. Við eigum...
a) einn bíl sem við bítumst um
b) 2 bíla
c) 4 bíla eða fleiri

3. Bílategundirnar sem eru á heimilinu eru...
a) Benz og BMW, við kjósum að nafngreina ekki hinar tegundirnar
b) Skoda með biluðu púströri
c) Yaris og slyddujeppi

4. Húsið okkar er á...
a) tveimur hæðum
b) hús? Það er plebbaskapur að búa í húsi, við búum í kjallaraíbúð!
c) 6 hæðum, auk háalofts og sér bílskúrs

5. Á síðasta ári fórum við...
a) öll til útlanda í sitthvoru lagi með Icelandair
b) í bústað með frændfólki í Borgarnesi
c) til Mallorka á yfirdrættinum

6. Foreldrarnir eyða sumrinu í að...
a) snyrta garðinn og drekka lemonade þegar þau verða þreytt
b) Labba Laugarveginn og fara í Þórsmörk
c) vinna auðvitað, sumarfríið endist ekki í nema örfáar vikur!

Stigagjöf fer fram alveg eins og í Birtu:
1) a)-1 b)-3 c)-2
2) a)-1 b)-2 c)-3
3) a)-3 b)-1 c)-2
4) a)-2 b)-1 c)-3
5) a)-3 b)-1 c)-2
6) a)-3 b)-2 c)-1

Niðurstöður:
6 - 9
Lágmenning, lágstétt, lowrider, J-Lo you name it. Þín fjöskylda hatar plebba, þið eruð allt nema plebbar. Rokkarar, anarkistar, uppreisnarseggir, meðaljónar. Fyrir ykkur er allt betra en plebbaskapur! Kannski eruð þið skápaplebbar, fílið plebba í laumi en þorið ekki að segja neinum af ótta við að skaða mannorðið.
Frægt fólk í antiplebbamerkinu: Þeir sem búa yfir sönnum MH-anda t.d. Sigurjón Kjartansson

10 - 14
Þið eruð nett meðalfjöskylda, það vottar fyrir smá plebbaskap en hei hver fílar ekki flotta bíla og nýskornar rósir í eldhúsglugganum?
Frægir meðaljónar-og gunnur: Allir hinir


15 - 18
Díses, hættið að reyna að vera venjuleg. Ef að plebbar hefðu konung þá væri það þín fjölskylda eins og hún leggur sig. Hvað á að gera í sumar, heimsækja spænsk listasöfn? Engum manni dylst hið sanna innrætti ykkar, they can smell it! Ekki klippa levi´s merkið af gallabuxunum, þetta er ekkert til að skammast sín fyrir!
Frægt fólk í plebbamerkinu: Svenni vinur hans Stebba, ég (uhum)

Aths. Til að enginn verði fúll ætla ég að segja að þetta próf gerði ég í djóki því mamma sagði eftir kvöldmat í kvöld Jeg er só sad! Sem átti að skiljast Ég er svo södd! á dönsku. Einnig var gamli bimmi minn að komast í gegnum endur-skoðun eftir að pabbi talaði kallinn til. Ég fór að pæla að við slettum dönsku (illa) á heimilinu og eigum bimma og fannst það alveg geta hljómað plebbalega. Fleira sem mér dettur plebbalegt í hug við okkur: Við búum í sama hverfi og Kári Stefánsson!

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Jón ætlar á árshátíðina, Jón ætlar á árshátíðana. Núna er hann í mestu vandræðum í hverju hann á að vera. Við stelpurnar ætlum að vera fínar þannig að það er eins gott að hann mæti í jakkafötum. Þeir sem ekki hafa hitt Jón gætu haldið að eitthvað væri í gangi, EN þeir sem hafa hitt Jón vita að svo er ekki.

Ég verð að segja nokkur orð um tölvustofurnar í skólanum. Þær eru mjög ómissandi (tölvurnar þ.e.a.s.) en staðreyndin er sú að á venjulegum degi er einn þriðji tölvunotenda að spila tölvuleik. Gallar: Þeir sem þurfa að komast í tölvur til að læra (AutoCAD) komast ekki. Kostir: Samviskubit sem ég ætti að hafa fyrir að nota tölvur sem aðallega eru ætlaðar 2. og 3. árs nemum er ekki til staðar. Þessir gaurar eru í svo krúttlegum tölvuleikjum sem snúast um litla krúttlega kalla í fótbolta á ljósgrænum og ljósbleikum velli.

mánudagur, febrúar 16, 2004

Sex pælingar

1) Ætli ég sé búin að vera að eyða of miklum tíma uppi í skóla undanfarið? Þegar ég loga mig inn á msn eða blogger þá skrifa ég undantekningalaust hi.is lykilorðið.
2) Var að lesa orðlaus og þar var verið að spurja fólk spurninga eins og hver verður forsætisráðherra? Það voru stelpur á mínu aldri sem vissu þetta ekki. Hver er ríkisstjóri í Kaliforníu? Ein svaraði: "Ég fylgist ekkert með bandarískum stjórnmálum!" Er þetta eðlilegt??
3) Ég er sammála Ólöfu þegar hún spyr Er Paris Hilton virkilega svona heimsk? Horfði á Simple life í gærkvöldi, fyrst hélt ég að gellurnar væru bara að fíflast með því að láta eins og algjörar ljóskur, en þær halda bara endalaust áfram, það nennir enginn að þykjast vera heimsk ljóska 24 tíma á dag. Hvað er að?
4) Hvernig ætli vefsíður á tungumálum sem byrjað er að skrifa neðst til vinstri á blaðsíðunni séu? Er browserinn öfugt við okkar, eða?
5) Hvað er gert við pissið þegar maður pissar í klósett í lest? Er það látið leka á teinana eða er því safnað saman í tunnu sem "klósett-losarinn" losar þegar lestin kemur á endastöð? Þetta er spurning sem hefur plagað mig svo árum skiptir. En í flugvél?
6) Í hverju á ég að vera í á árshátíðinni? Nei bara að pæla.

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Jón Einar er mesta æði í heimi! Ég hitti hann og Dagnýju í bænum á föstudagskvöldið. Fyrst vorum við eitthvað á Ara í Ögri í og með að tala við einhverja stráka sem eru í um og bygg á 1. ári en ég hef aldrei séð áður. Kíktum síðan á Prikið þar sem var svona ansi góð tónlist, við fórum eitthvað að dansa og Jón gjörsamlega fríkaði út. Ég var líka í brjáluðu stuði og það var svo gaman. Hann gekk þó einum of langt þegar hann náði sér í klaka... ;)

Ég og Dagný mættum síðan hressar í tilraun kl. 8 morguninn eftir, það var bara stemning. Ég komst að því að ég er með einhverskonar sjónskekkju, ég gat ekki horft í gegnum eitthvað gler og á vegginn á sama tíma. Kannski var bara ekki alveg runnið af mér, ég er ekki alveg klár á því. Eftir að hafa klárað tilraunina á 2 og 1/2 klukkustund helltum við okkur út í AutoCAD verkefnið, við vorum ekki nema til 6 uppi í skóla. Í millitíðinni var þó nauðsynlegt að fara á megaviku á Dómínós.

Í gær horfðum ég, Atli, Svanhvít, Svenni og Toni á gæðamynd saman. Skrítið að ég muni ekki hvað hún heitir, Dolcemite eða eitthvað svoleiðis, ég hef mjög mikla skemmtun af því að horfa á svona trendí myndir og drekka í mig háfleyg samtöl og gæða leik. Hvað var Akademían að pæla árið 1974 þegar hún gekk framhjá þessari? Fór síðan í bæinn með strákunum og verð að segja að Toni er einn af jákvæðustu gaurum sem ég hef kynnst, hann alveg geislaði. Kom heim klukkan hálf sex og reifst við móður mína af því að ég kom svo seint heim. Ef að einhver gæti útskýrt fyrir henni að það eru ekki bara rónar og dópistar sem eru svona lengi úti á nóttunni þá væri það mjög fínt. Hún er alveg handviss um að ég sé alltaf ein að hanga með einhverju vafasömu liði og allir hinir fari heim að sofa klukkan 1.

miðvikudagur, febrúar 11, 2004

Hið ómögulega gerðist í dag. Ég gerði bæði eðlisfræðiheimadæmin mín sjálf tveimur dögum fram í tímann og gat þau bæði alveg sjálf! Glæsilegur ferill minn í eðlisfræði er augljóslega hafinn, ég ætti barasta að skipta yfir í eðlisfræði, taka síðan doktorspróf í Kína eða Rússlandi og heilda yfir kúlur og kirkjur og pönnukökur, þilja upp allar reglur Kirchhoffs og finna upp brjálaða hluti. T.d. er ekki hægt að byggja tíma vél án þess að láta í hana flux capacitor, það ætti hverjum manni að vera ljóst, þá er bara að finna upp flux capacitor. Stórir hlutir eru framundan í heiminum.

mánudagur, febrúar 09, 2004

Ég var ótrúlega dugleg um helgina, alveg ótrúlega það var soldið magnað. Ég náði meira að segja að fara út að leika. Á föstudagskvöldið fór ég í vísindaferð í VSÓ, ég var brjálað illa klædd og það var vont veður þannig að í byrjun var ég ekkert svaka bjartsýn. Eftir fyrsta bjórinn var allt í góðu. Kynningin í VSÓ var meira en lítið, fyrst talaði einn kall og síðan annar og þetta var allt svaka áhugavert. Síðasti ræðumaður var grannvaxinn dökkhærður maður með skrítinn hreim, hann byrjaði eitthvað að tala, eftir eina mínútu sagði hann: "Núna ætla ég að lesa fyrir ykkur upp úr mastersritgerðinni minni." Og byrjaði að lesa þurran og leiðinlegan texta, eftir smástund byrjaði tónlist og maðurinn byrjaði smátt og smátt að dansa, alveg þangað til hann var að dansa á fullu. Við sprungum öl úr hlátri, síðan fór hann að juggla og tók sjálfboðaliða upp á svið svo úr varð hin mesta skemmtun. Á eftir var haldið á Pravda þar sem, þar tókst mér að kvarna úr frammtönnunum mínum með því að rekast í bjórglas, en ég hætti fljótlega að pæla í því vegna þess að Vaka var að gefa ókeypis bjór og það þýddi ekkert að hætta þarna. Um tíuleitið sagði Lilja við mig að við værum að fara, ég sagði bara já og amen og við, Rósa og Jóhanna fórum á Nelly´s og einhverja fleiri staði. Við enduðum á Ara í ögri að syngja með trúbadorum (2 sko), annar rak gítarinn í hausinn á mér (eða ég hausinn í gítarinn) og var svo elskulegur að biðjast afsökunnar.

Á laugardaginn var ég komin upp í skóla og ég og Dagný unnum í eðlisfræðivinnubókinni og tölvuteikningu alveg til 5, ýkt duglegar. Ég hafði ákveðið að laugardagskvöldið yrði notað til afslöppunnar og að ég skildi vera kominn snemma heim. Ég, Svanhvít, Steini og Svenni fórum í bíó, Steini vildi fara á Lost in Translation en var ekki nógu ákveðinn þannig að ég ákvað að við skildum fara á Monster. Ég veit ekki alveg hvort ég sé eftir þeirri ákvörðun, myndin var mjög mjög góð en einnig mjög mjög átakanleg og gróf, eða kannski ekki gróf heldur hrá, ég bjóst við að hún yrði dempuð meira niður. Charlize Theron var rosalega góð, það er alltaf verið að tala um að hún hafi bætt á sig svo mörgum kílóum fyrir myndina en hún var ekkert feit, hún líktist meira eðlilegri konu í vextinum. Mæli pottþétt með Monster fyrir þá sem eru ekki með viðkvæma sál. Á eftir fórum við heim til Steina og Svanhvítar og Steini eldaði sem var heví næs, enduðum dansandi á Kofanum þangað til 5 um morguninn. Og ég fór ekki snemma heim.

Á sunnudaginn þá sko... nei ég held ég sleppi því.

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Ég fór í þolfimitíma í Hreyfingu í gær, venjulega sér kona um tímann en hún komst greinilega ekki í gær þ.a. við fengum einhvern gaur sem ég hafði aldrei séð fyrr. Um leið og hann byrjaði að tala kom í ljós að hann var hommi, ég brosti með sjálfri mér. Síðan byrjaði hann að gera spor og pardon my french en hommalegri spor hef ég aldrei séð, hreyfingar hans voru svo ýktar að hann hefði getað verið að sýna sjónskertum sporin. Svo byrjaði hann að hvetja: "Áfram stelpur, nota hendurnar, NOTA HENDURNAR!", "Ef þið notið ekki hendurnar þá 100 armbeygjur, og ég er ekki að djóka!", "Ég er að leggja sál mína í þennan tíma, þið verðið að gefa mér eitthvað á móti!!!" Ég gat ómögulega ekki glottað, hann var yndislegur.

Fleiri skemmtilegir karakterar: Hann Viðar stærðfræðinemi sér um dæmatímana mína í stærðfræðigreiningu, þegar hann skrifar: skv. bls. 697... segir hann orðrétt Ess ká vaff bé ell ess sexhundruðnítíuog sjö... (ath. síðasti parturinn í setningunni er ekki fyndinn). Þetta er frekar skondið, fyrst var ég alltaf að spá í hvort þetta S.K.V. væri einhver spes stærðfræðiregla.

Speaking of which þegar Hómer Simpson kemur í fyrsta sinn fyrir utan líkamsræktarstöð, þar stendur GYM. Þá segir Hómer: gæm what the hell is a gæm? Síðan labbar hann inn, áttar sig og segir: Oh a djæm. Sem er fyndið því gym er borið fram djimm á ensku (eða þannig séð). Og síðan klífur hann upp á stóra fjallið.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Skóli igen, ég var ekkert smá lengi að fatta að ég væri í skóla og þyrfti actually læra þegar ég kom frá London. Endalaus heimadæmi aftur, ég var alveg í stuði að vera lengur í fríi í London og borða snakk úr minibar.

Helgin var mjög fín. Framkvæmdi eðlisfræðitilraun á mjög fagmannlegan hátt á laugardagsmorgninum, þegar ég var búin 5 tímum síðar komst ég að því að einn takkinn var vitlaust stilltur þ.a. allar mælingar voru vitlausar, what að waste! Skellti mér á salsanámskeið hjá hinum kúbverska Carlos, hann var alveg æðislegur. Hann talaði ekki ensku, heldur bara norsku og auðvitað spænsku. Ég komst að því að ég er ýkt góð í norsku en það var samt soldið erfitt að tala við hann. Ég var ekkert smá sátt við þetta námskeið, ég lærði fullt nýtt og það var mjög gaman. Um kvöldið var salsa-æfingadansleikur sem jógúrt mætti á og alveg 2 önnur pör, ekki fjölmennasta ball sem ég hef mætt á. Ég var yfir heildina ánægð með helgina, gaman gaman, fleiri svona helgar. Ekki eins og stelpan sem fór á djammið og drakk svo mikið að hún flassaði og man ekki eftir því.

Fyndið: Tvö tungumál sem ég skil ekki: norska og spænska og heyra síðan norsku talaða með spænskum hreim. Það hljómar skringilega í mín eyru.