laugardagur, september 22, 2007

Að bresta á

Ekki á morgun heldur hinn.

Partý í gær gott já.

Það er e-r truflun á merkinu.

Ég virðist hafa farið úr fasa.

fimmtudagur, september 20, 2007

miðvikudagur, september 19, 2007

Meiri Strútur

Beint framhald síðustu færslu.

Eftir að búið var að kippa í númer 1 var keyrt suður fyrir Mælifell:
Danski herinn (eða a.m.k. einhver her) var líka á ferð og fór frammúr okkur á blússandi ferð:

Á leiðinni til byggða skiptust bílarnir á því að festa sig og draga hvern annan upp og útsýnið var mjög fallegt. Kristinn Jósep (t.h.) var duglegur að ýta.

Mér leist ekkert á uppleiðina úr Bláfjallakvísl:
Svo fóru allir hinir yfir:
Það var enginn maður með mönnum nema vera í svartri flíspeysu og með sólgleraugu. Ákvarðanatakan var einhvernvegin þannig að miðsonur Einars sagði mér sem sagði Snorra sem sagði Hemma að við skyldum fara að leggja af stað.Leiðin heim gekk samt ágætlega.

Þetta var ótrúlega skemmtileg helgi og fín svona rétt fyrir brottför til UK.

þriðjudagur, september 18, 2007

Strútur 2007

Ég fór í jeppaferð með (bráðum gömlu) vinnunni um helgina og tók nokkrar myndir spes fyrir aulabarnið.

Við lögðum af stað seinnipart föstudags. Um 30 manns á 9 jeppum. Ókum sem leið lá á Hvolsvöll. Þaðan að Emstrum og yfir Mælifellssand að Strúti,skála ferðafélagsins norðan Mælifells. Á leiðinni var slydda eins og vera ber í slyddujeppaferð og skyggni lítið sem ekkert.

Á leiðinni sáum við gegnum hríðina senda fyrir fasaviksgervitungl, þeir voru þríhyrningslaga.

Á laugardagsmorgun var fólk vaknað heldur snemma fyrir minn þunna smekk og við vorum lögð af stað á rúntinn hálf 11. Það var hvasst og snjóaði og skyggni var lítið.

Mér leist ekkert svakalega vel á að fara yfir Kaldaklofskvísl:

Við vorum um klukkutíma á leiðinni að Hvanngili. Veðrið var svo slæmt að þar var ákveðið að snúa við og keyra til baka í skálann og reyna að festa sig á leiðinni eins og Hemmi orðaði það. Einn bíll festist í/við Brennivínskvísl. Strákunum fannst greinilega mjög gaman að draga hann upp:

Við vorum komin í skálann upp úr 1 (eftir hádegi) og þá lögðu sig flestir. Ég svaf allavega í 3 tíma og fékk svo bjór á mat á meðan þeir orkumiklu fóru í göngutúra í snjónum. Þegar kvöldaði var snjónum mokað af grillinu og Einar grillaði fullt af kjöti. Um kvöldið var fullt af áfengi drukkið og spilað og sungið.

Á sunnudagsmorguninn var glampandi sól og enginn vindur. Þá sá ég loksins hvernig var umhorfs í kringum skálann. Hér er fjallið Strútur og kamarinn (hafði þó fundið kamarinn strax á föstudeginum, hjúkk). Um hádegisbil lögðum við af stað til byggða. Stóri bíllinn, númer 1 byrjaði á því að festa sig í krapa og leðju þegar hann var að reyna að finna leið yfir fyrstu ána við Strút. Sennilega mun Númer 1 bæta merkingunni Strútur 07 á bílinn við hliðina á Greenland 99 og Antartica 97/98 merkingunum:Hvað gerðist? Var bílnum bjargað? Það kemur í ljós í næstu færslu (því blogger vill ekki hafa þessa lengri).

föstudagur, september 14, 2007

Mig minnir að einhverjum á verkfræðistofunni hafi þótt þetta fyndið.

Var að taka til á vinnutölvunni og rakst á þetta:


Frík

Mér fannst ganga nokkuð vel þegar ég var búin með 28 atriði af þeim 32 sem voru á minnislistanum mínu. Þá ákvað ég að uppfæra listann. Núna er ég búin með 31 af 49 atriðum.

Held að skipulagsfríkið í mér hafi sloppið út...

sunnudagur, september 09, 2007

Styttist

Núna eru bara tvær vikur þangað til ég fer til London. Það er voða stutt síðan það voru 17 vikur, eða um 15 vikur.

Ég er svaka spennt fyrir að setjast aftur á skólabekk. Kannski af því að ég er ekki sest ennþá. Ég er samt sátt við námshléið, það var frábært að vinna í þetta rúma ár. Ég er ekki frá því að ég hafi lært meira á því heldur en á þremur árum í HÍ, og ekki lærði ég lítið þar.

Vinnuárið mitt á Almennu verkfræðistofunni byrjaði í júní 2006 og endar eftir 2 vikur. Fyrsta hálfa árið, frá júní til 1. desember kalla ég sumarið langa. Það er vegna þess að eftir útskrift úr HÍ sem var einmitt í lok júní 2006 ákvað ég að slappa af og fresta öllum ákvarðanatökum um framtíðina, framhaldsnám o.s.frv. fram á haust og bara hafa það gott (lesist djamma). Á 22. helgi í röð ákvað ég að þetta væri orðið gott í bili og rauf keðjuna. Ákvarðanirnar létu samt eitthvað bíða eftir sér.

Á þessu tímabili sem ég hef unnið á AV hef ég farið 5 sinnum til útlanda, ef ég tel útskriftarferðina með. Til San Francisco, L.A. Las Vegas og Hawaii í útskriftarferðinni í maí-júní 2006, helgarferð til London í október, helgarferð til New York í desember, árshátíðarferð með AV til Rómar í mars, sumarfrí til Danmerkur í júlí. Fyndið hvernig þetta raðast, í heilt ár á undan fór ég ekki neitt til útlanda.

Í vinnunni á föstudaginn spurði yfirmaður minn mig í gríni (já veit magnað, í gríni) hvort ég væri ekki fegin að losna úr vinnunni. Ég sem hafði verið að slá um mig með hnyttnum tilsvörum varð alveg kjaftstopp og sagði bara eitthvað eh öh ég veit það ekki. Hann nær mér alltaf kallinn...

Þetta er búið að vera stormasamt ár...

mánudagur, september 03, 2007

Æ æ æ

Ég fékk póst frá kerfisstjórn HÍ þar sem mér var tilkynnt að loka ætti HÍ-póstinum mínum og heimasvæðinu eftir nokkra daga.

Spurning hvort maður ætti að kafa í frumskóg mismerkilegra gagna og pikka út þau merkilegustu eða láta bara allt draslið flakka.

HÍ-netfangið nota ég alltaf við skráningu á netinu. Notaði. Held mig sé að reka í átt að landi í ólgusjó internetsins.

sunnudagur, september 02, 2007

Framfarir

Þessa dagana þarf ég bara að vera í teygjusokkum á daginn, þarf ekki að sofa í þeim líka. Það er ekkert smá mikill munur. Er búin að finna mikinn dagamun á mér alla dagana eftir aðgerðina. Núna finn ég eiginlega ekkert til lengur og hi my name is Thura, it's been seventeen hours since my last pain killer. Vúhú!

Þegar ég er orðin þetta frísk er ekki laust við að heimaveran sé farin að verða fremur leiðigjörn. Dumdum dummmm