föstudagur, ágúst 31, 2007

Klipp

Ég er búin að vera að fara í gegnum allstóran bunka af gömlum úrklippum í dag (nota tímann í veikindafríinu). Í þessari yfirferð skiptist bunkinn í þrjá bunka; geyma, henda og skoða betur. Skoða betur bunkinn er dáldið skondinn, hann samanstendur að mestu af blöðum sem ég man ekki af hverju ég geymdi til að byrja með. Til dæmis er mér ómögulegt að muna hvers vegna ég á Lesbók Morgunblaðsins síðan 3. febrúar 2001. Reyndar er búið að rífa eina blaðsíðu úr, það hlýtur að hafa verið merkilega blaðsíðan.

Vona að mest lendi í henda bunkanum, já og svo þarf ég að kíkja betur á þessar úrklippur.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Ennþá heima

Gærdagurinn fór mestmegnis í að sitja með lappir upp í loft og teikna í paint. Seinni partinn tók ég teygjubindið af löppunum, alveg eins og ég mátti gera sólarhring eftir aðgerð. Ég er samt ennþá í teygjusokkum, og ég verð að vera í þeim í nokkra daga í viðbót. Já og svo sá ég pöddu.

Í dag er ég búin að vera að reyna að skilja facebook. Það gengur ekki vel. Ég hreinlega skil ekki facebook. Hvað gerir maður á facebook ! Þetta er allavega rosa tímafrekt allt saman.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Heima í dag

Lappirnar á mér eru vafðar inn í teygjubindi frá miðjum lærum og fram á ristar og eru frekar aumar eftir æðakrukkið í gær. Það eina sem ég get gert í dag er að sitja og liggja til skiptis í hinum ýmsu þægilegu stellingum. Röðin er: rúmið, eldhússtóll, sófinn, hægindastóllinn, annar sófi í stofunni, borðstofustóll og svo byrja aftur upp á nýtt. Inn á milli fæ ég mér vatn og verkjalyf. Það er ekki þægilegt að standa upp, labba eða beygja lappirnar, reyni því að gera sem minnst af því.

Hef það semsagt bara bærilegt.

Hér er útsýni mitt úr hægindastólnum í stofunni (eða sko hluti af því, ég sé meira af loftinu og til hliðanna líka):

mánudagur, ágúst 27, 2007

Viðgerðin

Í morgun hitti ég æðislega lækninn. Ég veit samt ekki hversu æðislegur hann er því ég var sofandi mest allan tíman sem hann var hjá mér, en hlýtur æðaskurðlæknir ekki að vera æðislegur. Það bara felst í starfsheitinu.

Ég tók leigubíl í Læknahúsið. Það er eitthvað skrýtið við það að taka leigubíl að deginum til á virkum degi. Leigubílsstjórinn var að hlusta á rás 2, þar var Rehab með Amy Winehouse spilað. Fannst það pínu viðeigandi.

Þegar ég var komin í spítalaslopp í Læknahúsinu hitti ég æðislega æðaskurðlækninn. Hann krotaði fullt á biluðu æðarnar mínar, sem hann ætlaði að laga, með tússpenna. Svo hitti ég svæfingarlækninn, hann geymdi dót ofan á mér eins og ég væri bakki. Mér fannst það heldur skondið og hlustaði bara á bítlalagið sem var í útvarpinu.

Tveimur og hálfum tíma síðar vaknaði ég af sjálfsdáðum, alveg hrikalega svöng og þyrst, með innbundnar lappir. Sem betur fer var ég sótt. Hefði verið heldur völt í leigubíl.

Núna er ég semsagt, komin úr viðgerð.

Æðislegur læknir

Á morgun (í dag) hitti ég æðislegan lækni. Hann er samt ekki draumalæknirinn.

Draaaaaauuuuuuumalæknirinn......

föstudagur, ágúst 24, 2007

10 atriði sem benda til þess að bíllinn þinn sé OF gamall:

1.Þú notar báðar hendur til að setja í bakkgír
2. Þegar miðstöðin er komin í gang ertu vanalega komin(n) á áfangastað
3. Þegar fólk biður um far hjá þér segir það „sendu nú gullvagninn að sækja mig...!”
4. Þegar þú svínar á fólk er hrópað á þig „Hei afi / amma !”
5. Stýrið er svo þungt þegar bíllinn er í 1. eða 2. gír að þú forðast götur sem hafa lægri hámarkshraða heldur en 50 km / klst
6. Það eru göt í gólfinu og þú biður farþega sem sitja í afturí stundum um að hlaupa með
7. Þú nýtir þyngdaraflið til jafns við pedala í akstri
8. Þú mundir kyrkja David Bowie ef þú hittir hann því kassetta með honum er búin að vera föst í kassettutækinu í bílnum í 8 ár
9. Þú mundir kyssa David Bowie ef þú hittir hann því kassettan er búin að vera biluð síðustu 5 árin
10. Númerið er hvítir stafir á svörtum grunni og byrjar á Ø

Vinna

Í vikunni sagði vinnuveitandi minn við mig:

Ef þú mætir ekki á föstudaginn, ekki mæta á mánudaginn!!!

Þá sagði ég:

Vúhú fjögra daga helgi !

Og hélt uppi öllum fjórum fingrum annarrar handar.

Ég þorði samt ekki öðru en að mæta í dag, föstudag.

Eða gerðist þetta ekki í alvörunni, sá ég þetta kannski bara í Simpson þætti?

Rosalega er skrýtið þegar skilin milli veruleika og afþreyingarefnis verða óskýr.

Algjör Astrópía.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

„ ”

Ég ætla að „reyna” „læra” „meiri” „verkfræði”.

Vanalega er ég á þeirri skoðun að maður á ekki að útskýra brandara. Ég ræð bara ekki við mig í þessu tilfelli. Þessa setningu notaði ég í samtali um daginn án gæsalappanna. Um leið og ég heyrði sjálfa mig segja þetta þá fannst mér línan ótrúlega fyndin. Til að hún verði skemmtileg verður maður samt að segja hana með gæsalöppum. (Er hægt að segja eitthvað með gæsalöppum? Skilst að maður geti sagst elska einhvern með osti, jafnvel froskalöppum, en gæsalöppum...) Útskýri nú hvers vegna orðin innan gæsalappa eru fyndin innan gæsalappa.

reyna: sýnir vilja til að gera eitthvað
læra: nálgast upplýsingar um eitthvað sem maður kann ekki, andstæðan við t.d. hanga
meiri: gefur til kynna að ég hafi lært verkfræði áður, ekki fyndið nema læra sé líka innan gæsalappa
verkfræði: fag sem snýst um að geta leyst fullt af vandamálum á sem stystum tíma á sem ódýrastan hátt... þegjandi

Þess vegna er fyndið að ég sé að fara að „reyna” „læra” „meiri” „verkfræði”.

Capiche? Einhver? [vandræðaleg þögn] Nei hélt ekki. Mér finnst þetta samt góð lína.

puh yeah "groovy"

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Orðið á götunni

1.
Starfsmaður situr við afgreiðsluborðið á bókasafninu. Hann er í tölvunni. Starfsmaðurinn er maður um fertugt. Að afgreiðsluborðinu kemur maður yfir fimmtugu. Starfsmaðurinn lítur upp. Maðurinn spyr starfsmanninn:

Er stúlka hérna sem getur aðstoðað mig?

Starsmaðurinn horfir á manninn þegjandi. Hann svarar:

Nei, hér er KARLmaður sem getur aðstoðað þig.

2.
Kona færir manni þær fréttir að sameiginleg kunningjakona eigi von á sínu þriðja barni. Fyrir á hún tvo drengi. Maðurinn segir:

Það er vonandi að það verði stelpa til að hún geti vaskað upp eftir bræður sína.