sunnudagur, maí 27, 2007

Undan vetri

Það sumrar.

Þar með er fyrsta vetrinum þar sem ég hef ekki verið í skóla lokið. Þetta er reyndar ekki alveg kórrétt, því ég byrjaði í skóla haustið '89 (ef ég kann að reikna) þ.a. alla vetur fram að því var ég ekki í skóla. Nema auðvitað leikskóla, en ég held það teljist ekki með skólagöngu. Kannski það geri það núna þegar fóstrur eru orðnar leikskólakennarar, en ég held það hafi ekki gert það þegar ég var í leikskóla og fékk að fingramála og fara niður í kjallara ef maður var góður. Það minnir mig allavega.

Ég byrjaði í grunnskóla haustið 1989. Ég man aðeins eftir fyrsta skóladeginum. Ég hafði aldrei komið inn í grunnskóla áður og var mikið búin að velta því fyrir mér hvernig hann liti út að innan. Það sem mér skildist var að þetta væri stór bygging með mörgum stofum og einn bekkur væri í hverri stofu. Ókei þá hlyti að vera ein skólastofa við útidyrahurðina, en stofan fyrir innan hana, hvernig komst maður þangað? Þurfti bekkurinn sem þar var alltaf að læðast í gegnum stofuna við útihurðina, ég skildi ekki hvernig þetta var skipulagt. Þegar ég svo kom inn í skólann í fyrsta skipti sá ég að maður kom fyrst inn á gang og frá ganginum inn í margar skólastofur. Ég man ekki hvað ég hugsaði þá, en mér hlýtur að hafa verið létt að sjá þessa sniðugu útfærslu á mörgum herbergjum í einu húsi.

Tíu árum síðar, eða haustið 1999 byrjaði ég í menntaskóla. Þá hafði ég engar ranghugmyndir um bygginguna fyrirfram enda hafði ég farið í kynnisferð þangað með grunnskólanum vorið áður.

Haustið 2003 hóf ég nám í háskóla, sem ég kláraði þremur árum seinna, vorið 2006.

Þá var ég voða fegin að klára og ennþá fegnari að vera ekki á leiðinni í meiri skóla. Enda ákvað ég að framlengja sumarið fram í desember. Núna er að koma sumar og skólalausi veturinn er búinn, mér gjörsamlega að óvörum. Ég þarf að fara að fá mér stórt vatnsglas og plómusafa borinn fram í hatti.

Þetta var útlistun á skólaferli mínum. Yfir og út!

þriðjudagur, maí 15, 2007

Páskapizzan

Þetta er hún, rétt fyrir bökun. Páskapizzan er bökuð á páskunum þau ár sem enda á oddatölu (þá er sko mozzarella uppskeran ferskust).

sunnudagur, maí 06, 2007

Maí

Í apríl lærði ég á tímastjórnunarnámskeiði að það væri gott að setja sér skrifleg markmið, skilgreina stóru steinana í lífinu, já og að tíminn væri eins og lækur. Best að prufa þetta með skriflegu markmiðin.

Í maí ætla ég að:

1. Kaupa einn glansandi augnskugga
2. Fara í klippingu
3. Lesa bók sem gerist í Færeyjum
4. Smakka síld

Best að fara aðeins gegnum þessi markmið og pæla í hversu raunhæf og tímafrek þau eru:

1. Það er ekki mjög skynsamlegt að kaupa augnskugga í maí, sérstaklega þar sem augnskugginn sem mig langar í er dáldið dökkur og meira "vetrar" augnskuggi. Svo er ég líka ekki að fara neitt til útlanda í maí þ.a. líklega væri sniðugra að bíða með augnskuggakaupin þar til ég fer í gegnum fríhöfnina eða á stað sem selur ódýrari augnskugga. (0 klst)
2. Þetta veldur dáldið á því hvort klippikonan mín verði við og hvort ég verði búin að ákveða hvernig klippingu ég vil. Jú alveg líklegt að það fari saman. (2 klst)
3. Þar sem ég er þegar hálfnuð með bók sem gerist í Færeyjum þá er ekki svo langsótt að klára hana. Þ.e.a.s. ef ég verð í stuði. (5 klst)
4. Æi, er eila komin með bakþanka síðan ég skrifaði það sem markmið. Fresta því fram í júní. (0 klst)

Fjúff, það lítur út fyrir að maí verði alveg pakkaður!

Yfir og út