laugardagur, september 30, 2006

Gott efni í blogg (1. uppkast)

Ég gerði tilraun til að horfa á stjörnurnar á fimmtudagskvöldið líkt og svo margir aðrir. Upphaflega planið var að vera í miðbænum, en mér var svo kalt að ég ákvað snarlega að bruna heim. Þá var korter í myrkvun. Ég renndi bílnum í stæðið mitt í þann mund sem slökkt var á ljósastaurum og fór inn.

Fljótlega ákvað ég að fara út í garð að reyna að skoða stjörnur. Þar sem ég bý á commercial stað var mikið um að vera fyrir utan; straumur bíla í Perluna, fullt af fólki að labba upp í Perlu, þyrla að taka myndir af öllum bílunum og fólkinu sem var á leiðinni í Perluna. Þetta var bara eins og menningarnótt all over again þannig að ég ákvað að skella mér upp í Perlu og vera með í látunum.

Ég skildi reyndar ekki í öllum bílunum (ok bílstjórunum) sem voru á leiðinn FRÁ Perlunni þegar bara 10 mínútur voru liðnar af hálftíma myrkvuninni. En mér datt helst í hug að fólk hefði búist við fljúgandi furðuhlut og orðið fyrir vonbrigðum eða haft virkilega litla þolinmæði. Uppi við Perluna var verið að skjóta upp flugeldum (til að fæla stjörnurnar í burtu?). Ég fór upp á útsýnispallinn í Perlunni og reyndi eitthvað að vera með í að horfa á skýjaðan himinn innan um unglinga sem voru að drekka bjór... og fullorðið fólk að drekka bjór.

Síðan hitti ég Þjóðverja. Það er aldrei leiðinlegt að hitta Þjóðverja. Frá því að við Svanhvít töpuðum klukkutíma á mexíkóska djamminu á Spáni hefur mér samt fundist þýska vera frekar súrt (absúrd) tungumál.

Þegar búið var að kveikja ljósin hitti ég herra D og "konuna hans" ... loksins, ég sem var farin að halda að hún væri ekki til.

laugardagur, september 23, 2006

Þá sjaldan maður lyftir sér upp

22.09.06 21.50
Svanhvít
Gef mér
heimilisfangid
aftur, engiteigur er
ekki rétt hjá
grensás!

Þetta sms fékk ég frá Svanhvíti í gærkvöldi eins og sést. Svo krambúleruð var ég að ég gat ekki gefið upp réttar upplýsingar um staðsetningu.

Vonandi hefur verið gott partý í Engjateignum.

föstudagur, september 22, 2006

Um daginn þá sagði strákur við mig:

Ég er 77% ást!

Hann meinti það samt ekki til mín. Gott hjá honum að hafa eigin hlutföll svona á hreinu.

miðvikudagur, september 20, 2006

Klikkaðar myndir úr jeppaferð sem ég fór í með vinnunni eru komnar ferskar og frískar á myndasíðuna. ;)

mánudagur, september 18, 2006

Þura við Langasjó


Þura við Langasjó
Originally uploaded by Þura.
Sýnishorn úr fjallaferð helgarinnar, fleiri myndir eru á leiðinni.

þriðjudagur, september 12, 2006

Þegar Þura missti kúlið
(ef það var þá eitthvað fyrir)

Gerið ykkur í hugarlund ósköp venjulegan dag. Ég sit við kvöldmatarborðið, þreytt eftir langan dag, er að byrja að stappa soðinn þorsk, kartöflur og smjör. Ég er í flíspeysu frá Cintamani, hvítu háskóla flíspeysunni minni. Allt er með kyrrum kjörum. Eðlilegt.

Mér á vinstri hönd situr faðir minn. Allt í einu bendir hann á merkið sem er á öxlinni á flíspeysunni, Cintamani merkið, og spyr hvaða merki þetta sé. Ég svara því til að þetta sé peysutegundin. Hann jánkar því en heldur samt áfram að benda á merkið. Síðan spyr hann “en hvað er þetta Cintamani?” Ég á stundum auðvelt með að láta hann fara í taugarnar á mér og þessi spurning fór í mínar fínustu. Ég hreyti því út úr mér að þetta sé peysutegundin. Það er fokið í mig, hvern fjandann er hann að spurja sömu spurningarinnar tvisvar. Ef ég væri teiknimyndafígúra þá væri farin að rjúka gufa úr eyrunum á mér á þessum tímapunkti. “Já” segir hann ákveðið “en segðu mér, hvað þýðir Cintamani?”

Ég er orðin öskuill, grýti frá mér gaflinum, sem var farin að merja soðninguna allharkalega, ríf í hálsmálið á skyrtunni hans og segi frekjulega við hann “SEG ÞÚ MÉR HVAÐ...” Lengra kemst ég ekki með þessa setningu. Ég veltist um úr hljóðum hlátri, kem ekki upp orði. Það eina sem gefur til kynna að ég sé að hlæja er stöku tíst á innsogi og tárin sem streyma úr augunum. Pabbi hlær létt og segir við mömmu “hún féll á sínu eigin bragði” Þegar mesta hláturskastið er yfirstaðið klára ég setninguna flissandi.

“Segðu mér hvað, haha ha, segðu mér hvað... COTTON RICH þýðir! Ba ha ha!!”

Undir lokin er öll fjölskyldan farin að hlæja. Þá sjaldan (oft) sem maður skýtur sig í fótinn. Þegar við hættum að hlæja kemur smá þögn, þá heyrist frá mömmu “Vitiðið hvernig maður biður um mikinn lauk í Bretlandi?!” Ég og pabbi störum á hana eins og hálfvitar, við náum ekki samhenginu. Hún er snögg að svara eigin spurningu, og segir hátt og snjallt með sterkum breskum hreim:

“Heavy on the onions please!”

Það fylgir sögunni að soðningin fór köld og ósnert í ruslið þetta kvöld. En það fylgir ekki sögunni hvað cintamani þýðir.

fimmtudagur, september 07, 2006

Næst: Hvernig það er að fara með köngulær í bæinn...

sunnudagur, september 03, 2006

Getur ein vitleysan stöðugt rekið aðra?

Já.

Setjum okkur sem snöggvast í spor eðlu. Vinkonan er ca. 15 cm löng (með hala) og búin að liggja dáin í flösku af áfengi í langan tíma.

Fyrri hluta kvölds er búið að leika mikið með eðluna og flöskufélaga hennar, hina eðluna. Þegar komið er vel fram yfir miðnætti skellir eðlan sér út á lífið, ásamt fylgdarliði. Það mætti halda að hún væri celeb. Inn á hinum ýmsu “svalari” skemmtistöðum borgarinnar skemmti eðlan sér dável. Milli þess sem hún dansaði með krúinu sínu þá dýfði hún sér ofan í hin og þessi bjórglös, hoppaði niður á gólf og lét fara vel um sig á borðum og stólum. Þegar klukkan var gengin hálfa leiðina í 5 þá datt hausinn af eðlunni á miðjum Laugarveginum. Hún lét það ekki stöðva sig, skemmti sér jafnvel betur í tveimur pörtum... hún hafði svo mikilli gleði að dreifa.

Ekkert varir að eilífu, ævikvöld eðlunnar endaði í sitthvorum öskubakkanum á sitthvorri hæð sama sóðalega bars... barþjónum til lítillar gleði. Ætli það sé verri eða betri endir heldur en að enda á því að blasta Simply the best með Tinu Turner í limma með 19 ára strákum? Því miður lifði eðlan ekki til að gera þann samanburð.

Þessi líkist eðlunni dáldið, tekin þaðan.